Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Einhvern tíma viðraði ég hugmynd um að stokka upp nýtingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

Alþingishúsið yrði safn, enda staðsetningin fullkomin og húsið sjálft sögufrægt.

Alþingi myndi þá flytjast í gamla Landspítalann við Hringbraut. Byggingin er töluvert stærri en núverandi þinghús og gefur möguleika á að hafa alla starfsemina undir einu þaki. Húsið er glæsilegt og myndi hæfa æðstu stofnun þjóðarinnar.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Landsspítalinn myndi fara á Vífilsstaði, þar sem gamla byggingin nýttist, en nýtt hátæknisjúkrahús yrði byggt við. Vífilsstaðir eru mun meira miðsvæðis og aðkoma auðveldari en á Hringbraut. Svo eru þeir 40km frá Keflavík. Það tæki sjúkrabíl 15-20 múnútur að keyra frá flugvellinum að sjúkrahúsinu. Þar með væri hægt að leggja niður Reykjavíkurflugvöll án þess að stefna lífi sjúklinga í hættu.

Staðsetning Landsspítalans nálægt flugvelli er kannski ekki aðal atriðið. Er allt þetta sjúkraflug nauðsynlegt? Af hverju þarf að fljúga með sjúkling frá Kópaskeri til Reykjavíkur? Af hverju eru ekki öflug fjórðungssjúkrahús á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi? Er það svona dýrt? Höfum við ekki efni á því? Er það betra að svelta heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni, halda flugvellinum, spítalanum og gera ekki neitt?

Hvað veldur ráðaleysinu? Kostnaður, íhaldssemi eða viljaleysi?

Í vikunni var talað um að það myndi kosta 6-7 milljarða á ári að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst. Það þýðir að fólk sem þarf á læknisaðstoð, sjúkrahúsvist eða krabbameinsmeðferð að halda, fengi aðstoð án þess að fjárhag viðkomandi væri stefnt í voða. Þetta er há upphæð, en ekki óviðráðanleg. Hagnaður Borgunar, sem var einkavædd í vægast sagt hæpnu ferli var svipaður. Þetta eina fyrirtæki hefði getað greitt fyrir heilbrigðisþjónustu allra landsmanna.

Hugmyndin er að einkavæða fleiri ríkisfyrirtæki á næstu vikum og mánuðum. Það hefur forgang, ekki heilsa þjóðarinnar.

Lokaorð:
Ég minntist á að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Það er viðbúið að fólk hengi sig á það mál og fari að rökræða hvort það sé góð hugmynd. Flugvöllurinn er þó ekki aðal atriðið í greininni. Heildarmyndin er aðal atriðið, að við skoðum allt saman, tengjum punktana. Við getum byggt upp fyrirmyndarsamfélag á Íslandi. Við gerum það með því að skoða stóru myndina, ekki með því að einblína á einstök mál án þess að skilja samhengið.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube