Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200
kvennablaðið – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: kvennablaðið

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Nýlega birtist grein eftir mig í Kvennablaðinu. Þar talaði ég á jákvæðum nótum um einkavædd sjúkrahús. Greinin var skrifuð áður en fréttir bárust af fyrirhuguðu einkareknu sjúkrahúsi í Mosfellsbæ.

Ég er, í sjálfu sér, ekki á móti því. En við þurfum að fara varlega. Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, skrifaði pínlega grein um einkavæðingarferlið og ég er skíthræddur um að hún hafi rétt fyrir sér. Að þetta sé eitt skrefið í ferli sem löngu er hafið. Að svelta heilbrigðiskerfið, fæla starfsfólkið frá, jafnvel til útlanda, leyfa húsnæði og tækjum að úreldast og skemmast án þess að fjármagn sé til að endurnýja eða viðhalda.

Að þetta sé hluti af ferli sem mun ræna stóran hluta þjóðarinnar réttinum til lækningar.

Heilbrigðisráðherra segist koma af fjöllum. Hann heyrði fyrst af áformunum í fréttum. Samt náðist mynd af honum með fólkinu sem stendur að baki einkaspítalans, fyrr á árinu. Auðvitað er þetta allt misskilningur. Pedro, maðurinn á bak við einkaspítalann minntist ekkert á þetta 30.000 fermetra sjúkrahús, tveimur mánuðum áður en samningur við Mosfellsbæ var undirritaður. Hann var að undirbúa verkefni upp á einhverja milljarða og minntist ekkert á það við heilbrigðisráherrann. Ég vil ekki væna ráðherrann um lygar, en trúverðugur er hann ekki.

Borgarspítalinn
Borgarspítalinn

Eins og áður sagði, finnst mér ekkert tiltökumál þótt einkaspítali verði byggður, á meðan hann er einkarekinn. Á meðan ekki ein einasta króna kemur úr opinberum sjóðum. Þessi spítali getur sennilega sinnt sínu hlutverki vel og skilað arði í vasa hluthafanna, og það er í sjálfu sér ekkert slæmt. En einkarekið fyrirtæki á að vera einkarekið, ekki kostað með skattfé.

Hitt er annað. Við verðum að snúa við þeirri þróun að fjársvelta okkar sameiginlega heilbrigðiskerfi. Við megum ekki leyfa sjúkrahúsum að verða myglusveppi að bráð, við megum ekki leyfa tækjabúnaði að úreldast og bila, við megum ekki drepa niður heilsugæsluna á landsbyggðinni, við megum ekki láta íslenska hjúkrunarfræðinga og lækna dragast aftur úr fólki í sambærilegum stöðum í nágrannalöndunum. Núverandi stefna er ávísun á atgervisflótta. Það er hreinlega verið að hrekja fólk úr landi.

Það hljómar ekki þannig. Fjármálaráðherra lofar peningum í heilbrigðiskerfið, en hann hefur haft þrjú ár til að gera eitthvað. Hvað sem er. En það hefur ekkert gerst. Nú á það þó að fara að gerast, enda stutt í kosningar.

Við verðum að fara að hætta að falla fyrir innantómum kosningaloforðum. Þegar það er fullreynt að viðkomandi hafi nokkurn áhuga á velferð þjóðarinnar, ber henni að kjósa hann ekki.

Hnignun heilbrigðiskerfisins okkar virðist vera hönnuð atburðarás. Hana verðum við að stoppa. Það geta engin orð lýst reiðinni, sorginni og vonbrigðunum við að sjá ástvin liggjandi inni í sturtuklefa á síðustu metrunum því það er ekkert pláss, myglusveppurinn er alls staðar og allir eru í verkfalli því engum eru borguð mannsæmandi laun. Það er ógeðslegt að sjá manneskju sem allt sitt líf hefur unnið sína vinnu, borgað sína skatta og aldrei þegið hjálp frá nokkrum manni, alltaf verið sjálfstæð, veslast upp inni í sturtuklefa.

Ég er ekki að gagnrýna starfsfólkið. Það gerði allt sem það gat, en það hafði ekkert til að vinna með, því það var búið að skera allt niður. Það er viðbjóðurinn. Stjórnmálamenn sem virðast engan áhuga hafa á fólkinu í landinu.

Á meðan við lækkum gjöldin af auðlindunum, leyfum kvótagreifunum að leggja bæjarfélög í rúst þegar þeir fara, hagnast um milljarða og stinga þeim undan til Tortóla, eða hvar sem peningahimnarnir eru. Ég um mig frá mér til mín er þeirra mantra. Sjálfselskan að drepa þá, eða réttara sagt, drepa fólkið sem fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það hefur borgað fyrir.

Þokkaleg heilsa er mannréttindi. Að drepast úr læknanlegum sjúkdómum af því peningunum er varið í eitthvað annað, er mannréttindabrot. Að liggja, dauðvona, í rúmi inni í sturtuherbergi, eftir að hafa greitt skatta í rúmlega háfa öld er mannréttindabrot, móðgun og fyrirlitning stjórnvalda í okkar garð.

Leyfum þeim að byggja einkasjúkrahús sem sinnir útlendingum, sérhæfir sig í aðgerðum sem heilbrigðiskerfið okkar býður ekki upp á (til dæmis lasermeðhöndlun augna, fegurðaraðgerðum og fleira), sjúkrahús sem býður upp á meiri íburð en nauðsynlegur er, einkastofur og annað. Það er allt í lagi. En sjáum til þess að skattpeningarnir okkar fari í að endurbyggja heilbrigðiskerfið okkar, heilbrigðiskerfið sem sér um okkur þegar við veikjumst. Tryggjum að allir þeir peningar sem eyrnamerktir eru heilbrigðiskerfinu fari þangað, ekki í einkaverkefni.

Ef það er stefna Sjálfstæðisflokksins að hreinlega drepa heilbrigðiskerfið, svo hægt verði að einkavæða hræið, er hann ekki atkvæða okkar virði. Við megum ekki gera okkur það að kjósa þannig tortímingu yfir okkur. Megum ekki gera gamla fólkinu það, megum ekki gera framtíðarkynslóðum það.

Ef við gátum haldið úti þokkalegu heilbrigðiskerfi fyrir 30 árum, þegar töluvert minni peningar voru til staðar, getum við gert það núna og í framtíðinni.

Viljinn er allt sem þarf.

Fyrst birt í Kvennablaðinu.

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Mikið hefur verið rætt um fjársvelti, einkavæðingu og bónusgreiðslur í heilbrigðiskerfinu. Það stingur fólk að þurfa að greiða þúsundir króna í hvert sinn sem farið er til læknis, og tugþúsundir ef eitthvað meira en heimsókn til heimilislæknis er þörf.

Þetta stangast á við öll eðlileg mannréttindi. Það má aldrei verða að þeir sem minna hafa milli handanna, hafi ekki efni á að leita lækningar. Stéttarskipting í heilbrigðismálum getur ekki verið stefna sem við höfum áhuga á. Þegar eigendur einkarekinna heilsugæslustöðva lifa á ríkisstyrkjum og greiða sjálfum sér 20% ríkisframlagsins í arð, er eitthvað að fara úrskeiðis.

Heilbrigðiskerfið
Heilbrigðiskerfið

Allir skulu eiga skilyrðislausan rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Til að það sé mögulegt, þarf heilsugæslan á öllu landinu að vera í lagi. Það má vel gera ráð fyrir að meðhöndlun á sjaldgæfum sjúkdómum verði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, en öll almenn heilsugæsla á að vera þar sem fólkið er. Öflug sjúkrahús eiga að vera í öllum fjórðungum. Þar yrðu bráðadeildir, legudeildir og öll almenn þjónusta sem sjúkrahús eiga að veita. Einnig geta sjúkrahús aukið nýtingu með því að sérhæfa sig að einhverju leyti. Dæmi um sérþekkingu er bakdeildin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi. Þetta geta fleiri sjúkrahús á landsbyggðinni (og höfuðborgarsvæðinu) gert. Ríkið þarf að hvertja til nýsköpunar og það er ekki gert með niðurskurði.

Heilbrigðiskerfið þarf líka að vera gjaldfrjálst til að það sé fyrir alla. Öryrkjar, atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fleiri hafa ekki efni á að fara til læknis ef það kostar 10.000 kall í hvert skipti. Að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst kostar 6,5 milljarða, það er klink í stóra samhenginu og sparar pening til langs tíma þar sem fólk trassar ekki að leita sér lækningar þar til það er orðið of seint og lækningin orðin kostnaðarsamari en nauðsyn er.

En hvernig er best að þróa ríkisrekið versus einkavætt? Skerpa línurnar, svo það sé á hreinu hvað er hvað og hvert peningarnir eiga að fara? Hvað skal vera einkarekið og hvað ríkisrekið? Þetta er flókin spurning og henni verður ekki svarað í stuttri grein, þó ég ætli að reyna að krafsa í yfirborðið.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Heimilislæknar gætu sett upp einkastofur og unnið sem verktakar fyrir ríkið. Þeir fengju fasta upphæð fyrir hvern heimsóknartíma. Sjúklingurinn borgar ekkert, en reikningurinn fer til ríkisins. Það má gera ráð fyrir að nokkrir heimilislæknar setji upp heilsugæslustöð, þar sem þeir vinna saman og skipta sjúklingum á milli sín og hjálpast að þegar einhverjir þeirra fara í frí eða eru fjarverandi af öðrum ástæðum. Það væri þeim þó í sjálfs vald sett, enda verktakar sem geta hagað sinni vinnu eins og þeim sýnist. Heimilislæknar sem vilja frekar vera í fastri vinnu, gætu unnið á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og verið á launum hjá hinu opinbera. Það skiptir því ekki höfuðmáli hvort viðkomandi læknir er á launaskrá hjá ríkinu eða vinnur sem verktaki, á meðan kostnaður á sjúkling væri sambærilegur.

Allir sjúklingar færu fyrst til heimilislæknis, sem svo vísaði þeim áfram ef þörf er á. Þetta sparar gríðarlegan kostnað þar sem fólk með minniháttar kvilla væri ekki að fara til sérfræðinga að ástæðulausu.

Sjúkrahús yrðu eign ríkisins, fólksins. Allir sem þar vinna, yrðu ríkisstarfsmenn og enginn sérstakur arður yrði greiddur til launþega. Undantekningar gætu verið þegar um rannsóknarstörf innan sjúkrahúsanna væri að ræða.

Það er ekki þar með sagt að læknar, aðrir en heimilislæknar, gætu ekki rekið einkastofur. Ég heyrði af hollenskum manni með MS sjúkdóm. Lyfin kosta um €35.000 (4,7 milljónir) á ári, að hans sögn. Þau lækna sjúklinginn ekki, þau hægja á hrörnun vöðvanna. Hann notaði samfélagsmiðla til að safna €100.000 (13,5 milljónum) sem þurfti til að greiða fyrir byltingarkennda meðhöndlun í Svíþjóð. Aðferðin er byggð á hvítblæðismeðferð, þar sem sjúklingurinn gengst undir þriggja daga chemo lyfjameðferð og er á lyfjakúr í um sex mánuði eftir það. Það er slökkt á ónæmiskerfinu, það endurræst og byggt upp aftur. Það man því ekki að það var með þennan hrörnunarsjókdóm og sjúklingurinn er læknaður. Þótt meðferðin hafi kostað tæpar 14 milljónir króna, mun hún borga sig upp á rúmum þremur árum þar sem áframhaldandi lyfjagjöf er óþörf. Þar fyrir utan er ekki hægt að meta heilsu og vellíðan sjúklingsins til fjár.

Þetta er dæmi um sérhæfingu. Um lækningu sem getur laðað að heilsufarstúrisma. Hann fór til Svíþjóðar, þar sem þetta hefur verið stundað í 10-15 ár, því Holland býður ekki upp á þessa aðferð. Hann þurfti að greiða kostnaðinn, þótt hollenska tryggingakerfið muni spara milljónir á ári. Þótt við setjum næstum allan skattpeninginn sem eyrnamerktur er heilbrigðiskerfinu í opinbera kerfið, er ekki þar með sagt að einkavæddar klíníkur og stofur myndu gefast upp.

Tækifærin fyrir einkareknar stofur eru til staðar. Læknar sem hafa áhuga á að rannsaka nýjar lækningaraðferðir og bjóða upp á sérhæfða meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum, geta selt sig á alþjóðlegum mörkuðum og fengið efnað fólk til landsins í meðferð. Svo geta einkareknar stofur boðið upp á eitthvað meira en hin almennu sjúkrahús. Einkastofur, aukin þægindi, staðsetningu í náttúrunni þar sem allir hafa útsýni til fjalla eða út á hafið, betri mat, meiri íburð, fleira starfsfólk og betri þjónustu. Allskonar þægindi sem eru ekki beint nauðsyn, en þeir efnameiri gætu viljað borga fyrir. Þessar einkareknu stofur fengju enga ríkisstyrki, enda um lúxusþjónustu að ræða.

Með því að bjóða upp á sterkt og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi og styðja við rannsóknarstörf innan háskólanna og sjúkrahúsanna, getum við veitt Íslendingum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á, byggt upp stétt lækna á heimsmælikvarða og leyft opinberu og einkareknu heilbrigðiskerfunum að lifa í sátt og vinna saman.

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu.

Verksmiðjan eða vöruskemman – ég er ekki viss hvað þessi bygging hafði verið í fyrra lífi – var björt og iðandi af fólki. Við gengum milli söluborða, smökkuðum heimagerða osta og smjör. Konan smakkaði kryddpylsu og var svo hrifin að hún keypti tvær. Ég er hrifnari af ostunum og smakkaði því allt of mikið. Bita hér og bita þar. Ótrúlega skemmilegt hvað úrvalið var mikið og framleiðsla bændanna ólík. Þurfti engan kvöldmat þennan daginn. Bóndinn sem ég ræddi hvað mest við sagði mér að hann hefði sjálfur mjólkað kýrnar og unnið ostinn. Hann hafði byggð skemmu bak við fjósið og þar fullynni hann mjólkina. Mjólkurbíllinn var löngu hættur að koma. En hvernig ferðu af því að lifa á þessu? Bændamarkaðurinn er skemmtilegur og allt það, en varla lifirðu á þessu oststykki sem ég var að kaupa? Nei, sagði bóndi, það er rétt. Ég sel líka í verslanir. Og það er rétt sem hann segir. Stórmarkaðir eru farnir að selja meira af lífrænum og hreinum íslenskum vörum. Þær eru eitthvað dýrari en verksmiðjuframleiðslan, en snýst lífið ekki um val? Að geta keypt bragðgóðan ost sem framleiddur var á búinu þaðan sem mjólkin kemur?

Þessir “beint frá búi” markaðir hafa verið að spretta upp um allt land. Íslendingar eru yfir sig hrifnir, ferðamenn sækjast í þetta og bændur brosa mest allra. Talandi um ferðamenn. Sveitavinnutúrisminn er farinn að blómstra, og sumir sem koma hingað til að njóta sveitasælunnar koma með hugmyndir og vinnsluaðferðir sem við höfum ekki þekkt.

Eða hvað? Sagan sem þú varst að lesa er uppspuni, skálduð hugarsmíð, því þetta má ekki. Það eru engir bændamarkaðir. Beint frá búi er hugtak sem hefur verið fleygt fram, en það einhverskonar þversögn. Bóndi má víst búa til ost, en aðeins með mjólk sem hann kaupir af MS. Þótt hann sé kúabóndi og framleiði eigin mjólk, þarf hann að selja hana og kaupa aftur á hærra verði.

Dýrin í sveitinni
Dýrin í sveitinni

Bændamarkaðir eru skemmtileg hugmynd. Þeir finnast víða í Evrópu og þar standa bændur með sínar vörur. Stundum sameinast nokkrir bændur um framleiðsluna, en þeir standa í þessu sjálfir. En þetta má ekki á Íslandi. Þar eru reglur sem sjá til þess að einhver smá hópur geti ráðið hver má kaupa mjólk, á hvaða verði. Það er frægt að Kjörís fór að framleiða jurtaís til að losna undan oki MS. Mjólka fékk mjólkina á hærra verði en KS, sem setti Mjólku næstum í þrot, KS keypti Mjólku, MS fór svo í tölfræðileik og útkoman var að Mjólka borgaði sjálfa sig og KS stóð eftir með fyrirtæki sem það borgaði ekkert fyrir. Fyrir einhverjum mánuðum fór heill Kastljósþáttur í að fletta ofan af mjólkurspillingunni. Og hvað gera stjórnvöld? Þau skella 10 ára búvörusamning á borðið sem styrkir hálstakið sem MS og KS hafa á markaðnum.

Ég skil að ríkið vilji halda utan um tóbaks- og áfengissölu. Annað efnið er krabbameinsvaldandi, bæði eru ávanabindandi og áfengi getur tvístrað fjölskyldum ef fólk ánetjast. En mjólk? Af hverju erum við með einokun á mjólk? Mjólkursala á að vera frjáls. Það eru engin rök sem ég get séð fyrir einokun á mjólkurmarkaðnum. Bændur eiga að geta selt afurðirnar hverjum sem er, hvort sem þær eru fullunnar eða ekki. Á meðan eftirlit er í lagi – þetta er jú matvælaframleiðsla – á það ekki að skipta máli hver framleiðir og selur landbúnaðarafurðir.

MS þarf ekkert að hverfa. Bændum er velkomið að selja mjólkina á sama hátt og verið hefur, enda eru heimaunnar og lífrænar vörur dýrari og ekki fyrir alla, en bændur verða að hafa val. Annað er einokun og einokun er eitthvað sem við áttum að vera löngu búin að losa okkur við.
Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata í suður-kjördæmi.

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Fyrir 23 árum steig ég upp í flugvél og hvarf á braut ævintýranna. Bláeygði íslendingurinn fór til London í nám. Ég lærði hratt. Ekki bara námsefnið, heldur um lífið. Ég skildi óttann við hin óþekkta eftir einhvers staðar á leiðinni. Heimsborgin, þar sem ég þekkti engan, var allt annar heimur en tiltölulega litla borgin við íshafið, þar sem fjölskyldan og vinirnir bjuggu. Ég steig inn í annan heim allt breyttist. Fjórum árum síðar var ég fluttur til Hollands, þar sem ég bý enn.

Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi spurt hvað þessi hálf-útlenski flóttamaður sé að tjá sig um málefni á Íslandi? Hvað kemur honum við hvar er virkjað, hver vaxtaprósenta á húsnæðislánum er, hver lágmarkslaun eru, hver er í ríkisstjórn og hver situr á Bessastöðum? Maðurinn hefur ekki búið á landinu í aldarfjórðung og honum kemur þetta ekkert við.

Það er gamall sannleikur að íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim. Sumir koma fyrir lokin, aðrir ekki. En allir eru þeir á leiðinni heim, með hugann heima eða með rætur á Íslandi. Landið okkar, móðurjörðin, föðurlandið, sleppir aldrei alveg takinu. Rétti tíminn til heimferðar hefur þó ekki komið enn. Mér líkaði aldrei byggingakranaæðið fyrir hrun, þótt ég hafi komið heim og gert alíslenska kvikmynd á þessum árum. Þegar ég skrifaði mína fyrstu skáldsögu, gerðist hún á Íslandi. Hrunið skapaði tækifæri til að hugsa smafélagið upp á nýtt og þó mig hafi langað að koma heim og taka þátt í því, var lífið ekki á því að leyfa mér það á þeim tímapunkti. Ég var með barn sem þjáðist af athyglisbresti, konan í góðri vinnu, ég í fastri vinnu. Tíminn var ekki kominn.

Það er samt pínulítið þannig að tíminn kemur aldrei. Tækifærin hoppa ekki í fangið á manni. Það er enginn leiðarvísir, ekkert kort.

Þegar ég skrifa þetta, á miðvikudagsmorgni, er ég að bíða eftir flugvél sem mun bera mig heim. Hún er sein, tafirnar um tvær klukkustundir. Hefur eitthvað með verkföll á Íslandi að gera. Því allt er enn ekki orðið gott þar. En hvað um það, ég bíð þolinmóður.

Píratahönd
Píratahönd

Ég er ekki að koma til að heimsækja fjölskylduna. Afarnir og ömmurnar eru flest farin. Það er tómlegt á Íslandi. Nei, ég er að fara í flug til að geta tekið þátt í aðalfundi Pírata um helgina. Þar sé ég von um betri framtíð, tækifærið til að koma heim.

Við vorum í sumarfríi á Íslandi fyrir þremur árum. Strákurinn var að leika sér með risastóra taflmenn í Fossatúni í Borgarfirði á sólríku sumarkvöldi þegar konan sagði það. „Eigum við að flytja til Íslands?“ Ef ekki hefði verið fyrir góða tannlæknaþjónustu í Hollandi, hefði ég verið kominn með falskar og ég er viss um að ég hefði misst þær út úr mér. Svo hissa var ég. Ég hef búið í þremur löndum og gæti flutt til Buthan ef þannig bæri undir, en hún er ekki fyrir að umturna öllu. Þetta kom því á óvart.

Við fórum að skoða möguleikana. Suðurlandið, Selfoss, heimaslóðir afa og ömmu, þótt þau séu farin. Við fundum lóðir, ég hannaði hús, en eitthvað hélt í okkur. Var það verðtryggingin? Augljós spillinginn sem vall út um öll göt í samfélaginu? Það var eitthvað, svo nú, þremur árum seinna, erum við enn í Hollandi. Okkur langar, en þorum við? Okkur líður ágætlega í Hollandi, hér eru vextir lágir, verðlag stöðugt, við erum bæði í vinnu, strákurinn í góðum skóla. Það er miklu að tapa, en hver er ávinningurinn við að flytja heim?

Fjölskyldan spilar stórt hlutverk. Þótt afarnir og ömmurnar séu flest farin, eigum við aðra ættingja, vini og allskonar fólk sem okkur er kært um. Landið er fallegt, loftið er hreint, maturinn er hollur, fólkið er skemmtilegt. Ísland er land mitt og mér kemur það við, langar að koma heim. En það er ennþá verðtrygging, spilling, möppudýrahelvíti.

En það þarf ekkert að vera þannig. Ég hef fylgst með Pírötum síðan þeir hófu sín störf, hef verið meðlimur lengst af og hef tekið þátt í málefnastarfi og umræðum, eins mikið og hægt er á netinu. Píratar vilja tryggja að allar auðlindir verði alltaf í almenningseigu, að rétt verð fáist fyrir nýtingu þeirra, að heilbrigðiskerfið verði endurbyggt, að gamla fólkið geti lifað af laununum sínum, að allir hafi sömu tækifæri, að verðtrygging og vaxtaokur hverfi, að náttúruperlur verði friðaðar. Píratar eru ljós í myrkrinu. Hrunið var eins og heimatilbúinn ísjaki sem fæstir sáu, hann gerði sitt með skarkala og látum. Skipið sökk næstum því, en það náðist að halda flakinu á floti og nú siglir það aftur með reisn. Ekki af því það var lagað, heldur vegna þess að nú er holskefla í ferðamannaiðnaðinum. Við eigum ennþá eftir að laga skipið svo að siglingin verði ánægjuleg fyrir alla og svo það standi af sér storma framtíðarinnar. Píratar hafa sýn og þeim er ekki sama um landið og fólkið sem í því býr.

Ísland getur verið fyrirmyndarsamfélag ef okkur langar til að gera það þannig. Framtíðin er óskrifað blað og það er undir okkur komið hvert við viljum fara. Óttinn er versti óvinurinn, hæsti þröskuldurinn. Hendum honum út í hafsauga og sköpum samfélagið sem við eigum skilið.

Þess vegna sit ég hér og bíð eftir flugvélinni. Það er von, það er komin sýn á betri framtíð og mig langar til að taka átt í að skapa hana.

Sjáumst um helgina.

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu, 28. maí 2016.

Húsnæðismálin á Íslandi fá mig til að hlæja og gráta, allt í senn. Ég er ekki hrifinn af tilfinningalegum rússíbönum þegar kemur að fjármálum, svo ég ætla að segja ykkur hvað er svona fyndið og sorglegt. Með því, vona ég að einhver vakni og að kerfinu verði breytt til hins betra.

17. maí s.l. birtist pistill eftir mig á síðum Kvennablaðsins (og hér). Þar bar ég saman vexti á húsnæðislánum í Hollandi og á Íslandi. Lægstu vextir sem ég nefndi voru 7,25% á Íslandi og 1,59%í Hollandi. Ég var að reyna að vera sanngjarn. Þetta eru lægstu almennir vextir sem ég fann.

Viðskiptabankinn minn, ABN Amro, býður nú húsnæðislán með 0,94% vöxtum. Auðvitað hangir eitthvað á spýtunni. Maður þarf þá að vera í viðskiptum við bankann, færa allt sitt til þeirra, en vextirnir eru 0,94%. Innan við eitt prósent.

Á sama tíma eru vextir á Íslandi sjö prósent eða hærri. Það kostar jafn mikið að borga vexti af einni íbúð á Íslandi og af átta íbúðum á sama verði í Hollandi.

En hvað gerist þegar vextirnir eru orðnir svo lágir að þeir skipta ekki mái og það er ekki lengur hægt að lokka fólk með þeim?

Í gær heyrði ég auglýsingu í útvarpinu. Nýtt húsnæðislán (hjá ING minnir mig) er ekki bara á lágum vöxtum, það er með tryggingu. Ef þú missir vinnuna eða verður óvinnufær, borgar bankinn sjálfur af láninu í sex mánuði. Hann gefur þér tíma til að finna nýja vinnu, hann gefur þér tækifæri til að láta þér batna eða gera aðrar ráðstafanir svo að þú lendir ekki í vandræðum með afborganir. Fyrstu sex mánuðina þerftu ekki að hafa áhyggjur af húsnæðisláninu, því bankinn tryggir það. Við fjölskyldan erum með eins tryggingu, en borguðum eitthvað smávægilegt fyrir hana. Nú getur fólk fengið trygginguna frítt.

Blokk í Reykjavík (VGA 2015)
Blokk í Reykjavík (VGA 2015)

Svona virkar samkeppni.

Á meðan, á Íslandi…

Ég var að spá í hvað ég ætti að kalla þennan pistil, en þrælanýlenda er það eina sem mér dettur í hug.

Að lokum… eftir að fyrri pistillinn birtist hér fyrir tæpum tveimur vikum, fékk ég póst frá ÍLS. Þar var sagt að ég færi með rangt mál, og hvort ég vildi leiðrétta mitt mál. Ég sagði að það væri sjálfsagt og sendi sjö spurningar til baka. Sagði að það væri gott að fá svör við þeim svo ég gæti skrifað nýjan pistil þar sem staðreyndirnar væru leiðréttar. Það væri betra en að breyta texta í pistli sem flestir eru búnir að lesa, því þá sér enginn leiðréttinguna. Það er vika síðan ég sendi spurningarnar, en engin svör hafa borist. Þau hafa sína hentisemi á því og ég hef engar áhyggjur. ÍLS hefur þó selt 450 eignir í „opnu ferli“. Opnu, fyrir þá sem geta keypt 450 íbúðir í einu. Lokuðu fyrir okkur hin.

Mér sýnast lánastofnanir á Íslandi vera í einhverjum allt öðrum viðskiptum en þær erlendu. Hér er okrað á fólki, eignirnar miskunnarlaust teknar af því og seldar í einhver fyrirtæki sem virðast vera tengd stjórnmálamönnum.

Þrælanýlenda.

Ég læt spurningarnar sjö til ÍLS fljóta með. Í póstinum sagðist ég vera tilbúinn til að biðjast afsökunar ef um rangfærslur var að ræða. Sjáum til hvernig það fer, en hér eru spurningarnar. Sjáum hvort svör berist. Vonum svo að Ísland komist í hóp siðaðri þjóða í náinni framtíð.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Fyrir um viku skrifaði ég pistil í Kvennablaðið. Ég furðaði mig á að sjóðurinn hefði selt 153 íbúðir í ekkert rosalega opnu ferli. Eftir birtingu pistilsins, barst mér póstur frá starfsmanni sjóðsins. Ég var beðinn um að leiðrétta rangfærslu í pistlinum. Það var ekki alveg á hreinu hvar ég var að fara með rangt mál, svo ég svaraði póstinum og bað um frekari upplýsingar.

Hús í bænum (VGA 2015)
Hús í bænum (VGA 2015)

Svar hefur ekki borist, en ég hafði engar áhyggjur, þar sem ekkert liggur á. Nú sé ég að ÍLS hefur selt leigufélagið Klett og 450 íbúðir. Í einum pakka.

Það er kannski hægt að túlka það þannig að þetta hafi farið á opnum markaði, þar sem allir sem hafa efni á 450 íbúðum í einum bita gátu boðið í félagið, en þettta getur ekki átt að virka svona. Það getur ekki verið að sjóður sem er í eigu ríkisins, í okkar eigu, gefi okkur ekki tækifæri til að kaupa íbúðirnar sem voru (sennilega flestar) teknar upp í stökkbreyttar skuldir eftir hrun.

450 eignir. Og ég var að kvarta yfir 153 íbúðum.

Eins og ég sagði að ofan, hef ég ekki enn fengið svar frá ÍLS. Þau skulda mér svo sem ekkert, en það væri gott að vita hver rangfærslan var í pistlinum fyrir viku. Í ljósi þess að ÍLS virðist vera á fullu að losa sig við eignir til fjársterkra aðila, finnst mér það skipta máli fyrir almenning hvað mér og sjóðnum fór á milli. Hér fyrir neðan er hægt að lesa athugasemdina sem ég fékk í tölvupósti og minn svarpóst. Ég hef fjarlægt nafn starfsmanns sjóðsins.

19. maí 2016 í pósti til Steinunar Ólínu, ritstjóra Kvennablaðsins:

Í blaðinu ykkar í fyrradag birtist greint/frétt fá Vilhjálmi þar sem m.a. var vikið að sölu fasteigna hér hjá Íbúðalánasjóði. Í greininni eru atriði sem ég tel rétt að koma á framfæri athugasemdum við.
Ég hef ekki netfang hans eða aðrar tenglaupplýsingar og mér þætti vænt um ef þú kæmir þessu til hans. Ég óska eftir því við Vilhjálm að hann leiðrétti það sem ekki er rétt með farið í blaðinu ykkar og mér þætti vænt um ef þú sem ritstjóri myndir fylgja því eftir og að til skila komist þessar ábendingar mínar.
Það sem er aðalatriðið er að Íbúðalánasjóður leggur mjög ríka áherslu á að eignir sjóðsins séu seldar í opnum ferlum þannig að allir sem hafa áhuga á kaupum hafi kost á að kaupa þessar eignir. Á síðustu árum hefur sjóðurinn selt eignir fyrir um 50 m.a.kr, (50 þúsund milljónir króna). Við teljum að þetta markmið okkar að selja í opnum söluferlum hafi tekist nokkuð vel og vinnum með Félagi Fasteignasala á þann hátt að allar fasteignasölur í landinu geta unnið fyrir sjóðinn.

Hér er minn svarpóstur, sendur sama dag:

Sæl(l) xxx,

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið með rangt mál. Það er sjálfsagt að leiðrétta pistilinn ef ég hef sagt eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það sem ég skrifaði var byggt á frétt MBL (hlekkur í pistli) og upplifun á fréttum undanfarin ár. Auðvitað er það möguleiki að mín tilfinning sé ekki það sem virkilega gerðist.

Til að ég skilji hvar ég fór með rangt mál, langar mig að spyrja örfárra spurninga. Upplifun okkar á fréttum er ekki alltaf í takt við raunveruleikann, og því væri gott að geta skrifað grein sem byggð er á staðreyndum frá ykkur.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Afsakið allar spurningarnar. Það eru sennilega margar ranghugmyndir um ÍLS í þjóðfélaginu og það væri gott að geta skrifað grein sem bygð er á upplýsingum frá ykkur.

Bestu kveðjur,
Vilhjálmur Ásgeirsson

Krakkar, þið eruð klisja

Krakkar, þið eruð klisja

Aðdragandi kosninga er eins og vorið. Loforð um betri tíð með blóm í haga. Sterkara heilbrigðiskerfi sem fólk hefur efni á, lækkandi skatta með hækkandi sól, blóm í hnappagötum eins og fíflar í túni, menn í lopapeysum kyssandi börn fyrir framan myndavélar.

Og unga fólkið. Þessi furðudýr sem hugsa öðruvísi en miðaldra stjórnmálamennirnir, þessar kynjaskepnur sem þarf að skilja svo hægt sé að hala þær inn eins og fiska á öngli. Miðaldra pólitíkusinn stúderar bráðina svo hann geti veitt hana.

Barnið við styttuna (VGA 2013)
Barnið við styttuna (VGA 2013)

Það er bara eitt sem gengur ekki upp í þessu dæmi. Unga fólkið er ekki önnur dýrategund sem þarf að skilja. Unga fólkið er fólk með nokkurn vegin sömu þarfir og miðaldra fólk. Það er ekkert erfitt að skilja unga fólkið, nema maður hafi misst tengslin við eigin fortíð og sé búinn að gleyma hvernig var að byrja sjálfstætt líf, eða ef maður hefur aldrei verið þar og aldrei þurft að hafa fyrir neinu.

En allavega…

Krakkar, þið eruð klisja. Eða allavega hluti af stærri klisju.

Fyrir kosningar er talað um ykkur. Talað um að hlusta á ykkur, því þið eruð víst svo frábrugðin okkur gamla fólkinu að við getum ekki sett okkur í ykkar spor. Ykkur er lofað hinu og þessu. Betra LÍNi, fleiri leikskólum, betri framtíð með blóm í haga, betra heilbrigðiskerfi… og allt það. Þið þekkið þetta. Miðaldra mennirnir ætla að gefa ykkur dót til að leika með. Þeir ráða þessu. Þið munið bara að kjósa þá. Eða kjósa ekki, því eldra fólkið sér um þetta með því að kjósa sama gamla aftur og aftur.

Önnur klisja er að þið virðist gleypa við þessu. Virðist allavega ekkert vera að pæla neitt sérstaklega í því. Klisjan er að ungt fólk taki ekki þátt í stjórnmálum. Mörg ykkar láta hlutina bara gerast, annað hvort vegna áhugaleysis eða uppgjafar.

Uppgjöfin er skiljanleg. Hér varð hrun. Mamma og pabbi misstu kannski húsið, frændi framdi sjálfsmorð, afi dó eftir að hafa legið á ganginum á spítalanum vegna peningaskorts og myglusvepps og amma er orðinn farandelliheimilismatur því það er alltaf verið að flytja hana. Hún er ennþá sár yfir að hafa ekki fengið að búa með afa síðustu árin, því hann var veikur en hún ekki. Eina manneskjan sem virðist lifa þokkalegu lífi er frænka sem flutti til útlanda. Hún segir allavega að hún hafi það ágætt. Það er örugglega þannig, því allt er betra en þetta sker miðaldra (og þaðan af eldri) karla. Kannski maður flytji bara út.

Áhugaleysið er samt eiginlega stærra vandamál. Stjórnmál eru leiðinleg, miðaldra karlarnir eru leiðinlegir og þetta virðist ekki vera neitt nema tuð og rifrildi fólks sem á nóg af peningum. Alvörugefnir talandi hausar í sjónvarpinu þykjast vita allt og kunna allt. Boring. Stjórnmál eru samt ekki alveg þannig. Stjórnmál snúast um að hafa áhrif á samfélagið, stýra því í átt til framtíðar. Fólkið sem tekur þátt í stjórnmálum og kýs í kosningum hefur áhrif á framtíðina. Fólk sem nennir ekki að spá í þetta hefur engin áhrif.

Stjórnmál snúast ekki bara um leiðinleg mál eins og fjárlög sem enginn skilur hvort eð er. Þau snúast um stefnu samfélagsins. Stjórnmál nútímans hafa áhrif á framtíðina. Og þá er spurningin. Hver á að ákveða hvernig framtíðin lítur út? Miðaldra karlar, karlar sem ættu að vera að skríða á eftirlaun eða fólkið sem þarf að lifa í framtíðinni sem er sköpuð í dag?

Munum að það vantaði sex atkvæði á að Píratar kæmu inn manni í Hafnarfirði um árið. Sex atkvæði. Ég er ekkert að tala um Pírata, en þetta sýnir að örfá atkvæði geta haft áhrif.

Við getum haldið áfram á sömu braut. Haldið áfram að pæla ekkert í miðaldra körlunum sem lofa „unga fólkinu“ einhvers. Við getum haldið áfram að styðja (beint með atkvæðum eða óbeint með því að kjósa ekki) við gamla bitlingasamfélagið þar sem okkur er lofað hinu og þessu en það svo tekið af okkur strax eftir kosningar þegar stjórnarsamstarf er í húfi. Við getum leyft þeim að hola heilbrigðis- og menntakerfin að innan og lækka framfærsluviðmið LÍN eftir hentugleika.

Við getum líka tekið völdin sjálf. Unnið í hugmyndum um beint lýðræði, fundið lausnir á framfærslukosnaði í námi, reynt að koma vaxtaprósentunni á húsnæðislánum niður í það sem þekkist í löndunum í kring um okkur (þau eru nú 4x hærri á Íslandi en í ESB).

Unga fólkið þarf að vakna. Taka þátt í að skapa eigin framtíð, koma með hugmyndir, kjósa flokka sem virkilega virðast ætla að breyta einhverju. Taka þátt.

Það er nefninlega þannig að breytingar eru ekki endilega slæmar. Við þurfum ekki að vera hrædd. Eftir langan vinnudag er gott að breyta til og fara heim. Eftir 72 ár af því sama, er kannski kominn tími til að breyta til og gera íslenskt samfélag réttlátara og jákvæðara.

Unga fólkið getur breytt samfélaginu. Miðaldra karlarnir eru fastir í gamla farinu. Þeir eru ekki að fara að breyta neinu.

Krakkar, takið til hendinni. Takið þátt, kjósið. Skiptir ekki máli hvað, á meðan þið kjósið.

Ekki gera ekki neitt. Ekki vera áhugalaus um framtíðina. Hún er ykkar, ekki þeirra. Takið það sem ykkur ber. Hafið áhrif. Takið þátt.

Ekki vera klisja.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Stóra Samhengið: Af Flugvöllum, Spítölum og Komugjöldum

Einhvern tíma viðraði ég hugmynd um að stokka upp nýtingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

Alþingishúsið yrði safn, enda staðsetningin fullkomin og húsið sjálft sögufrægt.

Alþingi myndi þá flytjast í gamla Landspítalann við Hringbraut. Byggingin er töluvert stærri en núverandi þinghús og gefur möguleika á að hafa alla starfsemina undir einu þaki. Húsið er glæsilegt og myndi hæfa æðstu stofnun þjóðarinnar.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Landsspítalinn myndi fara á Vífilsstaði, þar sem gamla byggingin nýttist, en nýtt hátæknisjúkrahús yrði byggt við. Vífilsstaðir eru mun meira miðsvæðis og aðkoma auðveldari en á Hringbraut. Svo eru þeir 40km frá Keflavík. Það tæki sjúkrabíl 15-20 múnútur að keyra frá flugvellinum að sjúkrahúsinu. Þar með væri hægt að leggja niður Reykjavíkurflugvöll án þess að stefna lífi sjúklinga í hættu.

Staðsetning Landsspítalans nálægt flugvelli er kannski ekki aðal atriðið. Er allt þetta sjúkraflug nauðsynlegt? Af hverju þarf að fljúga með sjúkling frá Kópaskeri til Reykjavíkur? Af hverju eru ekki öflug fjórðungssjúkrahús á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi? Er það svona dýrt? Höfum við ekki efni á því? Er það betra að svelta heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni, halda flugvellinum, spítalanum og gera ekki neitt?

Hvað veldur ráðaleysinu? Kostnaður, íhaldssemi eða viljaleysi?

Í vikunni var talað um að það myndi kosta 6-7 milljarða á ári að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst. Það þýðir að fólk sem þarf á læknisaðstoð, sjúkrahúsvist eða krabbameinsmeðferð að halda, fengi aðstoð án þess að fjárhag viðkomandi væri stefnt í voða. Þetta er há upphæð, en ekki óviðráðanleg. Hagnaður Borgunar, sem var einkavædd í vægast sagt hæpnu ferli var svipaður. Þetta eina fyrirtæki hefði getað greitt fyrir heilbrigðisþjónustu allra landsmanna.

Hugmyndin er að einkavæða fleiri ríkisfyrirtæki á næstu vikum og mánuðum. Það hefur forgang, ekki heilsa þjóðarinnar.

Lokaorð:
Ég minntist á að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Það er viðbúið að fólk hengi sig á það mál og fari að rökræða hvort það sé góð hugmynd. Flugvöllurinn er þó ekki aðal atriðið í greininni. Heildarmyndin er aðal atriðið, að við skoðum allt saman, tengjum punktana. Við getum byggt upp fyrirmyndarsamfélag á Íslandi. Við gerum það með því að skoða stóru myndina, ekki með því að einblína á einstök mál án þess að skilja samhengið.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Að gera ömmu skil í stuttri grein er ómögulegt. Á langri ævi tók hún sér svo margt fyrir hendur, að bók myndi rétt ná að klóra í yfirborðið.

Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013
Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013

Hún saumaði flíkur, húfur og búninga, sá um stórt heimili, skrifaði sögur, gaf út bækur, málaði og fleira. Hún var líka fantagóður ljósmyndari. Hún notaði Konica vélina sína og linsusafnið til að taka myndir af fjölskyldunni, gerði listrænar tilraunir á okkur krökkunum, fangaði landslagið og dýrin í sveitinni. Það sem var kannski merkilegast fyrir barnið, var að sjá myndirnar hennar í Mogganum, á forsíðu Lesbókarinnar. Amma var frægur ljósmyndari. Þannig virkaði það allavega í heimi barnsins. En hún varð aldrei frægur ljósmyndari, listamaður eða rithöfundur. Hún var svo hæfileikarík á svo mörgum sviðum að hún festist aldrei í einhverju einu. Þegar hún hafði sannað fyrir sjálfri sér að hún væri nógu góð fyrir Lesbókina, fór hún að gera eitthvað annað.

En allt sem hún gerði, gerði hún vel.

Fyrir nokkru síðan, lét hún mig hafa gömlu myndavélina og töskuna með linsunum. Hún var farin að sjá illa og enginn notaði myndavélar sem notuðu filmur. Safnið hennar var verðlaust, ónýtt. En með nýrri tækni, gat ég sett gömlu linsurnar á nýju myndavélina mína og tekið myndir gegnum glerið sem fangaði okkur krakkana fyrir 40 árum. Amma hafði brennandi áhuga á þessu, skoðaði og var með á nótunum. Eins og alltaf. Því þótt líkaminn væri farinn að eldast, var hugurinn enn í fullkomnu lagi. Hún varð aldrei gömul í anda. Hún varð himinlifandi þegar hún fékk nýja tölvu í afmælisgjöf fyrir þremur árum. Hún setti saman bækur um fjölskylduna. Hún fór líka að setja sögurnar sínar á bók. Hún var í sambandi við fjölskylduna í fjarlægum löndum. Tölvan var notuð til hins ýtrasta.

Þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið, var amma mikið veik. Hún gat varla setið upprétt, gat illa tjáð sig. En hversu veikburða sem manneskjan í rúminu var, skein persónuleikinn í gegn. Amma var ennþá jafn sterk og hún hafði alltaf verið, reisnin var sú sama. Daginn áður en hún fór, sat hún í eldhúsinu og fékk sér kaffi með kringlu. Ég man ekki eftir henni öðruvísi en með kaffi og kringlu og það var ómetanleg gjöf að geta hjálpað henni að njóta síðasta dagsins eins og hægt var, eins og hún helst vildi.

Það er auðvelt að búa til mynd af stórkostlegri manneskju með því að telja upp það sem hún hefur afrekað á ævinni. En það sem mestu máli skiptir eru minningarnar sem hún skilur eftir sig, hvernig hún mótaði afkomendurna og gerði okkur að heilstæðum einstaklingum. Hún tók sér margt fyrir hendur, en hennar meistaraverk var fjölskyldan. Hún ól upp fimm börn og var svo mikið meira en bara móðir. Hún var líka mikið meira en amma fyrir okkur, barnabörnin. Hún var akkerið, kletturinn, grunnurinn. Nú þurfum við að fara að sjá um okkur sjálf. Nýta það sem hún gaf okkur.

Villi, Miriam og Mats

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Útlendingar

Útlendingar

Íslendingar eru hrein þjóð, ómenguð af endalausum blöndunum sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola í gegn um tíðina. Við erum afkomendur víkinga, erum hörkutól sem lifðu af þúsund ár í skítakulda og komum sterk og sjálfstæð inn í nútímann.

Það er um það bil svona sem við sjáum okkur. Eða sáum okkur. Held það sé að breytast. Við erum nefninlega merkilega blönduð. Einhver hluti genanna kemur frá Skandinavíu, einhver hluti frá Bretlandseyjum. En það er ekki allt. Við erum ekkert viss hvaðan við komum. Ég hef séð hreinræktaða íslendinga sem líkjast mið-austurlandabúum. Genin okkar koma víða að. Og þótt við værum óblönduð frá landnámi, vitum við ekki hvar genin voru fyrir þann tíma.

Nýlega las ég grein eftir Naomi Wolf. Hún er gyðingur, fæddist inn í gyðingafjölskyldu og ólst upp í þeirra trú. Hún trúði, eins og henni hafði verið sagt, að hún væri hluti að Guðs útvöldu þjóð. Í greininni sagði hún frá genaprufu sem fjölskyldumeðlimur fór í. Naomi komst að því að hún er alls ekki gyðingur. Hún á rætur að rekja til Líbanon og ýmsra landa í Evrópu. Hún er blanda af araba, persa og evrópubúa. Eiginlega allt annað en gyðingur.

En það er ekki allt. Flestir nútímagyðingar eru svokallaðir Ashkenazi gyðingar, eða þýskir gyðingar eins og það myndi þýðast. Þeir eru ekki blóðskyldir fólkinu sem bjó í Palestínu í fornöld, heldur koma þeir frá Kákasus og Evrópu. Þeir eru því ekki Guðs útvalda þjóð, allavega ekki erfðafræðilega séð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki að sverta Ísrael eða gyðinga. Alls ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að við vitum oft ekkert hver við erum. Eða hverra. Við vitum að við erum fólk, við erum hluti af mannkyninu. Auðvitað er gaman að gramsa í fortíðinni og finna út hvaðan við komum, en það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli, er að við erum öll ein stór fjölskylda.

Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.
Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.

Innflytjendamál hafa verið mikið í umræðunni. Múslímar eru vandamál því þeir eru eins og olía sem blandast ekki við það sem fyrir er. Pólverjar eru heimskir glæpamenn sem stela vinnunni okkar. Eða voru það litháar? Allavega, þessir útlendingar eru vandamál sem við þurfum að halda frá okkur.

En það er bara ekkert þannig. Útlendingar eru líka fólk. Fólk með tilfinningar, þrár og von um betri heim. Stundum erum við sammála þeim, stundum ekki. Það skiptir þó engu máli, því við íslendingar erum ekkert sammála um allt. Vel heppnað samfélag snýst ekki um að allir séu sammála, heldur að fólk virði náungann og skoðanir hans.

Besta leiðin til að búa til innflytjendavanda er að útiloka innflytjendur frá samfélaginu. Láta þá finna að þeir séu óvelkomnir. Halda þeim frá vinnu og samfélagshópum. Þannig einangrast þeir og festast í fátækragildru. Fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum og finnst það vera hatað, reiðist. Það fer að hata á móti. Fer að halda saman í hópum. Fer að vinna gegn samfélaginu sem fyrir er.

Besta lausnin á útlendingavandanum er því ekki að takmarka straum innflytjenda, gera þeim erfitt fyrir, banna þeim að vinna eða byggja sín guðshús. Þvert á móti. Ef við bjóðum þau velkomin og gerum aðlögunarferlið eins auðveldt og hægt er, getum við búist við hamingjusömum einstaklingum sem þykir vænt um (nýja) landið sitt og eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum.

Mestu máli skiptir auðvitað að þjóðin sé opin og fordómalaus. Að við getum séð muninn á venjulegu fólki sem vill setjast að og hefja nýtt og betra líf í sátt við allt og alla, og þá sem vilja þvinga okkur til að taka upp þeirra siði með góðu eða illu. Fordómaleysið og virðingin verður að vera beggja megin. Ef upp koma vandamál, þurfum við að taka á þeim. Ef fólk lifir sínu lífi í sátt, þurfum við ekkert að hafa áhyggjur. Við verðum að sjá muninn og haga okkur eftir því, því annars búum við til vandamál þar sem ekkert var.

Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.
Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.

En hvernig er best að bjóða fólkið velkomið og gera því flutningana og menningarsjokkið eins auðvelt og hægt er? Ég væri alveg til í að sjá einhverskonar ráðstefnur eða hittinga þar sem fyrirtæki mæta og eru með bása, áhugasamt fólk mætir til að kynnast „nýbúunum“ (og fræðast, finna vinnu etc) og innflytjendur geta safnað saman upplýsingum um stjórnsýsluna, reglur, fyrirtæki, atvinnutækifæri, íslandssöguna og fleira.

Fyrirtækin myndu nota þetta sem leið til að kynna sig og ná í vinnuafl, innflytjendur til að komast inn í samfélagið (kynnast fólki og fyrirtækjum) og hið opinbera til að sitja fyrir svörum um mál sem geta komið upp.

Það yrði frítt inn, allir velkomnir.

Það skiptir nefninlega mestu að innflytjendur hafi á tilfinningunni að þeir séu velkomnir, að þeir komist í vinnu og kynnist fólkinu í landinu. Árekstrar verða nefninlega þegar þetta er ekki í lagi, því þá einangrast þeir.

Fólk sem lifir ekki í fátækt og einangrun er nefninlega sjaldnast til vandræða.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube