Hvað má barnið mitt heita?

Hvað má barnið mitt heita?

Ég er íslendingur, heiti íslensku nafni og á íslenskt vegabréf þótt ég hafi búið erlendis í yfir tvo áratugi. Eins og gengur, hafði ég það af að fjölga mér. Sonurinn kom í heiminn árið 2007. Hann fæddist í Amsterdam og er því sjálfkrafa hollenskur ríkisborgari. Ég reddaði þó íslenskum ríkisborgararétti þegar við komum með hann til Íslands, sumarið 2007.

MatsÞað snúnasta við að eignast barnið í útlandinu var nafnið. Við þurftum að berjast fyrir því, ég og ófríska mamman, að ég gæti gengist við kiðinu. Það var næstum ómögulegt. Hljómar fáránlega, en af því ég er ekki með ættarnafn, gat ég ekki gefið honum ættarnafn og gat því ekki verið faðir barnsins. Íslensk föðurnöfn eru ekki ættarnöfn og því geta börnin ekki tekið þau upp. Föðurnafn var ómöguleiki, því þau eru ekki viðurkennd í Hollandi. Maðurinn á sýslumannsskrifstofunni svaraði því játandi þegar ég spurði hvort barnið yrði föðurlaust í opinberum skjölum.

Málið endaði þannig að Þjóðskrá þurfti að senda bréf, þar sem kom fram að Ásgeirsson, þótt það sé ekki eiginlegt ættarnafn, virki á sama hátt. Þjóðskrá staðfesti að þau senda svona bréf daglega, því íslendingar um allan heim eru að lenda í þessu.

Málið var leyst. Barnið fæddist og ég fékk að gangast við því. Nafnið var þó ekki samkvæmt íslenskri hefð.

Mats Kilian Ásgeirsson.

Hann tók upp föðurnafnið mitt. Málið er þó ekki alveg búið.

Flugmaðurinn MatsEf við flytjum einhverntíma heim, vill Þjóðskrá að við breytum eftirnafninu í Vilhjálmsson. Við þurfum þess ekki, en þau „myndu meta það“. Ef við breytum nafninu ekki, mun eftirnafn hans barna ráðast af því hvar þau fæðast. Ef hann eignast barn á Íslandi, verður það Matsson eða Matsdóttir, því Ásgeirsson er ekki ættarnafn. Ef hann eignast barn erlendis, mun það heita Ásgeirsson, því það er hans eftirnafn.

Svo er það millinafnið. Kilian er ekki viðurkennt á Íslandi. Kiljan og Kilían eru viðurkennd, en ekki Kilian. Verður það vesen? Þurfum við að fara í mál ef við flytjum heim? Þurfum við að berjast fyrir því að barnið fái að halda nafninu sínu? Ég er ekki viss, og þessi óvissa er rugl. Það er fáránlegt að einhver nefnd á Íslandi geti tekið fram fyrir hendur foreldra og ákveðið að eitthvað nafn, eða stafsetning á nafni, sé þóknanlegt, en annað ekki.

Mér finnst að leggja eigi Mannanafnanefnd niður. Ríkinu kemur ekkert við hvað börnin heita. Einu skiptin sem yfirvöld eiga að skipta sér af nöfnum er ef foreldrar velja virkilega furðuleg nöfn. Ég get ímyndað mér að það sé ekki gaman að vera sex ára og heita Grýla, Leppalúði eða Satan. En það eru þá mannréttindamál og Barnaverndarnefnd getur séð um þau mál.

Þegar fullorðinn og sjálfráða maður, eins og Jón Gnarr, breytir um nafn, kemur það engum við nema honum sjálfum.

Það má búast við að samsetning íslensku þjóðarinnar muni breytast á komandi árum. Áður fyrr þurftu innflytjendur að skipta um nafn. Sonur George Harrison á víst íslenska kærustu. Segjum að hann flytji til Íslands. Áður fyrr hefði hann þurft að breyta nafninu úr Danii Harrison í Daníel Géorgsson, eða eitthvað álíka.

Sem betur fer erum við hætt þeim skrípaleik (og persónuránum). En stríðið er ekki unnið. Ekki fyrr en ríkið hættir að skipta sér að því hvað fólk vill kalla sig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube