Browsed by
Month: maí 2006

Kvikmyndagerð II – Frumsýning og undirbúningur

Kvikmyndagerð II – Frumsýning og undirbúningur

Þetta var góður dagur. Fór í heimsókn til kunningja míns að sjá heimildamyndina hans frumsýnda í sjónvarpi. Ég var búinn að sjá hana á sérstöku „screener“ kvöldi þar sem ég hjálpaði aðeins til við gerð hennar. Við sátum þarna fjórir og horfðum á þetta. Gaman að sjá eigin verk sent út en maður finnur alltaf smá fiðring af og til. Þetta hefði mátt vera betra. Hljóðið þarna var ekki nógu gott. Innstungan á veggnum bak við viðmælandann er bjánaleg. Þetta eru þó sennilega hlutir sem aðrir sjá ekki.

Svo var rætt um framtíðina. Við verðum að vinna meira saman, setja kannski upp einhverskonar „collective“. Það er alltaf gott að deila hugmyndum. Svo á einn góða kvikmyndatökuvél, annar góðar klippigræjur, einn semur tónlist og allt það.

Annars er stuttmyndin það sem ég er mest að hugsa um þessa dagana. Tökur fara fram eftir þrjá manuði og ég þarf að finna aðalleikkonu. Þetta reddast allt saman. Nóg af valkostum ef ég bara byrja að leita.

Vinstri Grænir eru hlægilegir!

Vinstri Grænir eru hlægilegir!

Vistri (kommar) Grænir (hippar eða viðvaningar). Það er allavega það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þetta fyrirbæri í útlandinu fyrir mörgum árum. Ég hafði auðvitað rangt fyrir mér. Ég var hinn sauðsvarti almúgi sem búið var að heilaþvo. Það er nefnilega svo auðvelt að vinna stig með því að gera andstæðinginn hlægilegan. Á meðan andstæðingurinn er tréfaðmari (treehugger) og nýaldar skýjaglópur, getur maður sjálfur verið alvörugefinn og mark takandi á manni. Þetta er aldagömul aðferð og hún virkar enn.

 Þegar maður fer að sjá í gegn um spinnið koma skemmtilegustu hlutir í ljós. Auðvitað þurfum við virkjanir og álver! Ekki lifum við á grasi og fallegu útsýni! Það er eins og alvöru kommarnir, þeir sem vilja byggja upp iðnaðarsamfélag í anda Stalins og vina, séu á miðjunni og til hægri. Það skiptir ekki máli hvað verður um landið, svo lengi sem „við“ sjáum heilsusamlegt peningaflæði.

Ég sá nýlegt dæmi um hlátursmeðferð. Þ.e.a.s. gera einhvern svo fáránlegat og ótrúverðugan að fólk tekur hann ekki alvarlega. 11. september var mikill sorgardagur. Hvað gerðist í alvöru, enginn veit. Sagan eins og hún er sögð af Hvíta Húsinu gengur ekki upp. Það er svo margt sem stangast á við náttúrulögmál og annað að maður veit ekki hverju skal trúa. Samt er maður ekkert að tala um það opinberlega ef nafn manns er þekkt. Ástæðan er einföld. Maður verður tekinn í gegn og kjöldreginn. Sjáum til dæmis Charlie Sheen. Hann kom fram í sjónvarpi og krafðist þess að Washington kæmi út úr skápnum og segði söguna eins og hún hefði gerst. Hvað gerist? Viku seinna er hann sakaður um að hafa beitt fyrrverandi konuna ofbeldi. Tilviljun? Kannski, kannski ekki. Betra að gera hann hlægilegan en að svara spurningunni?

Svona er þetta með svo margt. Í stað þess að svara spurningunni er fólk gert ótrúverðugt meðan þeir sem vandamálið snýst um gerast alvöruþrungnir og „traustsins virði“.

 

Athugasemdir

Óskráður

9.5.2006 kl. 11:23

Mjög ánægður með greinina. Lítur á samfélagið frá öðrum sjónarhóli.

Er ég svona vitlaus?

Er ég svona vitlaus?

Ég skil ekki hvað er í gangi. Maður les fréttir um álver og flugvelli. Þetta er allt voða dýrt, kostar milljarða en er bráðnauðsynlegt. Annars förum við á hausinn. Herinn er að fara svo að við verðum að passa okkur. Annars förum við á hausinn.

 

Orðalag Moggans?

Orðalag Moggans?

Þetta er auðvitað ekkert til að gera grín að enda er það ekki ætlunin, en er ég sá eini sem finnst orðalag Moggans skrítið? Mín fyrstu viðbrögð voru „hvernig getur hann þá sagt frá?“

Sjá: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1199854

Voru Nasistarnir svo slæmir?

Voru Nasistarnir svo slæmir?

Ég held ég hafi móðgað Hollending í gær. Eins og alþjóð ekki veit er ég búsettur í Hollandi. Sumardagurinn fyrsti er því tilgangslaus og 17 júní er ekkert merkilegri en 16. eða 18. Aðfangadagur er meira að segja merkingarlaus. Fimmti maí er merkilegur, virðist allavega vera það við fyrstu sýn, þannig lagað, en þó ekki.

Holland var hernumið af Þjóðverjum sama dag og Ísland var hernumið af Bretum. Fimm árum seinna, þann fimmta maí 1945 var Holland frelsað af Bandamönnum. Það var auðvitað mikið um gleði og dýrðir. Frjáls þjóð í eigin landi. Skítt með það að drottningin væri gift nasistaforingja. Það eru smáatriði sem koma bláblóðungum ekki við.

Fimmti maí, frelsisdagurinn. Daginn áður eru fánar dregnir í hálfa stöng til að minnast fallinna hermanna. Þeir sem nenna fara í kirkju um kvöldið, aðrir fá sér bjór og horfa á sjónvarpið. Á frelsisdaginn eru fánar dregnir að húni til að halda upp á frelsið. Svo fær maður frí, fimmta hvert ár. Ekki veit ég af hverju það er ekki haldið upp á þetta árlega. Kannski af því að það skiptir svo sem engu máli? Það er sennilega ekki ástæðan. Kannski er þetta stríðshermir. Maður fær að finna innilokunarkendina með því að sitja inni á skrifstofu í steikjandi hita meðan sólin skín úti. Svo finnur maður frelsið eftir fimm ár eins og fólkið í stríðinu.

Kannski það, en svona virkar það ekki. Ég held ég hafi móðgað Hollending í gær. Hann spurði hvort við værum opin á Föstudag. Að sjálfsögðu, af hverju ætti að vera lokað? Frelsisdagurinn, sagði hann. Ef Hollendingar nenna akki að halda upp á hann geri ég það ekki heldur, sagði ég.

Góð taktík? Ég veit það ekki. Hann kom við í morgun en kollegi minn talaði við hann. Það var ekkert minnst á frelsisdaginn.

 

Athugasemdir

Óskráður

5.5.2006 kl. 14:13

Eg vill nu bara benda ter a ad heimsækja eithvad af fangabudunum ef tu er i einhverjum vafa um Hitler.

Villi Asgeirsson

5.5.2006 kl. 14:19

Ég er svo sannarlega ekki í vafa um hann. Eins og þú kannski last ekki var að suða yfir því að Hollendingum virðist vera sama. Fólk er ekkert að spá í svona hluti dags daglega enda ekkert hægt að ætlast til þess, en ef að búinn er til dagur til að minnast helfararinnar og hersetunnar er frekar þunnt að gera það á fimm ára fresti.

Nárapúkar

Nárapúkar

Álfakonungur leit um öxl. Það hefði kannski mátt reyna meira, en þetta var bara of mikið. Honum varð hugsað til Frakka sem ekkert gátu gert til að stöðva Blitzkrieg Adolfs um árið. Þeir höfðu reynt en það tafði hið óumflýjanlega bara um nokkra daga. Margir Frakkar dóu og allt sem þeir fengu í staðinn var kannski einnar viku frelsi. Nei, þetta stríð var tapað, en það þýðir auðvitað ekkert að álfur gefist upp. Ó nei, viva la restistance! Var það ekki það sem þeir sögðu alltaf? Hann var ekki viss. Það gat verið erfitt að ná í bækur mannanna og svona lagað fann maður aldrei í álfabókum.

Nú voru erfiðir tímar í nánd. Það átti að sökkva heilli borg! Það var ekki eins og þetta væri einhver vesæll álfhóll í nýju borgarhverfi sem börn voru að dunda sér við að grafa upp. Hann hafði svo sem nógu oft sagt á ráðstefnum að álfar ættu að koma sér frá borginni. Þetta var fyrirsjánlegt. Þeir álfar sem þrjóskuðust við og neituðu að fara lentu í vandræðum. Álfakonungur vissi betur, allavega hafði hann haldið það. Kannski var hann bara að verða of gamall.

Hann hafði séð borgina vaxa og ákvað að gera hið sama. Þetta var svo sem ekkert vitlaus hugmynd hjá mannfólkinu. Borg. Álfaborg! Þetta hafði aldrei verið reynt á Íslandi. Hundraðogfimmtíuþúsund álfar í einni borg. Hugsa sér allt það sem álfar gætu gert ef þeir ynnu saman á skipulagðan hátt. Eitt þurfti þó að komast á hreint áður en byrjað yrði að byggja. Staðsetning. Hann hafði staðið fast á sínu. Sem lengst frá mannabyggðum. Einn og einn álfhóll étinn upp af steinsteypu og malbiki var nógu slæmt. Álfaborgin skyldi fá að standa um aldir!

Álfakonungur leit um öxl. Það var betra en að horfa í augu álfanna sem gengu yfir heiðina með honum. Þau gengu þó allavega með honum.

Álfarnir höfðu gengið yfir fjöll og heiðar. Það var komið rökkur og tími til að búa sig fyrir nóttina. Álfakonungur opnaði skjóðuna varlega. Hann tók upp ljósmynd af gráu hlöðnu húsi með kopar níu á þakinu og hugsaði til nárapúkanna. Hann hafði sent þá beint í gin óvinarins. Þeir vissu jafn vel og hann að þeir kæmu kannski aldrei til baka, en þeir vissu hvað var í húfi. Enginn vildi sjá hina nýju, glæsilegu Álfaborg hverfa undir vatn. Nárapúkarnir voru tilbúnir til að fara og gera það sem þeir voru bestir í.

Mansal og fótbolti?

Mansal og fótbolti?

Vegna fréttar á MBL.is – http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1199566

Ég man eftir að hafa lesið frétt á netinu fyrir einhverju síðan sem sagði frá undirbúning HM í Þýskalandi. Mig minnir að þetta hafi verið Hollensk síða. Það þurfti að brugga milljón tonn af bjór, baka sex miljarða berlínarbolla, slátra fimmtán milljónum kúa og mala í bratwurst og flytja inn nokkra tugi þúsunda austur evrópskra kvenna. Málið var nefnilega að flestir fótboltaáhugamenn eru menn og þeir vilja fótbolta, bjór, pylsur og konur. Það er auðvitað hellingur af Rússneskum, Úkraínskum, Rúmenskum stelpum í vestur Evrópu seljandi sig en þetta er ekki nóg fyrir HM. Þjóðverjarnir voru víst smeykir við að ef menn gætu ekki losað um þrýstinginn brytust út allsherjar óeyrðir. Það yrði voðalegt að sjá allar þessar testosterone bombur ryðjast um götur ráðast á allt og alla. Þetta er sem sagt hið besta mál. Ríkið nær sér í tekjur því þetta verður auðvitað alls skattlagt og borgin verður ekki lögð í rúst þar sem allir ganga um með bros á vör. Perfect!

Það var eins og ungu konurnar (margar bara táningar) skiptu engu máli. Þetta var bara fín lausn og ekkert múður. Mansal er risavaxið vandamál í Evrópu. Ég bý rétt utan við Amsterdam, borgina þar sem þetta vandamál er mjög áberandi. Ég efast um að Amsterdam sé verri en hver önnur borg í vestur Evrópu, en Rauða Hverfið sér til þess að auðvelt er að sjá vændi. Maður gengur eftir strætunum, fram hjá rauðlýstum gluggum með fáklæddum dömum reynandi að ná athygli manns. Þetta eru oft gullfallegar stelpur. „Það væri fyndið að prófa þetta“ væri hægt að segja, en þá er maður bara að bæta á vandann því meðan þetta borgar sig heldur þetta áfram. Ég geri ráð fyrir að flestar stelpurnar, sem yfirleitt eru í kring um tvítugt, þó margar langt þar undir, séu ekki að þessu af því að þær hafi svo gaman af bólförum með sem flestum. Flestar hafa annað hvort tekið þetta sem eina kostinn í vonlausri lífsbaráttu eða hreinlega verið þvingaðar út í þetta. Spurningin er þá, er þetta nauðgun? Ef vændiskonan var þvinguð út í vændi, er viðskiptavinurinn þá nauðgari?

Þetta eru erfiðar spurningar og því meira sem maður skoðar þetta mál, því svartsýnni verður maður á að mannkynið spjari sig. Maður getur reynt að setja sig í spor ungrar stelpu frá ónefndu austantjaldslandi sem verður stödd í Þýskalandi í sumar. Hvað varð til þess að hún er komin hingað? Hvernig verður vinnan? Það verður örugglega nóg að gera í kring um HM. Hvernig kemur hún út úr því. Hvað svo, þegar flestir viðskipta“vinirnir“ eru farnir? Verður hún send til baka eins og bjórdós sem búið er að nota? Kannski endar fyrir henni eins og fjórtán ára stelpunni í Lilja 4-Ever. Kannski nær hún sér í nógu mikið af evrum til að setja á stofn lítið fyrirtæki ef skatturinn og dólgurinn tekur ekki meiripartinn.

Ég veit það ekki. Þetta er sennilega dekksta hlið HM. Það er auðvitað ekki gott þegar svona hlutir gerast undir yfirborðinu, en maður spyr sig hvað gerist þegar ríkið er farið að taka þátt í að flytja inn stelpur í stórum stíl til að pirra ekki fótboltaáhugamenn.

 

Athugasemdir

Jórunn Sigurbergsdóttir

4.5.2006 kl. 13:23

Þetta er sannarlega blettur á siðmenningu okkar.Já, lagast mannkynið nokkuntíman? Bestu kvðjur og takk fyrir að minnast á þessi mál. Jórunn

Óskráður

4.5.2006 kl. 18:11

Vændi er löglegt í Þýskalandi. Þetta er því viðurkennt atvinnustarfssemi. Nú vantar vinnuafl þar. Það er því engan vegin rangt að auglýsa laus störf í þessari atvinnustarfssemi í Þýskalandi.

Það er hinsvegar rangt að ræna fólki og þvinga það, hvort sem það eru kínverskir smiðir eða rúmenskar dansmeyjar.

Það að þykja kaup á kynlífi merki um slæmt siðferði er einungis arfur frá því tímum ofríkis kirkjunnar yfir lífi fólks.

Kv.
Kári

www.hugsjonir.is

Villi Asgeirsson

4.5.2006 kl. 18:32

Það er auðvitað ekkert að því að lögleiða vændi. Bannárin í Bandaríkjunum sýndu hvað gerist þegar „böl“ er bannað. Mafían stórgræddi og það tók 50 ár að koma á einhvers konar jafnvægi. Ef að kona vill stunda vændi er ekkert að því. Fólk á að ráða sér sjálft. Ef að auglýst er eftir starfskrafti og einhver ákveður að vinna sér inn aukapening, því ekki?Spurningin er bara, hvernig á að sjá muninn? Gefa út einhvers konar skírteini gæti verið hugmynd. „Þessi staður hefur verið skoðaður, er sjúkdómalaus og allir eru hér af frjálsum vilja“. Vandamálið er kannski akkúrat þetta kirkjutabú. Þetta er svo mikið feimnismál að fólk lítur í hina áttina og á meðan notfærir einhver skúrkur sér ástandið.

Óskráður

6.5.2006 kl. 22:03

kaup á kynlífi er merki um slæmt siðferði. Oftast er ekki um kynlíf að ræða fyrst og fremst heldur vald yfir annari manneskju og það er rangt að nýta sér betri fjárhagstöðu sína þannig. Fyrst að þetta er svona sjálfsagt að sumra mati af hverju er þetta þá svona mikið feimnismál og enginn stígur fram sem segist kaupa þetta?

Óskráður

6.5.2006 kl. 22:35

Vændi er nákvæmlega vottur um brenglað siðferði, tala nú ekki um þegar giftir menn stunda þetta. Þetta er ofbeldi, og oft á tíðum, er þjónustuaðilinn annaðhvort hreinlega þvingaður í þetta starf, hvort sem það er karl eða kona (oftast kornungt fólk), eða einhver neyð dregur það út í þessa hluti. Rannsóknir sýna einnig að stærstur hluti þeirra sem sjálfviljugir leiðast út í vændi, hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, eða á við verulega sálræn vandamál að stríða, og lang flest „vændisfólk“, er háð eiturlyfju, annað hvort fyrir vændið, eða leiddist jafnframt út í eiturlyf til að deyfa sársaukafullar tilfinngar. Það er ekki til neitt sem heitir hamingjusöm hóra. Í mínum augum er sá sem nýtir sér vændisþjónustu að beita kynferðislegu ofbeldi, og ´það segi ég, heiðinginn sjálfur.

Kvikmyndagerð

Kvikmyndagerð

Það held ég. Bloggið rétt farið af stað og varla kominn tími til að fylgja fyrsta masterpísinu eftir. Að skrifa blogg um blogg er varla eitthvað sem gerir mikla lukku. Það er kannski kominn tími til að koma sér að efninu.

Þannig vill til að ég er að undirbúa tökur stuttrar kvikmyndar. Hún verður tekin upp seint í sumar. Handritið komið á hreint (þannig lagað) og lykilstöður að fyllast. Merkilegt hvað kvikmyndagerð er mikið púl. Það þarf að plana allt. Maður þarf að fyrirsjá 150% vandamála sem kunna að koma upp og vera tilbúinn að takast á við tvöfalt það. Svo eru það fjármálin. Ég nenni nú ekki einu
sinni að tala um það núna. Kemur seinna.

Kemur seinna er sennilega lykilorðið hér. Ég setti þennan blogg upp til að tala um kvikmyndir og gerð þess konar fyrirbæra. Undirbúningur myndatöku getur
verið þreytandi, pirrandi, stressandi, en það er líka voða gaman af þessu. Ég er að spá í að láta vita hér hvernig máling ganga, hvernig þetta þróast.

Spurningin er, verður eitthvað vit í þessari mynd? Við sjáum til.

Verði blogg…

Verði blogg…

 

Blogg eru trikkí. Anne Frank skrifaði dagbók. Hún hefði auðvitað haldið úti
bloggi, hefðu Germanirnir ekki verið á hælum hennar. En hvað með alla
hina? Ég man að ég reyndi þetta dagbókardæmi einhvern tíma. Þetta gekk
vel í nokkra daga en svo datt þetta upp fyrir. Ef ég finn þessa bók get
ég lesið um stigin sem ég fékk í keilu og hvað ég át á vormánuðum 1990.
Stórmerkilegt, án efa.

Nú er spurningin bara, er bloggið eitthvað skárra? Mun ég meika meira sens? Mun ég halda þetta út lengur en í viku? Hef ég eitthvað meira spennindi að segja en fyrir 16 árum? Kemur einhver til með að lesa þetta og skiptir það yfir höfuð eihverju máli?

Við reynum þetta.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube