2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

Það er kominn 17. júní.

Þjóðhátíðardagur íslendinga. Afmælisdagur Jóns Sigurðssonar forseta. Það er sennilega rigning og við stöndum sennilega brosandi með gegnblauta pappírsfána á Lækjartorgi eftir vel heppnaða skrúðgöngu.

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Loksins, eftir 700 ár sem nýlenda, urðum við sjálfstæð. Sumir vilja halda því fram að tilraunin Lýðveldið Ísland hafi mistekist. Hér er verðtrygging, ofurvextir, hér varð hrun á meðan nágrannalöndin lentu í einhverjum tímabundnum samdrætti. Við rífumst um hvort við eigum að láta túrista traðka náttúrurperlurnar í svaðið eða hvort betra sé að virkja þær. Við stofnum þjóðernisflokka og gleymum bókmenntunum okkar. Ef einhver minnist á Evrópu, hefst nett trúarbragðastríð.

En við erum sjálfstæð og við höfum áorkað mörgu. Bókmenntirnar okkar, Snorri og Halldór, fótboltinn er að gera sig, tónlistin. Þegar við gerum okkar besta, erum við góð. Virkilega góð.

Börn á Íslandi (VGA 2013)
Börn á Íslandi (VGA 2013)

Við erum sjálfstæð þjóð og höfum verið það í 72 ár. Það eru 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988. Það er ekkert rosalega langt síðan. Duran Duran voru búnir að vera, Reagan og Gorbachev voru komnir og farnir, Með allt á hreinu var orðin sex ára og Ísbjarnarblúsinn átta. Það er ekkert rosalega langt síðan 1988 kom og fór. Það er ekkert rosalega langt í hundrað ára afmælið.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu. Trúið mér, maður verður tæplega fimmtugur á korteri.

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. 1988 virkar eins og fornöld ef maður horfir á bíómyndir frá þessum tíma, en við erum enn að berjast við sömu púkana. Við erum ennþá í skotgrafarhernaði. Við förum enn í Ríkið. Lánin okkar eru ennþá verðtryggð. Davíð Oddson er ennþá relevant. Þannig lagað.

Hvernig verður framtíðin? Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er, mikið til, okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins. Við förum þangað saman og við höfum áhrif á hvort annað. Við erum öll við stýrið og höfum öll einhver áhrif, þótt þau séu mismikil.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja hér fyrir neðan. Þeim má líka svara í huganum. Það skiptir ekki máli, á meðan við hugsum málið og erum meðvituð um að afstaða okkar mun hafa áhrif. Maður breytir nefninlega heiminum með því að breyta sjálfum sér fyrst.

• Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
• Hvað getum við gert til að komast þangað?

Hugsum um þetta. Spáum í hvar við viljum vera á aldarafmælinu og förum að vinna í að komast þangað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube