Browsed by
Month: júní 2015

Hvað má barnið mitt heita?

Hvað má barnið mitt heita?

Ég er íslendingur, heiti íslensku nafni og á íslenskt vegabréf þótt ég hafi búið erlendis í yfir tvo áratugi. Eins og gengur, hafði ég það af að fjölga mér. Sonurinn kom í heiminn árið 2007. Hann fæddist í Amsterdam og er því sjálfkrafa hollenskur ríkisborgari. Ég reddaði þó íslenskum ríkisborgararétti þegar við komum með hann til Íslands, sumarið 2007.

MatsÞað snúnasta við að eignast barnið í útlandinu var nafnið. Við þurftum að berjast fyrir því, ég og ófríska mamman, að ég gæti gengist við kiðinu. Það var næstum ómögulegt. Hljómar fáránlega, en af því ég er ekki með ættarnafn, gat ég ekki gefið honum ættarnafn og gat því ekki verið faðir barnsins. Íslensk föðurnöfn eru ekki ættarnöfn og því geta börnin ekki tekið þau upp. Föðurnafn var ómöguleiki, því þau eru ekki viðurkennd í Hollandi. Maðurinn á sýslumannsskrifstofunni svaraði því játandi þegar ég spurði hvort barnið yrði föðurlaust í opinberum skjölum.

Málið endaði þannig að Þjóðskrá þurfti að senda bréf, þar sem kom fram að Ásgeirsson, þótt það sé ekki eiginlegt ættarnafn, virki á sama hátt. Þjóðskrá staðfesti að þau senda svona bréf daglega, því íslendingar um allan heim eru að lenda í þessu.

Málið var leyst. Barnið fæddist og ég fékk að gangast við því. Nafnið var þó ekki samkvæmt íslenskri hefð.

Mats Kilian Ásgeirsson.

Hann tók upp föðurnafnið mitt. Málið er þó ekki alveg búið.

Flugmaðurinn MatsEf við flytjum einhverntíma heim, vill Þjóðskrá að við breytum eftirnafninu í Vilhjálmsson. Við þurfum þess ekki, en þau „myndu meta það“. Ef við breytum nafninu ekki, mun eftirnafn hans barna ráðast af því hvar þau fæðast. Ef hann eignast barn á Íslandi, verður það Matsson eða Matsdóttir, því Ásgeirsson er ekki ættarnafn. Ef hann eignast barn erlendis, mun það heita Ásgeirsson, því það er hans eftirnafn.

Svo er það millinafnið. Kilian er ekki viðurkennt á Íslandi. Kiljan og Kilían eru viðurkennd, en ekki Kilian. Verður það vesen? Þurfum við að fara í mál ef við flytjum heim? Þurfum við að berjast fyrir því að barnið fái að halda nafninu sínu? Ég er ekki viss, og þessi óvissa er rugl. Það er fáránlegt að einhver nefnd á Íslandi geti tekið fram fyrir hendur foreldra og ákveðið að eitthvað nafn, eða stafsetning á nafni, sé þóknanlegt, en annað ekki.

Mér finnst að leggja eigi Mannanafnanefnd niður. Ríkinu kemur ekkert við hvað börnin heita. Einu skiptin sem yfirvöld eiga að skipta sér af nöfnum er ef foreldrar velja virkilega furðuleg nöfn. Ég get ímyndað mér að það sé ekki gaman að vera sex ára og heita Grýla, Leppalúði eða Satan. En það eru þá mannréttindamál og Barnaverndarnefnd getur séð um þau mál.

Þegar fullorðinn og sjálfráða maður, eins og Jón Gnarr, breytir um nafn, kemur það engum við nema honum sjálfum.

Það má búast við að samsetning íslensku þjóðarinnar muni breytast á komandi árum. Áður fyrr þurftu innflytjendur að skipta um nafn. Sonur George Harrison á víst íslenska kærustu. Segjum að hann flytji til Íslands. Áður fyrr hefði hann þurft að breyta nafninu úr Danii Harrison í Daníel Géorgsson, eða eitthvað álíka.

Sem betur fer erum við hætt þeim skrípaleik (og persónuránum). En stríðið er ekki unnið. Ekki fyrr en ríkið hættir að skipta sér að því hvað fólk vill kalla sig.

Vegurinn heim

Vegurinn heim

Hver vegur að heiman er vegurinn heim, sagði einhver. En hversu einfalt er það að snúa heim eftir búsetu erlendis? Hvað um sjúkratryggingar, rétt til bóta, innflutningstolla, gjaldeyrishöft og landvistarleyfi fyrir erlenda fjölskyldumeðlimi?

Íslendingur á íslandi
Íslendingur á íslandi

Ég setti upp fésbókarhóp með það í huga að komast að því hvað gert er fyrir íslendinga sem vilja flytja heim eftir dvöl erlendis. Það sem ég hef heyrt, er að fólk á ekki rétt á neinum bótum fyrst um sinn. Engar atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða aðrar bætur sem fólk búsett á Íslandi á tilkall til.

Eins hefur mér verið sagt að íslendingar, nýfluttir heim, þurfi að taka út sjúkratryggingu í sex mánuði eftir heimkomu. Eitthvað sem aðrir þurfa ekki að gera.

Fólk þarf líka, í sumum tilfellum að greiða tolla og gjöld af búslóðum og bílum sem það flytur með sér. Mismikið eftir landi sem flutt er frá, aldri bíls og stærð búslóðar.

Mér sýnist því lítið sem ekkert gert til að laða fólk aftur heim. Það er eins og okkur sé alveg sama um fólkið sem flúði hrunið, fór erlendis í leit að tækifærum sem voru ekki til staðar hér, eða sóttu vinnu sem ekki var í boði á Íslandi. Íslendingarnir í útlöndum geta bara verið þar. Við þurfum ekki á þeim að halda. Eða hvað?

Það er mikilvægt að reyna að fá sem flesta til að snúa heim. Ekkert þjóðfélag getur lifað af mikla og viðvarandi blóðtöku, eða „braindrain“. Markir, kannski flestir, sem flytja erlendis, eru menntaðir. Fólk sem við megum ekki við að missa. Ef það vill snúa heim, megum við ekki setja óþarfa hindranir í veg þeirra.

Hópurinn sem ég setti upp hefur það markmið að koma auga á vandamál, óréttlát lög og reglur. Sé núverandi ferli flókið og erfitt, þarf að finna lausnir á því og gera fólki kleyft að snúa heim, óski það þess. Þess vegna er mikilvægt að safna saman reynslusögum og reyna að einfalda kerfið.

Hópinn má finna hér.

Útlendingar

Útlendingar

Íslendingar eru hrein þjóð, ómenguð af endalausum blöndunum sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola í gegn um tíðina. Við erum afkomendur víkinga, erum hörkutól sem lifðu af þúsund ár í skítakulda og komum sterk og sjálfstæð inn í nútímann.

Það er um það bil svona sem við sjáum okkur. Eða sáum okkur. Held það sé að breytast. Við erum nefninlega merkilega blönduð. Einhver hluti genanna kemur frá Skandinavíu, einhver hluti frá Bretlandseyjum. En það er ekki allt. Við erum ekkert viss hvaðan við komum. Ég hef séð hreinræktaða íslendinga sem líkjast mið-austurlandabúum. Genin okkar koma víða að. Og þótt við værum óblönduð frá landnámi, vitum við ekki hvar genin voru fyrir þann tíma.

Nýlega las ég grein eftir Naomi Wolf. Hún er gyðingur, fæddist inn í gyðingafjölskyldu og ólst upp í þeirra trú. Hún trúði, eins og henni hafði verið sagt, að hún væri hluti að Guðs útvöldu þjóð. Í greininni sagði hún frá genaprufu sem fjölskyldumeðlimur fór í. Naomi komst að því að hún er alls ekki gyðingur. Hún á rætur að rekja til Líbanon og ýmsra landa í Evrópu. Hún er blanda af araba, persa og evrópubúa. Eiginlega allt annað en gyðingur.

En það er ekki allt. Flestir nútímagyðingar eru svokallaðir Ashkenazi gyðingar, eða þýskir gyðingar eins og það myndi þýðast. Þeir eru ekki blóðskyldir fólkinu sem bjó í Palestínu í fornöld, heldur koma þeir frá Kákasus og Evrópu. Þeir eru því ekki Guðs útvalda þjóð, allavega ekki erfðafræðilega séð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki að sverta Ísrael eða gyðinga. Alls ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að við vitum oft ekkert hver við erum. Eða hverra. Við vitum að við erum fólk, við erum hluti af mannkyninu. Auðvitað er gaman að gramsa í fortíðinni og finna út hvaðan við komum, en það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli, er að við erum öll ein stór fjölskylda.

Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.
Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.

Innflytjendamál hafa verið mikið í umræðunni. Múslímar eru vandamál því þeir eru eins og olía sem blandast ekki við það sem fyrir er. Pólverjar eru heimskir glæpamenn sem stela vinnunni okkar. Eða voru það litháar? Allavega, þessir útlendingar eru vandamál sem við þurfum að halda frá okkur.

En það er bara ekkert þannig. Útlendingar eru líka fólk. Fólk með tilfinningar, þrár og von um betri heim. Stundum erum við sammála þeim, stundum ekki. Það skiptir þó engu máli, því við íslendingar erum ekkert sammála um allt. Vel heppnað samfélag snýst ekki um að allir séu sammála, heldur að fólk virði náungann og skoðanir hans.

Besta leiðin til að búa til innflytjendavanda er að útiloka innflytjendur frá samfélaginu. Láta þá finna að þeir séu óvelkomnir. Halda þeim frá vinnu og samfélagshópum. Þannig einangrast þeir og festast í fátækragildru. Fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum og finnst það vera hatað, reiðist. Það fer að hata á móti. Fer að halda saman í hópum. Fer að vinna gegn samfélaginu sem fyrir er.

Besta lausnin á útlendingavandanum er því ekki að takmarka straum innflytjenda, gera þeim erfitt fyrir, banna þeim að vinna eða byggja sín guðshús. Þvert á móti. Ef við bjóðum þau velkomin og gerum aðlögunarferlið eins auðveldt og hægt er, getum við búist við hamingjusömum einstaklingum sem þykir vænt um (nýja) landið sitt og eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum.

Mestu máli skiptir auðvitað að þjóðin sé opin og fordómalaus. Að við getum séð muninn á venjulegu fólki sem vill setjast að og hefja nýtt og betra líf í sátt við allt og alla, og þá sem vilja þvinga okkur til að taka upp þeirra siði með góðu eða illu. Fordómaleysið og virðingin verður að vera beggja megin. Ef upp koma vandamál, þurfum við að taka á þeim. Ef fólk lifir sínu lífi í sátt, þurfum við ekkert að hafa áhyggjur. Við verðum að sjá muninn og haga okkur eftir því, því annars búum við til vandamál þar sem ekkert var.

Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.
Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.

En hvernig er best að bjóða fólkið velkomið og gera því flutningana og menningarsjokkið eins auðvelt og hægt er? Ég væri alveg til í að sjá einhverskonar ráðstefnur eða hittinga þar sem fyrirtæki mæta og eru með bása, áhugasamt fólk mætir til að kynnast „nýbúunum“ (og fræðast, finna vinnu etc) og innflytjendur geta safnað saman upplýsingum um stjórnsýsluna, reglur, fyrirtæki, atvinnutækifæri, íslandssöguna og fleira.

Fyrirtækin myndu nota þetta sem leið til að kynna sig og ná í vinnuafl, innflytjendur til að komast inn í samfélagið (kynnast fólki og fyrirtækjum) og hið opinbera til að sitja fyrir svörum um mál sem geta komið upp.

Það yrði frítt inn, allir velkomnir.

Það skiptir nefninlega mestu að innflytjendur hafi á tilfinningunni að þeir séu velkomnir, að þeir komist í vinnu og kynnist fólkinu í landinu. Árekstrar verða nefninlega þegar þetta er ekki í lagi, því þá einangrast þeir.

Fólk sem lifir ekki í fátækt og einangrun er nefninlega sjaldnast til vandræða.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube