Browsed by
Category: Umhverfismál

Framtíðin

Framtíðin

Marinó G. Njálsson setti fram athugasemd á Facebook í gær.

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson

Margt var einkennilegt í aðdraganda hrunsins og þó flestir hafi verið blindir fyrir því, og þar á meðal ég, þá höfum við þrjá kosti:
1) Að læra af reynslunni og betrumbæta samfélagið;
2) að láta sem ekkert hafi gerst og haldið áfram á sömu braut; eða
3) að læra af reynslunni og ganga ennþá lengra í ruglinu.
Ég held að almenningur vilji fara leið 1), a.m.k. stór hluti hans, stjórnmálin eru föst á leið 2), en fjármálageirinn, stór hluti fjárfesta og aðilar sem ég ætla ekki að nefna frekar eru á góðri siglingu eftir leið 3).

Á Pírataspjallinu spurði Pálmi Einarsson: Hvaða iðnað/atvinnuveg finnst ykkur við eigum að byggja upp hér á landi til framtíðar?

Hvaða stefnu eigum við að taka, sem þjóðfélag? Hvað eiga stjórnvöld að gera?

Ég er á því að stjórnvöld eigi að gera eins lítið og mögulegt er. Þeim ber að sjá til þess að allir geti lifað sómasamlegu lífi, séu yfir fátækramörkum. Hvort lausnin sé borgaralaun, neikvæður tekjuskattur eða sterkt velferðarkerfi er spurning sem þarf að svara. En það er alveg á hreinu að það verður að koma í veg fyrir að einhverjir þjóðfélagshópar gleymist og sökkvi í fen fátæktar. Auðvitað þarf heilbrigðiskerfið að vera sterkt og aðgengilegt fyrir alla.

2014-07-31 at 14-57-38Við erum búin að virkja nóg. Ísland framleiðir langmest rafmagn á haus í heiminum. Megnið fer í stóriðju sem skilar litlu í þjóðarbúið. Ég get ekki séð ávinninginn í að virkja það sem eftir er, til að byggja fleiri álver. Það dæmi hefur ekki gengið upp, og er ekkert að fara að gera það. Stóriðja, í eðli sínu, eykur á ójöfnuð í samfélaginu, því til að byggja stórar verksmiðjur þarf fjársterka aðila sem skapa örfá láglaunastörf. Stóriðja er fín – og nauðsynleg – í hófi, en við erum löngu komin fram út öllu hófi.

Stjórnvöld eiga að takmarka atvinnurekstur og afskipti af atvinnulífinu eins og hægt er. Þeim ber að búa til umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið og dafnað í eðlilegri og heiðarlegri samkeppni. Að sjá ráðherra taka í hendur á auðjöfrum er ekki til þess valdið að styrkja trúna á heiðarlegt viðskiptaumhverfi þar sem allir eiga jafna möguleika. Að þingmenn og ráðherrar vinni leynt og ljóst fyrir stórfyrirtæki, sendir kolvitlaus skilaboð út í þjóðfélagið.

Það segir sig sjálft að við þurfum að hlúa að sprotafyrirtækjum, frekar en auðhringum. Hugvitið er stærsta auðlindin sem við eigum, og hún endurnýjast með hverri kynslóð ef hlúð er að.

Það þarf að sjá til þess að fjármálageirinn skili eðlilegum hagnaði, ekki ofurhagnaði á kostnað þjóðarinnar. Hvort bankarnir séu ríkisreknir eða ekki er aukaatriði, á meðan þjóðin hefur val og er ekki blóðmjólkuð. Það er klikkun að vextir á húsnæðislánum á Íslandi sé 3-4x hærri en í nágrannalöndunum.

Þar fyrir utan þarf að sjá til þess að viðskitabankar og fjárfestingabankar verði aðskildir.

2014-07-31 at 17-30-18Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef við höfum á tilfinningunni að stjórnvöld séu að fela eitthvað, að þau séu að stunda óheiðarleg viðskipti, að þau mismuni fólki eftir efni og aðstæðum, getum við ekki gert ráð fyrir að fólkið í landinu hugsi um þjóðarhag. Á meðan stjórnmálamenn virðast vera uppteknir við að maka eigin krók, má gera ráð fyrir að þjóðin hagi sér eins.

Ef við viljum ekki endurtaka 2008 með enn hrikalegri afleiðingum, þurfum við að hætta að láta eins og það sé 2007. Við þurfum að byggja upp réttlátara samfélag þar sem við skiptum öllu máli.

Því hamingjusöm þjóð í fallegu landi hlýtur að vera markmið okkar allra.

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði pistil um pírata. Sjá hér. Ég vil endilega svara spurningunum sem hann setur fram.

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hreyfing kennd við pírata gæti orðið nýtt pólitískt fyrirbrigði í nokkrum Evrópulöndum. Loftið hefur alls staðar farið úr þeirri blöðru nema hér þar sem hún hefur þanist út síðustu vikur.

Eru píratar blaðra? Næstu kosningarnar munu skera úr um það. Hitt er annað, það er ekki hægt að bera íslenska pírata saman við erlenda. Í nágrannalöndunum hafa þeir haldið sig í upprunalegu hugmyndunum um mál- og netfrelsi. Píratar á Íslandi eru löngu hættir að takmarka sig við þessi mál. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar og flokkurinn hefur tekið upp ýmis mál sem betur mættu fara. Þeir vilja betri og gagnsærri stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá sem tryggir meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Þetta eru mál sem þarf virkilega að vinna í á Íslandi eftirhrunsáranna, en minni áhugi er á erlendis.

Píratar eiga nú þrjá þingmenn. Fáir vita með vissu fyrir hvað þeir standa. Vel má líka vera að þeir viti það ekki svo gjörla sjálfir. 

Viti fólk ekki fyrir hvað píratar standa, er því velkomið að lesa píratakóðann. Allar ákvarðanir og stefnur verða að vera í takt við þessa átta punkta. Þeir virðast kannski óljósir við fyrstu sýn, en úr þeim má lesa að flokkurinn er á móti allri spillingu í stjórnkerfinu, þeir eru náttúruverndarsinnar, þeir eru fylgjandi alþjóðasamstarfi, og mannréttindi í hvaða formi sem er eru þeim heilög. Allar ákvarðanir flokksins verða því að fylgja kóðanum. Flokkurinn á því alltaf að geta verið samkvæmur sjálfum sér og kjósendur þurfa ekki að láta koma sér á óvart eftir kosningar.

En út frá hinu má ganga sem vísu að þingmennirnir þrír viti ekki meir en við hin um raunverulegar pólitískar hugmyndir þess mikla fjölda fólks sem lýsir yfir stuðningi við þá.

Það má gera ráð fyrir að stuðningsfólk pírata séu kjósendur sem búnir eru að fá nóg af baktjaldamakki, krókamökun, kjördæmapoti, vinagreiðum, einkavinavæðingum, stanslausri rányrkju, kvótabraski, verðtryggðum lánum, áhlaupum á heilbrigðiskerfið og endalausum óstöðugleika í fjármálum ríkissjóðs og þjóðarinnar. Stuðningsfólk pírata vill sennlega fá frið til að lifa sínu lífi, án þess að stjórnvöld séu endalaust að kippa undan þeim fótunum.

Eftir kosningarnar 2009 var í fyrsta skipti mynduð ríkisstjórn á lýðveldistímanum sem ekki byggðist á málamiðlun yfir miðjuna. Forysta Samfylkingarinnar færði flokkinn langt til vinstri og skildi eftir tómarúm næst miðjunni. Þegar að hálfnuðu því kjörtímabili kom fram í könnunum að kjósendur höfðu ekki áhuga á að færa Ísland til með sama hætti.

Þetta er einfaldlega rangt. Þjóðin fékk ekki nóg af vinstri stjórninni af því hún var svo langt til vinstri. Þvert á móti, skjaldborg var slegin um bankana og fjármálafyrirtækin, frekar en heimilin. Það hefur ekkert með vinstri að gera. Jóhönnustjórnin brást heimilunum, og því missti hún traust kjósenda. Sú stjórn var undir gífurlegu álagi. Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor þáverandi ráðherra, en það er á hreinu að hefði hún komið hreint og sköruglega fram og forgangsraðað öðru vísi, hefði hún ekki tapað fylginu eins og raunin varð. Þjóðin vissi að kjörtímabilið yrði erfitt og hefði fyrirgefið margt, en meint daðrið við fjármálafyrirtækin, IMF og ótímabær umsókn í ESB og Icesave klúðrið varð henni að falli.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð undir merkjum hægri þjóðernispopúlisma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eigi að síður reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Það hefur þó ekki dugað til. Með samtengingu við þjóðernispopúlisma Framsóknar hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega fjarlægst miðjuna.

Bjarni Ben og heilbrigðiskerfiðÉg ætla ekki að ræða Framsóknarflokkinn. Hann hefur skorað svo mörg sjálfsmörk að hann er sjálfkrafa úr leik. Ég vil halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Þeirra fyrsta verk var að lækka auðlegðaskatt. Skatta á stóriðju, sem flytur mestallan hagnaðinn úr landi, á að lækka. Virðisaukaskattur á matvæli var hækkaður. Skattur á munaðarvöru var lækkaður, án þess að nokkrum dytti í hug að fylgjast með ferlinu og sjá til þess að lækkunin skilaði sér í lægra vöruverði. Svo má auðvitað nefna svik á einu stærsta kosningaloforðinu, kosningum um áframhald viðræðna við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur leyft Framsókn að draga sig í svaðið, en hann á sínar gloríur. Þetta litla fylgistap sem hann hefur orðið fyrir, á hann fylliega skilið.

Með hæfilegri einföldun má segja að utanríkisstefnan hafi verið límið í pólitíkinni. Nú er hún helsta uppleysiefnið. Það er afgerandi breyting. … Í þessu ljósi verður fróðlegt að sjá hvernig nýja kjölfestan í pólitíkinni horfir á utanríkismálin og hvernig hún telur skynsamlegast að nálgast ákvarðanir á því sviði. Í fyrstu atrennu snýst sú spurning um hvort þessi stóra kjósendafylking stendur nær ómöguleikakenningunni eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessum punkti er auðsvarað. Þjóðin á að velja. Píratar eru ekki allir sammála um ESB. Sumir vilja inn, en aðrir ekki. Allir eru þeir þó sammála um að þjóðin eigi að ráða. Þjóðin á að kjósa um ESB og stjórnvöld eiga að fara eftir niðurstöðunum. Það skiptir í raun ekki öllu máli hvort við göngum i ESB eða ekki, en við getum ekki verið föst í þessu máli ár eftir ár. Það er löngu kominn tími til að útkljá þetta og snúa sér að öðru. Af nógu er að taka.

Píratar eru ekkert leyndarmál, þeir eru ekki dulúðugir, ekkert leyndardómsfullir. Píratar eru fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum, sem eru orðnir þreyttir á karpinu sem hefur haldið þjóðinni í skotgröfunum í áratugi.

Og að lokum. Sjálfstæðisflokkurinn færðist ekki frá miðju þegar Bjarni tók saman við Sigmund. Flokkurinn hætti að vera miðjuflokkur þegar Davíð tók við. Þetta veit Þorsteinn Pálsson sennilega betur en flestir.

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Gatan okkar í Halfweg, mitt á milli Amsterdam og Haarlem í Hollandi er týpískt skipulagsslys. Öðru megin eru fallegu húsin, byggð fyrir stríð. Okkar hús var byggt 1939 og hin um svipað leyti. Hinumegin eru skrípi byggð kringum 1985. Þau eru ekki ljót, þannig lagað, en þau passa ekki við gömlu húsin.

Hvað um það, gatan er stutt og tiltölulega róleg. Hér er lítil umferð, ef flugvélarnar eru undanskildar. Eitt það fallegasta við götumyndina eru trén sem blómstra á hverju vori.  En blómin eru ekki óumdeild.

Húsið okkar í HalfwegFyrir nokkrum árum datt bréf inn um lúguna. Bæjarstjórnin hafði látið gera úttekt á trjánum og komið hafði í ljós að þau væru sýkt og þyrftu að fara. Búið var að plana dæmið frá upphafi til enda. Einhvað fyrirtæki hafði verið ráðið til að planta nýjum trjám.

Við könnuðumst ekkert við að trén væru veikluleg og fórum fram á að sjá skýrsluna. Þá kom í ljós að sama fyrirtæki og átti að planta nýju trjánum hafði gert úttektina. Þetta fyrirtæki var tengt einhverjum á bæjarskrifstofunum. Þetta líkaði okkur ekki, og fórum því fram á að hlutlaus aðili gerði úttektina. Því var upphaflega neitað.

Þegar deilumál koma upp, er utanaðkomandi aðili fenginn til að skerast í leikinn. Þetta var dómari frá Amsterdam með engin tengsl í Halfweg. Hann var sammála okkur og fór fram á að ný úttekt yrði gerð. Þegar hún lá fyrir, kom í ljós að 2-3 tré voru sýkt, en restin heilbrigð.

Við settumst niður á bæjarskrifstofunum, ég, konan og  yndislegu,  gömlu dýralæknishjónin sem búa í sömu götu. Dómarinn frá Amsterdam var þarna, bæjarstjórinn okkar og einhver á vegum bæjarins. Við settum fram okkar rök, töluðum um hagsmunaárekstra og heilbrigð tré, götumynd sem yrði fátæklegri með hríslum í stað gamalla trjáa.

Bæjarstjórnin kom svo með sín rök. Man ekki nákvæmlega hver þau voru, en það var greinilegt að dómaranum fannst þau ekki merkileg. Hann virtist pirraður og fannst þetta mál greinilega vera tímasóun. Þegar bæjarfulltrúinn var búinn, spurði dómarinn, er þetta allt sem þú hefur að segja?
– Ha, já.
– Þetta eru rökin?
– Já.
– Þú hefur engu við þetta að bæta? Hver var ástæðan fyrir því að trén áttu að fara?
– Ja, sko, þau blómstra á vorin og það er svo mikill úrgangur, göturnar fyllast af blöðum og þegar rignir verður þetta svo ljótt.
– Ég skil. En hvað með að halda því fram að þau væru sýkt?
– Þau eru það.
– Flest eru heilbrigð.
– En ekki öll. Þau geta smitast.
– Af hverju var úttektin gerð af verktakanum og af hverju var þetta ekki boðið út?

Þá var lítið um svör.

Við og dýralæknishjónin litum á hvort annað. Við vorum búin að vinna. Dómarinn sagði bæjarstjóranum að endilega fjarlægja þessi 2-3 tré og planta svo sömu tegund í staðinn, en láta restina í friði.

Tré í HalfwegTrén standa því enn. Á hverju vori blómstra þau og hressa upp á götumyndina. Heimurinn verður fölbleikur og yndislegur.

Ég lærði tvennt á þessu máli.

1. Opinberir aðilar geta verið alveg jafn vitlausir og við og geta farið með sömu rökleysu og hver annar. Að vera yfirveld þýður ekki sjálfkrafa að þú getir gert hvað sem þér sýnist.

2. Með samstöðu og borgaralegri óhlýðni, getur maður haft áhrif á heiminn og samfélagið.

Gleðilegt sumar og megi framtíðin vera fölbleik og hlý!

Nárapúkar

Nárapúkar

Álfakonungur leit um öxl. Það hefði kannski mátt reyna meira, en þetta var bara of mikið. Honum varð hugsað til Frakka sem ekkert gátu gert til að stöðva Blitzkrieg Adolfs um árið. Þeir höfðu reynt en það tafði hið óumflýjanlega bara um nokkra daga. Margir Frakkar dóu og allt sem þeir fengu í staðinn var kannski einnar viku frelsi. Nei, þetta stríð var tapað, en það þýðir auðvitað ekkert að álfur gefist upp. Ó nei, viva la restistance! Var það ekki það sem þeir sögðu alltaf? Hann var ekki viss. Það gat verið erfitt að ná í bækur mannanna og svona lagað fann maður aldrei í álfabókum.

Nú voru erfiðir tímar í nánd. Það átti að sökkva heilli borg! Það var ekki eins og þetta væri einhver vesæll álfhóll í nýju borgarhverfi sem börn voru að dunda sér við að grafa upp. Hann hafði svo sem nógu oft sagt á ráðstefnum að álfar ættu að koma sér frá borginni. Þetta var fyrirsjánlegt. Þeir álfar sem þrjóskuðust við og neituðu að fara lentu í vandræðum. Álfakonungur vissi betur, allavega hafði hann haldið það. Kannski var hann bara að verða of gamall.

Hann hafði séð borgina vaxa og ákvað að gera hið sama. Þetta var svo sem ekkert vitlaus hugmynd hjá mannfólkinu. Borg. Álfaborg! Þetta hafði aldrei verið reynt á Íslandi. Hundraðogfimmtíuþúsund álfar í einni borg. Hugsa sér allt það sem álfar gætu gert ef þeir ynnu saman á skipulagðan hátt. Eitt þurfti þó að komast á hreint áður en byrjað yrði að byggja. Staðsetning. Hann hafði staðið fast á sínu. Sem lengst frá mannabyggðum. Einn og einn álfhóll étinn upp af steinsteypu og malbiki var nógu slæmt. Álfaborgin skyldi fá að standa um aldir!

Álfakonungur leit um öxl. Það var betra en að horfa í augu álfanna sem gengu yfir heiðina með honum. Þau gengu þó allavega með honum.

Álfarnir höfðu gengið yfir fjöll og heiðar. Það var komið rökkur og tími til að búa sig fyrir nóttina. Álfakonungur opnaði skjóðuna varlega. Hann tók upp ljósmynd af gráu hlöðnu húsi með kopar níu á þakinu og hugsaði til nárapúkanna. Hann hafði sent þá beint í gin óvinarins. Þeir vissu jafn vel og hann að þeir kæmu kannski aldrei til baka, en þeir vissu hvað var í húfi. Enginn vildi sjá hina nýju, glæsilegu Álfaborg hverfa undir vatn. Nárapúkarnir voru tilbúnir til að fara og gera það sem þeir voru bestir í.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube