Browsed by
Month: apríl 2015

Að fullnægja athyglisþörf kompudrauganna

Að fullnægja athyglisþörf kompudrauganna

Á jörðinni búa sjö milljarðar. Allavega síðast þegar ég gáði. Hefur sennilega bæst eitthvað við síðan. Það þýðir að heimurinn er upplifaður á sjö milljarða vegu. Ekkert okkar skynjar heiminn eins. Sjónin er ekki sú sama, þar sem litaskyn og skerpa leika hlutverk. Heyrnin er mismunandi. Snertiskynið. Hvernig heilinn vinnur úr upplýsingunum sem skilningarvitin senda honum skiptir svo öllu máli.

Svo má ekki gleyma áhrifunum sem fæðingarstaður og búseta hafa. Ég er karlmaður, fæddur 1969 og bjó mín fyrstu ár á Skólavörðustígnum og þar í kring. Fór fyrstu tvö árin í Ísaksskóla, flutti í Smáíbúðahverfið og svo í Breiðholtið. Endaði svo með því að flytja til London og svo til Hollands.

Alexanderplatz, BerlinÉg sé því heiminn út frá þessum forsendum. Stelpa sem fæddist 1990 á Sauðárkróki og flutti sem unglingur á Egilsstaði, sér heiminn allt öðruvísi. Ef við hittumst einhvern daginn á Alexanderplatz í Berlín, er viðbúið að upplifun okkar af staðnum verði ekki sú sama.

En það er erfitt að mæla upplifun. Allt sem við getum gert er að virða upplifun hvers og eins. Allavega ef við erum svo þröngsýn að geta ekki haft áhuga á að reyna að skilja hana.

Því hvað er skemmtilegra en að sjá heiminn með augum annars fólks? Setja sig í spor þess?

Hvernig getur maður skilið heiminn ef maður skilur ekki samferðamennina?

Ég tók dæmi um stelpu frá Sauðárkróki, en ímyndum okkur ef ég hefði tekið dæmi um homma frá Addis Ababa. Eða Nairobi. Teheran.

Þá erum við að tala um eitthvað allt annað. Þá erum við að tala um manneskju sem hefur þurft að fela sína eiginlegu persónu allt sitt líf. Hefur kannski horft upp á elskhugann hengdan vegna kynhneigðar. Þá er ekki lengur gaman að setja sig í spor manneskjunnar, heldur lífsnauðsynlegt. Ekki bara fyrir útlenska hommann (sem okkur kemur við, hvað sem fólk segir) heldur fyrir okkur sem manneskju.

Það tók okkur þúsundir ára að losa okkur við bábiljurnar og kreddurnar sem kostuðu svo marga elskhugana lífið. Þess vegna get ég ekki annað en haft smá ógeð á fólki sem þolir ekki að allir séu ekki eins. Fólki sem vill afhomma. Vill ekki að krakkar heyri af samkynhneigð því þau gætu kannski smitast. Sitja í sínum kompum og rífa kjaft yfir því að einhver sé ekki alveg eins og þau vilji hafa hann.

FíflÉg spyr, hverjum er ekki fjandans sama hjá hverjum fólk sefur? Ef kompudraugurinn er ekki að spá í bólförum með hommanum, af hverju er hann þá að skipta sér af?

Þar fyrir utan. Þetta snýst ekki allt um kynlíf. Og því virðast hommahatararnir steingleyma. Þetta snýst um að ástfangnir einstaklingar megi elska í friði, lausir við þröngsýni, kreddur og tuð kompudrauganna.

Ég fæ ógeð þegar ég heyri hommahatarana jarma úr sínum holum, en ég virði rétt þeirra til að jarma. Ég virði rétt þeirra til að gera sig að fíflum í opinberri umræðu. Jarmið dæmir sig sjálft.

Þess vegna finnst mér það vera mistök af Samtökum 78 að kæra kompudraugana fyrir að láta heimskulega hluti út úr sér.

Tjáningarfrelsið á að vera heilagt. Við eigum öll að hafa rétt á að tjá okkur, jafnvel þó það þýði að við gerum okkur að opinberum fíflum. Með því að kæra fíflin fyrir að segja fíflalega hluti, erum við að gefa fíflunum tækifæri til að dreyfa fíflalegum hugmyndum sínum.

Besta vörnin gegn fíflum er að leiða þau hjá sér.

Hommar og þannig

Hommar og þannig

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um homma, lesbíur og transgender fólk. Allskonar einstaklinga og þjóðfélgshópa sem ekki fylgja þjóðtrúnni okkar, um heilaga þrennu og eðlilegt fjölskyldulíf.

023-freddie-mercury--theredlistEkki veit ég hvaðan þetta fólk kemur, en eitt veit ég. Á Íslandi býr hrein þjóð, hefur gert í rúm þúsund ár,  og þannig á það að vera. Hér er ekkert pláss fyrir allskonar afbrigðilegheit og týskusveiflur.

Fólk sem vill búa á Íslandi á að fylgja okkar venjum og siðum.

Því segi ég, sendum hommana og þannig fólk aftur til síns heima. Ég veit svo sem ekki hvar það er, en finnst líklegt að þeir komi flestir frá San Francisco og Amsterdam. Útlendingastofnun veit það sennilega, og ef ekki, veit innanríkisráðuneytið það.

Hommana heim!

 

 

Fyrir fólk sem ekki sér það, þessa færslu á ekki að taka bókstaflega. Hér nota ég sömu rök gegn hommum og trans fólki, sem ég hef ekkert á móti, og misviturt fólk hefur notað gegn þeim, innflytjendum og öllum sem því líkar ekki. 

Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?

Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?

Kaffið var heitt og sólin skein þegar ég opnaði tölvuna og horfði á tölustafina á hnettinum sem sögðu mér að fullt af fólki ætti erindi við mig. Þarna voru allskonar statusar, greinar sem nánir vinir voru að deila og svör við tuði gærkvöldsins.

Þegar þessu hafði öllu verið gerð skil, las ég það sem fólk hafði að segja á þessari vinsælustu vefsíðu veraldar. Færsla sem Sturla Jónsson setti inn byrjaði svona.

Sturla JónssonÞað var ein sem spurði mig í komendi hvort ég ætlaði að vera reiður alla ævi ?
Hann sæi ekki neina gleði i skrifunum hjá mér.

Það er ekki nema von að fólk spyrji hann hvort hann sé alltaf reiður, enda hefur hann áunnið sér nafn sem pirraði gaurinn sem rífst við sýslumenn, lögmenn, bankamenn, dómara og hvern sem á vegi hans verður.

En hann er ekki að tuða. Reiði hans er ekki vegna einhverrar skapvonsku eða persónuleikabrests. Reiði hans beinist gegn yfirvöldum, sem oftar en ekki eru gjörspillt og fara einungis eftir lögum og reglum þegar þeim hentar.

Ég skil svo sem hvernig það er að fá að heyra að maður sé „svo reiður“. Maður póstar einhverju, skrifar eitthvað, deilir einhverju. Og svo kemur athugasemdin.

Af hverju ertu svona reiður?

Ég er kannski mjúk skræfa, en ég reiðist þegar ég sé óréttlæti. Ég pirraðist hrikalega í síðustu viku þegar vinnufélagi var látinn fara vegna mistaka sem voru ekki hennar. Ég stuðaðist hryllilega þegar ég frétti af og sá myndir af dauðum krökkum í Miðjarðarhafi og bröndurum misvitra um að nú myndi velferðarkerfið spara peninga. Ég reiðist þegar ég sé silkibindiklædda karla haga lögum og reglum þannig að þeir græði á auðlindum sem við eigum saman, en láta öryrkja og fólk á lágum launum borga allan kostnað við að halda samfélaginu uppi. Ég brjálast þegar ég sé illa farið með börn og dýr. Hætti meira að segja að borða kjöt fyrir 14 árum því mér fannst það óréttlátt að dýr væri drepið því mig langaði frekar í steik en grænmetisborgara.

Svo ég skil Sturlu. Ég skil reiðina og pirringinn. Ég sé að réttlætiskenndin er drifkraftur hans. Og ég virði hann fyrir það.

Er ekki kominn tími á að við hættum að horfa á reiði sem einhvern löst? Það er ekkert að því að vera reiður þegar svínað er á manni. Það er ekkert að því að vera reiður fyrir hönd þjóðarinnar þegar hún er blóðmjólkuð, áratug eftir áratug.

Án reiðinnar hefðum við aldrei velt spilltum konungum, fengið kosningarétt, stoppað ESB rugl ríkisstjórnarinnar í fyrra og svo framvegis. Reiðin er verkfæri ef við nýtum hana rétt.

Í staðinn fyrir að spyrja af hverju Sturla er vona reiður, ættum við að rækta reiðina innra með okkur. Því við erum ekki hamingjusöm þjóð. Leyfum reiðinni að gera það sem hún á að gera. Hugsum hvar við viljum vera eftir eitt ár, tíu ár, tuttugu. Horfum í kringum okkur. Reynum að sjá hvað það er sem kemur í veg fyrir að íslenskt samfélag komist á þann stað. Að það virki, yfir höfuð. Beinum svo reiði okkar þangað.

Breytum Íslandi í það sæluríki sem við viljum að það sé, og þá þurfum við ekki að vera reið.

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Þetta er amma mín, yndislegust. Það er henni að þakka að bernskuminningarnar á Bitru munu lifa lengur en við öll. Hún notaði Konica Autoflex T-4 myndavélina sína mikið í u.þ.b. tíu ár. Mig minnir að vélin hafi verið keypt 1976 eða 1977. Ammabjó  til margar gersemar. Sumar myndirnar voru svo vel heppnaðar að þær birtust í Lesbók Moggans. Hestarnir og krakkarnir á Birtu fylltu heilu síðurnar.

Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7 2014-07-27 at 18-11-51
Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7
2014-07-27 at 18-11-51

Augun virka ekki eins vel og þau gerðu. Það er synd, því amma er eins skörp og alltaf. Hún hefur ekki notað Konica vélina í mörg ár og er löngu búin að færa sig yfir til Canon, svo hún lét mig hafa gamla linsusafnið sitt fyrir einhverju síðan. Ég var orðinn þreyttur á stærð og þyngd speglavélanna frá Canon, svo þegar ég sá að einfalt var að nota gömlu linsurnar á speglalausu vélum nútímans, hoppaði ég yfir til Fujifilm.

Fujifilm X-E2 er nútíma vél. X-Trans sensorinn gefur skarpari og litameiri myndir en Canon vélin getur. €8 millistykkið sem ég keypti á eBay sameinar nútímatækni og sálina sem sést í ljósmyndum sem teknar voru fyrir tíma stafrænu tækninnar.

Vorið er komið. Allavega á meginlandi Evrópu. Það verður gaman að prófa allar linsurnar á komandi vikum og mánuðum.

Amma, takk fyrir allt. Ekki síst fyrir að hafa kynnt mig fyrir ljósmyndun fyrir löngu síðan.

Þetta fann í töskunni:
Tamron 28mm f2.8
Tamron 35-80mm f2.8-3.5 Macro
Konica Hexanon 50mm f1.7 (used for the attached photo)
Tamron 85-210mm f4.5 Macro
Konica Hexanon 135mm f3.2
2x tele converter, various extension tubes etc.

Sjáðu hana…

Sjáðu hana…

Þessi texti er þýðing mín á pistli eftir hollenska blaðamanninn Chris Klomp. Hlekk á upphaflega textann má finna hér.

Þetta er hún. Ein af þessum fjársjóðsleiturum. Hún klifraði um borð í bát til að stela af okkur velferðarkerfinu. Hún myndi sjá til þess að gamla fólkið okkar yrði af hjálpinni sem það þarf á að halda. Hún myndi valda óróa í samfélaginu okkar. Því það er það sem flóttamenn gera. Endalaust leitandi af heppninni. Dragandi okkur niður í svaðið sitt.

11149361_982955581714490_4405577642739949278_nSjáðu hana. Kannski var hún að spá í að fremja hryðjuverk. Það gerir þetta fólk frá þessum löndum. Múslímar, og því hryðjuverkamenn.

Horfðu á hana, fjandinn hafi það. Reyndu að skilja að þetta snýst um fólk. Ekki tölfræði. Um drauma og ótta. Viljann um að finna hamingjuna.

Örfáum klukkutímum áður sat hún sennilega í fangi móður sinnar. Móður sem örugglega sagði henni að þetta yrði allt í lagi. Að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Að betri heimur biði hennar. Að þar væri fólk sem myndi hjálpa henni. Af því að heimurinn er ekki bara stríð og fátækt. Því það væru til lönd þar sem fólk hefði það svo gott að það gæti hjálpað þeim sem minna mega sín.

Sjáðu hana, marandi í hálfu kafi. Í bleika kjólnum sínum. Kannski er þetta uppáhaldskjóllinn hennar. Reyndu að skilja að móðir hennar hafði rangt fyrir sér. Það er erfitt að horfast í augu við það, en þannig er það samt.

Ég hef, fjandinn hafi það, aldrei skammast mín eins mikið fyrir Evrópu og nú. Fyrir Holland (og Ísland (innsk. þýðandi)). Ég skammast mín fyrir að hér sé fólk sem er svo ruglað og með svo furðulegar hugmyndir að það getur ekki sleppt fordómunum og útlendingahatrinu í smá stund. Getur ekki sýnt fólkinu sem lenti í þessum harmleik smá virðingu.

Shame on you.

Atvinnuóöryggi

Atvinnuóöryggi

Ég var að vinna á flugvellinum í gær. Allt gekk vel. Farangurinn kominn í farangursrýmið, farþegarnir um borð. En þá fór allt í klúður.

Farþegi sem átti bókað í sama flugi daginn áður hafði komist í gegn og var um borð. Hann var vinsamlegast beðinn um að yfirgefa vélina og öryggisleit var gerð til að vera viss um að hann hefði ekkert skilið eftir. Við vorum vel á tíma, svo töfin varð ekki nema fimm mínútur. Ég bjóst við að vinnufélaginn fengi að koma á teppið, að hún fengi skriflega viðvörun. Hún var að þjálfa nýjan starfskraft, gerði ekki mistökin sjálf, en bar ábyrgð á lærlingnum. Auðvitað fengi hún að heyra það, en svo yrði allt í lagi. En ég var bjartsýnn.

Í dag komst ég að því að hún þyrfti ekki að mæta aftur. Hún var ekki rekin. Það sem þau gerðu er verra en brottrekstur.

Guy Standing er maður sem lengi hefur fjallað um borgaralaun. Hann hefur mikið talað um núll-tíma samninga (zero-hour contracts). Þeir virka þannig að viðkomandi er í vinnu hjá fyrirtæki, en enginn lágmarks vinnutími er tryggður. Ef lítið er að gera, er viðkomandi sendur heim. Launalaust. Núll tímar getur þýtt að engin vinna sé í boði.

Vinnufélaginn er með svona samning. Hefur ekki háð henni hingað til, því hún var á föstum vöktum og vann hátt í fulla vinnu. Það sem gerðist núna var að henni var bannað að vinna fyrir flugfélagið sem í hlut átti, en hún má vinna fyrir hin sem við höndlum. Vandinn er að hún hefur aldrei gert það. Hún hefur unnið hjá okkur í þrjú ár. Hún veit allt um hennar starfssvið, er örugg, gerir næstum aldrei mistök, er vingjarnleg við farþegana. Ég myndi hiklaust mæla með henni, ég myndi sjálfur ráða hana á stundinni ef ég ætti fyrirtæki.

En hún hefur sérhæft sig í þessu flugfélagi. Veit lítið sem ekkert um hin. Þyrfti að fara á námskeið til að læra innritunarkerfin og annað. Það getur orðið 2-3 mánaða bið. Hún var ekki rekin, en afleiðingin er sú sama. Nema að nú hefur hún engin laun og engan rétt á atvinnuleysisbótum. Hún er enn í vinnu, þannig séð. Staða hennar er verri en hefði henni verið sparkað.

feb_26_if_you_are_not_angry-d76Þetta er framtíðin. Fólk er ekki látið fara, því það kostar pening. Það er látið fljóta í einhverju limbó, þyngdarleysi. Hennar eina von er að finna aðra vinnu áður en reikningarnir og húsaleigan éta upp allan sparnaðinn sem ég vona (en efast þó) að hún eigi.

Og eitt enn um núll-tíma samninga. Þeir eru hugsaðir sem flex, þ.e. fyrir fólk sem vinnur óreglulega. Hjá okkur er vinnan plönuð þrjár vikur fram í tímann. Viðkomandi fengi því 70% laun í þrjár vikur. Eftir það, ekki krónu. Ekkert. Því ekki var búið að plana viðkomandi í vinnu og ekki förum við að plana veika manneskju. 70% af engum launum er núll. Það er ekki fyrr en að samningnum er rift af vinnuveitanda sem launþegi hefur rétt á bótum. Á meðan samningurinn er í gildi, er viðkomandi ekki atvinnulaus, og því réttlaus.

Þetta fyrirkomulag er stór ástæða fyrir því að ég vil alvarlega skoða borgaralaun. Það er orðið löngu augljóst að atvinnurekendur og stjórnvöld, sem oft eru í þeirra vasa, hafa lítinn áhuga á líðan þegnanna. Allt snýst um peninga og verkafólkið tapar. Við verðum að breyta samfélaginu þannig að ekki sé hægt að eyðileggja líf fólks, eins og gerðist í gær. Það er óþolandi að hægt sé að koma svona fram við manneskju sem hefur unnið samviskusamlega fyrir fyrirtækið í mörg ár. Það er óþolandi að sósíópatar geti ráðskast með líf fólks. Það er óþolandi að mannréttindi séu fótum troðin. Að þau réttindi sem kynslóðirnar á undan okkur börðust fyrir séu tekin af okkur.

Við verðum að sjá til þess að reikningsdæmið gangi upp og að borgaralaun virki, því núverandi kerfi er hrunið.

Meiri upplýsingar og umræður er að finna í Píratar: Borgaralaun. Endilega kíkið í heimsókn og takið þátt.

Fátækt, mannréttindi, borgaralaun og hórurnar í Amsterdam

Fátækt, mannréttindi, borgaralaun og hórurnar í Amsterdam

Í lagi sem löngu er orðið sígilt talar Jacques Brel um sjóarann og hórurnar í Amsterdam.

He’ll drink to the health
Of the whores of Amsterdam
Who’ve given their bodies
To a thousand other men
Yeah, they’ve bargained their virtue
Their goodness all gone
For a few dirty coins

Vændiskona í AmsterdamÁ meðan gamli sjóarinn skálaði fyrir hórunum, sat yfirstéttin og konungurinn í nokkur hundruð metra fjarlægð, sennilega við yfirfull matarborð og skáluðu fyrir eigin ágæti. Svona er þetta í dag og svona hefur þetta alltaf verið. Flestir strita til að eiga í sig og á, selja líkama sinn, heilsu og tíma fyrir klink. A few dirty coins.

Við virðumst taka því sem sjálfsögðum hlut að sumir hafi það betra en aðrir. Að sum dýrin séu jafnari en önnur. Að uppskera erfiðis okkar renni í fáa útvalda vasa.

Ég reiknaði út um daginn að bónusar útgerðarmannanna í HB Granda nægðu til að greiða næstum 800 manns 300.000 krónur á mánuði í heilt ár. Bara bónusarnir. Ekki launin, fyrir eða eftir 33% hækkunina, heldur bónusarnir. Fólkið sem stritar í frystihúsunum, sker sig í fingurna, kemur dauðþreytt heim, sér varla börnin sín. Þetta fólk skapar verðmæti, en sér minnst af þeim sjálft.

Ég vinn á Schiphol flugvelli í Amsterdam fyrir eitthvað sem nánast má kalla lúsarlaun. Ef ég geri vítaverð mistök, get ég átt á hættu að vera dreginn fyrir rétt og fangelsaður. Ég og flugstjórinn berum ábyrgð á að flugvélin sé rétt hlaðin og að allt sé eins og það á að vera. Við skrifum upp á að vélin sé tilbúin fyrir brottför. Í gær las ég um laun og bónus framkvæmdastjóra flugvallarins. Það eina sem ég nenni að segja um það er að það tekur mig 50 ár, hálfa öld, að vinna mér inn fyrir árslaununum hans. Ég er nokkuð viss um að hann þarf aldrei að mæta fyrir dómara, hvað sem gerist á hans vakt.

Misskipting auðsins er böl sem hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Er ekki kominn tími til að breyta þessu? Ef laun yfirstéttarinnar eru skoðuð, er augljóst að peningaleysi er ekki vandamálið. Það er nóg til af peningum. Hefur alltaf verið. Þeim er bara hrikalega misskipt.

Ég er sannfærður um að borgaralaun séu besta leiðin til að útrýma fátækt. Mér er slétt sama þótt einhverjir séu ríkir. Þeir mega alveg vera það, ef einhver er tilbúinn til að borga þeim ofurlaun. En við verðum að eyða fátækt. Þessu fyrirbæri sem neyðir fólk til að selja líkamann fyrir skiptimynt. Hver einstaklingur skiptir máli. Allir eiga að hafa rétt á grunnframfærslu. Það eru sjálfsögð mannréttindi.

En þangað til, er sjálfsagt mál að fólk fái mannsæmandi laun fyrir vinnuna sína. Laun eru ekkert annað en skaðabætur fyrir að vrea einhversstaðar annars staðar en maður vill vera og 300.000 kall er ekkert of mikið.

Meiri upplýsingar og umræður er að finna í Píratar: Borgaralaun. Endilega kíkið við og takið þátt.

Borgaralaun

Borgaralaun

Undanfarið hef ég mikið verið að velta borgaralaunum fyrir mér. Hugmyndin er að allir fái skilyrðislausa grunnframfærslu frá ríkinu. Hvað uphæðin þyrfti að vera há þarf að skoða, en sennilega ekki undir 200.000 krónum á mánuði. Borgaralaunin þurfa að duga fyrir helstu nauðsynjum, en ekki meira. Ef fólk þarf meiri pening, vill komast í utanlandsferðir, kaupa nýrri bíl eða stærra hús, vinnur það með.

Stærsta spurningin er auðvitað hvernig á að fjármagna borgaralaun. Þeir sem mest hafa velt þessu fyrir sér mæla með að tekjuskattur hverfi alveg, en virðisaukaskattur verið hækkaður í 100%. Þetta á ekki að hafa áhrif á verðlag, þar sem allur falinn skattur sem nú er innifalinn í vöruverði hverfur. Auðlindir verða þjóðnýttar, eða skattlagðar þannig að þjóðin njóti góðs af. Velferðarkerfið, og allur kostnaður sem því fylgir,  hverfur. Öll vinna við eftirlit með velferðarkerfinu, skattsvikum og fleira verður óþörf, og þar sparast milljarðar. Þar sem eftirlit verður minna, eða ekkert, má gera ráð fyrir að einkalíf fólks verði betur varið.

Töluverð vinna þarf að fara í að hugsa kerfið upp á nýtt, ef við höfum áhuga á að skoða þessa leið. Það er þó vel þess virði, því kostirnir eru margir. Hér fyrir neðan eru nokkrir.

  • Fólk er fólk, ekki öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir. Með því að útrýma stimplum, gefum við fólki tækifæri til að byggja upp sjálfstraustið sem það þarf til að skapa sér tækifæri. Enginn er „aumingi“ eða annars flokks þegn.
  • Við getum hætt að setja milljarða í misheppnaðar tilraunir til að halda fólki á landsbyggðinni. Fólk er ekki háð atvinnutækifærum og hefur því möguleika á að búa hvar sem það vill. Það getur notfært sér lægra fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins. Búseta mun jafnast sjálfkrafa.
  • Fátækt heyrir, að mestu leyti, sögunni til.
  • Fólk sem frekar vill skapa list og annað, hefur tækifæri til þess. Menning mun blómstra og almenn hamingja aukast.
  • Fólk sem velur að vinna fyrir vinnuveitanda gerir það af því það langar til þess og verður því ánægðara í vinnunni, sem þýðir betri afköst.
  • Þar sem atvinna er ekki nauðsyn, og fólk hefur efni á að neita vinnu, munu laun líklega hækka.
  • Flestir fátækratengdir glæpir munu hverfa, og þar með gera samfélagið öruggara.
  • Tilraunaverkefni með borgaralaun hafa sýnt að yfir 90% kjósa að vinna, annað hvort sjálfstætt eða í launaðri vinnu, og framleiðni eykst í samfélaginu.
  • Foreldrar hafa möguleika á að vinna minna og sinna börnunum betur, sem þýðir að framtíðarkynslóðir verða sennilega heilsteyptari og hamingjusamari.
  • Hamingjusamt fólk sem vinnur eins og því hentar er heilsuhraustara, og því sparast töluverðar fjáræðir í lyfjakostnaði og heilbrigðiskerfinu.

Það er erfitt að segja til um hvort borgaralaun séu raunhæf lausn eða ekki, en það er vel þess virði að skoða málið og reikna dæmið. Sérstaklega þegar haft er í huga að störfum mun fækka töluvert vegna tækniframfara á næstu árum. Fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í umræðunni er velkomið í hópinn á Facebook.

Áróðursmaskínan ræst

Áróðursmaskínan ræst

Píratar mælast með mikið fylgi. Meira en Sjálfstæðisflokkurinn. Tvö ár eru til kosninga og ekkert sem bendir til að núverandi stjórn lifi þær af. Það var auðvitað fyrirsjáanlegt að Mogginn færi í áróðursstríð.

Fyrstu skotunum hefur verið hleypt af. Píratar eru vændir um að vera gutlflokkur sem ekkert vit hefur á þingmálum. Mynd sem notuð er við fréttina á Facebook er að Jóni Þóri, þingmanni Pírata. Hann er myndarlegur maður, en á myndinni virðist hann vera hálf hissa. Hun er notuð til að koma skilaboðum á framfæri. Fæstir sjá áróðurinn sennilega ekki. Éta bara fréttina upp hráa.

Ástæðan fyrir fylgisaukningu Pírata er að þau eru málefnaleg og taka ekki þátt í leðjuslagnum sem íslensk stjórnmál eiga það til að vera. Vonandi fellur fólk ekki fyrir áróðurstækni Moggans. Eina von íslensku þjóðarinnar er að koma gömlu öflunum út og taka sjálf ábyrgð á framtíð landsins.

Ég læt orð Helga Hrafns, þingmanns Pírata fylgja með. Þau útskýra ástæðuna fyrir hjásetunum ágætlega.

„Þetta er pínlega einfalt. Við erum þriggja manna þingflokkur í 8 fastanefndum og ríkisstjórnin, EES og aðrir þingmenn mega leggja fram mál óháð því hversu mikinn tíma við höfum. – Þannig að þau gera nákvæmlega það. Við erum háð sömu eðlisfræðilegu takmörkunum og annað fólk, nefnilega þeirri að geta ekki verið á tveimur stöðum á sama tíma og sömuleiðis að búa við 24 klukkustunda sólarhring.

Þetta er engu flóknara heldur en ástæðan fyrir því að ein manneskja getur ekki lyft bíl. Við höfum einfaldlega takmarkaðan mannafla og takmrakaðan tíma. Þetta er hvorki flókið né ætti að koma nokkrum á óvart. Það er nákvæmlega ekki neitt sem við getum gert í þessu annað en að greiða atkvæði án þess að vita hvað við erum að greiða atkvæði um.

Einnig eru nefndarfundir lokaðir þannig að við getum ekki farið yfir fundi sem við neyðumst til að sleppa, t.d. um helgar (ekki að maður hafi ekki miklu meira en nóg að gera þá líka). Aftur; við erum 3 þingmenn í 8 fastanefndum plús öðrum sem ekki eru fastanefndir, plús okkar eigin málefni.

Fólk virðist halda að Alþingi sé sett upp þannig að nægur tími sé búinn til handa öllum til að fjalla nógu vel um hvert mál til að taka upplýsta afstöðu, eða að fjöldi atkvæðagreiðslna taki tillit til stærðar þingflokka. Það er einfaldlega ekki þannig.“

Föstudagurinn Langi

Föstudagurinn Langi

Ég er misskilinn maður. Í hvert sinn sem fólk lendir í tölvuveseni, biður það mig um hjálp. Oft eru það Windows tölvur sem hóta sjálfsmorði eða keyra á hraða sem hefði gert Óla Két ánægðan. Ég hef ekki notað Windows í 11 ár, en hvað um það. Smáatriði. Restart lagar oft dæmið og blekkingin um undravit mitt á tölvum er óhögguð. Og svo biður fólk mig um að hjálpa sér því WordPress er ekki alveg eins viðmótsþýtt og haldið er fram. Ég setti nefninlega upp heimasíðu kringum aldamótin og hlýt því að skilja þetta. Það er eiginlega bráðfyndið, því það tók mig einn og hálfan dag að setja upp þessa einföldu síðu. Gagnagrunnar, FTP, timeout, syntax errors, terminal (fear) og hvað eina. Man ekki eftir að þetta hafi verið svona flókið í frumbernsku netsins.

Föstudagurinn langi í ár bar nafn með rentu.

En þetta hafðist. Síðan komin upp. Gamla rausið komið inn. Mér skilst að ég geti sett inn gamla non-Wordpress pistla og breytt dagsetningunni, svo það er kannski hugsanlega mögulegt að ég hendi moggabloggunum hér inn. Þá get ég haldið upp á 10 ára bloggafmæli eftir ár. Alveg afsökun til að fá sér freyðivín á ESB verði.

En allavega. Velkomin á VGA.is. Eins og flestir vita eru .is lén dýr og viðhaldsfrek. Það er því viðbúið að ég rausi meira en góðu hófi gegnir. Ég mun sennilega tala um Pírata, því þeir eru málið. Kannski um bókina sem ég hafði af að skrifa. Og eitthvað meira. Kannski draumahúsið sem mér finnst ég þurfi að byggja eða kaupa á Íslandi, því þar er allt á uppleið.

Ætla að hætta þessu. Þessi pistill er eiginlega bara svona „júhú, .is is back“ dæmi.

Peace!

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube