Útlendingar

Útlendingar

Íslendingar eru hrein þjóð, ómenguð af endalausum blöndunum sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola í gegn um tíðina. Við erum afkomendur víkinga, erum hörkutól sem lifðu af þúsund ár í skítakulda og komum sterk og sjálfstæð inn í nútímann.

Það er um það bil svona sem við sjáum okkur. Eða sáum okkur. Held það sé að breytast. Við erum nefninlega merkilega blönduð. Einhver hluti genanna kemur frá Skandinavíu, einhver hluti frá Bretlandseyjum. En það er ekki allt. Við erum ekkert viss hvaðan við komum. Ég hef séð hreinræktaða íslendinga sem líkjast mið-austurlandabúum. Genin okkar koma víða að. Og þótt við værum óblönduð frá landnámi, vitum við ekki hvar genin voru fyrir þann tíma.

Nýlega las ég grein eftir Naomi Wolf. Hún er gyðingur, fæddist inn í gyðingafjölskyldu og ólst upp í þeirra trú. Hún trúði, eins og henni hafði verið sagt, að hún væri hluti að Guðs útvöldu þjóð. Í greininni sagði hún frá genaprufu sem fjölskyldumeðlimur fór í. Naomi komst að því að hún er alls ekki gyðingur. Hún á rætur að rekja til Líbanon og ýmsra landa í Evrópu. Hún er blanda af araba, persa og evrópubúa. Eiginlega allt annað en gyðingur.

En það er ekki allt. Flestir nútímagyðingar eru svokallaðir Ashkenazi gyðingar, eða þýskir gyðingar eins og það myndi þýðast. Þeir eru ekki blóðskyldir fólkinu sem bjó í Palestínu í fornöld, heldur koma þeir frá Kákasus og Evrópu. Þeir eru því ekki Guðs útvalda þjóð, allavega ekki erfðafræðilega séð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki að sverta Ísrael eða gyðinga. Alls ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að við vitum oft ekkert hver við erum. Eða hverra. Við vitum að við erum fólk, við erum hluti af mannkyninu. Auðvitað er gaman að gramsa í fortíðinni og finna út hvaðan við komum, en það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli, er að við erum öll ein stór fjölskylda.

Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.
Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.

Innflytjendamál hafa verið mikið í umræðunni. Múslímar eru vandamál því þeir eru eins og olía sem blandast ekki við það sem fyrir er. Pólverjar eru heimskir glæpamenn sem stela vinnunni okkar. Eða voru það litháar? Allavega, þessir útlendingar eru vandamál sem við þurfum að halda frá okkur.

En það er bara ekkert þannig. Útlendingar eru líka fólk. Fólk með tilfinningar, þrár og von um betri heim. Stundum erum við sammála þeim, stundum ekki. Það skiptir þó engu máli, því við íslendingar erum ekkert sammála um allt. Vel heppnað samfélag snýst ekki um að allir séu sammála, heldur að fólk virði náungann og skoðanir hans.

Besta leiðin til að búa til innflytjendavanda er að útiloka innflytjendur frá samfélaginu. Láta þá finna að þeir séu óvelkomnir. Halda þeim frá vinnu og samfélagshópum. Þannig einangrast þeir og festast í fátækragildru. Fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum og finnst það vera hatað, reiðist. Það fer að hata á móti. Fer að halda saman í hópum. Fer að vinna gegn samfélaginu sem fyrir er.

Besta lausnin á útlendingavandanum er því ekki að takmarka straum innflytjenda, gera þeim erfitt fyrir, banna þeim að vinna eða byggja sín guðshús. Þvert á móti. Ef við bjóðum þau velkomin og gerum aðlögunarferlið eins auðveldt og hægt er, getum við búist við hamingjusömum einstaklingum sem þykir vænt um (nýja) landið sitt og eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum.

Mestu máli skiptir auðvitað að þjóðin sé opin og fordómalaus. Að við getum séð muninn á venjulegu fólki sem vill setjast að og hefja nýtt og betra líf í sátt við allt og alla, og þá sem vilja þvinga okkur til að taka upp þeirra siði með góðu eða illu. Fordómaleysið og virðingin verður að vera beggja megin. Ef upp koma vandamál, þurfum við að taka á þeim. Ef fólk lifir sínu lífi í sátt, þurfum við ekkert að hafa áhyggjur. Við verðum að sjá muninn og haga okkur eftir því, því annars búum við til vandamál þar sem ekkert var.

Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.
Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.

En hvernig er best að bjóða fólkið velkomið og gera því flutningana og menningarsjokkið eins auðvelt og hægt er? Ég væri alveg til í að sjá einhverskonar ráðstefnur eða hittinga þar sem fyrirtæki mæta og eru með bása, áhugasamt fólk mætir til að kynnast „nýbúunum“ (og fræðast, finna vinnu etc) og innflytjendur geta safnað saman upplýsingum um stjórnsýsluna, reglur, fyrirtæki, atvinnutækifæri, íslandssöguna og fleira.

Fyrirtækin myndu nota þetta sem leið til að kynna sig og ná í vinnuafl, innflytjendur til að komast inn í samfélagið (kynnast fólki og fyrirtækjum) og hið opinbera til að sitja fyrir svörum um mál sem geta komið upp.

Það yrði frítt inn, allir velkomnir.

Það skiptir nefninlega mestu að innflytjendur hafi á tilfinningunni að þeir séu velkomnir, að þeir komist í vinnu og kynnist fólkinu í landinu. Árekstrar verða nefninlega þegar þetta er ekki í lagi, því þá einangrast þeir.

Fólk sem lifir ekki í fátækt og einangrun er nefninlega sjaldnast til vandræða.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube