Browsed by
Month: maí 2015

RÚV framtíðarinnar?

RÚV framtíðarinnar?

Hlutverk RÚV hefur verið bitbein í mörg ár, jafnvel áratugi. Á það að vera pólitískt? Er það nógu hægri sinnað nú? Var það nógu vinstri sinnað í tíð Jóhönnu? Á það að veita aðhald, vera pirrandi fluga eða málpípa? Tilkynningaskyldan er löngu orðin óþörf, veðurfréttir fást hvar sem er, sjúklingar og sjómenn geta dánlódað hvaða lögum sem er, hvenær sem er, og þurfa ekki að hringja inn til að biðja um að þau séu spiluð í þar til gerðum óskalagaþáttum. Jón Múli er farinn og RÚV er bara ekki það sama án hans. Batteríð kostar milljarða og aðahlutverk þess er að vera bitbein stjórnmálamanna sem vilja skera niður og fólks sem vill halda í hefðina.

Hvað er til ráða?

Ég var að keyra heim úr vinnunni og einhver sagði „publieke omroep“. Þetta er hollenska og þýðir opinber fjölmiðill. Og ég fór að hugsa. Hér í Hollandi hafa félög og hópar lengi skipt rásum og stöðvum á milli sín. EO er Evangelische Omroep, eða kristilega sjónvarpsstöðin. Hún sendir ekki endilega út kristilegt efni, en það er oft lauslega tengt trúmálum. AVRO sendir út fræðsluþætti, sérstaklega um listir og menningu. BNN sendir út skemmtiþætti, VARA var stofnað 1925 sem málpípa fyrir verkalýðinn en sendir nú mestmegnis út þætti sem ætlað er að opna augu almennings fyrir málum líðandi stundar, loftslagsmálum og fleira. NOS sérhæfir sig í fréttum, fréttaskýringum og íþróttaviðburðum.

RÚVÖll félögin senda út eigið efni í bland við aðkeypt. Þau eru virk í útvarpi, sjónvarpi og á netinu. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera ekki sjónvarpsstöðvar, heldur deila þau ríkisstöðvunum þremur á milli sín. NOS sér um fréttirnar, en þar á eftir kemur t.d. AVRO með heimildamynd um Picasso eða Queen. Nema VARA sé með þann tíma og sendi út þátt um borgaralaun. Síðan kemur EO með biómynd. Ein sjónvarpsstöð, margir fjölmiðlar.

Ég veit ekki nákvæmlega hvernig kerfið virkar hér, hvernig þessu er skipt og hvernig það virkar fjárhagslega, en ég lét mér detta í hug að hægt væri að breyta RÚV með svipuðu kerfi.

Gefum okkur að rekstur RÚV yrði stokkaður upp. Félagið sjálft hætti framleiðslu efnis, en leigði tímahólf í dagskránni. Tímahólfin hefðu þemu. Við viljum hafa fréttir á vissum tímum, fræðsluþætti hér og kvikmyndir þar. Fyrir utan að setja þemun og ákvarða lágmarksaldur á útsendirgarefninu á vissum tímum, myndi RÚV lítið skipta sér af dagskránni.

Kvikmyndaframleiðendur, fréttaveitur og félög sem áhuga hafa á útsendingum sjónvarps- og útvarpsefnis myndu leigja útsendingarkerfi RÚV.

Deginum yrði skipt í 10-15 mínútna hólf sem yrðu verðlögð eftir tíma dags. Það má gera ráð fyrir að útsendingar að nóttu yrðu tiltölulega ódýrar, en tíminn milli 18:00 og 23:00 yrði dýr. Framleiðendur myndu fjármagna framleiðslu og innkaup efnis með auglýsingum. Rekstur RÚV yrði tryggður, þar sem auðvelt yrði að gera fjárhagsáætlanir, og framleiðendur efnis fengju tækifæri til að þróa dagskrá sem stendur undir sér. Það má gera ráð fyrir grósku í kvikmyndaiðnaðinum ef þetta kerfi yrði innleitt. Útvarpsgjaldið yrði notað til að halda kerfinu við og styrkja gerð framúrskarandi efnis.

Helmingur styrkveitinganna yrði ákvarðaður af þjóðinni. Framleiðendur gætu, ef þeir vildu, búið til verkefni og auglýst þau. RÚV væri með síðu þar sem fólk gæti kosið um verkefnin. Segjum að Saga Film hafi keypt tímann 20:30-22:00 og fyrirtækið vilji framleiða framhaldsþætti til að fylla hluta þess tíma. Þau búa til stiklu og reyna að selja þjóðinni hugmyndina. Ef nógu margir kjósa verkefnið, fær Saga Film styrk. Ef ekki, þarf fyrirtækið að fjármagna dæmið sjálft og vona að auglýsingatekjurnar dugi. Því betra sem efnið er, því meiri líkur á að næsta verkefni verði skyrkt, og því líklegt að gæði íslensks sjónvarpsefnis aukist.

Hinn helmingurinn yrði valinn af nefnd. Það er ekki ólíklegt að „vinsæl“ verkefni fái flest atkvæðin, svo það er gott að leyfa nefndinni að ákveða að styrkja fræðsluþætti, þjóðlífsþætti og annað sem eykur á menningu okkar en er ekki beinlínis vænt til vinsælda í kosningu. Ég sé fyrir mér heimildamynd um uppbyggingu Selfoss, Sturlungaöldina, stofnun Alþingis árið 930 og allskonar stikluþætti.

Með þessu kerfi yrði áhugasömum gert auðveldara að hefja útvarpsrekstur. Stofnkostnaður er griðarlegur ef byggja á allt frá grunni. Tæki eru dýr og rekstrarkostnaður hár. Ef þetta yrði að veruleika, þyrftu framleiðendur aðeins að hafa áhyggjur af verðinu á tímarömmunum og hvort áhorfið yrði nægt til að standa undir útsendingum. Sé dæmið ekki að virka, geta þau einfaldlega hætt útsendingum og annar aðili leigir útsendingartímann.

Þetta er hugmynd í mótun. Ég er tilbúinn til að fá gagnrýni, jafnvel að vera skotinn í kaf ef þetta er arfavitlaust. En það væri gaman að sjá hvort hægt sé að þróa hugmyndina og koma henni í framkvæmanlegt form.

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði pistil um pírata. Sjá hér. Ég vil endilega svara spurningunum sem hann setur fram.

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hreyfing kennd við pírata gæti orðið nýtt pólitískt fyrirbrigði í nokkrum Evrópulöndum. Loftið hefur alls staðar farið úr þeirri blöðru nema hér þar sem hún hefur þanist út síðustu vikur.

Eru píratar blaðra? Næstu kosningarnar munu skera úr um það. Hitt er annað, það er ekki hægt að bera íslenska pírata saman við erlenda. Í nágrannalöndunum hafa þeir haldið sig í upprunalegu hugmyndunum um mál- og netfrelsi. Píratar á Íslandi eru löngu hættir að takmarka sig við þessi mál. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar og flokkurinn hefur tekið upp ýmis mál sem betur mættu fara. Þeir vilja betri og gagnsærri stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá sem tryggir meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Þetta eru mál sem þarf virkilega að vinna í á Íslandi eftirhrunsáranna, en minni áhugi er á erlendis.

Píratar eiga nú þrjá þingmenn. Fáir vita með vissu fyrir hvað þeir standa. Vel má líka vera að þeir viti það ekki svo gjörla sjálfir. 

Viti fólk ekki fyrir hvað píratar standa, er því velkomið að lesa píratakóðann. Allar ákvarðanir og stefnur verða að vera í takt við þessa átta punkta. Þeir virðast kannski óljósir við fyrstu sýn, en úr þeim má lesa að flokkurinn er á móti allri spillingu í stjórnkerfinu, þeir eru náttúruverndarsinnar, þeir eru fylgjandi alþjóðasamstarfi, og mannréttindi í hvaða formi sem er eru þeim heilög. Allar ákvarðanir flokksins verða því að fylgja kóðanum. Flokkurinn á því alltaf að geta verið samkvæmur sjálfum sér og kjósendur þurfa ekki að láta koma sér á óvart eftir kosningar.

En út frá hinu má ganga sem vísu að þingmennirnir þrír viti ekki meir en við hin um raunverulegar pólitískar hugmyndir þess mikla fjölda fólks sem lýsir yfir stuðningi við þá.

Það má gera ráð fyrir að stuðningsfólk pírata séu kjósendur sem búnir eru að fá nóg af baktjaldamakki, krókamökun, kjördæmapoti, vinagreiðum, einkavinavæðingum, stanslausri rányrkju, kvótabraski, verðtryggðum lánum, áhlaupum á heilbrigðiskerfið og endalausum óstöðugleika í fjármálum ríkissjóðs og þjóðarinnar. Stuðningsfólk pírata vill sennlega fá frið til að lifa sínu lífi, án þess að stjórnvöld séu endalaust að kippa undan þeim fótunum.

Eftir kosningarnar 2009 var í fyrsta skipti mynduð ríkisstjórn á lýðveldistímanum sem ekki byggðist á málamiðlun yfir miðjuna. Forysta Samfylkingarinnar færði flokkinn langt til vinstri og skildi eftir tómarúm næst miðjunni. Þegar að hálfnuðu því kjörtímabili kom fram í könnunum að kjósendur höfðu ekki áhuga á að færa Ísland til með sama hætti.

Þetta er einfaldlega rangt. Þjóðin fékk ekki nóg af vinstri stjórninni af því hún var svo langt til vinstri. Þvert á móti, skjaldborg var slegin um bankana og fjármálafyrirtækin, frekar en heimilin. Það hefur ekkert með vinstri að gera. Jóhönnustjórnin brást heimilunum, og því missti hún traust kjósenda. Sú stjórn var undir gífurlegu álagi. Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor þáverandi ráðherra, en það er á hreinu að hefði hún komið hreint og sköruglega fram og forgangsraðað öðru vísi, hefði hún ekki tapað fylginu eins og raunin varð. Þjóðin vissi að kjörtímabilið yrði erfitt og hefði fyrirgefið margt, en meint daðrið við fjármálafyrirtækin, IMF og ótímabær umsókn í ESB og Icesave klúðrið varð henni að falli.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð undir merkjum hægri þjóðernispopúlisma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eigi að síður reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Það hefur þó ekki dugað til. Með samtengingu við þjóðernispopúlisma Framsóknar hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega fjarlægst miðjuna.

Bjarni Ben og heilbrigðiskerfiðÉg ætla ekki að ræða Framsóknarflokkinn. Hann hefur skorað svo mörg sjálfsmörk að hann er sjálfkrafa úr leik. Ég vil halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Þeirra fyrsta verk var að lækka auðlegðaskatt. Skatta á stóriðju, sem flytur mestallan hagnaðinn úr landi, á að lækka. Virðisaukaskattur á matvæli var hækkaður. Skattur á munaðarvöru var lækkaður, án þess að nokkrum dytti í hug að fylgjast með ferlinu og sjá til þess að lækkunin skilaði sér í lægra vöruverði. Svo má auðvitað nefna svik á einu stærsta kosningaloforðinu, kosningum um áframhald viðræðna við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur leyft Framsókn að draga sig í svaðið, en hann á sínar gloríur. Þetta litla fylgistap sem hann hefur orðið fyrir, á hann fylliega skilið.

Með hæfilegri einföldun má segja að utanríkisstefnan hafi verið límið í pólitíkinni. Nú er hún helsta uppleysiefnið. Það er afgerandi breyting. … Í þessu ljósi verður fróðlegt að sjá hvernig nýja kjölfestan í pólitíkinni horfir á utanríkismálin og hvernig hún telur skynsamlegast að nálgast ákvarðanir á því sviði. Í fyrstu atrennu snýst sú spurning um hvort þessi stóra kjósendafylking stendur nær ómöguleikakenningunni eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessum punkti er auðsvarað. Þjóðin á að velja. Píratar eru ekki allir sammála um ESB. Sumir vilja inn, en aðrir ekki. Allir eru þeir þó sammála um að þjóðin eigi að ráða. Þjóðin á að kjósa um ESB og stjórnvöld eiga að fara eftir niðurstöðunum. Það skiptir í raun ekki öllu máli hvort við göngum i ESB eða ekki, en við getum ekki verið föst í þessu máli ár eftir ár. Það er löngu kominn tími til að útkljá þetta og snúa sér að öðru. Af nógu er að taka.

Píratar eru ekkert leyndarmál, þeir eru ekki dulúðugir, ekkert leyndardómsfullir. Píratar eru fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum, sem eru orðnir þreyttir á karpinu sem hefur haldið þjóðinni í skotgröfunum í áratugi.

Og að lokum. Sjálfstæðisflokkurinn færðist ekki frá miðju þegar Bjarni tók saman við Sigmund. Flokkurinn hætti að vera miðjuflokkur þegar Davíð tók við. Þetta veit Þorsteinn Pálsson sennilega betur en flestir.

Refsingar og hrós

Refsingar og hrós

Ég var á fundi í skólanum í gær. Umræðuefnið var hvernig best er að taka á óhlýðni, hroka í garð kennara, einelti og stríðni.

Í gamla daga var krökkum refsað fyrir að gera eitthvað af sér. Þau voru flengd, send í skammakrókinn og send heim. Þeim var refsað fyrir að fylgja ekki reglunum.

Svipað og gert er í heimi fullorðinna. Ef við brjótum af okkur, erum við sektuð eða sett í fangelsi. Ef við borgum ekki skattinn, keyrum of hratt, stelum, er okkur refsað. Ef við högum okkur vel, virðist öllum vera sama.

DSCF6917Skólayfirvöld hér í Hollandi trúa ekki á refsingar, nema allt annað sé fullreynt. Í stað þess að segja ekkert við þá sem haga sér vel en refsa fyrir brot, er krökkum hrósað fyrir það sem vel fer. Ef þau ganga rólega um gangana, er þeim hrósað. Ef þau sitja í sætinu þegar þau eru að vinna, er þeim hrósað. Ef þau ganga frá eftir sig, er þeim hrósað. Þeim er hrósað allan daginn fyrir hluti sem okkur þykja sjálfsagðir. Niðurstöðurnar eru þó að þau hafa gaman af að gera hlutina rétt, því það er gott að fá hrós. Brot eru sjaldgæf.

Brjóti þau af sér, eru þau minnt á það. „Mannstu hvað þú átt að vera að gera?“ Ó, já.“ Svo setjast þau aftur, fara að taka til eða hvað það var sem þau áttu að vera að gera. Það er ekki fyrr en eftir ítrekuð brot, að refsingum er beitt. Það byrjar á því að þau eru látin sitja inni í frímínútum, síðan er beitt gulum spöldum þar sem hringt er í foreldra, án þess að frekari aðgerða sé þörf. Ef vandamálið er óviðráðanlegt, fá krakkarnir rautt spjald og foreldrar boðaðir á fund. Það gerist þó aðeins ef um ofbeldi, barsmíðar, hráka og annað er að ræða. Það hefur aldrei gerst í skólanum okkar, en reglurnar eru fyrir hendi ef með þarf.

Væri ekki hugmynd að skoða þetta í stærra samhengi? Að ríkið, sveitarfélög og samfélagið hrósaði fólki sem er að gera góða hluti? Ekki bara listamönnum og viðskiptajöfrum, heldur fólki almennt? Hvort sem það er í formi neikvæðna sekta eða annars. Skiptir ekki öllu. Það sem mikilvægast er, hlýtur að vera að yfirvöld séu ekki bara refsari. Því í núverandi kerfi er alið á ótta. Ótta við sektir og refsingu.

Auðvitað byrjar þetta hjá okkur, þjóðinni. Höldum hurðinni opinni fyrir öðrum, þökkum pent ef það er gert fyrir okkur, brosum til hvors annars, hjálpum foreldrinu með innkaupapokana og börnin að hlaða bílinn eða sjá til þess að krakkarnir hlaupi ekki út á götu, spyrjum gamla manninn á neðri hæðinni hvort hann vanti eitthvað þegar við förum útí búð. Verum góð við hvort annað.

En skilaboðin þurfa að koma að ofan. Á meðan yfirvöld eru föst í refsisamfélaginu, endurspeglum við það.

Læt mottó skólans og þessa hrós verkefnis fylgja með. Þýddi það á ensku, því það virkaði ekki á íslensku.

Catching children behaving well.

Þrælanýlendan Ísland

Þrælanýlendan Ísland

Á meðan Vigdís Hauksdóttir gerir sig enn og aftur að fífli á þinginu, blæðir þjóðinni út. Háttvirtur þingmaðurinn er með skæting, tuðar og ælan vellur út úr henni eins og… nenni ekki að finna myndlíkingu. Konan er svo rugluð að hún sóar tíma þingsins í að saka stjórnarandstöðuna um að vera svekkt yfir að hafa tapað kosningunum.

Ein fjölmargra mynda eftir Gunnar Karlsson.
Ein fjölmargra mynda eftir Gunnar Karlsson.

Hvort sem stjórnarandstaðan er svekkt eða ekki, skiptir nákvæmlega engu máli. Það kemur engu og engum við hvort fólk sé svekkt yfir að hafa tapað kosningum. Það að hún standi í pontu og hlakki yfir óförum einhverra flokka í kosningum, sýnir að hún er fullkomlega vanhæf til þingsetu.

En hvað um það. Hún vann og má hanga þarna inni þar til hún tapar.

Á meðan er þjóðin blóðmjólkuð. Húsnæðislán á Íslandi eru rán. Þetta eru okurlán. Hvergi í hinum siðmenntaða heimi þekkjast vaxtaprósentur eins og á Íslandi.

Ég kíkti á vef Landsbankans og fann þetta:
Óverðtryggt með 7,15% föstum vöxtum í 60 mánuði.
Óverðtryggt með 6,75% föstum vöxtum í 36 mánuði.
Óverðtryggt með 6% breytilegum vöxtum.
Verðtryggt með 3,85% föstum vöxtum í 60 mánuði.
Verðtryggt með 3,65% breytilegum vöxtum.

Í Hollandi eru vextirnir svona:
Breytilegir vextir: 1.84%
Fastir vextir í 1 ár: 1.80%
Fastir vextir í 5 ár: 1.89%
Fastir vextir í 10 ár: 2.15%
Fastir vextir í 15 ár: 2.40%
Fastir vextir í 20 ár: 2.60%

Það má taka fram að engin hollensku lánanna eru verðtryggð.

Óverðtryggt lán til fimm ára ber 1.89% vexti í Hollandi, 7.15% á Íslandi.

Hvað er konan að þvaðra um svekkelsi í pontu? Þjóðin þarf stjórnmálamenn sem taka til hendinni, laga ástandið, reyna að gera Ísland byggilegt. Það síðasta sem okkur vantar eru misviturt fólk í typpatogi, heimskulegar og misheppnaðar tilraunir til að flytja stofnanir, fasískt daður með bréfaskrifum, einkavinavæðingar, einkavinavirkjanarúnk og kökuát.

Þið þarna sem unnuð kosningarnar. Opnið augun og gerið eitthvað!

Andskotist til að gera gagn eða drullið ykkur út!

Dýrahald í fjölbýli?

Dýrahald í fjölbýli?

Mikið er talað um dýrahald í fjölbýli eftir að öryrkjum og öðru fólki sem ekki getur staðið í stappi var gert að losa sig við húsdýrin sín. Innan 10 daga, takk fyrir. Því þannig eru reglurnar. Fólk hefði átt að vita þetta og því er engin vorkunn.

Þeir sem verja þessa tillögu tala um ofnæmi og ónæði.

Þessi hundur tengist málinu ekki beint.
Þessi hundur tengist málinu ekki beint.

Nú var ég að heyra að fólkið í blokkinni hefði kosið afgerandi að leyfa dýrunum að vera. 32 sögðu já. En hinir tveir? Annar var hlutlaus, hinn í útlöndum. Enginn valdi að losa blokkina við dýrin. Samt á að þvinga þetta fólk til að losa sig við fjölskyldumeðliminn. Því gæludýr eru ekki leikföng eða húsgögn. Þau eru lifandi verur, og oft hluti að fjölskyldunni. Oft einu vinirnir þegar fólk er lasið eða á erfitt með að vera í sambandi við annað fólk.

Að þvinga þetta fólk til að losa sig við gæludýrin er að dæma það í einveru og einmanaleika.

Eva Hauksdóttir skrifaði rafpóst á mennina sem tóku ákvörðunina. Ég mæli með að allir geri það sama. Látum þá vita hvað okkur finnst.

Netföngin eru gardar@brynjahus.is og bjorn.a.magnusson@brynjahus.is

Getum kallað tölvupóstinn: Vegna dýrahalds

Vinsamlegast komið eftirfarandi skilaboðum til stjórnar Brynju og takið þau einnig til ykkar sjálfir.

Ég á ekki orð til að lýsa vanþóknun minni á þeirri stefnu ykkar hjá Brynju að neita öryrkjum um að halda gæludýr.

Ég á hinsvegar eitt orð til þess að lýsa vanþóknun minni á þeim gerræðislegu vinnubrögðum að þvinga fólk til að losa sig við dýrin sín.

Það orð er „ógeð“.

Þið eruð ógeð.

Skammist ykkar.

Stríð og Friður

Stríð og Friður

Fyrstu dagarnir í maí eru sérstakur tími í mannkynssögunni. 1. maí er baráttudagur verkalýðsins, 3. maí 1937 var ráðist á Telefonica bygginguna í Barcelona og má sennilega segja að þá hafi anarkisminn dáið og fasisminn unnið borgarastríðið á Spáni. 4. maí er fórnarlamba stíðsátaka minnst í Hollandi og 5. maí er frelsisdagurinn, en þá gáfust nazistar upp í landinu. 8. maí 1945 gafst Þýskaland upp og friður komst á eftir hrikalegasta stríð sem mannkynið hefur séð. 10. maí 1940 réðist Þýskaland á Holland, Belgíu, Luxembourg og Frakkland, og Bretar hernámu Ísland.

Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.
Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Í gærkvöldi var fórnarlambanna minnst. Fólksins sem var dregið út úr húsum sínum og skotið á götunni. Flutt í útrýmingarbúðir. Fólkið sem tók þátt í andspyrnunni og var tekið af lífi fyrir.

Í Hoofddorp, bæjarfélaginu við Schiphol, tóku einhverjir krakkar sig til og öskruðu á meðan aðrir virtu tveggja mínútu þögnina. Krakkar sem aldrei hafa séð stríð, nema í tölvuleikjum og kvikmyndum. Krakkar sem skilja ekki að stríð er ekki afþreying, flottir effectar á skjá eða bíótjaldi. Krakkar sem vonandi þurfa aldrei að komast að því hvað stríð virkilega er.

Mér er sama um krakkana, en óvirðingin við fólkið sem lagði allt undir og tapaði, er óþolandi.

Strax eftir heimsstyrjöldina byrjaði Kalda Stríðið. Einhvert heimskulegasta tímabil í sögu mannkyns. Auðvitað hafa verið verri tímabil, en Kalda Stríðið var óþarft. Það gekk út á græðgi og sandkassaleiki. Það er eiginlega ótrúlegt að ekki hafi farið á versta veg.

Við höfum ekkert lært. Enn eru stríð um allan heim. Sennilega er það tímaspursmál hvenær við missum tökin á atburðarásinni.

Ég læt myndband fylgja með. Berlín í júlí 1945, tveimur mánuðum eftir að hún var lögð í rúst. Þetta er stríð. Þetta er gjöreyðing. Þetta er ekki leikur, ekki grín, ekki kvikmynd. Þetta er raunveruleikinn ef við pössum okkur ekki.

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Gatan okkar í Halfweg, mitt á milli Amsterdam og Haarlem í Hollandi er týpískt skipulagsslys. Öðru megin eru fallegu húsin, byggð fyrir stríð. Okkar hús var byggt 1939 og hin um svipað leyti. Hinumegin eru skrípi byggð kringum 1985. Þau eru ekki ljót, þannig lagað, en þau passa ekki við gömlu húsin.

Hvað um það, gatan er stutt og tiltölulega róleg. Hér er lítil umferð, ef flugvélarnar eru undanskildar. Eitt það fallegasta við götumyndina eru trén sem blómstra á hverju vori.  En blómin eru ekki óumdeild.

Húsið okkar í HalfwegFyrir nokkrum árum datt bréf inn um lúguna. Bæjarstjórnin hafði látið gera úttekt á trjánum og komið hafði í ljós að þau væru sýkt og þyrftu að fara. Búið var að plana dæmið frá upphafi til enda. Einhvað fyrirtæki hafði verið ráðið til að planta nýjum trjám.

Við könnuðumst ekkert við að trén væru veikluleg og fórum fram á að sjá skýrsluna. Þá kom í ljós að sama fyrirtæki og átti að planta nýju trjánum hafði gert úttektina. Þetta fyrirtæki var tengt einhverjum á bæjarskrifstofunum. Þetta líkaði okkur ekki, og fórum því fram á að hlutlaus aðili gerði úttektina. Því var upphaflega neitað.

Þegar deilumál koma upp, er utanaðkomandi aðili fenginn til að skerast í leikinn. Þetta var dómari frá Amsterdam með engin tengsl í Halfweg. Hann var sammála okkur og fór fram á að ný úttekt yrði gerð. Þegar hún lá fyrir, kom í ljós að 2-3 tré voru sýkt, en restin heilbrigð.

Við settumst niður á bæjarskrifstofunum, ég, konan og  yndislegu,  gömlu dýralæknishjónin sem búa í sömu götu. Dómarinn frá Amsterdam var þarna, bæjarstjórinn okkar og einhver á vegum bæjarins. Við settum fram okkar rök, töluðum um hagsmunaárekstra og heilbrigð tré, götumynd sem yrði fátæklegri með hríslum í stað gamalla trjáa.

Bæjarstjórnin kom svo með sín rök. Man ekki nákvæmlega hver þau voru, en það var greinilegt að dómaranum fannst þau ekki merkileg. Hann virtist pirraður og fannst þetta mál greinilega vera tímasóun. Þegar bæjarfulltrúinn var búinn, spurði dómarinn, er þetta allt sem þú hefur að segja?
– Ha, já.
– Þetta eru rökin?
– Já.
– Þú hefur engu við þetta að bæta? Hver var ástæðan fyrir því að trén áttu að fara?
– Ja, sko, þau blómstra á vorin og það er svo mikill úrgangur, göturnar fyllast af blöðum og þegar rignir verður þetta svo ljótt.
– Ég skil. En hvað með að halda því fram að þau væru sýkt?
– Þau eru það.
– Flest eru heilbrigð.
– En ekki öll. Þau geta smitast.
– Af hverju var úttektin gerð af verktakanum og af hverju var þetta ekki boðið út?

Þá var lítið um svör.

Við og dýralæknishjónin litum á hvort annað. Við vorum búin að vinna. Dómarinn sagði bæjarstjóranum að endilega fjarlægja þessi 2-3 tré og planta svo sömu tegund í staðinn, en láta restina í friði.

Tré í HalfwegTrén standa því enn. Á hverju vori blómstra þau og hressa upp á götumyndina. Heimurinn verður fölbleikur og yndislegur.

Ég lærði tvennt á þessu máli.

1. Opinberir aðilar geta verið alveg jafn vitlausir og við og geta farið með sömu rökleysu og hver annar. Að vera yfirveld þýður ekki sjálfkrafa að þú getir gert hvað sem þér sýnist.

2. Með samstöðu og borgaralegri óhlýðni, getur maður haft áhrif á heiminn og samfélagið.

Gleðilegt sumar og megi framtíðin vera fölbleik og hlý!

Frekja

Frekja

1. maí hefur lengi verið haldinn hátíðlegur sem baráttudagur verkafólks. Yfirstéttin, þingmenn og aðrir sem verma mýkri sætin í þjóðfélaginu hafa yfirleitt haft vit á að hafa hægt um sig á þessum degi, eða þykjast styðja baráttuna um bætt kjör verkafólksins.

Núverandi ríkistjórn er þó sér á báti í þessu eins og svo mörgu öðru. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra birti eftirfarandi athugasemd á Facebook síðu sinni:

Head in HandsTil hamingju allir launþegar með 1. maí. 
Ég heyri forystuna segja að stöðugleika verði ekki náð ,,á kostnað launþega.“
En hvað með óstöðugleikann. Á hvers kostnað skyldi hann verða?

Óstöðugleika verður náð á kostnað launþega, já. Það er rétt. Orsakir hans eru þó ekki þeim að kenna, heldur Bjarna sjálfum, forsætisráðherranum og öðrum fígúrum í ríkisstjórninni.

Leggja af auðlegðaskatt. Gefa ríkisfyrirtæki fjölskyldumeðlimum. Tugprósenta launahækkanir til forstjóra, og bónusa þar ofan á, á meðan verkafólk fær frostpinna. Fella niður skatt á stóriðju. Gefa kvóta til bestu vina ráðherra.

Ef Bjarni er hissa á óstöðugleika og skilur ekki orsakir hans, má hann líta sér nær.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube