Browsed by
Category: Fjölskylda

Leica, leynibloggið og einsemdin

Leica, leynibloggið og einsemdin

Þegar ég ákvað að fara í framboð, ákvað ég líka að búa til einkablogg. Leyniskrif sem enginn má sjá. Mínar einkahugsanir sem eiga ekki endilega heima í opinberri umræðu. Þetta er ekkert stórmerkilegt, engar samsæriskenningar, níð eða tuð. Þetta er meira persónulegar hugleiðingar um framboðið og framtíðina. Dagbók sem ég get lesið seinna, eftir kosningar, þegar þessum kafla lífsins er lokið. Þetta er svo saklaust að ég gæti hugsanlega gefið það út í bókarformi. Hver veit? Til að gefa hugmynd um losandaháttinn og blaðrið, datt mér í hug að deila færslu dagsins í dag.

MatsÍ dag er þrettándi júlí og mér líður betur. Er farinn að sætta mig við ákvörðunina um að bjóða mig fram. Mér fannst ég vera að skíta mig út, að stíga ofan í drullupoll þegar ég bauð mig fram í stjórnmálastarf, en það þarf svo sem ekkert að vera þannig.

Í gær var grein á netmiðlunum þar sem talað var um að mikil barátta væri framundan í prófkjörum Pírata. Drulluslagur eða eitthvað. Mitt komment á það var; Ég veit ekki með Reykjavíkina en ég ætla allavega að vera til friðs í suðurpottinum. Er ekki að standa í þessu til að kúka á fólk.

Og þannig er það. Þetta þarf ekki að vera drulluslagur. Ég fór í þetta af því ég er með hugsjónir, ekki til að fá þægilega innivinnu. Ég vil búa í réttlátu samfélagi sem allir geta blómstrað í.

Ég sagði Hildi að ég myndi taka íbúðina. Spáði í miða um borð í Norrönu fyrir mig og bílinn. Miriam er sátt við þetta. Og lífið er ekkert ef maður hoppar ekki út fyrir þægindarammann af og til.

Annars var ég að horfa á Leica unboxing video. Einhver myndavél sem hoppar og hóar yfir því að 60 ár séu liðin frá því að Leica M3 kom á markaðinn. Og það minnti mig á bókina sem ég þarf að klára. Blood and rain, þar sem Gunnar fer til Barcelona í miðju borgarastríði og finnur út að það er meira en að segja það að vera heimsfrægur blaðamaður. Lesandinn mun, þegar þar að kemur, komast að því hvort Gunnari tekst að verða heimsfrægur blaðamaður, eða hvort hann klúðri öllu. Stríð á það nefninlega til að breyta áætlunum fólks. Þarf sennilega ekki stríð til. Leica spilar töluvert stórt hlutverk í bókinni. Leica IIIc, svo maður nördist.

Myndbandið minnti mig líka á fallegu Fujifilm myndavélina sem ég keypti af því ég var orðinn leiður á stærð og þyngd Canon vélanna. Og Fujifilm er Leica 21. aldarinnar.

En hvað um það. Þetta verður allt í lagi. Ég fer í framboð. Annað hvort kemst ég í baráttusæti, eða ég mun taka þátt í grasrótarstarfinu. Og taka myndir af ferlinu. Búa til heimild um framboð og aðdraganda kosninga.

Seinna í dag fer ég að leika mér með flugvélar, vinna við að búa til loadsheets og þannig. Og Mats kemur heim úr skólanum eftir rúman klukkutíma og honum þarf að sinna. Sem er auðvitað bara gaman, enda er hann svo mikið krútt. Ég á eftir að sakna hans óendanlega í vetur. Það er þó tímabundin fórn. Vonandi virkar þetta allt og þegar við erum búin að byggja draumahúsið á suðurlandinu, verður þetta brölt þess virði.

Í kvöld er svo fundur fyrir frambjóðendur, sem ég get ekki mætt á.

Næstu sex mánuðir eða svo verða spennandi.

Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Fyrir 23 árum steig ég upp í flugvél og hvarf á braut ævintýranna. Bláeygði íslendingurinn fór til London í nám. Ég lærði hratt. Ekki bara námsefnið, heldur um lífið. Ég skildi óttann við hin óþekkta eftir einhvers staðar á leiðinni. Heimsborgin, þar sem ég þekkti engan, var allt annar heimur en tiltölulega litla borgin við íshafið, þar sem fjölskyldan og vinirnir bjuggu. Ég steig inn í annan heim allt breyttist. Fjórum árum síðar var ég fluttur til Hollands, þar sem ég bý enn.

Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi spurt hvað þessi hálf-útlenski flóttamaður sé að tjá sig um málefni á Íslandi? Hvað kemur honum við hvar er virkjað, hver vaxtaprósenta á húsnæðislánum er, hver lágmarkslaun eru, hver er í ríkisstjórn og hver situr á Bessastöðum? Maðurinn hefur ekki búið á landinu í aldarfjórðung og honum kemur þetta ekkert við.

Það er gamall sannleikur að íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim. Sumir koma fyrir lokin, aðrir ekki. En allir eru þeir á leiðinni heim, með hugann heima eða með rætur á Íslandi. Landið okkar, móðurjörðin, föðurlandið, sleppir aldrei alveg takinu. Rétti tíminn til heimferðar hefur þó ekki komið enn. Mér líkaði aldrei byggingakranaæðið fyrir hrun, þótt ég hafi komið heim og gert alíslenska kvikmynd á þessum árum. Þegar ég skrifaði mína fyrstu skáldsögu, gerðist hún á Íslandi. Hrunið skapaði tækifæri til að hugsa smafélagið upp á nýtt og þó mig hafi langað að koma heim og taka þátt í því, var lífið ekki á því að leyfa mér það á þeim tímapunkti. Ég var með barn sem þjáðist af athyglisbresti, konan í góðri vinnu, ég í fastri vinnu. Tíminn var ekki kominn.

Það er samt pínulítið þannig að tíminn kemur aldrei. Tækifærin hoppa ekki í fangið á manni. Það er enginn leiðarvísir, ekkert kort.

Þegar ég skrifa þetta, á miðvikudagsmorgni, er ég að bíða eftir flugvél sem mun bera mig heim. Hún er sein, tafirnar um tvær klukkustundir. Hefur eitthvað með verkföll á Íslandi að gera. Því allt er enn ekki orðið gott þar. En hvað um það, ég bíð þolinmóður.

Píratahönd
Píratahönd

Ég er ekki að koma til að heimsækja fjölskylduna. Afarnir og ömmurnar eru flest farin. Það er tómlegt á Íslandi. Nei, ég er að fara í flug til að geta tekið þátt í aðalfundi Pírata um helgina. Þar sé ég von um betri framtíð, tækifærið til að koma heim.

Við vorum í sumarfríi á Íslandi fyrir þremur árum. Strákurinn var að leika sér með risastóra taflmenn í Fossatúni í Borgarfirði á sólríku sumarkvöldi þegar konan sagði það. „Eigum við að flytja til Íslands?“ Ef ekki hefði verið fyrir góða tannlæknaþjónustu í Hollandi, hefði ég verið kominn með falskar og ég er viss um að ég hefði misst þær út úr mér. Svo hissa var ég. Ég hef búið í þremur löndum og gæti flutt til Buthan ef þannig bæri undir, en hún er ekki fyrir að umturna öllu. Þetta kom því á óvart.

Við fórum að skoða möguleikana. Suðurlandið, Selfoss, heimaslóðir afa og ömmu, þótt þau séu farin. Við fundum lóðir, ég hannaði hús, en eitthvað hélt í okkur. Var það verðtryggingin? Augljós spillinginn sem vall út um öll göt í samfélaginu? Það var eitthvað, svo nú, þremur árum seinna, erum við enn í Hollandi. Okkur langar, en þorum við? Okkur líður ágætlega í Hollandi, hér eru vextir lágir, verðlag stöðugt, við erum bæði í vinnu, strákurinn í góðum skóla. Það er miklu að tapa, en hver er ávinningurinn við að flytja heim?

Fjölskyldan spilar stórt hlutverk. Þótt afarnir og ömmurnar séu flest farin, eigum við aðra ættingja, vini og allskonar fólk sem okkur er kært um. Landið er fallegt, loftið er hreint, maturinn er hollur, fólkið er skemmtilegt. Ísland er land mitt og mér kemur það við, langar að koma heim. En það er ennþá verðtrygging, spilling, möppudýrahelvíti.

En það þarf ekkert að vera þannig. Ég hef fylgst með Pírötum síðan þeir hófu sín störf, hef verið meðlimur lengst af og hef tekið þátt í málefnastarfi og umræðum, eins mikið og hægt er á netinu. Píratar vilja tryggja að allar auðlindir verði alltaf í almenningseigu, að rétt verð fáist fyrir nýtingu þeirra, að heilbrigðiskerfið verði endurbyggt, að gamla fólkið geti lifað af laununum sínum, að allir hafi sömu tækifæri, að verðtrygging og vaxtaokur hverfi, að náttúruperlur verði friðaðar. Píratar eru ljós í myrkrinu. Hrunið var eins og heimatilbúinn ísjaki sem fæstir sáu, hann gerði sitt með skarkala og látum. Skipið sökk næstum því, en það náðist að halda flakinu á floti og nú siglir það aftur með reisn. Ekki af því það var lagað, heldur vegna þess að nú er holskefla í ferðamannaiðnaðinum. Við eigum ennþá eftir að laga skipið svo að siglingin verði ánægjuleg fyrir alla og svo það standi af sér storma framtíðarinnar. Píratar hafa sýn og þeim er ekki sama um landið og fólkið sem í því býr.

Ísland getur verið fyrirmyndarsamfélag ef okkur langar til að gera það þannig. Framtíðin er óskrifað blað og það er undir okkur komið hvert við viljum fara. Óttinn er versti óvinurinn, hæsti þröskuldurinn. Hendum honum út í hafsauga og sköpum samfélagið sem við eigum skilið.

Þess vegna sit ég hér og bíð eftir flugvélinni. Það er von, það er komin sýn á betri framtíð og mig langar til að taka átt í að skapa hana.

Sjáumst um helgina.

Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Að gera ömmu skil í stuttri grein er ómögulegt. Á langri ævi tók hún sér svo margt fyrir hendur, að bók myndi rétt ná að klóra í yfirborðið.

Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013
Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013

Hún saumaði flíkur, húfur og búninga, sá um stórt heimili, skrifaði sögur, gaf út bækur, málaði og fleira. Hún var líka fantagóður ljósmyndari. Hún notaði Konica vélina sína og linsusafnið til að taka myndir af fjölskyldunni, gerði listrænar tilraunir á okkur krökkunum, fangaði landslagið og dýrin í sveitinni. Það sem var kannski merkilegast fyrir barnið, var að sjá myndirnar hennar í Mogganum, á forsíðu Lesbókarinnar. Amma var frægur ljósmyndari. Þannig virkaði það allavega í heimi barnsins. En hún varð aldrei frægur ljósmyndari, listamaður eða rithöfundur. Hún var svo hæfileikarík á svo mörgum sviðum að hún festist aldrei í einhverju einu. Þegar hún hafði sannað fyrir sjálfri sér að hún væri nógu góð fyrir Lesbókina, fór hún að gera eitthvað annað.

En allt sem hún gerði, gerði hún vel.

Fyrir nokkru síðan, lét hún mig hafa gömlu myndavélina og töskuna með linsunum. Hún var farin að sjá illa og enginn notaði myndavélar sem notuðu filmur. Safnið hennar var verðlaust, ónýtt. En með nýrri tækni, gat ég sett gömlu linsurnar á nýju myndavélina mína og tekið myndir gegnum glerið sem fangaði okkur krakkana fyrir 40 árum. Amma hafði brennandi áhuga á þessu, skoðaði og var með á nótunum. Eins og alltaf. Því þótt líkaminn væri farinn að eldast, var hugurinn enn í fullkomnu lagi. Hún varð aldrei gömul í anda. Hún varð himinlifandi þegar hún fékk nýja tölvu í afmælisgjöf fyrir þremur árum. Hún setti saman bækur um fjölskylduna. Hún fór líka að setja sögurnar sínar á bók. Hún var í sambandi við fjölskylduna í fjarlægum löndum. Tölvan var notuð til hins ýtrasta.

Þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið, var amma mikið veik. Hún gat varla setið upprétt, gat illa tjáð sig. En hversu veikburða sem manneskjan í rúminu var, skein persónuleikinn í gegn. Amma var ennþá jafn sterk og hún hafði alltaf verið, reisnin var sú sama. Daginn áður en hún fór, sat hún í eldhúsinu og fékk sér kaffi með kringlu. Ég man ekki eftir henni öðruvísi en með kaffi og kringlu og það var ómetanleg gjöf að geta hjálpað henni að njóta síðasta dagsins eins og hægt var, eins og hún helst vildi.

Það er auðvelt að búa til mynd af stórkostlegri manneskju með því að telja upp það sem hún hefur afrekað á ævinni. En það sem mestu máli skiptir eru minningarnar sem hún skilur eftir sig, hvernig hún mótaði afkomendurna og gerði okkur að heilstæðum einstaklingum. Hún tók sér margt fyrir hendur, en hennar meistaraverk var fjölskyldan. Hún ól upp fimm börn og var svo mikið meira en bara móðir. Hún var líka mikið meira en amma fyrir okkur, barnabörnin. Hún var akkerið, kletturinn, grunnurinn. Nú þurfum við að fara að sjá um okkur sjálf. Nýta það sem hún gaf okkur.

Villi, Miriam og Mats

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Hvað má barnið mitt heita?

Hvað má barnið mitt heita?

Ég er íslendingur, heiti íslensku nafni og á íslenskt vegabréf þótt ég hafi búið erlendis í yfir tvo áratugi. Eins og gengur, hafði ég það af að fjölga mér. Sonurinn kom í heiminn árið 2007. Hann fæddist í Amsterdam og er því sjálfkrafa hollenskur ríkisborgari. Ég reddaði þó íslenskum ríkisborgararétti þegar við komum með hann til Íslands, sumarið 2007.

MatsÞað snúnasta við að eignast barnið í útlandinu var nafnið. Við þurftum að berjast fyrir því, ég og ófríska mamman, að ég gæti gengist við kiðinu. Það var næstum ómögulegt. Hljómar fáránlega, en af því ég er ekki með ættarnafn, gat ég ekki gefið honum ættarnafn og gat því ekki verið faðir barnsins. Íslensk föðurnöfn eru ekki ættarnöfn og því geta börnin ekki tekið þau upp. Föðurnafn var ómöguleiki, því þau eru ekki viðurkennd í Hollandi. Maðurinn á sýslumannsskrifstofunni svaraði því játandi þegar ég spurði hvort barnið yrði föðurlaust í opinberum skjölum.

Málið endaði þannig að Þjóðskrá þurfti að senda bréf, þar sem kom fram að Ásgeirsson, þótt það sé ekki eiginlegt ættarnafn, virki á sama hátt. Þjóðskrá staðfesti að þau senda svona bréf daglega, því íslendingar um allan heim eru að lenda í þessu.

Málið var leyst. Barnið fæddist og ég fékk að gangast við því. Nafnið var þó ekki samkvæmt íslenskri hefð.

Mats Kilian Ásgeirsson.

Hann tók upp föðurnafnið mitt. Málið er þó ekki alveg búið.

Flugmaðurinn MatsEf við flytjum einhverntíma heim, vill Þjóðskrá að við breytum eftirnafninu í Vilhjálmsson. Við þurfum þess ekki, en þau „myndu meta það“. Ef við breytum nafninu ekki, mun eftirnafn hans barna ráðast af því hvar þau fæðast. Ef hann eignast barn á Íslandi, verður það Matsson eða Matsdóttir, því Ásgeirsson er ekki ættarnafn. Ef hann eignast barn erlendis, mun það heita Ásgeirsson, því það er hans eftirnafn.

Svo er það millinafnið. Kilian er ekki viðurkennt á Íslandi. Kiljan og Kilían eru viðurkennd, en ekki Kilian. Verður það vesen? Þurfum við að fara í mál ef við flytjum heim? Þurfum við að berjast fyrir því að barnið fái að halda nafninu sínu? Ég er ekki viss, og þessi óvissa er rugl. Það er fáránlegt að einhver nefnd á Íslandi geti tekið fram fyrir hendur foreldra og ákveðið að eitthvað nafn, eða stafsetning á nafni, sé þóknanlegt, en annað ekki.

Mér finnst að leggja eigi Mannanafnanefnd niður. Ríkinu kemur ekkert við hvað börnin heita. Einu skiptin sem yfirvöld eiga að skipta sér af nöfnum er ef foreldrar velja virkilega furðuleg nöfn. Ég get ímyndað mér að það sé ekki gaman að vera sex ára og heita Grýla, Leppalúði eða Satan. En það eru þá mannréttindamál og Barnaverndarnefnd getur séð um þau mál.

Þegar fullorðinn og sjálfráða maður, eins og Jón Gnarr, breytir um nafn, kemur það engum við nema honum sjálfum.

Það má búast við að samsetning íslensku þjóðarinnar muni breytast á komandi árum. Áður fyrr þurftu innflytjendur að skipta um nafn. Sonur George Harrison á víst íslenska kærustu. Segjum að hann flytji til Íslands. Áður fyrr hefði hann þurft að breyta nafninu úr Danii Harrison í Daníel Géorgsson, eða eitthvað álíka.

Sem betur fer erum við hætt þeim skrípaleik (og persónuránum). En stríðið er ekki unnið. Ekki fyrr en ríkið hættir að skipta sér að því hvað fólk vill kalla sig.

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Þetta er amma mín, yndislegust. Það er henni að þakka að bernskuminningarnar á Bitru munu lifa lengur en við öll. Hún notaði Konica Autoflex T-4 myndavélina sína mikið í u.þ.b. tíu ár. Mig minnir að vélin hafi verið keypt 1976 eða 1977. Ammabjó  til margar gersemar. Sumar myndirnar voru svo vel heppnaðar að þær birtust í Lesbók Moggans. Hestarnir og krakkarnir á Birtu fylltu heilu síðurnar.

Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7 2014-07-27 at 18-11-51
Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7
2014-07-27 at 18-11-51

Augun virka ekki eins vel og þau gerðu. Það er synd, því amma er eins skörp og alltaf. Hún hefur ekki notað Konica vélina í mörg ár og er löngu búin að færa sig yfir til Canon, svo hún lét mig hafa gamla linsusafnið sitt fyrir einhverju síðan. Ég var orðinn þreyttur á stærð og þyngd speglavélanna frá Canon, svo þegar ég sá að einfalt var að nota gömlu linsurnar á speglalausu vélum nútímans, hoppaði ég yfir til Fujifilm.

Fujifilm X-E2 er nútíma vél. X-Trans sensorinn gefur skarpari og litameiri myndir en Canon vélin getur. €8 millistykkið sem ég keypti á eBay sameinar nútímatækni og sálina sem sést í ljósmyndum sem teknar voru fyrir tíma stafrænu tækninnar.

Vorið er komið. Allavega á meginlandi Evrópu. Það verður gaman að prófa allar linsurnar á komandi vikum og mánuðum.

Amma, takk fyrir allt. Ekki síst fyrir að hafa kynnt mig fyrir ljósmyndun fyrir löngu síðan.

Þetta fann í töskunni:
Tamron 28mm f2.8
Tamron 35-80mm f2.8-3.5 Macro
Konica Hexanon 50mm f1.7 (used for the attached photo)
Tamron 85-210mm f4.5 Macro
Konica Hexanon 135mm f3.2
2x tele converter, various extension tubes etc.

Rætur

Rætur

Það getur verið auðvelt að týna rótunum, sérstaklega þegar maður býr erlendis. Raddir forfeðranna eru eins og veikt bergmál á meðan fréttir af stríðsátökum og slæmum efnahag yfirgnæfa allt. Við höfum svo mikið að gera, við erum svo upptekin við að lifa mánuðinn af að allt annað gleymist.

Ég var að leita af skjali í tölvunni. Nú þegar fyrsta skáldsagan mín er svo gott sem tilbúin, vildi ég kíkja á gamla hugmynd sem ég var að leika mér með fyrir nokkrum árum. Ég veit að sú saga er ekki upp á marga fiska, en ef ég man rétt eru einhverjir punktar í henni sem hægt er að vinna úr og gera skemmtilega. Skjalið fann ég ekki. Hef sennilega sett það á einhvern af mínum fimm þúsund flökkurum, en ég rakst á eitthvað annað og enn áhugaverðara.

Afi skrifaði bréf til frænda síns fyrir tíu árum síðan. Þar talar hann um langafa sinn, Markús Jónsson frá Meðallandi. Samkvæmt Sigurbirni biskupi á sá aldrei að hafa blótað, en notaði frekar því litríkara mál. Hér er dæmi um það. Hann hafði farið í heimsókn til dóttur sinnar (langömmu minnar) og tengdasonar. Spurður um aðkomuna, hafði hann þetta að segja:

Konan: “Hvernig lýst þér nú á þennan flutning þeirra þarna úteftir?”
Markús: “Það er nú eins og þú , blessaður auminginn þinn (ath. gæluorð í Meðallandi) værir dregin á hárinu norður fyrir fjöll, já, norður fyrir öll Einhyrningsfjöll og sæir þar aungva kvika skepnu nema nokkra kjóa, og þá alla vælandi.”
Konan: “Já er það svo, varla er það gott. En hvernig eru nú húsin þarna í Neðridal?”
Markús: “Nú, það er nú eins og þú færir hérna austur í mýri og fynndir þar aumustu hundaþúfuna, holaðir hana innan og færir að búa þar, svo kæmi allt hundastóðið í sveitinni og migi á þúfuna og það læki allt inn.”

Bréfið hans afa er langt og hann hálfpartinn biðst afsökunar á því. Mín vegna hefði það þó mátt vera tíu sinnum lengra, því það gefur fólki sem lifir rúmum 100 árum seinna skemmtilega sýn inn í heim íslendinga í lok nítjándu aldar. Án heimilda eins og bréfsins, væri Markús og hans samferðarfólk sennilega mikið til gleymt.

Ég sé oft eftir að hafa ekki hlustað betur á langafa þegar hann sagði sögur af skipum sem strönduðu og mannlífinu í upphafi tuttugustu aldar. Ég hef oft sparkað í sjálfan mig fyrir að hafa ekki eytt meiri tíma með afa á meðan ég hafði tækifæri til. Ég hugsa stundum til nafna míns á Hnausum sem enn er á lífi, og sagnanna sem hann einn þekkir og getur enn sagt. Ég veit að við erum að falla á tíma. Veit að ég ætti að pakka saman og fara heim. Eyða nokkrum vikum með honum og skrá sögur sveitarinnar okkar.

En skyldan kallar. Ég þarf að fara að elda. Vinna snemma í fyrramálið. Á eiginlega að vera að klippa mynd. Ég hef ekki tíma til að bjarga því sem bjargað verður.

Katla

Katla

Við erum svo mikið að flýta okkur. Það er svo mikið að gera. Það er líka svo gott að hafa mikið að gera því þá líður tíminn svo hratt. Eins og við séum endalaust að vonast til að komast á leiðarenda. Við steingleymum að njóta augnabliksins. Við gleymum að vera í sambandi við fólkið sem okkur þykir vænt um. Við erum svo upptekin af því sem litlu máli skiptir.

Katla Margrét Ólafsdóttir, litla systir hennar ömmu. Fædd 7. ágúst 1936. Dáin… Það er svo skrítið að tala um fólk sem hefur alltaf verið til staðar, í þátíð. Við hittumst lítið síðustu árin. Ég auðvitað alltaf í útlandinu. Við fengum þó sem betur fer að kveðjast þegar ég var á landinu í janúar. Það var falleg, en óhugnanleg stund. Við vissum bæði að þetta væri síðasta kveðjustundin. Við héldumst í hendur í heila eilífð því við vissum að þegar við slepptum yrði það í síðasta skipti sem við snertumst.

Kona sem ég þekki ekki var í heimsókn. Spurði hver ég væri. Katla kynnti mig og sagðist oft hafa passað mig þegar ég var krakki. Þrátt fyrir að við höfum lítið sést síðustu árin, sá ég væntumþykjuna þegar hún sagði þetta. Eins og hún væri stolt af því að segja frá því hvernig við værum tengd. Mér fannst ég vera svo lítill í hennar lífi, að ég væri einhver aukapersóna, en það var ljóst að svo var ekki. Við getum átt það til að vanmeta tilfinningarnar sem fólk ber til okkar. Kannski er það bara ég.

Ég man eftir skrifstofu í kjallaranum í Kópavoginum þar sem hún bjó með Ásta. Ég fór alltaf þangað niður, því þar var alltaf fullt af pappírsflugvélum frá Flugbjörgunarsveitunum. Ég setti þær saman og lék mér með þær. Ég man eftir myndavélinni sem Ásti átti. Hún var eins og allar hinar, nema að hún spýtti tilbúnum myndum út. Svo voru þau alltaf á hvítum Bens með skrítnum rúðuþurrkum. Barnið hefur lítið vit á bílum, en þessi var spes. Lærði seinna að þetta var S-týpan frá því um 1965-70, eða þar um bil. Ég á svo margar minningar tengdar Kötlu og Ásta, allar góðar. Ég vildi óska þess að ég gæti kvatt hana í hinsta sinn á næstu dögum, en ég á augnablikið í janúar.

Katla mín, hvíl í friði. Þú varst mér meira en ég nokkurn tíma náði að sýna þér.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube