Leica, leynibloggið og einsemdin

Leica, leynibloggið og einsemdin

Þegar ég ákvað að fara í framboð, ákvað ég líka að búa til einkablogg. Leyniskrif sem enginn má sjá. Mínar einkahugsanir sem eiga ekki endilega heima í opinberri umræðu. Þetta er ekkert stórmerkilegt, engar samsæriskenningar, níð eða tuð. Þetta er meira persónulegar hugleiðingar um framboðið og framtíðina. Dagbók sem ég get lesið seinna, eftir kosningar, þegar þessum kafla lífsins er lokið. Þetta er svo saklaust að ég gæti hugsanlega gefið það út í bókarformi. Hver veit? Til að gefa hugmynd um losandaháttinn og blaðrið, datt mér í hug að deila færslu dagsins í dag.

MatsÍ dag er þrettándi júlí og mér líður betur. Er farinn að sætta mig við ákvörðunina um að bjóða mig fram. Mér fannst ég vera að skíta mig út, að stíga ofan í drullupoll þegar ég bauð mig fram í stjórnmálastarf, en það þarf svo sem ekkert að vera þannig.

Í gær var grein á netmiðlunum þar sem talað var um að mikil barátta væri framundan í prófkjörum Pírata. Drulluslagur eða eitthvað. Mitt komment á það var; Ég veit ekki með Reykjavíkina en ég ætla allavega að vera til friðs í suðurpottinum. Er ekki að standa í þessu til að kúka á fólk.

Og þannig er það. Þetta þarf ekki að vera drulluslagur. Ég fór í þetta af því ég er með hugsjónir, ekki til að fá þægilega innivinnu. Ég vil búa í réttlátu samfélagi sem allir geta blómstrað í.

Ég sagði Hildi að ég myndi taka íbúðina. Spáði í miða um borð í Norrönu fyrir mig og bílinn. Miriam er sátt við þetta. Og lífið er ekkert ef maður hoppar ekki út fyrir þægindarammann af og til.

Annars var ég að horfa á Leica unboxing video. Einhver myndavél sem hoppar og hóar yfir því að 60 ár séu liðin frá því að Leica M3 kom á markaðinn. Og það minnti mig á bókina sem ég þarf að klára. Blood and rain, þar sem Gunnar fer til Barcelona í miðju borgarastríði og finnur út að það er meira en að segja það að vera heimsfrægur blaðamaður. Lesandinn mun, þegar þar að kemur, komast að því hvort Gunnari tekst að verða heimsfrægur blaðamaður, eða hvort hann klúðri öllu. Stríð á það nefninlega til að breyta áætlunum fólks. Þarf sennilega ekki stríð til. Leica spilar töluvert stórt hlutverk í bókinni. Leica IIIc, svo maður nördist.

Myndbandið minnti mig líka á fallegu Fujifilm myndavélina sem ég keypti af því ég var orðinn leiður á stærð og þyngd Canon vélanna. Og Fujifilm er Leica 21. aldarinnar.

En hvað um það. Þetta verður allt í lagi. Ég fer í framboð. Annað hvort kemst ég í baráttusæti, eða ég mun taka þátt í grasrótarstarfinu. Og taka myndir af ferlinu. Búa til heimild um framboð og aðdraganda kosninga.

Seinna í dag fer ég að leika mér með flugvélar, vinna við að búa til loadsheets og þannig. Og Mats kemur heim úr skólanum eftir rúman klukkutíma og honum þarf að sinna. Sem er auðvitað bara gaman, enda er hann svo mikið krútt. Ég á eftir að sakna hans óendanlega í vetur. Það er þó tímabundin fórn. Vonandi virkar þetta allt og þegar við erum búin að byggja draumahúsið á suðurlandinu, verður þetta brölt þess virði.

Í kvöld er svo fundur fyrir frambjóðendur, sem ég get ekki mætt á.

Næstu sex mánuðir eða svo verða spennandi.

Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube