Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200
heilbrigðiskerfi – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: heilbrigðiskerfi

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Nýlega birtist grein eftir mig í Kvennablaðinu. Þar talaði ég á jákvæðum nótum um einkavædd sjúkrahús. Greinin var skrifuð áður en fréttir bárust af fyrirhuguðu einkareknu sjúkrahúsi í Mosfellsbæ.

Ég er, í sjálfu sér, ekki á móti því. En við þurfum að fara varlega. Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, skrifaði pínlega grein um einkavæðingarferlið og ég er skíthræddur um að hún hafi rétt fyrir sér. Að þetta sé eitt skrefið í ferli sem löngu er hafið. Að svelta heilbrigðiskerfið, fæla starfsfólkið frá, jafnvel til útlanda, leyfa húsnæði og tækjum að úreldast og skemmast án þess að fjármagn sé til að endurnýja eða viðhalda.

Að þetta sé hluti af ferli sem mun ræna stóran hluta þjóðarinnar réttinum til lækningar.

Heilbrigðisráðherra segist koma af fjöllum. Hann heyrði fyrst af áformunum í fréttum. Samt náðist mynd af honum með fólkinu sem stendur að baki einkaspítalans, fyrr á árinu. Auðvitað er þetta allt misskilningur. Pedro, maðurinn á bak við einkaspítalann minntist ekkert á þetta 30.000 fermetra sjúkrahús, tveimur mánuðum áður en samningur við Mosfellsbæ var undirritaður. Hann var að undirbúa verkefni upp á einhverja milljarða og minntist ekkert á það við heilbrigðisráherrann. Ég vil ekki væna ráðherrann um lygar, en trúverðugur er hann ekki.

Borgarspítalinn
Borgarspítalinn

Eins og áður sagði, finnst mér ekkert tiltökumál þótt einkaspítali verði byggður, á meðan hann er einkarekinn. Á meðan ekki ein einasta króna kemur úr opinberum sjóðum. Þessi spítali getur sennilega sinnt sínu hlutverki vel og skilað arði í vasa hluthafanna, og það er í sjálfu sér ekkert slæmt. En einkarekið fyrirtæki á að vera einkarekið, ekki kostað með skattfé.

Hitt er annað. Við verðum að snúa við þeirri þróun að fjársvelta okkar sameiginlega heilbrigðiskerfi. Við megum ekki leyfa sjúkrahúsum að verða myglusveppi að bráð, við megum ekki leyfa tækjabúnaði að úreldast og bila, við megum ekki drepa niður heilsugæsluna á landsbyggðinni, við megum ekki láta íslenska hjúkrunarfræðinga og lækna dragast aftur úr fólki í sambærilegum stöðum í nágrannalöndunum. Núverandi stefna er ávísun á atgervisflótta. Það er hreinlega verið að hrekja fólk úr landi.

Það hljómar ekki þannig. Fjármálaráðherra lofar peningum í heilbrigðiskerfið, en hann hefur haft þrjú ár til að gera eitthvað. Hvað sem er. En það hefur ekkert gerst. Nú á það þó að fara að gerast, enda stutt í kosningar.

Við verðum að fara að hætta að falla fyrir innantómum kosningaloforðum. Þegar það er fullreynt að viðkomandi hafi nokkurn áhuga á velferð þjóðarinnar, ber henni að kjósa hann ekki.

Hnignun heilbrigðiskerfisins okkar virðist vera hönnuð atburðarás. Hana verðum við að stoppa. Það geta engin orð lýst reiðinni, sorginni og vonbrigðunum við að sjá ástvin liggjandi inni í sturtuklefa á síðustu metrunum því það er ekkert pláss, myglusveppurinn er alls staðar og allir eru í verkfalli því engum eru borguð mannsæmandi laun. Það er ógeðslegt að sjá manneskju sem allt sitt líf hefur unnið sína vinnu, borgað sína skatta og aldrei þegið hjálp frá nokkrum manni, alltaf verið sjálfstæð, veslast upp inni í sturtuklefa.

Ég er ekki að gagnrýna starfsfólkið. Það gerði allt sem það gat, en það hafði ekkert til að vinna með, því það var búið að skera allt niður. Það er viðbjóðurinn. Stjórnmálamenn sem virðast engan áhuga hafa á fólkinu í landinu.

Á meðan við lækkum gjöldin af auðlindunum, leyfum kvótagreifunum að leggja bæjarfélög í rúst þegar þeir fara, hagnast um milljarða og stinga þeim undan til Tortóla, eða hvar sem peningahimnarnir eru. Ég um mig frá mér til mín er þeirra mantra. Sjálfselskan að drepa þá, eða réttara sagt, drepa fólkið sem fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það hefur borgað fyrir.

Þokkaleg heilsa er mannréttindi. Að drepast úr læknanlegum sjúkdómum af því peningunum er varið í eitthvað annað, er mannréttindabrot. Að liggja, dauðvona, í rúmi inni í sturtuherbergi, eftir að hafa greitt skatta í rúmlega háfa öld er mannréttindabrot, móðgun og fyrirlitning stjórnvalda í okkar garð.

Leyfum þeim að byggja einkasjúkrahús sem sinnir útlendingum, sérhæfir sig í aðgerðum sem heilbrigðiskerfið okkar býður ekki upp á (til dæmis lasermeðhöndlun augna, fegurðaraðgerðum og fleira), sjúkrahús sem býður upp á meiri íburð en nauðsynlegur er, einkastofur og annað. Það er allt í lagi. En sjáum til þess að skattpeningarnir okkar fari í að endurbyggja heilbrigðiskerfið okkar, heilbrigðiskerfið sem sér um okkur þegar við veikjumst. Tryggjum að allir þeir peningar sem eyrnamerktir eru heilbrigðiskerfinu fari þangað, ekki í einkaverkefni.

Ef það er stefna Sjálfstæðisflokksins að hreinlega drepa heilbrigðiskerfið, svo hægt verði að einkavæða hræið, er hann ekki atkvæða okkar virði. Við megum ekki gera okkur það að kjósa þannig tortímingu yfir okkur. Megum ekki gera gamla fólkinu það, megum ekki gera framtíðarkynslóðum það.

Ef við gátum haldið úti þokkalegu heilbrigðiskerfi fyrir 30 árum, þegar töluvert minni peningar voru til staðar, getum við gert það núna og í framtíðinni.

Viljinn er allt sem þarf.

Fyrst birt í Kvennablaðinu.

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Mikið hefur verið rætt um fjársvelti, einkavæðingu og bónusgreiðslur í heilbrigðiskerfinu. Það stingur fólk að þurfa að greiða þúsundir króna í hvert sinn sem farið er til læknis, og tugþúsundir ef eitthvað meira en heimsókn til heimilislæknis er þörf.

Þetta stangast á við öll eðlileg mannréttindi. Það má aldrei verða að þeir sem minna hafa milli handanna, hafi ekki efni á að leita lækningar. Stéttarskipting í heilbrigðismálum getur ekki verið stefna sem við höfum áhuga á. Þegar eigendur einkarekinna heilsugæslustöðva lifa á ríkisstyrkjum og greiða sjálfum sér 20% ríkisframlagsins í arð, er eitthvað að fara úrskeiðis.

Heilbrigðiskerfið
Heilbrigðiskerfið

Allir skulu eiga skilyrðislausan rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Til að það sé mögulegt, þarf heilsugæslan á öllu landinu að vera í lagi. Það má vel gera ráð fyrir að meðhöndlun á sjaldgæfum sjúkdómum verði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, en öll almenn heilsugæsla á að vera þar sem fólkið er. Öflug sjúkrahús eiga að vera í öllum fjórðungum. Þar yrðu bráðadeildir, legudeildir og öll almenn þjónusta sem sjúkrahús eiga að veita. Einnig geta sjúkrahús aukið nýtingu með því að sérhæfa sig að einhverju leyti. Dæmi um sérþekkingu er bakdeildin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi. Þetta geta fleiri sjúkrahús á landsbyggðinni (og höfuðborgarsvæðinu) gert. Ríkið þarf að hvertja til nýsköpunar og það er ekki gert með niðurskurði.

Heilbrigðiskerfið þarf líka að vera gjaldfrjálst til að það sé fyrir alla. Öryrkjar, atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fleiri hafa ekki efni á að fara til læknis ef það kostar 10.000 kall í hvert skipti. Að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst kostar 6,5 milljarða, það er klink í stóra samhenginu og sparar pening til langs tíma þar sem fólk trassar ekki að leita sér lækningar þar til það er orðið of seint og lækningin orðin kostnaðarsamari en nauðsyn er.

En hvernig er best að þróa ríkisrekið versus einkavætt? Skerpa línurnar, svo það sé á hreinu hvað er hvað og hvert peningarnir eiga að fara? Hvað skal vera einkarekið og hvað ríkisrekið? Þetta er flókin spurning og henni verður ekki svarað í stuttri grein, þó ég ætli að reyna að krafsa í yfirborðið.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Heimilislæknar gætu sett upp einkastofur og unnið sem verktakar fyrir ríkið. Þeir fengju fasta upphæð fyrir hvern heimsóknartíma. Sjúklingurinn borgar ekkert, en reikningurinn fer til ríkisins. Það má gera ráð fyrir að nokkrir heimilislæknar setji upp heilsugæslustöð, þar sem þeir vinna saman og skipta sjúklingum á milli sín og hjálpast að þegar einhverjir þeirra fara í frí eða eru fjarverandi af öðrum ástæðum. Það væri þeim þó í sjálfs vald sett, enda verktakar sem geta hagað sinni vinnu eins og þeim sýnist. Heimilislæknar sem vilja frekar vera í fastri vinnu, gætu unnið á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og verið á launum hjá hinu opinbera. Það skiptir því ekki höfuðmáli hvort viðkomandi læknir er á launaskrá hjá ríkinu eða vinnur sem verktaki, á meðan kostnaður á sjúkling væri sambærilegur.

Allir sjúklingar færu fyrst til heimilislæknis, sem svo vísaði þeim áfram ef þörf er á. Þetta sparar gríðarlegan kostnað þar sem fólk með minniháttar kvilla væri ekki að fara til sérfræðinga að ástæðulausu.

Sjúkrahús yrðu eign ríkisins, fólksins. Allir sem þar vinna, yrðu ríkisstarfsmenn og enginn sérstakur arður yrði greiddur til launþega. Undantekningar gætu verið þegar um rannsóknarstörf innan sjúkrahúsanna væri að ræða.

Það er ekki þar með sagt að læknar, aðrir en heimilislæknar, gætu ekki rekið einkastofur. Ég heyrði af hollenskum manni með MS sjúkdóm. Lyfin kosta um €35.000 (4,7 milljónir) á ári, að hans sögn. Þau lækna sjúklinginn ekki, þau hægja á hrörnun vöðvanna. Hann notaði samfélagsmiðla til að safna €100.000 (13,5 milljónum) sem þurfti til að greiða fyrir byltingarkennda meðhöndlun í Svíþjóð. Aðferðin er byggð á hvítblæðismeðferð, þar sem sjúklingurinn gengst undir þriggja daga chemo lyfjameðferð og er á lyfjakúr í um sex mánuði eftir það. Það er slökkt á ónæmiskerfinu, það endurræst og byggt upp aftur. Það man því ekki að það var með þennan hrörnunarsjókdóm og sjúklingurinn er læknaður. Þótt meðferðin hafi kostað tæpar 14 milljónir króna, mun hún borga sig upp á rúmum þremur árum þar sem áframhaldandi lyfjagjöf er óþörf. Þar fyrir utan er ekki hægt að meta heilsu og vellíðan sjúklingsins til fjár.

Þetta er dæmi um sérhæfingu. Um lækningu sem getur laðað að heilsufarstúrisma. Hann fór til Svíþjóðar, þar sem þetta hefur verið stundað í 10-15 ár, því Holland býður ekki upp á þessa aðferð. Hann þurfti að greiða kostnaðinn, þótt hollenska tryggingakerfið muni spara milljónir á ári. Þótt við setjum næstum allan skattpeninginn sem eyrnamerktur er heilbrigðiskerfinu í opinbera kerfið, er ekki þar með sagt að einkavæddar klíníkur og stofur myndu gefast upp.

Tækifærin fyrir einkareknar stofur eru til staðar. Læknar sem hafa áhuga á að rannsaka nýjar lækningaraðferðir og bjóða upp á sérhæfða meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum, geta selt sig á alþjóðlegum mörkuðum og fengið efnað fólk til landsins í meðferð. Svo geta einkareknar stofur boðið upp á eitthvað meira en hin almennu sjúkrahús. Einkastofur, aukin þægindi, staðsetningu í náttúrunni þar sem allir hafa útsýni til fjalla eða út á hafið, betri mat, meiri íburð, fleira starfsfólk og betri þjónustu. Allskonar þægindi sem eru ekki beint nauðsyn, en þeir efnameiri gætu viljað borga fyrir. Þessar einkareknu stofur fengju enga ríkisstyrki, enda um lúxusþjónustu að ræða.

Með því að bjóða upp á sterkt og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi og styðja við rannsóknarstörf innan háskólanna og sjúkrahúsanna, getum við veitt Íslendingum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á, byggt upp stétt lækna á heimsmælikvarða og leyft opinberu og einkareknu heilbrigðiskerfunum að lifa í sátt og vinna saman.

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Upphaflega birt í Kvennablaðinu.

Það virkar öfugsnúið að eftir því sem fleiri aflands- og spillingarmál koma upp, bæta þeir flokkar sem helst eru vafnir í þann vef við sig. Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn, með tvo aflandsráðherra og fleira gott fólk innanborðs, aukið við fylgi sitt í skoðanakönnunum? Ekki er þriðjungur þjóðarinnar í samkrullinu, farandi fram hjá gjaldeyrishöftunum og felandi peninga á paradísareyjum?

Ég trúi ekki að þriðjungur þjóðarinnar sé að lýsa yfir stuðningi við spillinguna og einginhagsmunapotið. Það hlýtur að vera eitthvað annað í gangi.

Hér er mín kenning. Og hún er bara kenning og kann að vera röng.

Viðja með fána - VGA 2013
Viðja með fána – VGA 2013

Um það bil þriðjungur þjóðarinnar er hræddur við breytingar. Þessi hluti er hræddur við að umturnun á leikreglum lýðveldisins muni skapa glundroða og kippa fótunum undan stöðugleikanum sem við erum víst að njóta. Það er svo sem ekkert við því að segja. Óttinn við breytingar er skiljanlegur. Eins og þeir segja í útlandinu, better the devil you know. Það skiptir þá engu þótt heilbrigðiskerfið sé að grotna niður, að komugjöld hækki margfalt, að menntakerfið sé að molna og menntafólk geti ekki lifað af lánunum. Þessum verðtryggðu lánum sem seint tekst að borga upp. Það skiptir ekki máli að við lifum við gjaldeyrishöft, þau okkar sem eiga enga peninga. Ekki heldur að vextir af húsnæðislánum hér séu fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Óttinn við breytingar er svo sterkur að fólk lætur bjóða sér næstum hvað sem er. Allt fyrir stöðugleikann og óbreytta ástandið.

Lengi vel var um tvo turna að velja. Sjálfstæðisflokkinn og Pírata. Margir eru hræddir við Pírata, því þeir eru birtingarmynd breytinganna sem fólk er hrætt við. Það skiptir ekki máli þótt breytingarnar séu ný stjórnarskrá sem festir í sessi lýðræðisumbætur, eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og betri vinnureglur fyrir Alþingi. Fólk starir á þá staðreynd að ný stjórnarskrá sé Ísland 2.0 og það telur að Ísland 1.1 væri kannski ekki eins hættulegt.

Annað vandamál Pírata er að margir misskilja þá. Flokkurinn virkar róttækari en hann er. Eitt dæmi er tillaga um að losa um öll höft á leiguakstri. Allir sem eiga bíl gætu notað hann til að keyra aðra gegn gjaldi. 600 leigubílstjórar brjáluðust og hatur á flokknum varð landlægt innan stéttarinnar. Það kom svo á daginn að tillagan var hugarfóstur eins manns, hún var ekki nógu vel unnin og rökstudd og var hafnað af flokksmeðlimum. Auðvitað hefði verið einfaldast fyrir leigubílstjóra að hafa bein áhrif á ferlið, en þeir gerðu það fæstir. Hafa sennilega talið það vera erfitt, að þetta væri mál sem þeir gætu ekki haft áhrif á. Við erum nefninlega vön því að hlutirnig gerist bara án þess að við séum spurð álits. Málið er þó að allar stefnur og tillögur að stefnum innan Pírata eru opnar og hægt er að ræða þær fram og aftur, þar til kosið er um þær.

Að lokum eru innanflokkserjur ekki að hjálpa til. Þær eru að mestu gengnar yfir, en skaðinn er skeður. Þegar áhrifafólk innan flokksins notar fjölmiðla til að rífast um merkingu orðalags, nýta þeir fjölmiðlar sem hliðhollir eru óbreyttu ástandi tækifærið og magna þessi mál. Það sem byrjar sem orðaskipti á Pírataspjallinu – sem er löngu hætt að vera vettvangur pírata – endar oft sem flennifyrirsagnir í engu samhengi við það sem sagt var.

Turnarnir tveir eru því valtir. Annan geta margir ekki hugsað sér að kjósa því hann er útataður í spillingu. Hinn eru margir hræddir við. Þess vegna hefur þriðji turninn verið að vaxa.

VG hafa sloppið við aflandsmálið. Formaðurinn er sjarmerandi. Þeim sem ekki hugnast fyrri turnarnir fara til VG. Þeir eru lausir við aflandsstimpilinn, en eru samt gamaldags stjórnmálaflokkur sem fólk skilur. Það er því skiljanlegt að margir fari þangað. Aðrir flokkar virðast vera mikið til stefnulausir og fylgislausir. Það er ekkert annað í stöðunni en þessir þrír turnar.

Hver leiðir næstu ríkisstjórn fer eftir tvennu. Muni unga fólkið mæta á kjörstað, er líklegt að Píratar verði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það yrði því rökrétt að Píratar mynduðu stjórn með VG. Mæti unga fólkið ekki, er líklegra að Sjálfstæðisflokkurinn verði sterkari og þá er spurningin hvort VG vilji fara í stjórnarsamstarf með þeim.

Það er því unga fólkið og VG sem ákveða hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út.

Krakkar, þið eruð klisja

Krakkar, þið eruð klisja

Aðdragandi kosninga er eins og vorið. Loforð um betri tíð með blóm í haga. Sterkara heilbrigðiskerfi sem fólk hefur efni á, lækkandi skatta með hækkandi sól, blóm í hnappagötum eins og fíflar í túni, menn í lopapeysum kyssandi börn fyrir framan myndavélar.

Og unga fólkið. Þessi furðudýr sem hugsa öðruvísi en miðaldra stjórnmálamennirnir, þessar kynjaskepnur sem þarf að skilja svo hægt sé að hala þær inn eins og fiska á öngli. Miðaldra pólitíkusinn stúderar bráðina svo hann geti veitt hana.

Barnið við styttuna (VGA 2013)
Barnið við styttuna (VGA 2013)

Það er bara eitt sem gengur ekki upp í þessu dæmi. Unga fólkið er ekki önnur dýrategund sem þarf að skilja. Unga fólkið er fólk með nokkurn vegin sömu þarfir og miðaldra fólk. Það er ekkert erfitt að skilja unga fólkið, nema maður hafi misst tengslin við eigin fortíð og sé búinn að gleyma hvernig var að byrja sjálfstætt líf, eða ef maður hefur aldrei verið þar og aldrei þurft að hafa fyrir neinu.

En allavega…

Krakkar, þið eruð klisja. Eða allavega hluti af stærri klisju.

Fyrir kosningar er talað um ykkur. Talað um að hlusta á ykkur, því þið eruð víst svo frábrugðin okkur gamla fólkinu að við getum ekki sett okkur í ykkar spor. Ykkur er lofað hinu og þessu. Betra LÍNi, fleiri leikskólum, betri framtíð með blóm í haga, betra heilbrigðiskerfi… og allt það. Þið þekkið þetta. Miðaldra mennirnir ætla að gefa ykkur dót til að leika með. Þeir ráða þessu. Þið munið bara að kjósa þá. Eða kjósa ekki, því eldra fólkið sér um þetta með því að kjósa sama gamla aftur og aftur.

Önnur klisja er að þið virðist gleypa við þessu. Virðist allavega ekkert vera að pæla neitt sérstaklega í því. Klisjan er að ungt fólk taki ekki þátt í stjórnmálum. Mörg ykkar láta hlutina bara gerast, annað hvort vegna áhugaleysis eða uppgjafar.

Uppgjöfin er skiljanleg. Hér varð hrun. Mamma og pabbi misstu kannski húsið, frændi framdi sjálfsmorð, afi dó eftir að hafa legið á ganginum á spítalanum vegna peningaskorts og myglusvepps og amma er orðinn farandelliheimilismatur því það er alltaf verið að flytja hana. Hún er ennþá sár yfir að hafa ekki fengið að búa með afa síðustu árin, því hann var veikur en hún ekki. Eina manneskjan sem virðist lifa þokkalegu lífi er frænka sem flutti til útlanda. Hún segir allavega að hún hafi það ágætt. Það er örugglega þannig, því allt er betra en þetta sker miðaldra (og þaðan af eldri) karla. Kannski maður flytji bara út.

Áhugaleysið er samt eiginlega stærra vandamál. Stjórnmál eru leiðinleg, miðaldra karlarnir eru leiðinlegir og þetta virðist ekki vera neitt nema tuð og rifrildi fólks sem á nóg af peningum. Alvörugefnir talandi hausar í sjónvarpinu þykjast vita allt og kunna allt. Boring. Stjórnmál eru samt ekki alveg þannig. Stjórnmál snúast um að hafa áhrif á samfélagið, stýra því í átt til framtíðar. Fólkið sem tekur þátt í stjórnmálum og kýs í kosningum hefur áhrif á framtíðina. Fólk sem nennir ekki að spá í þetta hefur engin áhrif.

Stjórnmál snúast ekki bara um leiðinleg mál eins og fjárlög sem enginn skilur hvort eð er. Þau snúast um stefnu samfélagsins. Stjórnmál nútímans hafa áhrif á framtíðina. Og þá er spurningin. Hver á að ákveða hvernig framtíðin lítur út? Miðaldra karlar, karlar sem ættu að vera að skríða á eftirlaun eða fólkið sem þarf að lifa í framtíðinni sem er sköpuð í dag?

Munum að það vantaði sex atkvæði á að Píratar kæmu inn manni í Hafnarfirði um árið. Sex atkvæði. Ég er ekkert að tala um Pírata, en þetta sýnir að örfá atkvæði geta haft áhrif.

Við getum haldið áfram á sömu braut. Haldið áfram að pæla ekkert í miðaldra körlunum sem lofa „unga fólkinu“ einhvers. Við getum haldið áfram að styðja (beint með atkvæðum eða óbeint með því að kjósa ekki) við gamla bitlingasamfélagið þar sem okkur er lofað hinu og þessu en það svo tekið af okkur strax eftir kosningar þegar stjórnarsamstarf er í húfi. Við getum leyft þeim að hola heilbrigðis- og menntakerfin að innan og lækka framfærsluviðmið LÍN eftir hentugleika.

Við getum líka tekið völdin sjálf. Unnið í hugmyndum um beint lýðræði, fundið lausnir á framfærslukosnaði í námi, reynt að koma vaxtaprósentunni á húsnæðislánum niður í það sem þekkist í löndunum í kring um okkur (þau eru nú 4x hærri á Íslandi en í ESB).

Unga fólkið þarf að vakna. Taka þátt í að skapa eigin framtíð, koma með hugmyndir, kjósa flokka sem virkilega virðast ætla að breyta einhverju. Taka þátt.

Það er nefninlega þannig að breytingar eru ekki endilega slæmar. Við þurfum ekki að vera hrædd. Eftir langan vinnudag er gott að breyta til og fara heim. Eftir 72 ár af því sama, er kannski kominn tími til að breyta til og gera íslenskt samfélag réttlátara og jákvæðara.

Unga fólkið getur breytt samfélaginu. Miðaldra karlarnir eru fastir í gamla farinu. Þeir eru ekki að fara að breyta neinu.

Krakkar, takið til hendinni. Takið þátt, kjósið. Skiptir ekki máli hvað, á meðan þið kjósið.

Ekki gera ekki neitt. Ekki vera áhugalaus um framtíðina. Hún er ykkar, ekki þeirra. Takið það sem ykkur ber. Hafið áhrif. Takið þátt.

Ekki vera klisja.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Einhvern tíma viðraði ég hugmynd um að stokka upp nýtingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

Alþingishúsið yrði safn, enda staðsetningin fullkomin og húsið sjálft sögufrægt.

Alþingi myndi þá flytjast í gamla Landspítalann við Hringbraut. Byggingin er töluvert stærri en núverandi þinghús og gefur möguleika á að hafa alla starfsemina undir einu þaki. Húsið er glæsilegt og myndi hæfa æðstu stofnun þjóðarinnar.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Landsspítalinn myndi fara á Vífilsstaði, þar sem gamla byggingin nýttist, en nýtt hátæknisjúkrahús yrði byggt við. Vífilsstaðir eru mun meira miðsvæðis og aðkoma auðveldari en á Hringbraut. Svo eru þeir 40km frá Keflavík. Það tæki sjúkrabíl 15-20 múnútur að keyra frá flugvellinum að sjúkrahúsinu. Þar með væri hægt að leggja niður Reykjavíkurflugvöll án þess að stefna lífi sjúklinga í hættu.

Staðsetning Landsspítalans nálægt flugvelli er kannski ekki aðal atriðið. Er allt þetta sjúkraflug nauðsynlegt? Af hverju þarf að fljúga með sjúkling frá Kópaskeri til Reykjavíkur? Af hverju eru ekki öflug fjórðungssjúkrahús á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi? Er það svona dýrt? Höfum við ekki efni á því? Er það betra að svelta heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni, halda flugvellinum, spítalanum og gera ekki neitt?

Hvað veldur ráðaleysinu? Kostnaður, íhaldssemi eða viljaleysi?

Í vikunni var talað um að það myndi kosta 6-7 milljarða á ári að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst. Það þýðir að fólk sem þarf á læknisaðstoð, sjúkrahúsvist eða krabbameinsmeðferð að halda, fengi aðstoð án þess að fjárhag viðkomandi væri stefnt í voða. Þetta er há upphæð, en ekki óviðráðanleg. Hagnaður Borgunar, sem var einkavædd í vægast sagt hæpnu ferli var svipaður. Þetta eina fyrirtæki hefði getað greitt fyrir heilbrigðisþjónustu allra landsmanna.

Hugmyndin er að einkavæða fleiri ríkisfyrirtæki á næstu vikum og mánuðum. Það hefur forgang, ekki heilsa þjóðarinnar.

Lokaorð:
Ég minntist á að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Það er viðbúið að fólk hengi sig á það mál og fari að rökræða hvort það sé góð hugmynd. Flugvöllurinn er þó ekki aðal atriðið í greininni. Heildarmyndin er aðal atriðið, að við skoðum allt saman, tengjum punktana. Við getum byggt upp fyrirmyndarsamfélag á Íslandi. Við gerum það með því að skoða stóru myndina, ekki með því að einblína á einstök mál án þess að skilja samhengið.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

Ölgerðin Egill Skallagrímsson, eitt ástsælasta fyrirtæki landsins hefur orðið uppvíst að svindli. Eða ótrúlegu klúðri. Ég get ekki dæmt um það, enda hef ég aldrei unnið fyrir fyrirtækið og veit ekki hvað fer fram þar innandyra.

BBC eða einhver annar erlendur miðill fær nasaþef af málinu og vill vita meira. Hvers vegna þeir höfðu ekki samband við  Matvælastofnun eða Ölgerðina sjálfa, veit ég ekki. Þetta eru slöpp vinnubrögð sem maður hefði búist við af sumum miðlum, en ekki BBC. Kannski voru þeir með símanúmer RÚV eða fréttakonunnar á skrá og ákváðu að afgreiða málið á fimm mínútum. Þeim fannst þetta kannski ekki nógu spennandi til að eyða einhverri orku í málið. Kannski skoluðust staðreyndir til þegar spjallað var við hana, kannski var þessu „road“ orði bætt við eftirá. En það skiptir ekki máli.

saltextract

Ölgerðin hefur orðið uppvís að því að selja iðnaðarsalt til matvælafyrirtækja í 13 ár. Það er ekki eins og þetta hafi verið ein sending sem slapp í gegn af því fólk var ekki að taka eftir því sem stóð á umbúðunum. 13 ár eru langur tími, og þetta hlýtur því að hafa verið ákvörðun sem tekin var vísvitandi. Hvort þetta salt var ætlað á götur eða ekki, er það alveg á hreinu að það var ekki ætlað í matvæli. Það er málið og allt annað er útúrdúr.

Svo spyrja þeir hvort íslendingar séu sáttir við að víðlesinn fjölmiðill segi þá hafa borðað götusalt. Ég spyr á móti, heldur Ölgerðin að íslendingar séu sáttir við að þeir séu látnir éta iðnaðarvörur? Telja þeir virkilega að það bæti ímynd sína að siga lögmönnum á fólk út í bæ sem tjáir sig um málið? Ég held að það besta sem Ölgerðin geti gert sé að hringja í þennan víðlesna fjölmiðil og biðja hann að leiðrétta fréttina, sé hún röng. Svo geta þeir beðið þjóðina afsökunar og boðist til að fjármagna rannsókn á hugsanlegum langtímaáhrifum iðnaðarsalts á mannslíkamann.

Ölgerðin var eitt ástsælasta fyrirtæki landsins. Malt og Appelsín er þjóðardrykkur. Gullið hefur unnið til verðlauna víða um heim, ef marka má umbúðirnar. Ímynd getur horfið á augabragði, eins og við höfum verið harkalega minnt á síðustu misserin.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube