Browsed by
Month: janúar 2012

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með „óæskilegar“ skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýst.

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásgrímur Hartmannsson 30.1.2012 kl. 16:57

Mikið held ég þeir í útlöndum öfundi íslensk stjórnvöld stundum… eða myndu gera ef þeir vissu hvernig hlutirnir gerast hérna.

Villi Asgeirsson 30.1.2012 kl. 18:08

Hví? Hér í ESB eru þessi lög samþykkt af ókosnum fulltrúum sem enginn veit hverjir eru. Það er töluvert þægilegra en að þurfa að stressa sig á endurkjöri og pirrandi blaðamönnum.

Með ósk um gott gengi…

Með ósk um gott gengi…

Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með þessa ríkisstjórn. Hún hefur hingað til ekki staðið við stóru orðin. Gengdarlausar persónuárásir á þau fara þó hrikalega í taugarnar á mér.

Kosningar nú yrðu stórslys. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að grafa sínar skotgrafir og ynni sennilega stórsigur, þrátt fyrir að hafa siglt skútunni í strand fyrir þremur árum. Vonum að Jóhanna nái að klára sín mál svo að þjóðin geti átt möguleika á einhverskonar upprisu. Hægri stjórn nú væri ekkert annað en að fara aftur fyrir byrjunarreit.

Þó ég sé ekki stuðningsmaður þessarar stjórnar, óska ég þeim góðs gengis og vona að þau nái að klára sín mál.

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Óskráður 28.1.2012 kl. 12:07

Það vita allir sem eru með meðal gáfur að hrun peningamarkaða er ekki einum manni né einum flokki að kenna.

Flest öll lönd í heiminum ganga í gegn um hrun peningakerfis.

Villi Asgeirsson 28.1.2012 kl. 12:42

Mikið rétt, Birgir. Hrun er byggt inn í kerfið og engum einum um að kenna. Ég vil þó gefa Jóhönnu og co færi á að klára sín mál. Gefa þeim þetta ár. Það sem gerðist 2008 verður ekki lagað á korteri, svo það er allt í lagi að gefa þeim út kjörtímabilið. Kjósa svo eftir því hvernig gengið hefur, frekar en nú þegar verkið er rétt rúmlega hálfnað. Klúðri þau þessu ári, fá þau eflaust þá útreið sem þau eiga skilið.

Svo finnst mér Sjálfstæðisflokkurinn verði að taka til heima hjá sér. Þeir geta ekki teflt Bjarna Ben fram sem forsætisráðherraefni fyrr en vafningsmálið er komið á hreint.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 28.1.2012 kl. 14:54

Villi ég segi nú bara hvar eru þessi verk ríkisstjórnarinnar, hvar er Skjaldborgin?  Hvar eru öll atvinnutækifærin sem búið er að lofa núna í marga mánuði, hverjum er verið að bjarga?  ekki fólkinu sem er verið að bera út á götu nei það eru fjármálafyrirtæki og bankar sem fá niðurfellingu skulda.  Heimilin eru ekki einu sinni í upptalningu hennar um stærstu málin sem á að klára, fiskveiðistjórnunarkerfið, stjórnarskrármálið, esb umsóknin og rammaáætlun um auðlindir, svo sem þörf mál.  En er ekki brýnasta verkefnið í dag að aðstoða allar þær þúsundir heimila sem sjá ekki fram á að ná endum saman.  Þau eru ekki einu sinni á blaði.  Fyrir utan hún ætlar að klára á rúmu ári allt sem hún hefur EKKI gert á tveimur og hálfu ári. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur velkst um í stjórnsýslunni síðan stjórnin tók við, klúður. Stjórnarskrár nefndin kosning ógild, klúður. Esb innlimunin… þar sem eini flokkurinn sem vill þar inn er Samfylkingin. þetta er klúður. Ég get ekki dæmt um hvar rammaáætlunin er en samfylkingin vildi óð og uppvæg selja kínverskum erindreka stóran part af landinu okkar. Og eru ennþá í makki við hann hvernig hægt er að troða honum bakdyrameginn inn, magmamálið, hs orka allt klúður. KLÚÐUR er millinafn þessarar ríkisstjórnar. Ekki þar fyrir ég vil ekki fá Sjálfstæðisflokkinn aftur að völdum, en er ekki hægt að treysta íslendingum til að virða ný framboð? Og sleppa þessu liðið bara alveg út?

Villi Asgeirsson 28.1.2012 kl. 21:21

Ásthildur, ég er algerlega sammála þér. Ég gapi stundum af undrun yfir sofandahætti og trúgirni stjórnarinnar. Hvernig á ESB að leysa öll okkar vandamál? Hvernig getur það hjálpað okkur að selja gullgæsina, sem orkan er? Og svo framvegis.

Ég lifi bara í voninni að þau séu að vinna í góðri trú og að síðasta ár ríkisstjórnarinnar sé árið þar sem allt smellur saman. Ég veit að komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda nú, getum við strokað út síðustu þrjú ár. Ekkert mun breytast og bestu vinir aðal munu halda áfram að maka krókinn á kostnað almennings.

Ég treysti þjóðinni til að velja sér nýtt og betra fólk næst, en er hræddur um að komi kosningar of snemma, verði enginn tilbúinn í slaginn nema Sjálfstæðisflokkurinn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 28.1.2012 kl. 21:54

Villi minn þar greinir okkur á ég hef nefnilega ekki neina trú á að eitthvað smelli skyndilega saman í góðri trú, mikli heldur finn ég örvæntingarlykt af þessu öllu og að framlenga í snörunni eins lengi og hægt er.  En við skulum bara bíða og sjá.  Vonandi rætist úr þessu öllu.

Villi Asgeirsson 29.1.2012 kl. 16:34

Veit ekki hvað okkur greinir mikið á. Þetta er kannski frekar von en trú hjá mér. Von um að þau vinni af heilindum og að það sé frekar getan en innrætið sem er vandamálið. En sjáum til…

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 29.1.2012 kl. 16:40

Já við skulum sjá til.

Hver togar í strengi?

Hver togar í strengi?

Eitt hefur ekki komið fram í þessu máli. Hver er á bak við tillöguna um að hætta við landsdómsmálið? Fékk Bjarni Ben þessa hugmynd sjálfur, eða var honum sagt að setja þetta mál fram? Sé svo, hver var það? Davíð? Geir sjálfur?

Ef einhver veit hvaðan hugmyndin að sleppa þessu kom, væri ég meira en til í að heyra hana.

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Gunnar Th. Gunnarsson 27.1.2012 kl. 11:55

Ertu virkilega að velta fyrir þér þessari samsæriskenningu? Lágt þykir mér þú leggjast.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 27.1.2012 kl. 12:09

Villi. Ekki veit ég hvaða einstaklingur gæti látið sér detta svona inngrip í hug, og það á þessum tómapunkti? En ekki efast ég eitt augnablik um að eigandi/eigendur samtryggingar-stjórnmálaflokka-klíkunnar (úr öllum flokkum) eins og hún leggur sig, stendur á bak við þetta eins og flest annað glæpsamlega spillt í íslenskri stjórnsýslu.

Hvað segir nafnið: Kaupþing?

Svar: kaupa þing!

Dulnefni Kaupþings-banka er Arion-banki.

Ekki von að vel gangi!!!

M.b.kv.

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 12:26

Gunnar, þetta var spurning, ekki kenning. Ég vil skilja þetta mál og þar með hvaðan það er upprunnið.

Óskráður 27.1.2012 kl. 12:33

Það sem fékk Bjarna til ð leggja fram tillöguna er eðlileg réttlætiskennd.

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 12:37

Er ekki eðlileg réttlætiskennd að maðurinn fái að svara fyrir sig fyrir rétti, fyrst verið er að saka hann um afglöp eða þaðan af verra? Eiga ekki allir rétt á að sýknun ef þeir eru hafðir fyrir rangri sök? Ekki sé ég réttlætið í því að hann hafi þetta hangandi yfir sér það sem eftir er.

Ómar Bjarki Kristjánsson 27.1.2012 kl. 13:28

það er ein ástæða fyrir að eigi er heppilegt ef Geir yrði nú dæmdur sekur í einhverjum atriðum. Hlyti það ekki að bjóða heim skaðabótakröfum ýmissa aðila? Þegar það væri orðið dómfest af þar til gerðum dómsstól á Íslandi að forsætisráðherra, yfirmaður ríkisstjórnar, hefði gerst brotlegur – hlyti það ekki að gefa færi á skaðabótakröfum á hendur ísl. ríki? Eg spyr bara. Hissa á að enginn hafi talað um þetta. Fjölmiðlar hérna eins og vanalega útá Sjallatúni.

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 13:37

Góður punktur, Ómar.

Sigrún Jóna 27.1.2012 kl. 16:19

Ég vil trúa því að Bjarni hafi getað fundið það sjálfur.

Ég er orðin hundleið á þessu DO kæftæðis-grillu sumra landsmanna. DO er ágætur og gerði margt gott bæði fyrir borgina óg landið. En það er enginn fullkominn.

Ég veit ekki hvort Kristur Jesús var fullkominn, einu sinni!

Svo er ég sammála Ómari að mörgu leiti.

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 21:11

Ég vil líka trúa því, Sigrún, en ég á erfitt með það. Annars hefur hann getað spunnið ýmsan vafninginn hingað til, svo hver veit.

DO átti sína spretti og gerði margt alveg ágætt, en hann átti það að vera stjórnsamur og sumir segja að hann sé það enn.

En um Jésú? Ég veit ekki hvort hann var yfirhöfuð til. Geri nú samt frekar ráð fyrir því en ekki.

Alræðisríkið Ísland?

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. „Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda.“ Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL…

Hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 26.1.2012 kl. 21:27

Það er allt að koma fram sem sagt hefur verið um kommúnistana í stjórnkerfinu, ég hefði aldrei trúað þessu.  En svo kemur það bara í ljós.  Er þetta ekki bara netlöggann hans Steingríms?

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 00:06

Þetta mál er stærra en Steingrímur. ESB var að skrifa undir alþjóðareglur sem banna alla notkun vörumerkja, lagatexta og alls höfundavarins efnis. Það á líka við um tölvupósta. Allt skal skannað, og finnist þeim þú brotleg, má framselja þig til landsins sem finnst það eiga eitthvað vantalað við þig.

Þetta er ekki kommúnismi. Þetta er líkara fasisma. Við verðum öll að berjast við þetta, nema okkur langi rosa mikið að upplifa 1984 eins og bókin lýsti því.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 27.1.2012 kl. 12:14

Ég er eiginlega ekki hissa í raun og veru vinur minn mikill hugsuður sem býr í Þýskalandi sagði við mig fyrir nokkrum árum.  Þeir eiga eftir að banna netið, því með því missa þeir of mikil völd.

Dýr og Tré

Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert… á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 24.1.2012 kl. 16:13

Flottur pistill hjá þér Villi, algjörlega sammála, af hverju erum við dauðfrosin og allof margir sem kjósa sófan fram yfir batáttuna, eru ekki einu sinni að tjá sig þar sem það er þó hægt … ennþá,

Villi Asgeirsson 25.1.2012 kl. 09:41

Takk fyrir það!

Ég skil ekki af hverju fólk gerir ekkert. Þreyta og vonleysi, geri ég ráð fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 25.1.2012 kl. 14:11

Já eitthvað svoleiðis og svo skammdegisdoði.

Af lífi og dauða…

Af lífi og dauða…

Ekki veit ég hvað varð til þess að ráðherrafrúin gafst upp. Hvers vegna fólk tekur eigið líf. Við höfum sennilega öll íhugað þetta á einhverjum tímapunkti, en hvað fær manneskju til að fara alla leið? Er þetta ekki eigingjarnasta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið? Lífið kann að vera erfitt og þetta getur virkað sem einföld lausn, en hvað um þá sem eftir lifa? Hvað um börnin manns sem fara að velta því fyrir sér, hvað gerði ég eða hvað hefði ég átt að gera? Foreldrar eiga að vera til staðar fyrir börnin sín, en það er erfitt ef þeir eru farnir. Börnin eiga að lifa foreldra sína, því það hlýtur að vera versta tilfinning sem til er að jarða barnið sitt. Dauða fylgir sorg, en sé um sjálfsmorð að ræða, fyldir reiðin með. Og hún fer ekki.

Líf og dauði voru ofarlega í huga mínum þegar ég vaknaði.

Við erum alltaf að flýta okkur. Troða morgunmatnum ofan í krakkann, henda honum út í nóttina því skólinn er að byrja og við að verða of sein í vinnuna. Við gefum svo næstu klukkutímana vinnu okkar. Seljum þá reyndar, misdýru verði. Við eigum það til að selja tíma okkar of ódýrt, því hvað sem við gerum, kemur hann ekki aftur.

Fyrrverandi vinnufélagi minn, Vanuza Ramos Semedo, var falleg stelpa. Ljúf og það var ómögulegt að líka ekki við hana. Rétt tæplega þrítug. Hún fór í barneignarfrí og ég sá hana aldrei aftur. Við heyrðum að hún hefði eignast heilbrigt barn. Hún var svo stolt af dótturinni. Hún hafði átt strák en hana langaði svo í stelpu, og hér var hún komin! Við fylgdumst með á Facebook, sáum myndir af mæðgunum. Lífið gat ekki orðið betra.

Dag einn fékk hún blóðtappa. Eitthvað sem hafði myndast kring um fæðinguna og enginn vissi af. Heilinn fékk ekkert blóð og hún vaknaði aldrei aftur. Tæpri viku síðar var hún farin. Tekin frá nýfæddu dótturinni.

Vanuza var yndisleg og Þeir sem þekktu hana sakna hennar. Tala enn um hana. Við syrgjum hana og segjum stundum að lífið sé óréttlátt. Við minnum okkur á að hver dagur sé sérstakur, að við eigum að nýta hann eins og hann væri sá síðasti. Því það kemur að því að dagurinn í dag er sá síðasti og morgundagurinn kemur ekki. Njótum lífsins, verum góð hvert við annað og gerum það sem við viljum gera. Ekki sóa lífinu í meðalmennsku, pirring og hluti sem skipta ekki máli.

Til hamingju með afmælið og hvíl í friði, mín kæra…

Upphaflega birt á Moggablogginu vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir – 23.1.2012 kl. 12:46
Falleg hugvekja Blessuð sé minning hennar.

Maria Csizmas – 23.1.2012 kl. 09:19
Fallega sagt elsku Villi..

 

Hatur er sjálfsmark.

Hatur er sjálfsmark.

Þeir sem hata, eru mest fyrir sjálfum sér og valda sér meiri skaða en þeim sem hataður er. Það hefur því lítið upp á sig að hata. Hatur er sjálfsmark.

Ég hef fylgst með málflutningi þingmanna eftir atkvæðagreiðsluna á föstudag. Ég hef ekki séð neitt hatur. Ég hef séð vonbrigði, pirring, jafnvel reiði, en ekkert hatur. Já-sinnar vilja flestir Geir fyrir Landsdóm til að fá upplýsingar frá vitnunum sem boðuð hafa verið. Mér sýnist fólk ekkert vera neitt sérstaklega upptekið af því að henda Geir í steininn. Væri hann svona voðalega hataður, væri málflutningurinn allt annar.

Nei-sinnar virðast nota veikari rök, eru meira á tilfinniganótunum. Það skal ekki ákæra einn, ef hin þrjú komust undan. Á við hér en hvergi annars staðar í réttarkerfinu, en hvað um það. Þetta er mannréttindabrot gegn forsætisráðherranum fyrrverandi. Aðrir mega lifa við að þurfa að svara fyrir sig séu þeir grunaðir um að hafa gerst brotlegir við lög, en hvað um það. Stundum er bara skellt á þetta samsæris stimpli og sagt að Samfó sé að ná sér niðri á Sjöllunum. Kannski eitthvað til í því að það hafi verið pólitískt að sleppa hinum þremur, en gerir það Geir sjálfvirkt stikkfrí?

Hvað um það, lítið eða ekkert hatur í gangi. Annað hvort er Einar K. að plata okkur og þeyta ryki í fólk, eða hann hefur litla tilfinningu fyrir hugarástandi fólks sem hann þekkir og vinnur með. Hvoru tveggja er afar slæmt þegar viðkomandi er í ábyrgðarstöðu.

Mér sýnist hann allavega vera að lesa kolvitlaust í stöðuna.

Ég vona að Sjálfstæðismenn hætti þessu væli, taki til heima hjá sér og fari að læra að vera málefnalegir. Eða eru það ekki málefnin sem þeir hafa áhuga á?

Upphaflega birt á Moggablogginu.

Athugasemdir

Anna Sigríður Guðmundsdóttir – 23.1.2012 kl. 10:04
Það gerir ekki Geir stikkfrí að sleppa hinum, heldur gerir það lögin ógild. Lögin eiga að gilda jafnt fyrir alla. Það er ekki hægt að setja lögin á skala frá 1-10 og dæma þannig eftir hentisemi, til að „friða“ þjóðina, eins og er venja á Íslandi.  Það má ekki gera í nokkru máli og það er grunnvandinn í þessari málsmeðferð og öllum málsmeðferðum meir og minna á Íslandi. Þar er rót vandans.

M.b.kv.

 

 

Sleppum Geir og komum Sjálfstæðisflokknum í stjórn.

Sleppum Geir og komum Sjálfstæðisflokknum í stjórn.

Þetta mun taka vikur, kannski fram á vor. Kannski vona Bjarni, Ögmundur (hvað er hann að gera í þessum hópi?), Össur og félagar að stjórnin falli fyrir þann tíma. Kosningar. Koma þessu 40% fylgi sjálstæðismanna inn á þing. Þá er hægt að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll. Vísa því frá. Gleyma svo þessu meinta hruni sem fólk er alltaf að tuða yfir.

Nei, Össur vill stjórnina ekki feiga. Hann vill bara ekki fara í vitnastúkuna.

Bjarni vill þessi 40% inn á þing.

Ögmundur? Vill hann ekki bara formannssætið í VG og gott sæti í hægri-vinstri stjórn?

Svo kemur sér ágætlega að þetta mál tekur tíma sem annars hefði farið í að ræða tillögur stjórnlagaráðs.

Þessir þingmenn eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru i fléttuleik, klækjapólitík. Þeir eiga ekki heima á þingi.

Eða hvað veit ég? Kannski vilja þeir allir vel.

Upphaflega birt  vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir – 22.1.2012 kl. 17:16
Reyndar sammála því að þetta er allt saman klækjapólitík.  Veit ekki hvernig við tæklum málin það verður erfitt.  En samt…. það er alltaf von.

hilmar jónsson – 22.1.2012 kl. 15:27
Klækjapólitík er það. Og nákvæmlega það sem við þurfum á að halda nú..

 

ESB = Skýjaborg?

ESB = Skýjaborg?

Ég er tiltölulega hlutlaus þegar kemur að ESB. Bý þar og hef það ágætt. Ekkert rosalega ríkur eða þannig, en skrölti. Stundum duga launin, stundum ekki. Er á rétt meðallaunum og borga hátt í 50% skatt. En…

Evrópa er með ónýtan gjaldeyri sem riðar til falls. Evran hefur haldið sér sæmilega undanfarið, en hún er undir gífurlegum þrýstingi.
Bankarnir hér í Hollandi eru svo sterkir að þeir þurftu beilát. Ég borgaði 1700 evrur af skattpeningunum til ABN Amro og enn meira til ING. Ég hef sennilega borgað meira, því þetta er meðaltal sem ég reiknaði út einhverntíma. Tók þar með hvert mannsbarn, líka börn og gamalmenni. Fyrrverandi fjármálaráðherra er bankastjóri ABN Amro. Sér einhver tengslin?
Ríkisfyrirtæki hér hafa verið seld með þeim afleiðingum að þjónusta versnar og verð hækkar. Þess má geta að ESB hefur þvingað Grikkland til að selja ríkiseigur eins og hafnir og aðrar nauðsynjar. Yrði þetta öðruvísi á Íslandi? Fengjum við „góðan díl“ í fiskimálinu? Ég stórefast um það.
Þegar þær þjóðir sem fengu tækifæri til að tjá sig höfnuðu evrópsku stjórnarskráni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og þar með þurfti ekki að ræða það meir. ESB er gott í að komast undan atkvæðagreiðslum og kjósa þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.
Það er fínt að búa í ESB, en ekki halda að hlutirnir hér séu eitthvað betri eða bjartari en heima. Það er allt í lagi að skoða inngöngu, en ekki búa til skýjaborgir sem gufa svo upp í kastljósi raunveruleikans.
Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu

1. Sleggjan og Hvellurinn, 21.1.2012 kl. 16:19
Er íslenska krónan eitthvað skárri. Hér eru gjaldeyrishöft. Þú færð allavega launin þín í gjaldmiðil sem virkar allstaðar í heiminum.

Ég fæ laun í matadorpeningum sem virka bara á Íslandi og enginn erlendis vill snerta við íslenskri krónu.
2. Villi Asgeirsson, 21.1.2012 kl. 16:29
Gjaldeyrishöftin eru slæm, en er eitthvað hámark á því hvað þú getur notað kortið mikið erlendis? Ég tek yfirleitt ekki seðla með mér til útlanda.
3. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2012 kl. 16:39
Góð færsla hjá þér Villi, málið er að það er ljóst að við munum ekki fá neinar varanlegar undanþágur hjá ESB hvorki um fiskveiðar né neitt annað. Og svo eru þetta ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður, sem breytir málinu dálítið.
4. Garðar Valur Hallfreðsson, 21.1.2012 kl. 16:46
Rétt hjá þér Villi, fólk ætti að varast skýjaborgir af þessu tagi. Það er allt í lagi að skoða hluti af yfirvegun og á gagnrýnin máta, en um leið og gifuryrði birtast missir umræðan marks.
5.Gunnlaugur I  21.1.2012 kl. 17:34
Ég get nú alls ekki séð hvað þessi gjaldeyrishöft hefta venjulega íslendinga.

Fólk getur tekið með sér allt að 500 þúsund krónur og skipt yfir í gjaldeyri til útlanda hverju sinni sem þeir fara, auk þess að geta tekið út 250 til 300 EVRUR útá hvert debit eða Kredit kort sem fjölskyldan er með. Margir eru með 4 til 6 kort.

Öll íslensk fyrirtæki geta fengið gjaldeyri fyrir öllum sínum innflutningi eins og þau þurfa.

Fullt af alþjóðlegum fyrirtækjum á Íslandi er í erlendri eigu svo sem öll stóriðju fyrirtækin, sem mörg hver eru að stækka við sig og önnur sækja hart á um að fá að koma til landsins.

Ég þekki sjómann býr á Spáni eins og ég og sem vinnur á Íslandi fyrir miklu betri launum en hann gæti nokkurn tímann haft hér.

Hann kemur öllum sínum íslensku krónum auðveldlega hingað til Spánar og notar þær sem EVRUR hér.

Ég veit ekki betur en erlend fjárfesting flýji nú EVRU svæðið í umvörpum.
6. Sleggjan og Hvellurinn, 21.1.2012 kl. 18:38
http://www.pressan.is/mpressanis/Lesa/ccp-ihugar-ad-flytja-ur-landi-vegna-kronunnar–esb-eina-leidin
7. Villi Asgeirsson, 21.1.2012 kl. 18:47
Þessi frétt er að verða þriggja ára gömul. Hvernig fór með CCP?
8. Sleggjan og Hvellurinn, 21.1.2012 kl. 19:13
Þeir eru að bíða eftir ESB samninginn.

Ef hann verður felldur þá munu þeir fara úr landi.
9. Villi Asgeirsson, 21.1.2012 kl. 19:33
Þeir hafa þá lifað eftirhrunsárin af. Gott mál.

Ég er alveg sammála að gjalderyrishöftin þurfa að fara um leið og það er hægt. Ég efast samt um að ESB aðild muni skipta miklu máli fyrir svona fyrirtæki. Það sem þarf er umhverfi þar sem vel rekin fyrirtæki fá að vera í fripi og áherslan er ekki bara á stóriðju.
10. Sleggjan og Hvellurinn, 21.1.2012 kl. 20:27
Það lítur út fyrir að vel rekin fyrirtæki sem eru ekki að nýta auðlindir landsins (orka fiskur) eru að flýja land.

Get nefnt Marel og Össur líka

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Evropumal/Marel.pdf

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Evropumal/Ossur.pdf
11. Guðmundur Ásgeirsson, 21.1.2012 kl. 21:16
@Sleggjan og Hvellurinn

Þú færð allavega launin þín í gjaldmiðil sem virkar allstaðar í heiminum.

Þegar maður býr á Íslandi og borgar alla sína reikninga í krónum, hvaða máli skiptir það þá hvort sá gjaldmiðill virkar í kringumstæðum þar sem þú þarft ekki að nota hann. Ef þú ætlar að ferðast til Evrópu þá kaupirðu þér einfaldlega gjaldeyri, það þurfa Evrópubúar líka að gera þegar þeir fara til Norður-Ameríku eða Japans svo dæmi séu tekin.

Svo má deila um það hvort Evran virkar yfir höfuð í Evrópu, hvað þá víðar…

Ég fæ laun í matadorpeningum sem virka bara á Íslandi

Þetta er ekkert öðruvísi hjá íbúum langflestra annara landa heims. Það eru 193 ríki aðilar að Sameinuðu Þjóðunum, og auk þess eru nokkur óviðurkennd ríki eða heimastjórnarsvæði með sína eigin gjaldmiðla. Þannig eru í umferð 182 gjaldmiðlar í heiminum sem eru gefnir út sem lögeyrir. Einföld deiling gefur að meðalútbreiðsla lögeyrisgjaldmiðla samsvarar því að hver og einn sé notaður í 192/182 = 1,055 löndum.

Það segir ekkert um nytsemi gjaldmiðils, hvort eða hvernig hann virkar annarsstaðar en þar sem hann er ætlaður til notkunar. Disneydollarar svínvirka til dæmis í Disneylandi, en í Pakistan hvarflar ekki að nokkrum manni að taka við þeim sem greiðslu.

og enginn erlendis vill snerta við íslenskri krónu.

Það er ekki rétt, SÍ hefur gjaldmiðlaskiptasamninga við erlenda seðlabanka, meðal annars í fjölmennasta ríki heims. Enn fremur skilst mér að kaupmenn í Færeyjum taki gjarnan við íslenskum krónum sem greiðslu sé þess óskað. Ef þú ert að meina þetta í samhengi við evrusvæðið, þá er viðhorfið reyndar gagnkvæmt. Fáir hér vilja koma nálægt evrunni.

Voðaleg einangrunarhyggja er það að láta eins og Evrópa sé allur heimurinn.
12. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 07:58
Góðir punktar, Guðmundur. Verður gaman að sjá svörin.
13. Garðar Valur Hallfreðsson, 22.1.2012 kl. 08:15
Takk fyrir góð svöru Guðmundur, hefði ekki geta orðað þetta betur 🙂
14. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 11:28
„Svo má deila um það hvort Evran virkar yfir höfuð í Evrópu“ ??? Já þú segir nokkuð.

Hér er gjaldeyrishöft og okkur er skammtaður gjaldeyri. Þó að Disneypeningar svínvirka í Disneyland… þá er það ekki hrós á þann gjaldmiðil.

Ímyndaðu þér að vera fastur í Disneylandi og þú gætir einungis fengið að skipta hluta af þínum Disneypeningum og þyrftir að sanna fyrir yfirvöldum að þú værir að yfirgefa Disneyland. Þér væri skammtaður alvöru gjaldmiðli til að skreppa laus í smá tíma. Svo kemurur aftur og þá verðuru að skipta strax öllum alvöru peningum í Disney peninga. Og ef þú gerir það ekki og felur alvöru galdeyti heima hjá þér þá átti hættu á að fara í fangels!!!! Þannig er Ísland í dag.

Þó að þér finnst það bara gott mál að vera í höftum þá er það þitt mál.

En hvað okkur finnst um þetta mál á ekki að skipta öllu máli. Alvöru fyrirtæki sem eru að skapa milljarða í gjaldeyri (marel, ccp og marel) eru að gefast uppá þessu ástandi og eru að hugleiða að flyta úr landi. Með öll störfin.

Það skiptir mestu máli. Burtséð hvað við segjum.
15. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 13:35
Maður mér tengdur vinnur myrkranna á milli í Austurríki hann á fyrir fjölskyldu að sjá konu og þrem börnum, hann vinnur líka oft á helgum, en endar rétt ná saman. Þó fær hann greitt í evrum. Málið er að þó matvara sé ef til vill ódýrari sum ekki öll, þá er kyndingarkostnaður upp úr öllu valdi hvort sem um er að ræða rafmagn, gas eða olíu, þess vegna kynda allir upp húsin sín með viði á veturna, og dugir oft ekki til. Fólk kemst ekki í bað nema kynda upp í kjallaranum í ofni sem hitar upp vatnið, ef það er ekki gert er vatnið kallt. Við þekkjum nefnilega ekki alveg allt. ESB sinnar telja alltaf upp það góða við ESB en huga ekkert að því sem betur má fara.
16. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 13:47
Eins og ég sagði eru gjaldeyrishöftin pirringur sem verður að taka af eins fljótt g hægt er. Sama með verðtrygginguna. En eins og Ásthildur bendir á, er ESB engin paradís. Það eru kostir við að búa hérna í Evrópu, og gallar. Alveg eins og á Íslandi.

Á meðan ég vinn undir 40 tíma á viku, borga ég rúmlega 40% skatt. Fari ég yfir 40 tímana, er mér refsað með ca 50% skatti. Skiptir engu þó ég sé á rétt meðallaunum. Þar fyrir utan borga ég heilsutryggingu, 200 evrur á mánuði. Annars get ég étið það sem úti frýs ef ég veikist. Ég borga 40 evrur á mánuði í bifreiðagjöld fyrir litlu hatchback Almeruna mína. Hiti og rafmagn er á verði sem fengi íslending til að frussa útúr sér kaffinu.

ESB er allt í lagi, en það er ekkert betra að búa hér. Bara öðruvísi.
17. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 13:55
Það er einmitt rétt hjá þér Villi, það er ekkert betra bara öðruvísi.
18. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 13:58
Það sem Ásthildur er að tala um tengist frekar legu landsins en ekki ESB. Hér á Íslandi er næg orka frá heitu vatni og endurnýjanlegum auðlindum. En Austurríki er ekki jafn heppið. Þó að Austurríki segji sig úr ESB þá þurfa þau samt að kinda húsin sín með viði og veturnar og kinda vatnið í kjallaranum áður en farið sé í bað.

Burt séð frá ESB aðild.

hvells
19. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 14:01
Rétt, Hvells, en það breytir því ekki að það er ekkert betra eða verra að búa í ESB. Bara öðruvísi.

Gjaldeyrishöftin, verðtrygginguna og spillinguna út, og við þurfum ekkert ESB.
20. Jóhann Elíasson, 22.1.2012 kl. 14:24
Góður og málefnalegur pistill og sama má segja um flestar athugasemdirnar en þó er dapurlegt að sjá hvernig sá sem skrifar í nafni Sleggjunnar og Hvellsins kýs að stinga höfðinu í sandinn og horfir algjörlega framhjá staðreyndunum en þannig er málflutningur flestra INNLIMUNARSINNA.
21. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 15:30
ég veit að ESB getur hjálpað Íslandi með verðtrygginguna og gjaldeyrishöftin. M.a gegnum ERM2 prógrammið.

En spillining er okkar mál og við þurfum að útrýma henni.

hvells
22. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 15:41
Þessi þrjú mál getum við leyst sjálf er vilji er fyrir hendi.
23. Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2012 kl. 15:44
M.a gegnum ERM2 prógrammið.

Viltu semsagt gera verðtryggðu lánin okkar, gengistryggð í ofanálag?

Ég er ekki sannfærður um skynsemina í því…
24. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 15:59
Nei ég vill færa þessi verðtryggðu lán yfir í evru. Óverðtryggð á lægri vöxtum og enginn hætta á gengisfalli einsog með krónuna.

Heimilin þola þetta ekki lengur.

hvells
25. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 16:05
Heimilin þola ekki þessa ríkisstjórn lengur það er málið.
26. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 16:31
Hvells, það hefur ekkert upp á sig að færa lánin yfir í evru, nema hún verði tekin upp sem gjaldmiðill. Það mun taka mörg ár og gerast löngu etir að við erum gengin í ESB. Það í sjálfu sér er fjárhættuspil, því evran er fallvölt eins og er.

Ásthildur, hvaða kosti höfum við aðra en þessa stjórn? Flokinn sem kom okkur í þessa stöðu? Ótímabærar kosningar og stórsigur Sjálfstæðisflokksins, því hann einn er búinn undir kosningabaráttu?
27. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 16:35
Villi ég vil núna utanþingsstjórn sérfræðinga, ekki pólitíkusa. Að vísu þarf hún að bera sín mál undir alþingi, en ég hef trú á því að eftir öll stóru orðin, þá muni slík ríkisstjórn geta komi fram þeim málum sem brýnast liggja á þjóðinni, þ.e. fyrst og fremst aðstoð við heimilin. Jafnvel þjóðnýtingu bankanna, til að losa þá undan erlendu yfirráði, og í kjölfarið afnám gjaldreyrishafta. Íslenska krónan getur nefnilega alveg staðið sjálfstæð ef hagstjórnin er í lagi og yfirvöld hlusta á þá aðila sem benda á tækifærin sem liggja svo víða m.a. í sjávarútvegi sem má með einu pennastriki auka um marga milljarða og styrkja byggðir landsins.
28. Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2012 kl. 16:42
Nei ég vill færa þessi verðtryggðu lán yfir í evru.

Ég veit um marga sem voru með svoleiðis lán (eða héldu það allavega), t.d. á bílum, og reyndar var það oft evra í bland við aðra stóra gjaldmiðla t.d. dollar og svissneskan franka sem er klettstöðugur. Ég held að enginn þeirra vilji endurtaka þann leik.

Vandamálið liggur í því að fá lánin ekki greidd skv. sama verðmæli og útgjöldin. Þegar þannig er í pottinn búið skiptir engu máli hvað verðmælirinn heitir.

Verðtryggða krónan er einn stöðugasti verðmælir sem er lögbundinn nokkursstaðar í heiminum, hún hefur haldið kaupmætti sínum fullkomlega og hækkað um helming frá 2007 miðað við nafnkrónuna. Ef stöðugleiki kaupmáttar er markmið þá ættum við ekki að taka upp evru sem lögeyri heldur verðtryggðan gjaldmiðil. Hann mætti heita hvað sem er, nema evra auðvitað því Seðlabanki Evrópu á það vörumerki.
29. Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2012 kl. 16:43
Leiðrétting: fá launin ekki greidd skv. sama verðmæli og útgjöldin
30. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 18:44
Ásthildur.

Viltu ekki líka þjóðnýta IKEA?

Losna við erlend yfirráð.
31. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 18:48
Það er greinilega misskilningur í gangi.

Ég veit ekki taka EVRU-lán með tekjur í ISK

Ég vill ganga í ESB og í framhaldi taka upp EVRU og þá er hægt að taka EVRUlán á lágum vöxtum. Óverðtryggt einsog íbúar í ESB fá að gera.

Það er mér að öllu óskiljanlegt að Guðmundur sem er að berjast fyrir Hagsmunasamtök heimilana er á móti ESB. En hann er kannski að sjá eitthvað sem ég sé ekki.
32. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 19:04
Hvað tekur þetta evruferli langan tíma?

Innganga, þrjú ár? Það er 2015.

Evra, ca fimm ár í viðbót. 2020.

Verðtrygging húsnæðislána er vandamál núna. Ef við bíðum út áratuginn eftir einhverju ESB dæmi, verða allir farnir á hausinn. Jafnvel þótt verðtryggingin hyrfi 2015, yrðu flestir farnir á hausinn.

Við verðum að leysa þetta vandamál sjálft, því ESB dæmið tekur of langan tíma.
33. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 19:51
Inngangan gæti gerst á næsta ári og fljótlega farið í ERM2 prógrammið.

Þá stiður Seðlabanki Evrópu við krónuna með sínu fjármagni og kemur á stöðugleika í gengið. Með þessum stuðning losnum við höftin og getum lagt niður verðtrygginguna.

Við getum tekið upp Evruna fljótlega eftir það og fáum að njóta lægri vexti og enga verðtryggingu einsog nágrannaþjóðir okkar.
34. Villi Asgeirsson, 22.1.2012 kl. 20:15
Ef inngöngu yrði troðið á þjóðina strax á næsta ári, þyrfti ferlið að fara af stað strax. Þjóðin myndi brjálast, stjórnin myndi falla, kosið yrði upp á nýtt, Sjallarnir komast í stjórn og málið dautt.

Reynum að halda okkur á jörðinn.
35. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 20:16
Sleggja og hvellur af hverju ætti ég að vilja þjóðnýta Ikea? Veit ekki betur en það fyrirtæki standi sig vel í að veita ódýrar vörur okkur til hagsbóta. Það er bara ekkert sambærilegt við bankana sem mala allt undir sér að óskum erlendra kröfuhafa. Sem einungis hugsa um eigin gróða.
36. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 21:13
Þú talar einsog erlend yfirráð eru slæm ekki satt?

„Jafnvel þjóðnýtingu bankanna, til að losa þá undan erlendu yfirráði“

Landsbankinn er í eigu ríkisins. Ekki er hann eitthvað betri en „erlendu“ bankarnir.
37. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 21:14
Og ég veit ekki betur en að eigendur IKEA séu að hugsa um sinn eigin gróða.
38. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 21:59
Arionbanki og Íslandsbanki eru undir yfirráðum erlendra kröfuhafa, sem hafa með leyfi ríkisstjórnarinnar fengið skotleyfi á almenning í landinu, og það fjármagn fer beint úr landi. Að vísu á eftir að koma í ljós hvað Landsbankinn vill koma til móts við landamenn, og það ætti að vera hæg heimatökin hjá ríkisstjórninni að stýra því ásamt kröfum íbúðalánasjóðs, það er hluti af Skjaldborginni sem þau mærðu svo mikið í kosningabaráttunni. En eigendur Íkea hugsa auðvitað um eigin gróða, það gera öll fyrir tæki, en það er samt sem áður þeim til tekna að þau eru með viðráðanlegt verð á vöru sinni, þannig að fólk á þess kost að kaupa hluti miklu ódýrari með því að setja þá saman sjálf.

Við fáum ekkert út úr ESB meira en við getum gert sjálf með betri hagstjórn. Þið einfaldlega eruð búin að gefast upp á Íslandi og ef þið eruð svona óánægð, þá er miklu betra fyrir ykkur einfaldlega að flytja ykkur um set til Evrópusambandsríkis og setjast það að. Við hin munum aldrei samþykkja að fara þar inn, svo það er bara eins gott fyrir ykkur að hugsa til hreyfings.
39. Sleggjan og Hvellurinn, 22.1.2012 kl. 22:27
Það er yfirleitt eldra fólkið sem vill ekki þarna inn og vill taka framtíðarákvarðanir fyrir okkur unga fólkið.

En við látum ykkur ekki stjórna okkur lengur. Við munum kjósa JÁ við ESB og upplifa betri framtíð þegar þið eruð ekki lengur í þessum heimi.
40. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 23:01
Hahahaha já heldurðu það, börnin mín hafa tekið þá ákvörðun að ESB sé ekki fyrir Ísland, þó búa sum þeirra í ESB löndum, og bíða tækifæris að koma heim. Hin eru í Noregi og sjá hvað þetta ESBdæmi er mikið rugl, þó þú og hinir tréhestarnir sjái ekkert nema með rörsýn, þó reynt sé að benda ykkur á annað.
41. Sleggjan og Hvellurinn, 23.1.2012 kl. 00:15
Það kemur skýrt fram í skoðanakönnunum að eftir því sem eldra fólkið er því líklegra er það á móti ESB.
42. Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 00:26
Það er augljóst því eldra sem fólk er því meiri yfirsýn og reynsla er til staðar og víðsýni. Þetta veit ég mjög vel því ég hef reynsluna.
43. Stefán, 23.1.2012 kl. 09:41
Aðeins um gjaldeyrishöftin.

Gunnlaugur I, getur þú upplýst okkur hvernig vinur þinn, sjómaðurinn, millifærir launin sín á einfaldann hátt til Spánar? Hingað til hefur ekki verið leyfilegt að millifæra tekjur til útlanda ef starfað er á Íslandi. En Gunnlaugur, endilega láttu okkur vita hvernig hann fer að því.

Útflutningsfyrirtæki fær um 160 krónur fyrir hverja evru. Auðmaður getur, í gegnum Seðlabankann fengið 215-240 krónur fyrir hverja evru.

Þeir sem styðja gjaldeyrishöftin eru á sama tíma að styðja það að auðmenn verði enn þá ríkari og þeir fátækari enn fátækari.

Þeir sem vilja réttlæti geta ekki einnig stutt þessi gjaldeyrishöft.
44. Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2012 kl. 07:01
Það er mér að öllu óskiljanlegt að Guðmundur sem er að berjast fyrir Hagsmunasamtök heimilana er á móti ESB. En hann er kannski að sjá eitthvað sem ég sé ekki.

Þarna hitti Sleggjan naglann á höfuðið.

Ég sé nefninlega land þar sem stjórnvöld gerðu samning árið 1992 kenndan við evrópskt efnahagssvæði og lofuðu þar með að fara eftir ýmsum reglum, sem ætlað er að tryggja rétt neytenda. Meðal annars að ekki sé hægt að hækka lánsfjárhæð eftir að lán er tekið, án nokkurra takmarkana. Ef farið væri eftir þessum einföldu reglum þá stæðu íslenskir neytendur ekki frammi fyrir þeim skuldavanda sem þeir glíma nú við.

Staðreyndir málsins eru nefninlega þessar:

Elsta dómafordæmi í Evrópu um neytendavernd er frá Íslandi árið 1931
Í tvo áratugi hafa íslensk neytendaverndarlög verið ein þau víðtækustu í Evrópu
Verðtrygging húsnæðislána er bönnuð samkvæmt þessum lögum
Hún er það hinsvegar ekki í ýmsum löndum ESB!
Þessi lög myndu lítið breytast og ekki eflast neitt við inngöngu í ESB
Vandamálið er ekki lögin, heldur að þeim er ekki framfylgt af stjórnvöldum
Kvörtun frá HH vegna þessara brota er til meðferðar hjá ESA
Að brjóta EES-samninginn á neytendum er nefninlega orðið að sérstöku áhugamáli hjá íslenskum stjórnvöldum. Síðasta áhlaupið var þegar átti að gera okkur öll meðsek um samkeppnislagabrot með því að veita einkareknum banka ókeypis tryggingu á kostnað skattgreiðenda sem hann átti engan rétt á. Nýjasta útspilið er svo að segja að ef við samþykkjum að fara í ESB þá fáum við alla þessa frábæru neytendavernd sem þar sé að finna, og þá muni öll vandamál af þessu tagi leysast. Trúir þú því að í þetta sinn muni íslenskir stjórnmálamenn skyndilega byrja að virða reglur og standa við gefin loforð?

„Fool me once, shame on you. Fool me twice… ehhh….“ – George W. Bush

Sem betur fer virðist meirihluti Íslendinga betur gefinn en döbbja. Þetta er einfaldlega spurning um hvað maður þarf mörg skipti til að læra af reynslunni. Þeir snjöllustu kunna að læra af reynslu annara og þurfa þess vegna ekki að reka sig á sjálfir til að læra eitthvað.

 

 

5%

5%

Ekkert nema gott um það að segja að fólk stofni stjórmnálaflokka. Ekki eru þeir gömlu að virka. En það er hængur á. Því fleiri smáframboð sem koma fram, því tvístraðri verða atkvæðin. Allt sem nær ekki fimm prósentum er dæmt úr leik og það er gott fyrir fjórflokkinn.

Ég óska aðstandendum Öldu til hamingju og vona að þau nái allavega fimm prósenta fylgi.

Athugasemdir af Moggablogginu:

Guðni Karl Harðarson 21.1.2012 kl. 11:41

Ert þú ekki eitthvað að misskilja?

Lýðræðisfélagið Alda er ekki að fara að stjórna flokk til framboðs. Heldur aðeins að koma með vandlega unnar tillögur um hvernig lýðræðisflokkar geti starfað. Síðan er öllum nýjum stjórnmálaöflum frjálst að nota tillögur Öldu.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 11:42

Jú, misskildi það all hrapalega. Takk fyrir ábendinguna.

Rakel Sigurgeirsdóttir 22.1.2012 kl. 05:51

Vonin var sú að allir sem hygðu á framboð kæmu á þennan fund. Það virkaði e.t.v. að einhverju leyti en þingmennirnir sem eru byrjaðir að undirbúa minni framboð bæði ljóst og leynt létu ekki sjá sig. Það voru vonbrigði en hins vegar eru tillögur Öldu: Félags um sjálfbærni og lýðræði mjög góðar.

Þú getur lesið tillögur Öldu hér. Svo langar mig til að benda þér á það sem er að gerast í grasrótinni heima á Íslandi hér.  Það er rétt að taka það fram að heimasíða Grasrótarmiðstöðvarinnar er í smíðum.

Villi Asgeirsson 22.1.2012 kl. 07:57

Takk fyrir linkana, Rakel. Les þá í kvöld þegar hægist um.

Guðni Karl Harðarson 23.1.2012 kl. 09:18

Já flott að fá linkana! Ég hefði átt að láta þá fylgja með en satt best að segja gleymdi því.

Villi Asgeirsson 23.1.2012 kl. 09:36

Mér synist allt stefna í að sjálfstæðismenn muni reyna að knýja fram kosningar sem fyrst. Þeir þola ekki að vera í stjórnarandstöðu og vita að þeir einir eru tilbúnir með skotgrafirnar. Ef litlu framboðin ná að búa til sterkt mótvægi, getum við átt möguleika á að fá heiðarlegt fólk inn á þing.

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube