Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
RÚV framtíðarinnar? – Villi Asgeirsson
RÚV framtíðarinnar?

RÚV framtíðarinnar?

Hlutverk RÚV hefur verið bitbein í mörg ár, jafnvel áratugi. Á það að vera pólitískt? Er það nógu hægri sinnað nú? Var það nógu vinstri sinnað í tíð Jóhönnu? Á það að veita aðhald, vera pirrandi fluga eða málpípa? Tilkynningaskyldan er löngu orðin óþörf, veðurfréttir fást hvar sem er, sjúklingar og sjómenn geta dánlódað hvaða lögum sem er, hvenær sem er, og þurfa ekki að hringja inn til að biðja um að þau séu spiluð í þar til gerðum óskalagaþáttum. Jón Múli er farinn og RÚV er bara ekki það sama án hans. Batteríð kostar milljarða og aðahlutverk þess er að vera bitbein stjórnmálamanna sem vilja skera niður og fólks sem vill halda í hefðina.

Hvað er til ráða?

Ég var að keyra heim úr vinnunni og einhver sagði „publieke omroep“. Þetta er hollenska og þýðir opinber fjölmiðill. Og ég fór að hugsa. Hér í Hollandi hafa félög og hópar lengi skipt rásum og stöðvum á milli sín. EO er Evangelische Omroep, eða kristilega sjónvarpsstöðin. Hún sendir ekki endilega út kristilegt efni, en það er oft lauslega tengt trúmálum. AVRO sendir út fræðsluþætti, sérstaklega um listir og menningu. BNN sendir út skemmtiþætti, VARA var stofnað 1925 sem málpípa fyrir verkalýðinn en sendir nú mestmegnis út þætti sem ætlað er að opna augu almennings fyrir málum líðandi stundar, loftslagsmálum og fleira. NOS sérhæfir sig í fréttum, fréttaskýringum og íþróttaviðburðum.

RÚVÖll félögin senda út eigið efni í bland við aðkeypt. Þau eru virk í útvarpi, sjónvarpi og á netinu. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera ekki sjónvarpsstöðvar, heldur deila þau ríkisstöðvunum þremur á milli sín. NOS sér um fréttirnar, en þar á eftir kemur t.d. AVRO með heimildamynd um Picasso eða Queen. Nema VARA sé með þann tíma og sendi út þátt um borgaralaun. Síðan kemur EO með biómynd. Ein sjónvarpsstöð, margir fjölmiðlar.

Ég veit ekki nákvæmlega hvernig kerfið virkar hér, hvernig þessu er skipt og hvernig það virkar fjárhagslega, en ég lét mér detta í hug að hægt væri að breyta RÚV með svipuðu kerfi.

Gefum okkur að rekstur RÚV yrði stokkaður upp. Félagið sjálft hætti framleiðslu efnis, en leigði tímahólf í dagskránni. Tímahólfin hefðu þemu. Við viljum hafa fréttir á vissum tímum, fræðsluþætti hér og kvikmyndir þar. Fyrir utan að setja þemun og ákvarða lágmarksaldur á útsendirgarefninu á vissum tímum, myndi RÚV lítið skipta sér af dagskránni.

Kvikmyndaframleiðendur, fréttaveitur og félög sem áhuga hafa á útsendingum sjónvarps- og útvarpsefnis myndu leigja útsendingarkerfi RÚV.

Deginum yrði skipt í 10-15 mínútna hólf sem yrðu verðlögð eftir tíma dags. Það má gera ráð fyrir að útsendingar að nóttu yrðu tiltölulega ódýrar, en tíminn milli 18:00 og 23:00 yrði dýr. Framleiðendur myndu fjármagna framleiðslu og innkaup efnis með auglýsingum. Rekstur RÚV yrði tryggður, þar sem auðvelt yrði að gera fjárhagsáætlanir, og framleiðendur efnis fengju tækifæri til að þróa dagskrá sem stendur undir sér. Það má gera ráð fyrir grósku í kvikmyndaiðnaðinum ef þetta kerfi yrði innleitt. Útvarpsgjaldið yrði notað til að halda kerfinu við og styrkja gerð framúrskarandi efnis.

Helmingur styrkveitinganna yrði ákvarðaður af þjóðinni. Framleiðendur gætu, ef þeir vildu, búið til verkefni og auglýst þau. RÚV væri með síðu þar sem fólk gæti kosið um verkefnin. Segjum að Saga Film hafi keypt tímann 20:30-22:00 og fyrirtækið vilji framleiða framhaldsþætti til að fylla hluta þess tíma. Þau búa til stiklu og reyna að selja þjóðinni hugmyndina. Ef nógu margir kjósa verkefnið, fær Saga Film styrk. Ef ekki, þarf fyrirtækið að fjármagna dæmið sjálft og vona að auglýsingatekjurnar dugi. Því betra sem efnið er, því meiri líkur á að næsta verkefni verði skyrkt, og því líklegt að gæði íslensks sjónvarpsefnis aukist.

Hinn helmingurinn yrði valinn af nefnd. Það er ekki ólíklegt að „vinsæl“ verkefni fái flest atkvæðin, svo það er gott að leyfa nefndinni að ákveða að styrkja fræðsluþætti, þjóðlífsþætti og annað sem eykur á menningu okkar en er ekki beinlínis vænt til vinsælda í kosningu. Ég sé fyrir mér heimildamynd um uppbyggingu Selfoss, Sturlungaöldina, stofnun Alþingis árið 930 og allskonar stikluþætti.

Með þessu kerfi yrði áhugasömum gert auðveldara að hefja útvarpsrekstur. Stofnkostnaður er griðarlegur ef byggja á allt frá grunni. Tæki eru dýr og rekstrarkostnaður hár. Ef þetta yrði að veruleika, þyrftu framleiðendur aðeins að hafa áhyggjur af verðinu á tímarömmunum og hvort áhorfið yrði nægt til að standa undir útsendingum. Sé dæmið ekki að virka, geta þau einfaldlega hætt útsendingum og annar aðili leigir útsendingartímann.

Þetta er hugmynd í mótun. Ég er tilbúinn til að fá gagnrýni, jafnvel að vera skotinn í kaf ef þetta er arfavitlaust. En það væri gaman að sjá hvort hægt sé að þróa hugmyndina og koma henni í framkvæmanlegt form.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube