Browsed by
Category: Anarkismi

Stríð og Friður

Stríð og Friður

Fyrstu dagarnir í maí eru sérstakur tími í mannkynssögunni. 1. maí er baráttudagur verkalýðsins, 3. maí 1937 var ráðist á Telefonica bygginguna í Barcelona og má sennilega segja að þá hafi anarkisminn dáið og fasisminn unnið borgarastríðið á Spáni. 4. maí er fórnarlamba stíðsátaka minnst í Hollandi og 5. maí er frelsisdagurinn, en þá gáfust nazistar upp í landinu. 8. maí 1945 gafst Þýskaland upp og friður komst á eftir hrikalegasta stríð sem mannkynið hefur séð. 10. maí 1940 réðist Þýskaland á Holland, Belgíu, Luxembourg og Frakkland, og Bretar hernámu Ísland.

Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.
Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Í gærkvöldi var fórnarlambanna minnst. Fólksins sem var dregið út úr húsum sínum og skotið á götunni. Flutt í útrýmingarbúðir. Fólkið sem tók þátt í andspyrnunni og var tekið af lífi fyrir.

Í Hoofddorp, bæjarfélaginu við Schiphol, tóku einhverjir krakkar sig til og öskruðu á meðan aðrir virtu tveggja mínútu þögnina. Krakkar sem aldrei hafa séð stríð, nema í tölvuleikjum og kvikmyndum. Krakkar sem skilja ekki að stríð er ekki afþreying, flottir effectar á skjá eða bíótjaldi. Krakkar sem vonandi þurfa aldrei að komast að því hvað stríð virkilega er.

Mér er sama um krakkana, en óvirðingin við fólkið sem lagði allt undir og tapaði, er óþolandi.

Strax eftir heimsstyrjöldina byrjaði Kalda Stríðið. Einhvert heimskulegasta tímabil í sögu mannkyns. Auðvitað hafa verið verri tímabil, en Kalda Stríðið var óþarft. Það gekk út á græðgi og sandkassaleiki. Það er eiginlega ótrúlegt að ekki hafi farið á versta veg.

Við höfum ekkert lært. Enn eru stríð um allan heim. Sennilega er það tímaspursmál hvenær við missum tökin á atburðarásinni.

Ég læt myndband fylgja með. Berlín í júlí 1945, tveimur mánuðum eftir að hún var lögð í rúst. Þetta er stríð. Þetta er gjöreyðing. Þetta er ekki leikur, ekki grín, ekki kvikmynd. Þetta er raunveruleikinn ef við pössum okkur ekki.

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Gatan okkar í Halfweg, mitt á milli Amsterdam og Haarlem í Hollandi er týpískt skipulagsslys. Öðru megin eru fallegu húsin, byggð fyrir stríð. Okkar hús var byggt 1939 og hin um svipað leyti. Hinumegin eru skrípi byggð kringum 1985. Þau eru ekki ljót, þannig lagað, en þau passa ekki við gömlu húsin.

Hvað um það, gatan er stutt og tiltölulega róleg. Hér er lítil umferð, ef flugvélarnar eru undanskildar. Eitt það fallegasta við götumyndina eru trén sem blómstra á hverju vori.  En blómin eru ekki óumdeild.

Húsið okkar í HalfwegFyrir nokkrum árum datt bréf inn um lúguna. Bæjarstjórnin hafði látið gera úttekt á trjánum og komið hafði í ljós að þau væru sýkt og þyrftu að fara. Búið var að plana dæmið frá upphafi til enda. Einhvað fyrirtæki hafði verið ráðið til að planta nýjum trjám.

Við könnuðumst ekkert við að trén væru veikluleg og fórum fram á að sjá skýrsluna. Þá kom í ljós að sama fyrirtæki og átti að planta nýju trjánum hafði gert úttektina. Þetta fyrirtæki var tengt einhverjum á bæjarskrifstofunum. Þetta líkaði okkur ekki, og fórum því fram á að hlutlaus aðili gerði úttektina. Því var upphaflega neitað.

Þegar deilumál koma upp, er utanaðkomandi aðili fenginn til að skerast í leikinn. Þetta var dómari frá Amsterdam með engin tengsl í Halfweg. Hann var sammála okkur og fór fram á að ný úttekt yrði gerð. Þegar hún lá fyrir, kom í ljós að 2-3 tré voru sýkt, en restin heilbrigð.

Við settumst niður á bæjarskrifstofunum, ég, konan og  yndislegu,  gömlu dýralæknishjónin sem búa í sömu götu. Dómarinn frá Amsterdam var þarna, bæjarstjórinn okkar og einhver á vegum bæjarins. Við settum fram okkar rök, töluðum um hagsmunaárekstra og heilbrigð tré, götumynd sem yrði fátæklegri með hríslum í stað gamalla trjáa.

Bæjarstjórnin kom svo með sín rök. Man ekki nákvæmlega hver þau voru, en það var greinilegt að dómaranum fannst þau ekki merkileg. Hann virtist pirraður og fannst þetta mál greinilega vera tímasóun. Þegar bæjarfulltrúinn var búinn, spurði dómarinn, er þetta allt sem þú hefur að segja?
– Ha, já.
– Þetta eru rökin?
– Já.
– Þú hefur engu við þetta að bæta? Hver var ástæðan fyrir því að trén áttu að fara?
– Ja, sko, þau blómstra á vorin og það er svo mikill úrgangur, göturnar fyllast af blöðum og þegar rignir verður þetta svo ljótt.
– Ég skil. En hvað með að halda því fram að þau væru sýkt?
– Þau eru það.
– Flest eru heilbrigð.
– En ekki öll. Þau geta smitast.
– Af hverju var úttektin gerð af verktakanum og af hverju var þetta ekki boðið út?

Þá var lítið um svör.

Við og dýralæknishjónin litum á hvort annað. Við vorum búin að vinna. Dómarinn sagði bæjarstjóranum að endilega fjarlægja þessi 2-3 tré og planta svo sömu tegund í staðinn, en láta restina í friði.

Tré í HalfwegTrén standa því enn. Á hverju vori blómstra þau og hressa upp á götumyndina. Heimurinn verður fölbleikur og yndislegur.

Ég lærði tvennt á þessu máli.

1. Opinberir aðilar geta verið alveg jafn vitlausir og við og geta farið með sömu rökleysu og hver annar. Að vera yfirveld þýður ekki sjálfkrafa að þú getir gert hvað sem þér sýnist.

2. Með samstöðu og borgaralegri óhlýðni, getur maður haft áhrif á heiminn og samfélagið.

Gleðilegt sumar og megi framtíðin vera fölbleik og hlý!

Lögregluríki?

Lögregluríki?

Þegar ég heyrði af handtöku Ómars í dag, skrifaði ég eftirfarandi athugasemd á DV.

„Afsakið orðbragðið, en hvaða helvítis lögregluríki er þetta fáránlega drullusamfélag orðið? Hvað í fjandanum hefur Ómar gert til að eiga það skilið að vera handtekinn? Þetta er eins og gamla Sovét og sögurnar sem maður er að heyra frá USA. Sleppið honum strax og biðjist afsökunar, ef þið viljið ekki algerlega missa almenningsálitið í skítinn.“

Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra lét svo hafa þetta efitir sér. „Við búum greinilega ekki í réttaríki heldur lögregluríki.“

Ríkisstjórnin fór illa af stað. Tók ákvarðanir sem féllu í grýttan jarðveg. Virðist hafa lítinn áhuga á að efna stórkostlegu loforðin frá í vor.

Það er staðreynd að íslendingar eru ekki mikil uppreisnarþjóð. Við höfum leyft hinum og þessum að ráðskast með okkur í aldir. Í fljótu bragði, man ég eftir tveimur undartekningum. Vér mótmælum allir Jóns Sigurðssonar og Búsáhaldabyltingin þar sem Hrunstjórnin hrökklaðist frá völdum.

Við höfum sýnt að við getum látið heyra í okkur þegar okkur er misboðið. Ég hef það á tilfinningunni að núverandi stjórnvöld séu að storka örlögunum. Íslenska þjóðin lætur sig hafa allan fjandann, en ef henni er endalaust misboðið, ef heiðarlegt fólk er handtekið með ruddaskap, ef ekkert verður gert til að leiðrétta það sem er að í stjórnsýslunni… þá kann fjandinn að vera laus.

Nýlenda skuldaþræla sem stjórnað er með harðri hendi er ekki landið sem við viljum að Ísland verði. Það er löngu kominn tími á að venjulegt fólk með eðlilegar skoðanir fari að stjórna í þessu landi.

Þessi færsla var upphaflega birt á Moggablogginu og þar er hægt að lesa athugasemdir við hana.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube