Nárapúkar

Nárapúkar

Álfakonungur leit um öxl. Það hefði kannski mátt reyna meira, en þetta var bara of mikið. Honum varð hugsað til Frakka sem ekkert gátu gert til að stöðva Blitzkrieg Adolfs um árið. Þeir höfðu reynt en það tafði hið óumflýjanlega bara um nokkra daga. Margir Frakkar dóu og allt sem þeir fengu í staðinn var kannski einnar viku frelsi. Nei, þetta stríð var tapað, en það þýðir auðvitað ekkert að álfur gefist upp. Ó nei, viva la restistance! Var það ekki það sem þeir sögðu alltaf? Hann var ekki viss. Það gat verið erfitt að ná í bækur mannanna og svona lagað fann maður aldrei í álfabókum.

Nú voru erfiðir tímar í nánd. Það átti að sökkva heilli borg! Það var ekki eins og þetta væri einhver vesæll álfhóll í nýju borgarhverfi sem börn voru að dunda sér við að grafa upp. Hann hafði svo sem nógu oft sagt á ráðstefnum að álfar ættu að koma sér frá borginni. Þetta var fyrirsjánlegt. Þeir álfar sem þrjóskuðust við og neituðu að fara lentu í vandræðum. Álfakonungur vissi betur, allavega hafði hann haldið það. Kannski var hann bara að verða of gamall.

Hann hafði séð borgina vaxa og ákvað að gera hið sama. Þetta var svo sem ekkert vitlaus hugmynd hjá mannfólkinu. Borg. Álfaborg! Þetta hafði aldrei verið reynt á Íslandi. Hundraðogfimmtíuþúsund álfar í einni borg. Hugsa sér allt það sem álfar gætu gert ef þeir ynnu saman á skipulagðan hátt. Eitt þurfti þó að komast á hreint áður en byrjað yrði að byggja. Staðsetning. Hann hafði staðið fast á sínu. Sem lengst frá mannabyggðum. Einn og einn álfhóll étinn upp af steinsteypu og malbiki var nógu slæmt. Álfaborgin skyldi fá að standa um aldir!

Álfakonungur leit um öxl. Það var betra en að horfa í augu álfanna sem gengu yfir heiðina með honum. Þau gengu þó allavega með honum.

Álfarnir höfðu gengið yfir fjöll og heiðar. Það var komið rökkur og tími til að búa sig fyrir nóttina. Álfakonungur opnaði skjóðuna varlega. Hann tók upp ljósmynd af gráu hlöðnu húsi með kopar níu á þakinu og hugsaði til nárapúkanna. Hann hafði sent þá beint í gin óvinarins. Þeir vissu jafn vel og hann að þeir kæmu kannski aldrei til baka, en þeir vissu hvað var í húfi. Enginn vildi sjá hina nýju, glæsilegu Álfaborg hverfa undir vatn. Nárapúkarnir voru tilbúnir til að fara og gera það sem þeir voru bestir í.

One thought on “Nárapúkar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube