Browsed by
Category: Hugsi

Leica, leynibloggið og einsemdin

Leica, leynibloggið og einsemdin

Þegar ég ákvað að fara í framboð, ákvað ég líka að búa til einkablogg. Leyniskrif sem enginn má sjá. Mínar einkahugsanir sem eiga ekki endilega heima í opinberri umræðu. Þetta er ekkert stórmerkilegt, engar samsæriskenningar, níð eða tuð. Þetta er meira persónulegar hugleiðingar um framboðið og framtíðina. Dagbók sem ég get lesið seinna, eftir kosningar, þegar þessum kafla lífsins er lokið. Þetta er svo saklaust að ég gæti hugsanlega gefið það út í bókarformi. Hver veit? Til að gefa hugmynd um losandaháttinn og blaðrið, datt mér í hug að deila færslu dagsins í dag.

MatsÍ dag er þrettándi júlí og mér líður betur. Er farinn að sætta mig við ákvörðunina um að bjóða mig fram. Mér fannst ég vera að skíta mig út, að stíga ofan í drullupoll þegar ég bauð mig fram í stjórnmálastarf, en það þarf svo sem ekkert að vera þannig.

Í gær var grein á netmiðlunum þar sem talað var um að mikil barátta væri framundan í prófkjörum Pírata. Drulluslagur eða eitthvað. Mitt komment á það var; Ég veit ekki með Reykjavíkina en ég ætla allavega að vera til friðs í suðurpottinum. Er ekki að standa í þessu til að kúka á fólk.

Og þannig er það. Þetta þarf ekki að vera drulluslagur. Ég fór í þetta af því ég er með hugsjónir, ekki til að fá þægilega innivinnu. Ég vil búa í réttlátu samfélagi sem allir geta blómstrað í.

Ég sagði Hildi að ég myndi taka íbúðina. Spáði í miða um borð í Norrönu fyrir mig og bílinn. Miriam er sátt við þetta. Og lífið er ekkert ef maður hoppar ekki út fyrir þægindarammann af og til.

Annars var ég að horfa á Leica unboxing video. Einhver myndavél sem hoppar og hóar yfir því að 60 ár séu liðin frá því að Leica M3 kom á markaðinn. Og það minnti mig á bókina sem ég þarf að klára. Blood and rain, þar sem Gunnar fer til Barcelona í miðju borgarastríði og finnur út að það er meira en að segja það að vera heimsfrægur blaðamaður. Lesandinn mun, þegar þar að kemur, komast að því hvort Gunnari tekst að verða heimsfrægur blaðamaður, eða hvort hann klúðri öllu. Stríð á það nefninlega til að breyta áætlunum fólks. Þarf sennilega ekki stríð til. Leica spilar töluvert stórt hlutverk í bókinni. Leica IIIc, svo maður nördist.

Myndbandið minnti mig líka á fallegu Fujifilm myndavélina sem ég keypti af því ég var orðinn leiður á stærð og þyngd Canon vélanna. Og Fujifilm er Leica 21. aldarinnar.

En hvað um það. Þetta verður allt í lagi. Ég fer í framboð. Annað hvort kemst ég í baráttusæti, eða ég mun taka þátt í grasrótarstarfinu. Og taka myndir af ferlinu. Búa til heimild um framboð og aðdraganda kosninga.

Seinna í dag fer ég að leika mér með flugvélar, vinna við að búa til loadsheets og þannig. Og Mats kemur heim úr skólanum eftir rúman klukkutíma og honum þarf að sinna. Sem er auðvitað bara gaman, enda er hann svo mikið krútt. Ég á eftir að sakna hans óendanlega í vetur. Það er þó tímabundin fórn. Vonandi virkar þetta allt og þegar við erum búin að byggja draumahúsið á suðurlandinu, verður þetta brölt þess virði.

Í kvöld er svo fundur fyrir frambjóðendur, sem ég get ekki mætt á.

Næstu sex mánuðir eða svo verða spennandi.

Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

Það er kominn 17. júní.

Þjóðhátíðardagur íslendinga. Afmælisdagur Jóns Sigurðssonar forseta. Það er sennilega rigning og við stöndum sennilega brosandi með gegnblauta pappírsfána á Lækjartorgi eftir vel heppnaða skrúðgöngu.

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Loksins, eftir 700 ár sem nýlenda, urðum við sjálfstæð. Sumir vilja halda því fram að tilraunin Lýðveldið Ísland hafi mistekist. Hér er verðtrygging, ofurvextir, hér varð hrun á meðan nágrannalöndin lentu í einhverjum tímabundnum samdrætti. Við rífumst um hvort við eigum að láta túrista traðka náttúrurperlurnar í svaðið eða hvort betra sé að virkja þær. Við stofnum þjóðernisflokka og gleymum bókmenntunum okkar. Ef einhver minnist á Evrópu, hefst nett trúarbragðastríð.

En við erum sjálfstæð og við höfum áorkað mörgu. Bókmenntirnar okkar, Snorri og Halldór, fótboltinn er að gera sig, tónlistin. Þegar við gerum okkar besta, erum við góð. Virkilega góð.

Börn á Íslandi (VGA 2013)
Börn á Íslandi (VGA 2013)

Við erum sjálfstæð þjóð og höfum verið það í 72 ár. Það eru 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988. Það er ekkert rosalega langt síðan. Duran Duran voru búnir að vera, Reagan og Gorbachev voru komnir og farnir, Með allt á hreinu var orðin sex ára og Ísbjarnarblúsinn átta. Það er ekkert rosalega langt síðan 1988 kom og fór. Það er ekkert rosalega langt í hundrað ára afmælið.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu. Trúið mér, maður verður tæplega fimmtugur á korteri.

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. 1988 virkar eins og fornöld ef maður horfir á bíómyndir frá þessum tíma, en við erum enn að berjast við sömu púkana. Við erum ennþá í skotgrafarhernaði. Við förum enn í Ríkið. Lánin okkar eru ennþá verðtryggð. Davíð Oddson er ennþá relevant. Þannig lagað.

Hvernig verður framtíðin? Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er, mikið til, okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins. Við förum þangað saman og við höfum áhrif á hvort annað. Við erum öll við stýrið og höfum öll einhver áhrif, þótt þau séu mismikil.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja hér fyrir neðan. Þeim má líka svara í huganum. Það skiptir ekki máli, á meðan við hugsum málið og erum meðvituð um að afstaða okkar mun hafa áhrif. Maður breytir nefninlega heiminum með því að breyta sjálfum sér fyrst.

• Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
• Hvað getum við gert til að komast þangað?

Hugsum um þetta. Spáum í hvar við viljum vera á aldarafmælinu og förum að vinna í að komast þangað.

Krakkar, þið eruð klisja

Krakkar, þið eruð klisja

Aðdragandi kosninga er eins og vorið. Loforð um betri tíð með blóm í haga. Sterkara heilbrigðiskerfi sem fólk hefur efni á, lækkandi skatta með hækkandi sól, blóm í hnappagötum eins og fíflar í túni, menn í lopapeysum kyssandi börn fyrir framan myndavélar.

Og unga fólkið. Þessi furðudýr sem hugsa öðruvísi en miðaldra stjórnmálamennirnir, þessar kynjaskepnur sem þarf að skilja svo hægt sé að hala þær inn eins og fiska á öngli. Miðaldra pólitíkusinn stúderar bráðina svo hann geti veitt hana.

Barnið við styttuna (VGA 2013)
Barnið við styttuna (VGA 2013)

Það er bara eitt sem gengur ekki upp í þessu dæmi. Unga fólkið er ekki önnur dýrategund sem þarf að skilja. Unga fólkið er fólk með nokkurn vegin sömu þarfir og miðaldra fólk. Það er ekkert erfitt að skilja unga fólkið, nema maður hafi misst tengslin við eigin fortíð og sé búinn að gleyma hvernig var að byrja sjálfstætt líf, eða ef maður hefur aldrei verið þar og aldrei þurft að hafa fyrir neinu.

En allavega…

Krakkar, þið eruð klisja. Eða allavega hluti af stærri klisju.

Fyrir kosningar er talað um ykkur. Talað um að hlusta á ykkur, því þið eruð víst svo frábrugðin okkur gamla fólkinu að við getum ekki sett okkur í ykkar spor. Ykkur er lofað hinu og þessu. Betra LÍNi, fleiri leikskólum, betri framtíð með blóm í haga, betra heilbrigðiskerfi… og allt það. Þið þekkið þetta. Miðaldra mennirnir ætla að gefa ykkur dót til að leika með. Þeir ráða þessu. Þið munið bara að kjósa þá. Eða kjósa ekki, því eldra fólkið sér um þetta með því að kjósa sama gamla aftur og aftur.

Önnur klisja er að þið virðist gleypa við þessu. Virðist allavega ekkert vera að pæla neitt sérstaklega í því. Klisjan er að ungt fólk taki ekki þátt í stjórnmálum. Mörg ykkar láta hlutina bara gerast, annað hvort vegna áhugaleysis eða uppgjafar.

Uppgjöfin er skiljanleg. Hér varð hrun. Mamma og pabbi misstu kannski húsið, frændi framdi sjálfsmorð, afi dó eftir að hafa legið á ganginum á spítalanum vegna peningaskorts og myglusvepps og amma er orðinn farandelliheimilismatur því það er alltaf verið að flytja hana. Hún er ennþá sár yfir að hafa ekki fengið að búa með afa síðustu árin, því hann var veikur en hún ekki. Eina manneskjan sem virðist lifa þokkalegu lífi er frænka sem flutti til útlanda. Hún segir allavega að hún hafi það ágætt. Það er örugglega þannig, því allt er betra en þetta sker miðaldra (og þaðan af eldri) karla. Kannski maður flytji bara út.

Áhugaleysið er samt eiginlega stærra vandamál. Stjórnmál eru leiðinleg, miðaldra karlarnir eru leiðinlegir og þetta virðist ekki vera neitt nema tuð og rifrildi fólks sem á nóg af peningum. Alvörugefnir talandi hausar í sjónvarpinu þykjast vita allt og kunna allt. Boring. Stjórnmál eru samt ekki alveg þannig. Stjórnmál snúast um að hafa áhrif á samfélagið, stýra því í átt til framtíðar. Fólkið sem tekur þátt í stjórnmálum og kýs í kosningum hefur áhrif á framtíðina. Fólk sem nennir ekki að spá í þetta hefur engin áhrif.

Stjórnmál snúast ekki bara um leiðinleg mál eins og fjárlög sem enginn skilur hvort eð er. Þau snúast um stefnu samfélagsins. Stjórnmál nútímans hafa áhrif á framtíðina. Og þá er spurningin. Hver á að ákveða hvernig framtíðin lítur út? Miðaldra karlar, karlar sem ættu að vera að skríða á eftirlaun eða fólkið sem þarf að lifa í framtíðinni sem er sköpuð í dag?

Munum að það vantaði sex atkvæði á að Píratar kæmu inn manni í Hafnarfirði um árið. Sex atkvæði. Ég er ekkert að tala um Pírata, en þetta sýnir að örfá atkvæði geta haft áhrif.

Við getum haldið áfram á sömu braut. Haldið áfram að pæla ekkert í miðaldra körlunum sem lofa „unga fólkinu“ einhvers. Við getum haldið áfram að styðja (beint með atkvæðum eða óbeint með því að kjósa ekki) við gamla bitlingasamfélagið þar sem okkur er lofað hinu og þessu en það svo tekið af okkur strax eftir kosningar þegar stjórnarsamstarf er í húfi. Við getum leyft þeim að hola heilbrigðis- og menntakerfin að innan og lækka framfærsluviðmið LÍN eftir hentugleika.

Við getum líka tekið völdin sjálf. Unnið í hugmyndum um beint lýðræði, fundið lausnir á framfærslukosnaði í námi, reynt að koma vaxtaprósentunni á húsnæðislánum niður í það sem þekkist í löndunum í kring um okkur (þau eru nú 4x hærri á Íslandi en í ESB).

Unga fólkið þarf að vakna. Taka þátt í að skapa eigin framtíð, koma með hugmyndir, kjósa flokka sem virkilega virðast ætla að breyta einhverju. Taka þátt.

Það er nefninlega þannig að breytingar eru ekki endilega slæmar. Við þurfum ekki að vera hrædd. Eftir langan vinnudag er gott að breyta til og fara heim. Eftir 72 ár af því sama, er kannski kominn tími til að breyta til og gera íslenskt samfélag réttlátara og jákvæðara.

Unga fólkið getur breytt samfélaginu. Miðaldra karlarnir eru fastir í gamla farinu. Þeir eru ekki að fara að breyta neinu.

Krakkar, takið til hendinni. Takið þátt, kjósið. Skiptir ekki máli hvað, á meðan þið kjósið.

Ekki gera ekki neitt. Ekki vera áhugalaus um framtíðina. Hún er ykkar, ekki þeirra. Takið það sem ykkur ber. Hafið áhrif. Takið þátt.

Ekki vera klisja.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

2044

2044

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Það eru því 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst vera langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu.

Íslendingur á íslandi
Íslendingur á íslandi

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er mikið til okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja senda á vga[hjá]vga.is eða einfaldlega setja þau hér fyrir neðan. Það væri gaman að fá sem flest svör, svo við getum búið til stefnu sem hægt er að reyna að orða vel og setja í einhverskonar ferli.

  • Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
  • Hvað getum við gert til að það muni rætast?

Tökum endilega öll þátt í að búa til samfélagið sem við viljum búa í.

Samsæriskenning

Samsæriskenning

Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í 20 ár. Hann sagðist vera hættur og 15 manns buðu sig fram. Hann hætti við að hætta (aftur) og fór fram. Enginn bauð sig fram gegn sitjandi forseta, sitjandi forseti fór fram gegn öðrum. Kannski gegn þjóðinni.

Hann ber fyrir sig óstöðugleika í þjóðfélaginu. Hann virðist ekki fatta að þetta er Ísland og óstöðugleiki hefur alltaf verið fyrir hendi. Óstöðugleikinn minnkaði ekkert við það að hann varð forseti. Síðustu 20 ár hafa verið rússibani þenslu og kreppu, eins og árin þar á undan. Munurinn er að efnahagurinn hrundi algerlega á hans vakt og gerendurnir voru menn sem hann hafði nælt orðum á og sopið kampavín með. Hann var ekki samnefnari fyrir stöðugleika þá og hann er það ekki núna.

Hann virðist vera pínulítið úr takti við raunveruleikann. Hann sá þúsundir mótmæla ríkisstjórninni á Austurvelli og misskildi mótmælin sem meðmæli með sjálfum sér.

Forsetinn sem misskildi mótmælendur
Forsetinn sem misskildi mótmælendur

Hann er að misskilja mótmælendur. Það var ekki verið að klappa hann upp í sjötta skiptið. Það var verið að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Þetta hafði ekkert með hann að gera, en hann tók þetta til sín á kolröngum forsendum. Þetta voru mótmæli gegn gamla Íslandi óstöðugleikans og spillingarinnar, gamla kerfinu sem hann tilheyrir. Þetta voru ekki mótmæli gegn forsetanum, en þetta var sannarlega ekki uppklapp með von um meira.

Nema hann sé ekki að misskilja neitt. Kannski vill hann ekki að Nýja Ísland verði til. Kannski er hann tilbúinn til að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir breytingar. Kannski er hann tilbúinn til að ganga svo langt að hægt sé að kalla það samsæri gegn þjóðinni.

Segjum sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar fái flest atkvæði í komandi alþingiskosningum. Flest bendir til að flokkarnir fái báðir í kring um 30% atkvæða. Verði munurinn nógu lítill, getur forsetinn ákveðið hver fær umboð til stjórnarmyndunar. Þegar enginn einn flokkur fær yfirburðakosningu, ræður forsetinn hver myndar stjórn.

Stærsti munurinn á flokkunum tveimur er nýja stjórnarskráin. Ólafur Ragnar er á móti nýju stjórnarskránni. Hann vill alls ekki að hún verði afgreidd af Alþingi. Það hefur hann sagt ítrekað og hér eru tvö dæmi, annað frá 2012 og hitt frá þingsetningu 2015.

Hvor flokkurinn fær stjórnarmyndunarumboðið? Flokkurinn sem setur stjórnarskrármálið í algeran forgang eða flokkurinn sem vill halda í þá gömlu?

Val forsetans getur þýtt nýja stjórnarskrá og nýja tíma. Eða áframhaldandi „stöðugleika“ í skjóli gömlu stjórnarskránnar. Meira af því sama. Ofurvöxtum, spillingu, ógagnsæi, lítilli rentu fyrir auðlindirnar, áframhaldandi stóriðjustefnu.

Fái Sjálfstæðisflokkur og Píratar svipaða kosningu, skiptir öllu máli hvor þeirra kemst í stjórn. Þetta veit Ólafur Ragnar Grímsson.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Við sjáum til. Ef Píratar fá örlítið betri – eða mjög svipaða – kosningu og Sjálfstæðisflokkurinn, en ekki umboð til stjórnarmyndunar, þá vitum við hvað klukkan slær. Þá vitum við að valdaránið er fullkomnað.

Þá vitum við að forsetinn fór fram gegn þjóðinni.

Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

Það fallegasta sem ég hef séð…

Það fallegasta sem ég hef séð…

Á laugardaginn ráfaði ég inn í bókabúð í Amsterdam. Þetta var morguninn eftir árásirnar í París og heimurinn var aðeins dekkri en yfirleitt. Nema að í bókabúðinni var spiluð frönsk tónlist og það minnti mig á þennan mannlega styrk til að takast á við áföll og stara í glyrnurnar á dauðanum. Gefast ekki upp, heldur gefa honum fokkmerki og halda áfram brosandi.

Og ég fékk hugmynd. Hvernig væri að spyrja fólk einnar spurningar. Leyfa því að hafa svarið eins stutt eða langt og það vill. Setja svörin á bloggið og safna saman í bók.

Hvað er það fallegasta sem þú hefur séð?

Ég ætla að senda spurninguna á fólk, en þér er auðvitað velkomaið að svara hér í athugasemdum.

Sjáum hvað verður. Hvaða svör berast.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube