Browsed by
Month: mars 2012

Sprakk

Sprakk

Hrunið skall á og þjóðin tvístraðist.

Allt er gegnsýrt af fylkingum. Us and them. Bankar gegn húseigendum. Stjórn gegn stjórnarandstöðu. Femínistar gegn karlrembusvínum. 101 lattépakk gegn sveitavarginum. Náttúruverndarsinnar gegn stóriðjusinnum. Kvótaeigendur gegn smábátaeigendum. Króna gegn evru. ESB gegn þjóernissinnum. Íslendingar gegn innflytjendum. Trúaðir gegn trúlausum. Hægri gegn vinstri, kommar og kapítalistar.

Það er alveg sama hvar tekið er niður, við finnum okkur alltaf eitthvað til að þrasa um, eitthvað til að vera ósammála um, eitthvað til að tvístra okkur. Ef við höldum svona áfram, munum við aldrei getað sameinast sem þjóð. Aldrei getað virkjað það sem sterkast er, okkur sjálf. Kerfið sem við búum við er hannað til að dreyfa athygli okkar, því án samstöðu getum við ekki tekist á við þau mál sem mestu skipta. Að búa til það samfélag sem við eigum skilið og getum átt. Tæknin og tíðarandinn hefur gert hverjum sem er kleyft að skapa list og tjá sig við umheiminn. Möguleikarnir eru endalausir og ef við nýtum þá á jákvæðan hátt getum við byggt upp frjálst samfélag, laust við drauga fortíðar þar sem aðeins hinir útvöldu höfðu tillögurétt.

Ef stjórnmálamenn þurfa líffverði á Íslandi, er okkur að mistakast. Er þetta þjóðfélagið sem við viljum? Er þetta framtíðin sem við þráum? Viljum við morð á ráðherra og valdarán á forsíður blaðanna í nánustu framtíð?

Þetta er ekki Íslandið sem ég ólt upp á og þetta er sannarlega ekki landið sem ég vil kalla mitt.

Í Jésú nafni, farið til andskotans!

Í Jésú nafni, farið til andskotans!

Titillinn á færslunni er þungur og hlaðinn, en það er ástæða til.

Hér í Hollandi er enn einn kirkju skandallinn kominn upp. Henk Heithuis fæddist 1935. Hann var tekinn af foreldrum sínum þegar hann var ungur og settur á kaþólskt uppeldisheimili. Þar var honum ítrekað nauðgað af prestum og hærra settum. Árið 1956, þá tvítugur, fór hann til lögreglunnar og gaf skýrslu um málið. Hann komst aftur í hendur kirkjunnar og var sendur til sálfræðings sem úrskurðaði hann veikan á geði. Maður spyr sig hvernig það hafi getað gerst. Síendurtekið barnaníð hlýtur að skilja eftir sig för á sálinni. Enginn kemst í gegn um slíka æsku óskaðaður.

Það sem verra var í augum þeirra trúuðu, var að Henk var samkynhneygður. Þetta var augljóst mál, því hann hafði verið í kynferðislegu sambandi við karlmenn. Það var lítið verið að skoða hvernig það hefði komið til. Hann var hommi því hann hafði gert hommahluti og þeir eru guði óþóknanlegir. Hann var því fluttur á kaþólskt sjúkrahús þar sem skorið var undan honum. Ef engin var kynhvötin, var öfuguggahátturinn læknaður, mætti ætla. Nema þetta hafi verið hefnd kirkjunnar fyrir að hafa kjaftað frá. Nauðgarar vilja nefninlega ekki að litla leyndarmálið spyrjist út. Kannski Henk hafi verið aðvörun til annarra lítilla stráka með stóran kjaft, því nauðgarinn notar líka ofbeldi og hótanir til að halda litla leyndarmálinu okkar á milli.

Henk gerði önnur mistök. Hann sagði frá geldingunni. Hann hélt því meira að segja fram að tíu strákar hefðu fengið sömu meðferð þennan dag. Þessi saga hefur verið staðfest af vitni sem vann á sjúkrahúsinu. Það vitni veit ekki hvað margir fóru undir hnífinn, en þeir voru fleiri en bara Henk. Þetta kom auðvitað ekki fram á sínum tíma. Vitnið hefur ekki þorað að segja neitt, því málið teygði sig upp í samfélaginu. Alveg upp á þing.

Henk átti við geðræn og líkamleg vandamál að stríða eftir aðgerðina. Hann dó í bílslysi ári síðar.

Ég spyr mig hvort slysið hafi verið alveg óvart. Ég hef ekkert fyrir mér í því, en svona mál fá mann til að ímynda sér hina furðulegustu hluti.

Þess má geta að ráðherrann sem sá um þessi mál á þessum tíma, Victor Marijnen, þaggaði ekki bara málið niður. Tveir prestar voru dæmdir í fangelsi og ráðherrann reyndi að fá þá lausa. Það mistókst, en hann reyndi þó.

Sami ráðherra varð forsætisráðherra 1963, fimm árum eftir að Henk lenti í slysinu. Flokkur hans, CDA, er enn einn stærsti stjórnmálaflokkur Hollands. Það er kannski engin tilviljun að hann stendur nú í vegi fyrir að málið verði skoðað í kjölinn.

Mikilmenni

Mikilmenni

Eftirfarandi er saga af heimsókn sem skildi mikið eftir sig.

Allir menn eru jafnir. Sú grundvallarhugsun er svarið við öllum vandamálum heimsins. Allir menn, konur þar með taldar. Á meðan sum dýrin eru jafnari öðrum, munum við búa við misskiptingu auðs og valds. Ef maður spáir í það, er hugsunin eins fjarstæðukennd og hugsast getur. Hvernig getur einn maður átt meira tilkall til lífsins og jarðarinnar en einhver annar?

Við getum þó ekki stillt okkur um að setja sumt fólk á stall. Ég heimsótti mann í Antwerpen fyrir einhverju síðan. Ég var fenginn til að kvikmynda viðtal við hann. Maðurinn bauð okkur inn, hellti upp á kaffi og kveikti sér í blárri Gauloises. Við spjölluðum saman meðan sameiginlegi vinurinn gerði sig tilbúinn fyrir viðtalið. Hann var afslappaður og yndæll. Það var eins og við hefðum þekkst alla okkar tíð.

Þegar ég kom heim, leitaði ég að honum á netinu. Kom í ljós að þetta er virtasta núlifandi leikskáld belga. Hann hefur skrifað um 20 leikrit og leikið í um 40 kvikmyndum. Eitthvað svoleiðis.

Ég velti fyrir mér hvort samtalið okkar hefði farið öðruvísi, hefði ég vitað hvað hann hefði afrekað um ævina. Hefði samtalið orðið þvingaðra? Hefði ég verið minna afslappaður í návist hans? Ég er ekki viss.

Það er óhætt að segja að hann sé mikilmenni. Hann þarf ekki að blása sig út, þykjast vera eitthvað merkilegri en hver annar. Eftir á var það augljóst að hann hefur séð að ég hafði ekki hugmynd um hver hann var, en hann minntist aldrei á fólkið sem hann hefur sennilega hitt á ævinni, rauðu dreglana og hvað annað. Engar fékk ég hetjusögurnar. Hann var bara manneskja, talandi við aðra manneskju. Á sama plani. Hann var ekkert merkilegri en ég, ekkert betri.

Það kalla ég mikilmenni.

Hver erum við?

Hver erum við?

Það er miður að þjóðin virðist vera að missa gestrisnina, vinalegheitin. Fólk er meira upptekið af sjálfu sér en það var. Þjóðin sem ég kynntist og elskaði er að hverfa.
Þetta sagði erlendur ferðamaður í upphafi tuttugustu aldar. Skrifað eftir minni svo orðin hafa eflaust skolast til, en merkingin er sú sama. Hann hafði ferðast um landið á seinni hluta nítjándu aldar, honum var alls staðartekið vel. Ferðalangurinn fékk að borða og halla höfðinu. Það skipti engu máli hversu fátækt fólkið var, alltaf var eitthvað aflögu fyrir þreyttan og svangan ferðalang. Þetta hafði allt breyst nokkrum árum seinna.
Auðvitað er erfitt að segja til um það hver þjóðareinkenni íslendinga eru. Erum við pirruðu víkingarnir sem þoldu ekki ofríki í Noregi? Erum við írsku þrælarnir sem teknir voru með á ferðinni yfir hafið? Erum við fólkið sem fór arkandi yfir höfðann til að höggva fjölskylduna á næsta bæ í spað? Erum við aumingjarnir sem húktu í moldarkofunum í aldaraðir, eða hetjurnar sem lifðu kuldaskeiðin af í sátt og samlyndi með öðrum? Sama fólkið þar á ferð. Erum við kannski kirkjunnar menn sem drekktu konum og sörguðu hausana af mönnum sem leyfðu sér að elskast í óþökk guðs eða konungs?
Ef ferðalanginum erlenda er treystandi, vorum við gestrisin og vingjarnleg þjóð á ofanverðri nítjándu öld. Því trúi ég vel. Elsta fólkið sem ég kynntist í æsku var fætt um og eftir 1880. Sögurnar sem ég heyrði hjá langafa, sem fæddur var 1893, lýstu sveitafólki sem stóð saman, gerði at í hvoru öðru og reyndi að snúa á sýslumann þegar víntunnurnar úr strönduðu skipunum ráku á land. Auðvitað voru erjur hér og þar, en af lýsingunum að dæma voru þær yfirleitt sakleysislegar og gerðar upp áður en í óefni fór.
Það sem eftir situr er að Ísland hafi verið hart og kalt, en fólk hafi reytt sig á hvert annað til að lifa af.
Við erum svo fá og við búum í svo fallegu og gjöfulu landi. Við eigum svo ríka sögu og við erum öll skyld. Við getum haft það svo gott ef við nennum. Verstu tímabil íslandssögunnar voru þegar þjóðin stóð ekki saman. Náttúruhamfarir og veðurfar gerðu okkur oft erfitt fyrir, en verst var þegar við svikum okkur sjálf. Þegar við létum nágrannaerjur fara svo úr böndunum að heilu fjölskyldurnar voru myrtar, þegar við leyfðum einokunarversluninni að svelta okkur í hel, þegar tortryggni og vantraust skyggðu okkur sýn.
Ísland tuttugustu aldarinnar var yfirborðskennt og það dó í október 2008. Þetta var sársaukafullur dauðdagi. Það er orðið algerlega ljóst að það verður ekki aftur snúið. Gamla kerfið er dautt. Við þurfum nýtt kerfi sem virkar og tekur mið af fólkinu í landinu, ekki hagnaðartölum. En nýja Ísland kemur ekki að ofan. Því er ekki útdeilt af stjórnmálamönnum og ríku köllunum. Það kemur heldur ekki að utan í formi fjárhagsaðstoðar, ESB eða kanadadollars.
Við erum þjóðin. Við ákveðum sjálf hvernig Ísland 21. aldarinnar mun verða. Hvað viljum við? Sturlungaöld eða endurreisn þar sem við stöndum saman? Viljum við þjóðfélag þar sem við vöknum við sverðið í brjósti okkar eða viljum við samfélagið þar sem fólk hleypur til þegar nágranninn þarf á hjálp að halda?
Við eigum hvoru tveggja til í okkur. Það er okkar að velja hvað við viljum.
Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube