Browsed by
Category: Stríð og Friður

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

Punktar fyrir flóttafólk

Punktar fyrir flóttafólk

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að flóttamannavandinn er gríðarlegur. Íslendingar hafa sýnt að þeir eru tilbúnir til að hjálpa eins og þeir geta.

Eitt það erfiðasta sem flóttafólk gerir er að komast til Íslands. Það er ekki hægt að ganga í einhverja daga. Ísland er eyja og einu leiðirnar til að koma eru með skipum og flugvélum. En flugmiðarnir eru dýrir.

Syrian ChildMörg okkar eigum vildarpunkta hjá Icelandair. Ég á nógu marga til að fljúga heim, en nokkur þúsund munu fyrnast um áramót. Hverfa og verða að engu.

Væri það ekki góð hugmynd ef Icelandair byggi til punktareikning sem við getum millifært hverfandi punktana á? Það yrði gjaldfrjálst. Kostar okkur ekkert. Kostar Ielandair ekkert, en ef þúsundir punktaeigenda millifæra á reikninginn, mætti hjálpa fólki að ferðast til landsins?

Þessi reikningur yrði að vera gagnsær, þjóðin þyrfti að geta séð hvað margir punktar safnast og hvernig þeim er varið. Rauði Krossinn gæti séð um reikninginn.

Þessir punktar skipta okkur engu máli. Þeir hverfa hvort eð er. En fyrir flóttafólk getur þetta skipt öllu máli. Þetta getur verið farmiði til betri framtíðar. Eða framtíðar, yfirleitt.

100 milljarðar?

100 milljarðar?

Mogginn er upptekinn við að gera lítið úr þjáningum flóttafólks og mikið úr kostnaði og veseni okkar íslendinga. Nýjasta grínið minnist á 100 milljarðana sem það myndi kosta að taka við 5000 flóttamönnum.

Skopskyn MoggansMaður skilur svo sem að það kostar helling að koma fólki inn í samfélagið, en 100 milljarðar eru út úr kú. Þurfa allir sem koma að verkefninu að vera háskólamenntaðir með 15.000 kall á tímann? Er ekki hægt að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til? Bara vera með fólkinu, tala við það, kenna því tungumálið og hvernig samfélagið virkar? Borga atvinnulausum og öryrkjum eitthverja þóknun fyrir að eyða tíma í þetta fólk?

Margir bótaþegar einangrast, og með sjálfboðastarfinu mætti koma í veg fyrir einangrun beggja hópanna.

Það má nýta húsnæði sem stendur autt. Atvinnuhúsnæði sem bankarnir hafa tekið til sín gætu orðið félagsmiðstöðvar sem fólk gæti nýtt til að komast inn í málið og menninguna, komast á netið, fá fréttir og leita að vinnu þegar þar að kemur. Tómt íbúðahúsnæði má svo nýta til að koma fólkinu fyrir á meðan það er ófært um að gera það sjálft.

Það er hægt að taka við flóttafólki án þess að það sé yfirdrifið dýrt. Auðvitað mun það alltaf kosta eitthvað, en ef maður á ekki pening, notar maður hugmyndaflugið. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Það var orðið dimmt, enda langt liðið sumars. Við vorum búin að borða. Þau borðuðu nautaborgara og svínapylsur eða eitthvað álíka, ég grænmetisborgara. En það er ekki það sem mér liggur á hjarta.

Wim, tengdapabbi minn til 18 ára, er ekki mikið fyrir að opna sig. Hann segir ekki meira en nauðsynlega þarf. Kannski eru það genin, uppeldið eða karakterinn. Hvað veit ég? En í kvöld, eftir mat, sátum við í garðinum og nutum þess að tala um ættingja, fólk sem er farið og fólk sem enn er meðal okkar. Talið barst að stríðinu því ég er að lesa bókina Savage Continent, um hildarleikinn í Evrópu á árunum 1945-47. Tímabil sem sjaldnast er talað um. Ég minntist á að Holland væri til umræðu í bókinni, því hér var hungusneyð veturinn 1944-45.

Við vissum að faðir tengdamömmu hafði misst fótinn eftir að hann steig á jarðsprengju. Hún sagði okkur frá því hvernig fóturinn hefði aldrei verið til friðs og vandamál sem slysið hafði í för með sér dró hann loks til dauða. En þá kom saga sem ég hafði aldrei heyrt.

Faðir tengdapabba var nær dauða en lífi af hungri, eins og fleiri þennan vetur. Bræðurnir fundu kálf, og vegna hungursins, drápu þeir dýrið. Nasistarnir komu að þeim og byrjuðu að skjóta. Faðir tengdapabba lifði þetta af, en bróðir hans var drepinn.

Sagan er oft nær en okkur grunar. Það munaði litlu að Þýskaland ynni stríðið. En þrátt fyrir tap Nasista var flóttamannavandinn eftir þann hildarleik gríðarlegur, meiri en við getum ímyndað okkur. Röskunin sem varð af stríðinu var svo fáránleg að þótt maður lesi bók og skilji að þúsundum kvenna hafi verið nauðgað (meðan þær héldu í höndina á börnunum til að týna þeim ekki), sumum oft á dag í margar vikur, eða nauðgað eftir að fjölskyldurnar voru drepnar fyrir augum þeirra… við skiljum þetta ekki. Sama hversu nákvæmar sögurnar eru, sama hversu vel við reynum að setja okkur í spor þessa fólks. Við getum ekki skilið hversu viðbjóðslegt mannlegt eðli getur verið.

Við getum ekki sett okkur í spor fólksins sem nú knýr að dyrum í Ungverjalandi eða hvar það er sem flóttafólk nútímans endar. Hvað sá þetta fólk í heimaborg sinni? Horfði þetta fólk upp á fjölskyldumeðlimi pyntaða og drepna? Dætrum þeirra nauðgað?Hvernig var ferðin sem það sá sig knúið til að leggja í? Af hverju yfirgaf þetta fólk sitt heimaland?

Við sem höfum lifað okkar lífi tiltölulega áfallalaust getum ekki skilið hvað fólk frá stríðshrjáðum löndum hefur gengið í gegn um. Ekki frekar en tengdapabbi gat skilið manninn sem hann vann fyrir sem ungur maður. Sá hafði lent í Nasistunum. Hann átti fyrirtæki sem gekk vel. Viðskiptin voru í blóma. En maðurinn var ekki í lagi. Hann eyddi öllum sínum peningum í hórurnar í Amsterdam og endaði eignalaus á kafi í vínflösku. Því hann gat aldrei sætt sig við það sem hann hafði lent í. Stríðið eyðilagði hann.

A street in Homs, Syria in 2011 and 2014Stríð eru ógeð. Stríð eru opinber og lögleg fjöldamorð. Fólk sem er meðfylgjandi stríði, eða er sama því það gerist einhverstaðar annars staðar, eða grefur hausinn í sandinn því það er svo erfitt að sjá myndir, er samsekt. Davíð og Halldór gerðu okkur samsek um Írak. Þeir settu Ísland á lista hinna viljugu, eða hvað það heitir. Össur lagði blessun sína yfir að Lýbía yrði sprengd í loft upp. Og í bæði skiptin gerðum við ekkert. Þjóðin lét eins og henni kæmi sér þetta ekki við. Stjórnmálamennirnir eru með blóðugar hendur, en við erum ekkert betri því við létum eins og okkur kæmi þetta ekki við. Því stríð gerast annars staðar. Ekki hjá okkur.

Afabróðir konunnar minnar var drepinn af Nasistum því hann reyndi að bjarga sér í hungusneyð sem kom til vegna þess að einhverjir fávitar ákváðu að Evrópa þyrfti á stríði að halda. Íslendingar voru sendir í útrýmingarbúðir. Ógeðið er ekkert voðalega langt í burtu.

Og nú tuðum við yfir því að flóttamenn nútímans trúi á annan guð en þann sem okkur þykir æskilegur. Svona eins og þegar við sendum gyðinga til Þýskalands í seinna stríði. Í alvöru, við íslendingar sendum gyðinga til Þýskalands Nasismans. Af því gyðingar eru ekki af norrænum kynstofni, eða eitthvað. Okkur virðist hafa verið skítsama um örlög þeirra því þau voru gyðingar.

Við lögðum blessun okkar yfir loftárásirnar og innrásirnar sem eru að búa til flóttamannastrauminn í dag. Okkur þótti ekkert athugavert við það að eitthvað ríki réðist á annað ríki og rústaði borgunum og dræpi fólkið sem þar bjó. Því það voru NATO lönd og við erum góðu kallarnir. Og svo, þegar þetta fólk bankar á dyrnar og biður um að komast inn því það er ofsótt í sínu eigin landi, látum við eins og okkur komi þetta ekki við? Af því öryrkjar eru á lágum launum. Af því við þurfum að hugsa um okkar fólk fyrst. Af því að annað fók er minna virði? Af því þetta fólk trúir ekki á þjóðkirkjuna eða eitthvað.

Mannkynið er allt tengt. Við erum öll fólk. Þó að konan í Damaskus tali annað tungumál og trúi á annan guð, er hún ekkert öðruvísi en meðal íslendingur. Hún á sér drauma, hún vill þokkalegt líf og hún vill vera í friði fyrir fólki sem drepur allt og alla fyrir einhvern málsstað sem hún skilur varla haus né sporð á. Allt sem hún vildi var að lifa, vinna, ala upp sín börn og deyja í friði þegar hennar verk var búið. Eins og við öll.

Flóttafólk er ekki að sækjast eftir að setjast að á vesturlöndum til að lifa á sósjalnum. Þetta fólk vill einfaldlega lifa. Það vill frið frá djöfulgangi styrjalda. Helst vildi þetta fólk vilja búa áfram í sínu heimalandi, en það er ekki hægt því það er allt í kássu því fávitar notfæra sér glundroðann sem við höfum skapað til að myrða og nauðga. Evrópa er blessunarlega laus við stríð (í bili), og því sækist þetta fólk hingað. Auðvitað er viðbúið að við þurfum að hjálpa þessu fólki að finna fótana eftir það sem á undan er gengið, en þetta fólk er ekkert öðruvísi en við. Það hefur bara gengið í gegn um helvíti sem við þurfum vonandi aldrei að skilja.

Rasistarnir

Rasistarnir

Í dag sá ég mynd á netinu. Þar var vitnað í samfylkingarkonu sem átti að vera að sleikja upp múslímana. Í athugasemdunum var hún kölluð kexrugluð sosíaldemókratakelling, vanhæfur vesalingur, og fáviti. Talað var um að við gætum alveg eins skikkað íslenskar konur til að ganga í búrkum.

Kristín SoffíaÉg skildi ekki textann á myndinni. Ég þekki konuna ekkert, en setningin hlaut að vera úr samhengi. Enda kom það í ljós þegar Kristín tjáði sig um málið.

Þetta er svo skemmtilegt svona algjörlega slitið úr samhengi. Á sama tíma og Moskuumræðan fór sem hæst þá var í gangi mikil umræða um slæma meðferð á grísum og margir lýstu því yfir að þeir ætluðu að hætta að borða svínakjöt. Þetta fannst Jóni Jónssyni og fleiri bitrum gömlum körlum svakalega merkilegt og gátu lesið allt í þetta. Svo var klesst mynd af Degi inn á þetta til að reyna að klekkja á honum. Flottir karlar.

Ég er alveg sammála því að Islam eru arfaslæm trúarbrögð. Þau eiga það sameiginlegt með flestum trúarbrögðum sem hafa verið mikið til óbreytt í aldaraðir. Heilu þorpin eru myrt í nafni Allah. Konur eru seldar í kynlífsánauð og krakkarnir drepnir. Mér er alveg sama hvort Islam séu friðsamleg trúarbrögð. Sumir áhangendurnir eru það ekki.

En sama má segja um kristni. Það þarf sennilega ekki að minnast á krossferðirnar og rannsóknarréttinn, nornabrennurnar og ofbeldið sem grasseraði í Evrópu miðaldanna, þegar kristni var sem sterkust. Allt var það í nafni Guðs og sonarins. Auðvitað sagði Jésú margt fallegt, en hvorki hann né faðirinn gátu stoppað geðveikissjúklinga sem drápu og nauðguðu í þeirra nafni.

Enn þann dag í dag eru kristnir öfgamenn að drepa í nafni frelsarans. Sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem framkvæmir fóstureyðingar er reglugela drepið af „pro life“ aktivistum.

En það þarf ekkert trú til að gera fólk morðótt og snarbilað. Flestir vita sennilega að „blessað stríðið“ var mesti hildarleikur mannkynsins til þessa. Heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu, óbreyttir borgarar strádrepnir. En það endaði ekki í maí 1945 (eða ágúst í Asíu). Hefndarmorð voru daglegt brauð í Evrópu fyrstu 2-3 árin eftir stríð. Það eru til sögur af konum sem var nauðgað 5-10 sinnum á dag í nokkrar vikur. Þeim var nauðgað meðan þær héldu í höndina á barninu til að týna því ekki. Fjölskyldan var myrt meðan þær horfðu á og svo var þeim hópnauðgað. Börn voru pyntuð og drepin. Skotin eða hengd. Þjóðverjar (líka konur og börn) voru þvingaðir til að opna fjöldagrafir og svo var andlitum þeirra troðið ofan í rotnandi líkin þar til þau drukknuðu í slíminu.

Það voru engir múllar þar. Það þurfti ekki trúabrögð til. Aðstæðurnar voru „réttar“. Þegar aðstæðurnar eru þannig, bilast fólk og gerir hluti sem það myndi annars ekki láta sér detta í hug.

Fólk gerir ógeðslega hluti þegar aðstæðurnar eru þannig. Að ala á útlendingahatri býr til þannig aðstæður. Það býr til bil milli okkar (íslendinganna) og þeirra (innflytjendanna). Bil sem breikkar, því lengur og oftar sem við tölum um þetta útlendingapakk. Bil sem verður erfiðara að brúa, því lengur sem við leyfum fordómunum að grassera.

Ef við missum okkur í rasisma, eru líkur á því að innflytjur geri eins. Það er okkar, íslendinganna, að búa til samfélag sem hafnar rasima og öllum fordómum.

Þess vegna nenni ég ekki að taka þátt í umræðunni um moskuna, múslíma, pólverja. Innflytjendur, yfir höfuð. Flestir eru þeir sennilega voðalega venjulegt fólk. Ef annað kemur í ljós, ef einhverjir einstaklingar fara að brjóta lögin, er tekið á þeim. Við erum með dómskerfi sem sér til þess að fólk er dæmt fyrir ofbeldisverk.

Hálfur sannleikur er sennilega versta lygin. Þessi mynd sem flögraði um Facebook í dag er gott dæmi um hálfan sannleik sem verður að lygi.

Hugleiðingar um Stríð

Hugleiðingar um Stríð

Ég er að lesa bókina Savage Continent eftir Keith Lowe. Þar útskýrir hann hvernig Evrópa var eftir seinni heimsstyrjöldina. Hefði ekki átt að byrja á þessu, því of mikil þekking á atburðum þýðir að maður sér í gegn um mistur tímans. Maður kemst nær atburðunum. Það er ekki alltaf gott fyrir geðheilsuna.

SavageContinentMér hefur lengi fundist mannkynssagan vera einhverskonar teiknimyndasaga. Einfölduð útgáfa á því sem virkilega gerðist. Rómaveldi var soldið svona Ástríks dæmi. Rómverjarnir voru auðvitað sterkastir. Það voru engir gaulverjar sem lömdu þá í hakk, en þetta var stórveldi sem fann upp helling af hlutum sem við notum enn þann dag í dag. Jú, Jésú var krossfestur af rómverjum, svo þeir voru soldið brútal, en samt. Þetta var allt í lagi, þannig lagað. Fjarlægðin hefur gert rómverjana meinlausa.

En þeir helltu líka olíu yfir svín og sendu þau, öskrandi af sársauka, yfir til fjandmannanna. Það er ekki næs, en þetta var fyrir svo löngu síðan. Kemur okkur ekki við.

Nútímastríð eru löng og illskiljanleg og virðast aldrei enda almennilega. Seinni heimsstyrjöldin var þó röð atburða sem við getum skilið. Hitler var skítseyði sem réðist á alla. Góðu bretarnir og bandaríkjamenn náðu að vinna stríðið. Góðu kallarnir unnu. Happy ending.

Þetta var bara ekki svona einfalt. Hitler komst tl valda því bretar og frakkar höfðu tekið risalán til að halda úti stríðsrekstrinum 1914-1918. Og það stríð var ekki heldur þjóðverjum að kenna. En það er önnur saga. Bandaríkin vildu byrja upp á nýtt eftir fyrri heimsstyrjöldina, byrja á núlli. En einhver þurfti að borga. Bretar og frakkar höfðu tekið gríðarleg lán til að fjármagna stríðsreksturinn og einhver þurfti að borga. Þjóðverjar töpuðu, og því var sjálfsagt að senda þeim reikninginn. Afleiðingarnar voru óðaverðbólga og ónýtt samfélag í Þýskalandi.

Þess vegna komst Hitler til valda. Hann sagði þýsku þjóðinni að nú væri komið nóg. Peningunum væri betur varið í þjóðvegi og uppbyggingu Þýskalands. Hann vann kosningarnar, sem skiljanlegt er. Án nauðarsamninganna í Versölum 1919, hefðu þjóðverjar ekki litið við furðufuglinum með Chaplin skeggið.

In The RuinsHitler stóð við kosningaloforðin. Hann má eiga það. Autobahnarnir voru lagðir, verksmiðjur byggðar, allir fengu vinnu og lífið var fínt. Nema ef þú varst gyðingur, hommi eða sígauni. Þá varstu handtekinn og þú jafnvel drepinn. En það var ekkert ljóst í upphafi. Þegar þýska þjóðin komst að því hvað var að gerast, var það of seint.

Hitler réðist inn í Pólland, og svo restina af Evrópu. Seinni heimsstyrjöldin var mesti hildarleikur sem mannkynið hefur orðið vitni að. Tugir milljóna voru drepnir, enn fleiri misstu heimili sín, þúsund ára menningu Evrópu var eytt og heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu.

Sem betur fer tókst bandamönnum að stoppa þessa geðveiki.

Eða hvað?

Málið er að bandamenn voru ekkert betri. Þeir sprengdu heilu borgirnar í loft upp. Flestar þýsku borgirnar máttu þola gengdarlausar loftárásir, löngu eftir að ljóst var orðið að stríðið var unnið. Veturinn 1944-5 var öllum ljóst að það var tímaspursmál hvenær þjóðverjar myndu gefast upp. Samt voru gerðar loftárásir á Dresden, sem hafði ekkert hernaðarlegt gildi, en var full af flóttafólki. Þennan vetur voru þýskar borgir lagðar í rúst í hefndarskini.

Bandaríkin trompuðu svo allt með því að varpa kjarnorkusprengjum á tvær japanskar borgir. Sagnfræðingar hafa komist það þeirri niðurstöðu að árásirnar hafi ekki haft nein áhrif, heldur hafi japanir gefist upp eftir að rússar lögðu undir sig Manchuriu í Kína og voru að undirbúa árás á Japan. Allar stærstu borgir Japans höfðu verið lagðar í rúst. Eyðilegging skipti þá ekki máli. Það var landhernaður rússa sem þeir hræddust, ekki loftárásir Bandaríkjanna. Hernám rússa myndi hugsanlega þýða aftöku keisarans, og það mátti alls ekki gerast.

Rússar voru ekkert betri en bandamenn. Stalin á að hafa tafið hernám Varsjár til að gefa þjóðverjum tíma til að eyða henni og hann gaf sovéskum hermönnum frjálsar hendur þegar kom að þýskum konum. Nauðganir voru umbun fyrir vel unnin störf.

Eftir stríð, er okkur sagt, brutust út mikil fagðarlæti um allan heim og uppbyggingin hófst. Stríðinu lauk 8. maí í Evrópu og um miðjan ágúst í Asíu. Og þá skall á friður og allt var í fína lagi.

En svona einfalt var það ekki. Mestu fólksflutningar allra tíma áttu sér stað mánuðina eftir stríð. Ekki af því fólk vildi búa annars staðar, heldur var það yfirleitt vegna þess að fólk var ofsótt. Þjóðverjar voru strádrepnir í hefndarskyni hvar sem í þá náðist. Konum var nauðgað í milljónatali, karlmenn barðir til bana, börn pyntuð og drepin. Sögur eru til af sex ára krökkum í fangabúðum í Prag. Þau voru lamin, pyntuð og myrt, því þau voru þýskumælandi. Fólk var látið grafa fjöldagrafir fyrir sjálft sig og svo drepið á grafarbakkanum. Fólk sem átti eitthvað vantalað við nágrannana drápu þá án þess að nokkuð væri gert í því. Í einhverjum löndum var fólki leyft að ráðast á, drepa og pynta annað fólk fram á haustið 1945, eða lengur. Ef þú drapst mann rétt eftir stríð, gastu verið viss um að komast upp með það, því hann hafði sennilega gert þér eitthvað í stríðinu. Sumt fólk var réttdræpt þótt stríðið væri búið.

Milljónir barna voru munaðarlaus. Þau grófu kartöflur og rætur upp úr jörðinni til að lifa af, borðuðu epli af trjám, stálu sér til matar eða seldu líkama sinn. Börn leiddust út í vændi til að lifa af, því foreldrarnir voru dauðir eða horfnir.

Þannig var Evrópa eftir stríð. Morð, hungusneyð, barnavændi. Sagan er ekki eins hrein og fín og við höldum.

Það er þægilegt að leyfa sér að skoða söguna sem röð atburða sem koma okkur ekki við. Þetta er liðin tíð, búið. Við erum ekkert að fara að ganga í gegn um svona tíma núna. Við myndum ekki kjósa Hitler. Við myndum ekki brenna nornir á báli. Við myndum ekki notfæra okkur níu ára krakka sem lætur allt yfir sig ganga fyrir brauðmola eða epli.

Syrian girl, not quite 3 years old.
Syrian girl, not quite 3 years old.

Málið er að við höfum ekkert lært. Það er enn verið að drepa krakka í mið-austurlöndum. Við erum enn að halda með könum eða rússum í Úkraínu eins og þetta sé einhver fótbolti. Við erum að verja Ísrael eða Hamas því okkur finnst þeir vera betri gæjarnir. Við leggjum enn blessun okkar yfir stríð ef við höldum að við séum að styðja við góðu gæjana. Ísland hefur formlega stutt tvö stríð á undanförnum árum. Okkar hendur eru blóði drifnar, þótt við höfum ekki sjálf tekið í gikkinn.

Málið er að það eru engir góðir gæjar í stríði. Öll stríð eru slæm. Það er viðbjóður að setja af stað skipulögð morð, þar sem börn eru pyntuð og myrt. Hugsaðu þér. Ef þú átt barn. Kannski sex ára, níu ára. Hugsaðu þér að þú sért dauð eða dauður, að barnið þurfi að sjá fyrir sér í heimi sem er skítsama um krakkann. Að barninu sé hent í fangabúðir því það tala rangt tungumál. Eða er ekki með réttan húðlit. Svo er það lamið, því nauðgað eða það drepið.

Þetta gerðist 1945, þetta er að gerast í dag. Þetta hefur verið að gerast í þúsundir ára og það er ekkert að breytast.

Stríð eru ógeðsleg og eiga aldrei rétt á sér. Aldrei.

Hættum á láta eins og þau séu fótboltaleikir. Eins og það séu einhverjir góðir kallar. Það virkar ekki þannig.

Hver sá sem styður stríð, styður morð. Svo einfalt er það.

Stríð og Friður

Stríð og Friður

Fyrstu dagarnir í maí eru sérstakur tími í mannkynssögunni. 1. maí er baráttudagur verkalýðsins, 3. maí 1937 var ráðist á Telefonica bygginguna í Barcelona og má sennilega segja að þá hafi anarkisminn dáið og fasisminn unnið borgarastríðið á Spáni. 4. maí er fórnarlamba stíðsátaka minnst í Hollandi og 5. maí er frelsisdagurinn, en þá gáfust nazistar upp í landinu. 8. maí 1945 gafst Þýskaland upp og friður komst á eftir hrikalegasta stríð sem mannkynið hefur séð. 10. maí 1940 réðist Þýskaland á Holland, Belgíu, Luxembourg og Frakkland, og Bretar hernámu Ísland.

Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.
Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Í gærkvöldi var fórnarlambanna minnst. Fólksins sem var dregið út úr húsum sínum og skotið á götunni. Flutt í útrýmingarbúðir. Fólkið sem tók þátt í andspyrnunni og var tekið af lífi fyrir.

Í Hoofddorp, bæjarfélaginu við Schiphol, tóku einhverjir krakkar sig til og öskruðu á meðan aðrir virtu tveggja mínútu þögnina. Krakkar sem aldrei hafa séð stríð, nema í tölvuleikjum og kvikmyndum. Krakkar sem skilja ekki að stríð er ekki afþreying, flottir effectar á skjá eða bíótjaldi. Krakkar sem vonandi þurfa aldrei að komast að því hvað stríð virkilega er.

Mér er sama um krakkana, en óvirðingin við fólkið sem lagði allt undir og tapaði, er óþolandi.

Strax eftir heimsstyrjöldina byrjaði Kalda Stríðið. Einhvert heimskulegasta tímabil í sögu mannkyns. Auðvitað hafa verið verri tímabil, en Kalda Stríðið var óþarft. Það gekk út á græðgi og sandkassaleiki. Það er eiginlega ótrúlegt að ekki hafi farið á versta veg.

Við höfum ekkert lært. Enn eru stríð um allan heim. Sennilega er það tímaspursmál hvenær við missum tökin á atburðarásinni.

Ég læt myndband fylgja með. Berlín í júlí 1945, tveimur mánuðum eftir að hún var lögð í rúst. Þetta er stríð. Þetta er gjöreyðing. Þetta er ekki leikur, ekki grín, ekki kvikmynd. Þetta er raunveruleikinn ef við pössum okkur ekki.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube