Browsed by
Category: Trúmál

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Það var orðið dimmt, enda langt liðið sumars. Við vorum búin að borða. Þau borðuðu nautaborgara og svínapylsur eða eitthvað álíka, ég grænmetisborgara. En það er ekki það sem mér liggur á hjarta.

Wim, tengdapabbi minn til 18 ára, er ekki mikið fyrir að opna sig. Hann segir ekki meira en nauðsynlega þarf. Kannski eru það genin, uppeldið eða karakterinn. Hvað veit ég? En í kvöld, eftir mat, sátum við í garðinum og nutum þess að tala um ættingja, fólk sem er farið og fólk sem enn er meðal okkar. Talið barst að stríðinu því ég er að lesa bókina Savage Continent, um hildarleikinn í Evrópu á árunum 1945-47. Tímabil sem sjaldnast er talað um. Ég minntist á að Holland væri til umræðu í bókinni, því hér var hungusneyð veturinn 1944-45.

Við vissum að faðir tengdamömmu hafði misst fótinn eftir að hann steig á jarðsprengju. Hún sagði okkur frá því hvernig fóturinn hefði aldrei verið til friðs og vandamál sem slysið hafði í för með sér dró hann loks til dauða. En þá kom saga sem ég hafði aldrei heyrt.

Faðir tengdapabba var nær dauða en lífi af hungri, eins og fleiri þennan vetur. Bræðurnir fundu kálf, og vegna hungursins, drápu þeir dýrið. Nasistarnir komu að þeim og byrjuðu að skjóta. Faðir tengdapabba lifði þetta af, en bróðir hans var drepinn.

Sagan er oft nær en okkur grunar. Það munaði litlu að Þýskaland ynni stríðið. En þrátt fyrir tap Nasista var flóttamannavandinn eftir þann hildarleik gríðarlegur, meiri en við getum ímyndað okkur. Röskunin sem varð af stríðinu var svo fáránleg að þótt maður lesi bók og skilji að þúsundum kvenna hafi verið nauðgað (meðan þær héldu í höndina á börnunum til að týna þeim ekki), sumum oft á dag í margar vikur, eða nauðgað eftir að fjölskyldurnar voru drepnar fyrir augum þeirra… við skiljum þetta ekki. Sama hversu nákvæmar sögurnar eru, sama hversu vel við reynum að setja okkur í spor þessa fólks. Við getum ekki skilið hversu viðbjóðslegt mannlegt eðli getur verið.

Við getum ekki sett okkur í spor fólksins sem nú knýr að dyrum í Ungverjalandi eða hvar það er sem flóttafólk nútímans endar. Hvað sá þetta fólk í heimaborg sinni? Horfði þetta fólk upp á fjölskyldumeðlimi pyntaða og drepna? Dætrum þeirra nauðgað?Hvernig var ferðin sem það sá sig knúið til að leggja í? Af hverju yfirgaf þetta fólk sitt heimaland?

Við sem höfum lifað okkar lífi tiltölulega áfallalaust getum ekki skilið hvað fólk frá stríðshrjáðum löndum hefur gengið í gegn um. Ekki frekar en tengdapabbi gat skilið manninn sem hann vann fyrir sem ungur maður. Sá hafði lent í Nasistunum. Hann átti fyrirtæki sem gekk vel. Viðskiptin voru í blóma. En maðurinn var ekki í lagi. Hann eyddi öllum sínum peningum í hórurnar í Amsterdam og endaði eignalaus á kafi í vínflösku. Því hann gat aldrei sætt sig við það sem hann hafði lent í. Stríðið eyðilagði hann.

A street in Homs, Syria in 2011 and 2014Stríð eru ógeð. Stríð eru opinber og lögleg fjöldamorð. Fólk sem er meðfylgjandi stríði, eða er sama því það gerist einhverstaðar annars staðar, eða grefur hausinn í sandinn því það er svo erfitt að sjá myndir, er samsekt. Davíð og Halldór gerðu okkur samsek um Írak. Þeir settu Ísland á lista hinna viljugu, eða hvað það heitir. Össur lagði blessun sína yfir að Lýbía yrði sprengd í loft upp. Og í bæði skiptin gerðum við ekkert. Þjóðin lét eins og henni kæmi sér þetta ekki við. Stjórnmálamennirnir eru með blóðugar hendur, en við erum ekkert betri því við létum eins og okkur kæmi þetta ekki við. Því stríð gerast annars staðar. Ekki hjá okkur.

Afabróðir konunnar minnar var drepinn af Nasistum því hann reyndi að bjarga sér í hungusneyð sem kom til vegna þess að einhverjir fávitar ákváðu að Evrópa þyrfti á stríði að halda. Íslendingar voru sendir í útrýmingarbúðir. Ógeðið er ekkert voðalega langt í burtu.

Og nú tuðum við yfir því að flóttamenn nútímans trúi á annan guð en þann sem okkur þykir æskilegur. Svona eins og þegar við sendum gyðinga til Þýskalands í seinna stríði. Í alvöru, við íslendingar sendum gyðinga til Þýskalands Nasismans. Af því gyðingar eru ekki af norrænum kynstofni, eða eitthvað. Okkur virðist hafa verið skítsama um örlög þeirra því þau voru gyðingar.

Við lögðum blessun okkar yfir loftárásirnar og innrásirnar sem eru að búa til flóttamannastrauminn í dag. Okkur þótti ekkert athugavert við það að eitthvað ríki réðist á annað ríki og rústaði borgunum og dræpi fólkið sem þar bjó. Því það voru NATO lönd og við erum góðu kallarnir. Og svo, þegar þetta fólk bankar á dyrnar og biður um að komast inn því það er ofsótt í sínu eigin landi, látum við eins og okkur komi þetta ekki við? Af því öryrkjar eru á lágum launum. Af því við þurfum að hugsa um okkar fólk fyrst. Af því að annað fók er minna virði? Af því þetta fólk trúir ekki á þjóðkirkjuna eða eitthvað.

Mannkynið er allt tengt. Við erum öll fólk. Þó að konan í Damaskus tali annað tungumál og trúi á annan guð, er hún ekkert öðruvísi en meðal íslendingur. Hún á sér drauma, hún vill þokkalegt líf og hún vill vera í friði fyrir fólki sem drepur allt og alla fyrir einhvern málsstað sem hún skilur varla haus né sporð á. Allt sem hún vildi var að lifa, vinna, ala upp sín börn og deyja í friði þegar hennar verk var búið. Eins og við öll.

Flóttafólk er ekki að sækjast eftir að setjast að á vesturlöndum til að lifa á sósjalnum. Þetta fólk vill einfaldlega lifa. Það vill frið frá djöfulgangi styrjalda. Helst vildi þetta fólk vilja búa áfram í sínu heimalandi, en það er ekki hægt því það er allt í kássu því fávitar notfæra sér glundroðann sem við höfum skapað til að myrða og nauðga. Evrópa er blessunarlega laus við stríð (í bili), og því sækist þetta fólk hingað. Auðvitað er viðbúið að við þurfum að hjálpa þessu fólki að finna fótana eftir það sem á undan er gengið, en þetta fólk er ekkert öðruvísi en við. Það hefur bara gengið í gegn um helvíti sem við þurfum vonandi aldrei að skilja.

Rasistarnir

Rasistarnir

Í dag sá ég mynd á netinu. Þar var vitnað í samfylkingarkonu sem átti að vera að sleikja upp múslímana. Í athugasemdunum var hún kölluð kexrugluð sosíaldemókratakelling, vanhæfur vesalingur, og fáviti. Talað var um að við gætum alveg eins skikkað íslenskar konur til að ganga í búrkum.

Kristín SoffíaÉg skildi ekki textann á myndinni. Ég þekki konuna ekkert, en setningin hlaut að vera úr samhengi. Enda kom það í ljós þegar Kristín tjáði sig um málið.

Þetta er svo skemmtilegt svona algjörlega slitið úr samhengi. Á sama tíma og Moskuumræðan fór sem hæst þá var í gangi mikil umræða um slæma meðferð á grísum og margir lýstu því yfir að þeir ætluðu að hætta að borða svínakjöt. Þetta fannst Jóni Jónssyni og fleiri bitrum gömlum körlum svakalega merkilegt og gátu lesið allt í þetta. Svo var klesst mynd af Degi inn á þetta til að reyna að klekkja á honum. Flottir karlar.

Ég er alveg sammála því að Islam eru arfaslæm trúarbrögð. Þau eiga það sameiginlegt með flestum trúarbrögðum sem hafa verið mikið til óbreytt í aldaraðir. Heilu þorpin eru myrt í nafni Allah. Konur eru seldar í kynlífsánauð og krakkarnir drepnir. Mér er alveg sama hvort Islam séu friðsamleg trúarbrögð. Sumir áhangendurnir eru það ekki.

En sama má segja um kristni. Það þarf sennilega ekki að minnast á krossferðirnar og rannsóknarréttinn, nornabrennurnar og ofbeldið sem grasseraði í Evrópu miðaldanna, þegar kristni var sem sterkust. Allt var það í nafni Guðs og sonarins. Auðvitað sagði Jésú margt fallegt, en hvorki hann né faðirinn gátu stoppað geðveikissjúklinga sem drápu og nauðguðu í þeirra nafni.

Enn þann dag í dag eru kristnir öfgamenn að drepa í nafni frelsarans. Sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem framkvæmir fóstureyðingar er reglugela drepið af „pro life“ aktivistum.

En það þarf ekkert trú til að gera fólk morðótt og snarbilað. Flestir vita sennilega að „blessað stríðið“ var mesti hildarleikur mannkynsins til þessa. Heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu, óbreyttir borgarar strádrepnir. En það endaði ekki í maí 1945 (eða ágúst í Asíu). Hefndarmorð voru daglegt brauð í Evrópu fyrstu 2-3 árin eftir stríð. Það eru til sögur af konum sem var nauðgað 5-10 sinnum á dag í nokkrar vikur. Þeim var nauðgað meðan þær héldu í höndina á barninu til að týna því ekki. Fjölskyldan var myrt meðan þær horfðu á og svo var þeim hópnauðgað. Börn voru pyntuð og drepin. Skotin eða hengd. Þjóðverjar (líka konur og börn) voru þvingaðir til að opna fjöldagrafir og svo var andlitum þeirra troðið ofan í rotnandi líkin þar til þau drukknuðu í slíminu.

Það voru engir múllar þar. Það þurfti ekki trúabrögð til. Aðstæðurnar voru „réttar“. Þegar aðstæðurnar eru þannig, bilast fólk og gerir hluti sem það myndi annars ekki láta sér detta í hug.

Fólk gerir ógeðslega hluti þegar aðstæðurnar eru þannig. Að ala á útlendingahatri býr til þannig aðstæður. Það býr til bil milli okkar (íslendinganna) og þeirra (innflytjendanna). Bil sem breikkar, því lengur og oftar sem við tölum um þetta útlendingapakk. Bil sem verður erfiðara að brúa, því lengur sem við leyfum fordómunum að grassera.

Ef við missum okkur í rasisma, eru líkur á því að innflytjur geri eins. Það er okkar, íslendinganna, að búa til samfélag sem hafnar rasima og öllum fordómum.

Þess vegna nenni ég ekki að taka þátt í umræðunni um moskuna, múslíma, pólverja. Innflytjendur, yfir höfuð. Flestir eru þeir sennilega voðalega venjulegt fólk. Ef annað kemur í ljós, ef einhverjir einstaklingar fara að brjóta lögin, er tekið á þeim. Við erum með dómskerfi sem sér til þess að fólk er dæmt fyrir ofbeldisverk.

Hálfur sannleikur er sennilega versta lygin. Þessi mynd sem flögraði um Facebook í dag er gott dæmi um hálfan sannleik sem verður að lygi.

Útlendingar

Útlendingar

Íslendingar eru hrein þjóð, ómenguð af endalausum blöndunum sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola í gegn um tíðina. Við erum afkomendur víkinga, erum hörkutól sem lifðu af þúsund ár í skítakulda og komum sterk og sjálfstæð inn í nútímann.

Það er um það bil svona sem við sjáum okkur. Eða sáum okkur. Held það sé að breytast. Við erum nefninlega merkilega blönduð. Einhver hluti genanna kemur frá Skandinavíu, einhver hluti frá Bretlandseyjum. En það er ekki allt. Við erum ekkert viss hvaðan við komum. Ég hef séð hreinræktaða íslendinga sem líkjast mið-austurlandabúum. Genin okkar koma víða að. Og þótt við værum óblönduð frá landnámi, vitum við ekki hvar genin voru fyrir þann tíma.

Nýlega las ég grein eftir Naomi Wolf. Hún er gyðingur, fæddist inn í gyðingafjölskyldu og ólst upp í þeirra trú. Hún trúði, eins og henni hafði verið sagt, að hún væri hluti að Guðs útvöldu þjóð. Í greininni sagði hún frá genaprufu sem fjölskyldumeðlimur fór í. Naomi komst að því að hún er alls ekki gyðingur. Hún á rætur að rekja til Líbanon og ýmsra landa í Evrópu. Hún er blanda af araba, persa og evrópubúa. Eiginlega allt annað en gyðingur.

En það er ekki allt. Flestir nútímagyðingar eru svokallaðir Ashkenazi gyðingar, eða þýskir gyðingar eins og það myndi þýðast. Þeir eru ekki blóðskyldir fólkinu sem bjó í Palestínu í fornöld, heldur koma þeir frá Kákasus og Evrópu. Þeir eru því ekki Guðs útvalda þjóð, allavega ekki erfðafræðilega séð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki að sverta Ísrael eða gyðinga. Alls ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að við vitum oft ekkert hver við erum. Eða hverra. Við vitum að við erum fólk, við erum hluti af mannkyninu. Auðvitað er gaman að gramsa í fortíðinni og finna út hvaðan við komum, en það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli, er að við erum öll ein stór fjölskylda.

Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.
Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.

Innflytjendamál hafa verið mikið í umræðunni. Múslímar eru vandamál því þeir eru eins og olía sem blandast ekki við það sem fyrir er. Pólverjar eru heimskir glæpamenn sem stela vinnunni okkar. Eða voru það litháar? Allavega, þessir útlendingar eru vandamál sem við þurfum að halda frá okkur.

En það er bara ekkert þannig. Útlendingar eru líka fólk. Fólk með tilfinningar, þrár og von um betri heim. Stundum erum við sammála þeim, stundum ekki. Það skiptir þó engu máli, því við íslendingar erum ekkert sammála um allt. Vel heppnað samfélag snýst ekki um að allir séu sammála, heldur að fólk virði náungann og skoðanir hans.

Besta leiðin til að búa til innflytjendavanda er að útiloka innflytjendur frá samfélaginu. Láta þá finna að þeir séu óvelkomnir. Halda þeim frá vinnu og samfélagshópum. Þannig einangrast þeir og festast í fátækragildru. Fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum og finnst það vera hatað, reiðist. Það fer að hata á móti. Fer að halda saman í hópum. Fer að vinna gegn samfélaginu sem fyrir er.

Besta lausnin á útlendingavandanum er því ekki að takmarka straum innflytjenda, gera þeim erfitt fyrir, banna þeim að vinna eða byggja sín guðshús. Þvert á móti. Ef við bjóðum þau velkomin og gerum aðlögunarferlið eins auðveldt og hægt er, getum við búist við hamingjusömum einstaklingum sem þykir vænt um (nýja) landið sitt og eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum.

Mestu máli skiptir auðvitað að þjóðin sé opin og fordómalaus. Að við getum séð muninn á venjulegu fólki sem vill setjast að og hefja nýtt og betra líf í sátt við allt og alla, og þá sem vilja þvinga okkur til að taka upp þeirra siði með góðu eða illu. Fordómaleysið og virðingin verður að vera beggja megin. Ef upp koma vandamál, þurfum við að taka á þeim. Ef fólk lifir sínu lífi í sátt, þurfum við ekkert að hafa áhyggjur. Við verðum að sjá muninn og haga okkur eftir því, því annars búum við til vandamál þar sem ekkert var.

Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.
Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.

En hvernig er best að bjóða fólkið velkomið og gera því flutningana og menningarsjokkið eins auðvelt og hægt er? Ég væri alveg til í að sjá einhverskonar ráðstefnur eða hittinga þar sem fyrirtæki mæta og eru með bása, áhugasamt fólk mætir til að kynnast „nýbúunum“ (og fræðast, finna vinnu etc) og innflytjendur geta safnað saman upplýsingum um stjórnsýsluna, reglur, fyrirtæki, atvinnutækifæri, íslandssöguna og fleira.

Fyrirtækin myndu nota þetta sem leið til að kynna sig og ná í vinnuafl, innflytjendur til að komast inn í samfélagið (kynnast fólki og fyrirtækjum) og hið opinbera til að sitja fyrir svörum um mál sem geta komið upp.

Það yrði frítt inn, allir velkomnir.

Það skiptir nefninlega mestu að innflytjendur hafi á tilfinningunni að þeir séu velkomnir, að þeir komist í vinnu og kynnist fólkinu í landinu. Árekstrar verða nefninlega þegar þetta er ekki í lagi, því þá einangrast þeir.

Fólk sem lifir ekki í fátækt og einangrun er nefninlega sjaldnast til vandræða.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Í Jésú nafni, farið til andskotans!

Í Jésú nafni, farið til andskotans!

Titillinn á færslunni er þungur og hlaðinn, en það er ástæða til.

Hér í Hollandi er enn einn kirkju skandallinn kominn upp. Henk Heithuis fæddist 1935. Hann var tekinn af foreldrum sínum þegar hann var ungur og settur á kaþólskt uppeldisheimili. Þar var honum ítrekað nauðgað af prestum og hærra settum. Árið 1956, þá tvítugur, fór hann til lögreglunnar og gaf skýrslu um málið. Hann komst aftur í hendur kirkjunnar og var sendur til sálfræðings sem úrskurðaði hann veikan á geði. Maður spyr sig hvernig það hafi getað gerst. Síendurtekið barnaníð hlýtur að skilja eftir sig för á sálinni. Enginn kemst í gegn um slíka æsku óskaðaður.

Það sem verra var í augum þeirra trúuðu, var að Henk var samkynhneygður. Þetta var augljóst mál, því hann hafði verið í kynferðislegu sambandi við karlmenn. Það var lítið verið að skoða hvernig það hefði komið til. Hann var hommi því hann hafði gert hommahluti og þeir eru guði óþóknanlegir. Hann var því fluttur á kaþólskt sjúkrahús þar sem skorið var undan honum. Ef engin var kynhvötin, var öfuguggahátturinn læknaður, mætti ætla. Nema þetta hafi verið hefnd kirkjunnar fyrir að hafa kjaftað frá. Nauðgarar vilja nefninlega ekki að litla leyndarmálið spyrjist út. Kannski Henk hafi verið aðvörun til annarra lítilla stráka með stóran kjaft, því nauðgarinn notar líka ofbeldi og hótanir til að halda litla leyndarmálinu okkar á milli.

Henk gerði önnur mistök. Hann sagði frá geldingunni. Hann hélt því meira að segja fram að tíu strákar hefðu fengið sömu meðferð þennan dag. Þessi saga hefur verið staðfest af vitni sem vann á sjúkrahúsinu. Það vitni veit ekki hvað margir fóru undir hnífinn, en þeir voru fleiri en bara Henk. Þetta kom auðvitað ekki fram á sínum tíma. Vitnið hefur ekki þorað að segja neitt, því málið teygði sig upp í samfélaginu. Alveg upp á þing.

Henk átti við geðræn og líkamleg vandamál að stríða eftir aðgerðina. Hann dó í bílslysi ári síðar.

Ég spyr mig hvort slysið hafi verið alveg óvart. Ég hef ekkert fyrir mér í því, en svona mál fá mann til að ímynda sér hina furðulegustu hluti.

Þess má geta að ráðherrann sem sá um þessi mál á þessum tíma, Victor Marijnen, þaggaði ekki bara málið niður. Tveir prestar voru dæmdir í fangelsi og ráðherrann reyndi að fá þá lausa. Það mistókst, en hann reyndi þó.

Sami ráðherra varð forsætisráðherra 1963, fimm árum eftir að Henk lenti í slysinu. Flokkur hans, CDA, er enn einn stærsti stjórnmálaflokkur Hollands. Það er kannski engin tilviljun að hann stendur nú í vegi fyrir að málið verði skoðað í kjölinn.

Styður Jésú ritskoðun?

Styður Jésú ritskoðun?

Snorri í Betel er kominn í klandur eina ferðina enn. Hann virðist eiga eitthvað erfitt með að sætta sig við að allir eru ekki eins. Samkynhneigðir mega ekki vera samkynhneigðir í friði fyrir honum.

Hann reyndi að krafsa sig upp úr kviksyndinu á bloggsíðunni sinni. Ég setti inn athugasemd. Eins og oft vill vera með ofurkristið fólk, var hún ekki birt samstundis. Hann hefur ákveðið að athugasemdir skuli fyrst skoðaðar og samþykktar áður en þær birtast. Þar sem ég var ósammála honum, birtist mín ekki.

Snorri mælir í Jésú nafni, segir hann. Ég geri því ráð fyrir að Jésú styðji ritskoðun.

Eigum við þá ekki að láta það eftir Snorra að ritskoða það sem okkur er ekki þóknanlegt? Mér sýnist foreldrum barnanna sem hann kennir ekki vera skemmt. Meirihluti þjóðarinnar er ósammála Snorra, svo það væri rökrétt að birta engar fréttir um hann og hans skoðanir. Þegja hann í hel.

Nei, það er ekki okkar að ákveða hvað fólki finnst og hvernig það lifir sínu lífi. Það er ekki okkar að segja fólki hvaða skoðanir það skal hafa. Fólk eins og Snorri gerir lítið úr kristinni trú, svokölluðum kristilegum kærleik og umburðarlyndi. Helvíti hart ef ég, trúleysinginn, er umburðarlyndari en maður sem mælir í Krists nafni. En hann um það.

Ég get ekki séð að það komi honum við hjá hverjum fólk sefur. Hann má trúa því að hommar fari til helvítis. En mikið væri það gott ef hann héldi þessu rugli fyrir sig og væri ekki að hræða skólakrakka með sögum af vítislogum og guði sem hatar þau.

 

Athugasemdir af Moggablogginu

Villi Asgeirsson 10.2.2012 kl. 18:56

En þetta með að þurfa einhvern guð til að vera ekki algerlega sneyddur réttlætistilfinningu er auðvitað kjaftæði.

Villi Asgeirsson 10.2.2012 kl. 18:53 Mér sýnist á öllu að Jésú hafi verið til, en boðskapur hans hafi verið brenglaður all hroðalega á þriðju öld. Það eru allavega til sannanir fyrir því að Pontíus hafi verið til.

En það skiptir svo sem ekki máli. það sem merkilegast er, er að fullorðið fólk skuli trúa á þetta dæmi. Spurning hvað það segði ef ég færi að boða trú á jólasveininn og skíta á einhverja þjóðfélagshópa sem gætu verið honum vanþóknanlegir.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 10.2.2012 kl. 18:38

Doctor. Jesús var til, og var sönn persóna, eins og allir aðrir sem eru útskúfaðir úr trúarbragða-heimum. En peningaöfga-trúboðar afskræmdu hans persónuleika með því sem kallast trúarbrögð kristninnar.

Trúarbrögð hafa einungis skapað stríð fyrir mannkynið.

Ég hef aldrei lesið biblíu-ævintýra-skáldsöguna, og hef kannski þar af leiðandi náð að halda í mína sönnu trú á það sem er raunverulegt og kærleiksríkt.

Ég þarf sem betur fer engar trúarbragða-ævintýra-sögur til að sinna minni trú á kærleikann til náungans.

M.b.kv.

Óskráður 10.2.2012 kl. 07:58

Hlutverk Jesu var að koma með ógnir um helvíti og eilífar pyntingar til allra sem ekki aðhylltust kristni… Hættið að afsaka gaurinn, ekki tala um hann eins og hann hafi verið góður; Hann var dómsdagsspámaður með ógnir og terror… og það besta, hann var aldrei til… hann er uppskáldaður eins og Harry Potter.. og já, biblian styður ritskoðun á allt sem gagnrýnir hana

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 10.2.2012 kl. 00:24

Það er undarlegt að kenna Jesús Jósefsson við jafn mikinn hrylling, eins og fölsk trúarbrögð eru. Enginn hefði verið ósáttari við slíkt, heldur en hann.

Þessi Snorri ætti nú að vinna við eitthvað annað, en að fræða börn. Svona öfga-trúarbragða-dómarar eru með þeim ósköpum gerðir, að umbera ekki náungann, heldur drottna yfir náunganum með óréttlæti og hroka.

Að skreyta sig með trúarbragða-kjaftæði til að upphefja sjálfan sig, og gera sig að dómara yfir náunganum, er álíka og að þurfa orður og titla til að upphefja sjálfan sig úr minnimáttar-kenndinni, og horfa svo niður til þeirra sem ekki þurfa slíkt rusl, sjálfum sér til upphefðar.

M.b.kv.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 9.2.2012 kl. 22:43

Svona lið er algjörlega óþolandi.  Þvílík hræsni, ætli Jésú hefði ekki kallað þennan mann farísea?

Ólafur Björn Ólafsson 9.2.2012 kl. 21:43

Sæll vertu

Mikið svakalega er ég sammála þér núna…

Mitt umburðarlyndi fyrir trúarhópum fer að nálgast endastöð ef þeir fara ekki að hætta þessarri hræsni. Það er hinsvegar gott að hitta á aðra trúleysingja sem hafa umburðarlyndi umfram það sem trúarritin boða.

Kveðja

Kaldi

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube