Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube