Browsed by
Month: júní 2016

Stjórnmálin og óbragðið

Stjórnmálin og óbragðið

Fyrr í dag tók ég endanlega ákvörðun um að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í Suður-kjördæmi. Þetta var erfið ákvörðun, því hún þýðir að nú þarf ég að fara að drattast heim. Hef verið að spá í það í nokkur ár, en nú get ég ekki dregið það lengur.

Þetta var erfið ákvörðun, því ég þarf að segja upp í vinnunni, skilja fjölskylduna eftir í Hollandi í nokkra mánuði á meðan ég kem mér fyrir á Íslandi. Þau fylgja svo í vor þegar ég er kominn með vinnu. Hver sem sú vinna verður.

Píratar
Píratar

En það er annað. Þetta var rosalega erfið ákvörðun, því stjórnmál eru skítug. Orðið er skítugt. Mér leið eins og ég væri skítugur þegar ég sendi fólki boð um að læka fésbókarsíðuna sem ég setti upp fyrir framboðið. Því stjórnmál eru samnefnari fyrir sjálfsdýrkun, framapot og vasafyllingar.

Ég veit að nú þarf ég að fara að tala um mig. Það er ekkert sem ég er sérstaklega spenntur fyrir. Ég hef meira gaman af því að tala um hugmyndir, lausnir og þannig lagað. Ég mun þurfa að segja hvaða menntun ég er með, hvað ég hef unnið við, hvað ég sé klár í þessu og hinu og baða mig í ljósi einhverrar sjálfsdýrkunnar. Ég þarf að fara að selja mig.

Það er allavega líklegt að sú leið sé best ef mig langar að vinna þetta kapphlaup.

Málið er bara að ég sé þetta ekki sem kapphlaup. Ég vil betra samfélag. Ég þarf ekkert endilega að ráða. Þetta snýst ekki um mig. Ég skil af hverju fólk treystir ekki stjórnmálamönnum. Ég geri það ekki sjálfur. Mér fannst ég vera að kúka á prófíla fólks með því að benda því á þetta framboð mitt.

En málið er að ég vil koma heim. Ég vil búa í fallegu landi, í samfélagi sem er gott fyrir alla. Hingað til hefur engum tekist að búa það til. Það hafa ekki margir reynt.

Það er kannski kominn tími á að taka skítinn úr stjórnmálunum.

Hér er þessi blessaða framboðssíða. Sjáum hvernig þetta fer.

Og hér er hægt að skrá sig í Pírata. Um að gera að hafa áhrif.

Love to ye all.

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

Það er kominn 17. júní.

Þjóðhátíðardagur íslendinga. Afmælisdagur Jóns Sigurðssonar forseta. Það er sennilega rigning og við stöndum sennilega brosandi með gegnblauta pappírsfána á Lækjartorgi eftir vel heppnaða skrúðgöngu.

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Loksins, eftir 700 ár sem nýlenda, urðum við sjálfstæð. Sumir vilja halda því fram að tilraunin Lýðveldið Ísland hafi mistekist. Hér er verðtrygging, ofurvextir, hér varð hrun á meðan nágrannalöndin lentu í einhverjum tímabundnum samdrætti. Við rífumst um hvort við eigum að láta túrista traðka náttúrurperlurnar í svaðið eða hvort betra sé að virkja þær. Við stofnum þjóðernisflokka og gleymum bókmenntunum okkar. Ef einhver minnist á Evrópu, hefst nett trúarbragðastríð.

En við erum sjálfstæð og við höfum áorkað mörgu. Bókmenntirnar okkar, Snorri og Halldór, fótboltinn er að gera sig, tónlistin. Þegar við gerum okkar besta, erum við góð. Virkilega góð.

Börn á Íslandi (VGA 2013)
Börn á Íslandi (VGA 2013)

Við erum sjálfstæð þjóð og höfum verið það í 72 ár. Það eru 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988. Það er ekkert rosalega langt síðan. Duran Duran voru búnir að vera, Reagan og Gorbachev voru komnir og farnir, Með allt á hreinu var orðin sex ára og Ísbjarnarblúsinn átta. Það er ekkert rosalega langt síðan 1988 kom og fór. Það er ekkert rosalega langt í hundrað ára afmælið.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu. Trúið mér, maður verður tæplega fimmtugur á korteri.

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. 1988 virkar eins og fornöld ef maður horfir á bíómyndir frá þessum tíma, en við erum enn að berjast við sömu púkana. Við erum ennþá í skotgrafarhernaði. Við förum enn í Ríkið. Lánin okkar eru ennþá verðtryggð. Davíð Oddson er ennþá relevant. Þannig lagað.

Hvernig verður framtíðin? Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er, mikið til, okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins. Við förum þangað saman og við höfum áhrif á hvort annað. Við erum öll við stýrið og höfum öll einhver áhrif, þótt þau séu mismikil.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja hér fyrir neðan. Þeim má líka svara í huganum. Það skiptir ekki máli, á meðan við hugsum málið og erum meðvituð um að afstaða okkar mun hafa áhrif. Maður breytir nefninlega heiminum með því að breyta sjálfum sér fyrst.

• Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
• Hvað getum við gert til að komast þangað?

Hugsum um þetta. Spáum í hvar við viljum vera á aldarafmælinu og förum að vinna í að komast þangað.

Hugleiðingar um aðalfund

Hugleiðingar um aðalfund

Helgin var spes. Ég mætti á aðalfund Pírata í Rúgbrauðsgerðinni. Man ekki eftir að húsið hafi verið notað í annað en pólitíska fundi, veit ekki til að þar hafi rúgbrauð verið bakað í langan tíma, en það er önnur saga.

En allavega, ég var á aðalfundi stjórnmálaflokks. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég tek þátt í þannig gjörningi. Ég hef engan sérstakan áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Ég vil helst láta aðra um það. Vandamálið við samfélagið eins og það er, er að þessir aðrir eru ekki að vinna í mína þágu. Þeir eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru að vinna fyrir sig og sína, svo ég hef ekkert val. Það er verið að ræna okkur um miðjan dag, og á nóttunni líka. Ég er ekki ópólitískur, ég hef skoðanir og réttlætiskennd og það er skylda mín að taka þátt í stjórnmálum núna svo ég geti hjálpað til við að laga samfélagið svo ég þurfi ekki að taka þátt í stjórnmálum seinna.

Þegar samfélagið er komið í þokkalegt lag, get ég farið að gera eitthvað skemmtilegra en að tuða um lagasetningar og reglur. En þangað til, hef ég ekkert val.

Þess vegna mætti ég á aðalfundinn.

Píratar
Píratar

Það sem kom mér sennilega mest á óvart um helgina var jákvæðnin. Það voru allir í góðu skapi, andinn var léttur, allir virtust njóta þess að vera þarna. Ég fann ekki fyrir neikvæðni, togstreytu, framapoti. Stjórnmálin og samfélagið eru kannski í klessu, en það var ekki uppgjöf eða pirringur í gangi á aðalfundi Pírata. Það sem dreif vélina var skilningurinn á því að það er mikið verk að vinna, og viljinn til að vinna það verk. Samfélagið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er kerfi sem hannað er af fólki, fyrir fólk. Ef kerfið er gallað, getur fólk lagað það. Og við ætlum að laga það. Við ætlum að gera það betra, réttlátara, skilvirkara og jákvæðara.

Við ætlum að skríða upp úr skotgröfunum og planta blómum.

Væmið, en það skiptir engu máli. Þetta var myndmál. Raunveruleikinn er að Rúgbrauðsgerðin var stútfull af drullukláru fólki sem vill breyta heiminum. Vill skapa samfélag sem við getum öll lifað í og verið stolt af. Samfélagi sem er gott fyrir alla, hvort sem það eru öryrkjar, verkamenn, skrifstofufólk, fyrirtækjaeigendur eða sjómenn. Það skiptir ekki máli hver þú ert, hvort þú ert kona eða karl (eða þar á milli), gömul eða ungur, pírati eða ekki. Fólkið sem mætti á fundinn var fullt af von, krafti og sköpunargáfu og ég treysti því fyrir framtíðinni.

Ef við náum að halda áfram að vera svona jákvæð, klár og drífandi, getur framtíðin ekki verið neitt annað en betri en fortíðin. Við sýndum og sönnuðum að allir hafa áhrif, að allir eru jafnir og að örlög okkar eru í okkar eigin höndum. Við þurfum ekki forystu, elítu eða einhverja pabbakomplexa. Við getum séð um okkur sjálf. Þjóðin getur ráðið sér sjálf. Hún þarf ekki stóra bróður eða reyndan stjórnmálamann til segja sér hvað hún má gera, hvað hún á að gera.

Grasrótin ræður stefnunni. Grasrótin eru flokksmeðlimir, grasrótin er þjóðin.

Þetta var minn fyrsti aðalfundur. Ég hef aldrei verið flokksbundinn, aldrei tekið þátt í stjórnmálum. Aldrei fundið flokk sem passaði við mig. Ég hefði ekki átt að vera þarna, því ég var erlendis. En ég keypti mér flugmiða til að geta verið á svæðinu og ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem fór í það.

Takk fyrir mig. Hlakka til að vinna með ykkur. Þið eruð æði. Öll. Hvert einasta. Þetta er ástarjátning, ef þið voruð ekki að fatta það.

Yarr…

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Fyrir 23 árum steig ég upp í flugvél og hvarf á braut ævintýranna. Bláeygði íslendingurinn fór til London í nám. Ég lærði hratt. Ekki bara námsefnið, heldur um lífið. Ég skildi óttann við hin óþekkta eftir einhvers staðar á leiðinni. Heimsborgin, þar sem ég þekkti engan, var allt annar heimur en tiltölulega litla borgin við íshafið, þar sem fjölskyldan og vinirnir bjuggu. Ég steig inn í annan heim allt breyttist. Fjórum árum síðar var ég fluttur til Hollands, þar sem ég bý enn.

Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi spurt hvað þessi hálf-útlenski flóttamaður sé að tjá sig um málefni á Íslandi? Hvað kemur honum við hvar er virkjað, hver vaxtaprósenta á húsnæðislánum er, hver lágmarkslaun eru, hver er í ríkisstjórn og hver situr á Bessastöðum? Maðurinn hefur ekki búið á landinu í aldarfjórðung og honum kemur þetta ekkert við.

Það er gamall sannleikur að íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim. Sumir koma fyrir lokin, aðrir ekki. En allir eru þeir á leiðinni heim, með hugann heima eða með rætur á Íslandi. Landið okkar, móðurjörðin, föðurlandið, sleppir aldrei alveg takinu. Rétti tíminn til heimferðar hefur þó ekki komið enn. Mér líkaði aldrei byggingakranaæðið fyrir hrun, þótt ég hafi komið heim og gert alíslenska kvikmynd á þessum árum. Þegar ég skrifaði mína fyrstu skáldsögu, gerðist hún á Íslandi. Hrunið skapaði tækifæri til að hugsa smafélagið upp á nýtt og þó mig hafi langað að koma heim og taka þátt í því, var lífið ekki á því að leyfa mér það á þeim tímapunkti. Ég var með barn sem þjáðist af athyglisbresti, konan í góðri vinnu, ég í fastri vinnu. Tíminn var ekki kominn.

Það er samt pínulítið þannig að tíminn kemur aldrei. Tækifærin hoppa ekki í fangið á manni. Það er enginn leiðarvísir, ekkert kort.

Þegar ég skrifa þetta, á miðvikudagsmorgni, er ég að bíða eftir flugvél sem mun bera mig heim. Hún er sein, tafirnar um tvær klukkustundir. Hefur eitthvað með verkföll á Íslandi að gera. Því allt er enn ekki orðið gott þar. En hvað um það, ég bíð þolinmóður.

Píratahönd
Píratahönd

Ég er ekki að koma til að heimsækja fjölskylduna. Afarnir og ömmurnar eru flest farin. Það er tómlegt á Íslandi. Nei, ég er að fara í flug til að geta tekið þátt í aðalfundi Pírata um helgina. Þar sé ég von um betri framtíð, tækifærið til að koma heim.

Við vorum í sumarfríi á Íslandi fyrir þremur árum. Strákurinn var að leika sér með risastóra taflmenn í Fossatúni í Borgarfirði á sólríku sumarkvöldi þegar konan sagði það. „Eigum við að flytja til Íslands?“ Ef ekki hefði verið fyrir góða tannlæknaþjónustu í Hollandi, hefði ég verið kominn með falskar og ég er viss um að ég hefði misst þær út úr mér. Svo hissa var ég. Ég hef búið í þremur löndum og gæti flutt til Buthan ef þannig bæri undir, en hún er ekki fyrir að umturna öllu. Þetta kom því á óvart.

Við fórum að skoða möguleikana. Suðurlandið, Selfoss, heimaslóðir afa og ömmu, þótt þau séu farin. Við fundum lóðir, ég hannaði hús, en eitthvað hélt í okkur. Var það verðtryggingin? Augljós spillinginn sem vall út um öll göt í samfélaginu? Það var eitthvað, svo nú, þremur árum seinna, erum við enn í Hollandi. Okkur langar, en þorum við? Okkur líður ágætlega í Hollandi, hér eru vextir lágir, verðlag stöðugt, við erum bæði í vinnu, strákurinn í góðum skóla. Það er miklu að tapa, en hver er ávinningurinn við að flytja heim?

Fjölskyldan spilar stórt hlutverk. Þótt afarnir og ömmurnar séu flest farin, eigum við aðra ættingja, vini og allskonar fólk sem okkur er kært um. Landið er fallegt, loftið er hreint, maturinn er hollur, fólkið er skemmtilegt. Ísland er land mitt og mér kemur það við, langar að koma heim. En það er ennþá verðtrygging, spilling, möppudýrahelvíti.

En það þarf ekkert að vera þannig. Ég hef fylgst með Pírötum síðan þeir hófu sín störf, hef verið meðlimur lengst af og hef tekið þátt í málefnastarfi og umræðum, eins mikið og hægt er á netinu. Píratar vilja tryggja að allar auðlindir verði alltaf í almenningseigu, að rétt verð fáist fyrir nýtingu þeirra, að heilbrigðiskerfið verði endurbyggt, að gamla fólkið geti lifað af laununum sínum, að allir hafi sömu tækifæri, að verðtrygging og vaxtaokur hverfi, að náttúruperlur verði friðaðar. Píratar eru ljós í myrkrinu. Hrunið var eins og heimatilbúinn ísjaki sem fæstir sáu, hann gerði sitt með skarkala og látum. Skipið sökk næstum því, en það náðist að halda flakinu á floti og nú siglir það aftur með reisn. Ekki af því það var lagað, heldur vegna þess að nú er holskefla í ferðamannaiðnaðinum. Við eigum ennþá eftir að laga skipið svo að siglingin verði ánægjuleg fyrir alla og svo það standi af sér storma framtíðarinnar. Píratar hafa sýn og þeim er ekki sama um landið og fólkið sem í því býr.

Ísland getur verið fyrirmyndarsamfélag ef okkur langar til að gera það þannig. Framtíðin er óskrifað blað og það er undir okkur komið hvert við viljum fara. Óttinn er versti óvinurinn, hæsti þröskuldurinn. Hendum honum út í hafsauga og sköpum samfélagið sem við eigum skilið.

Þess vegna sit ég hér og bíð eftir flugvélinni. Það er von, það er komin sýn á betri framtíð og mig langar til að taka átt í að skapa hana.

Sjáumst um helgina.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube