Hugleiðingar um aðalfund

Hugleiðingar um aðalfund

Helgin var spes. Ég mætti á aðalfund Pírata í Rúgbrauðsgerðinni. Man ekki eftir að húsið hafi verið notað í annað en pólitíska fundi, veit ekki til að þar hafi rúgbrauð verið bakað í langan tíma, en það er önnur saga.

En allavega, ég var á aðalfundi stjórnmálaflokks. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég tek þátt í þannig gjörningi. Ég hef engan sérstakan áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Ég vil helst láta aðra um það. Vandamálið við samfélagið eins og það er, er að þessir aðrir eru ekki að vinna í mína þágu. Þeir eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru að vinna fyrir sig og sína, svo ég hef ekkert val. Það er verið að ræna okkur um miðjan dag, og á nóttunni líka. Ég er ekki ópólitískur, ég hef skoðanir og réttlætiskennd og það er skylda mín að taka þátt í stjórnmálum núna svo ég geti hjálpað til við að laga samfélagið svo ég þurfi ekki að taka þátt í stjórnmálum seinna.

Þegar samfélagið er komið í þokkalegt lag, get ég farið að gera eitthvað skemmtilegra en að tuða um lagasetningar og reglur. En þangað til, hef ég ekkert val.

Þess vegna mætti ég á aðalfundinn.

Píratar
Píratar

Það sem kom mér sennilega mest á óvart um helgina var jákvæðnin. Það voru allir í góðu skapi, andinn var léttur, allir virtust njóta þess að vera þarna. Ég fann ekki fyrir neikvæðni, togstreytu, framapoti. Stjórnmálin og samfélagið eru kannski í klessu, en það var ekki uppgjöf eða pirringur í gangi á aðalfundi Pírata. Það sem dreif vélina var skilningurinn á því að það er mikið verk að vinna, og viljinn til að vinna það verk. Samfélagið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er kerfi sem hannað er af fólki, fyrir fólk. Ef kerfið er gallað, getur fólk lagað það. Og við ætlum að laga það. Við ætlum að gera það betra, réttlátara, skilvirkara og jákvæðara.

Við ætlum að skríða upp úr skotgröfunum og planta blómum.

Væmið, en það skiptir engu máli. Þetta var myndmál. Raunveruleikinn er að Rúgbrauðsgerðin var stútfull af drullukláru fólki sem vill breyta heiminum. Vill skapa samfélag sem við getum öll lifað í og verið stolt af. Samfélagi sem er gott fyrir alla, hvort sem það eru öryrkjar, verkamenn, skrifstofufólk, fyrirtækjaeigendur eða sjómenn. Það skiptir ekki máli hver þú ert, hvort þú ert kona eða karl (eða þar á milli), gömul eða ungur, pírati eða ekki. Fólkið sem mætti á fundinn var fullt af von, krafti og sköpunargáfu og ég treysti því fyrir framtíðinni.

Ef við náum að halda áfram að vera svona jákvæð, klár og drífandi, getur framtíðin ekki verið neitt annað en betri en fortíðin. Við sýndum og sönnuðum að allir hafa áhrif, að allir eru jafnir og að örlög okkar eru í okkar eigin höndum. Við þurfum ekki forystu, elítu eða einhverja pabbakomplexa. Við getum séð um okkur sjálf. Þjóðin getur ráðið sér sjálf. Hún þarf ekki stóra bróður eða reyndan stjórnmálamann til segja sér hvað hún má gera, hvað hún á að gera.

Grasrótin ræður stefnunni. Grasrótin eru flokksmeðlimir, grasrótin er þjóðin.

Þetta var minn fyrsti aðalfundur. Ég hef aldrei verið flokksbundinn, aldrei tekið þátt í stjórnmálum. Aldrei fundið flokk sem passaði við mig. Ég hefði ekki átt að vera þarna, því ég var erlendis. En ég keypti mér flugmiða til að geta verið á svæðinu og ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem fór í það.

Takk fyrir mig. Hlakka til að vinna með ykkur. Þið eruð æði. Öll. Hvert einasta. Þetta er ástarjátning, ef þið voruð ekki að fatta það.

Yarr…

One thought on “Hugleiðingar um aðalfund

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube