Katla

Katla

Við erum svo mikið að flýta okkur. Það er svo mikið að gera. Það er líka svo gott að hafa mikið að gera því þá líður tíminn svo hratt. Eins og við séum endalaust að vonast til að komast á leiðarenda. Við steingleymum að njóta augnabliksins. Við gleymum að vera í sambandi við fólkið sem okkur þykir vænt um. Við erum svo upptekin af því sem litlu máli skiptir.

Katla Margrét Ólafsdóttir, litla systir hennar ömmu. Fædd 7. ágúst 1936. Dáin… Það er svo skrítið að tala um fólk sem hefur alltaf verið til staðar, í þátíð. Við hittumst lítið síðustu árin. Ég auðvitað alltaf í útlandinu. Við fengum þó sem betur fer að kveðjast þegar ég var á landinu í janúar. Það var falleg, en óhugnanleg stund. Við vissum bæði að þetta væri síðasta kveðjustundin. Við héldumst í hendur í heila eilífð því við vissum að þegar við slepptum yrði það í síðasta skipti sem við snertumst.

Kona sem ég þekki ekki var í heimsókn. Spurði hver ég væri. Katla kynnti mig og sagðist oft hafa passað mig þegar ég var krakki. Þrátt fyrir að við höfum lítið sést síðustu árin, sá ég væntumþykjuna þegar hún sagði þetta. Eins og hún væri stolt af því að segja frá því hvernig við værum tengd. Mér fannst ég vera svo lítill í hennar lífi, að ég væri einhver aukapersóna, en það var ljóst að svo var ekki. Við getum átt það til að vanmeta tilfinningarnar sem fólk ber til okkar. Kannski er það bara ég.

Ég man eftir skrifstofu í kjallaranum í Kópavoginum þar sem hún bjó með Ásta. Ég fór alltaf þangað niður, því þar var alltaf fullt af pappírsflugvélum frá Flugbjörgunarsveitunum. Ég setti þær saman og lék mér með þær. Ég man eftir myndavélinni sem Ásti átti. Hún var eins og allar hinar, nema að hún spýtti tilbúnum myndum út. Svo voru þau alltaf á hvítum Bens með skrítnum rúðuþurrkum. Barnið hefur lítið vit á bílum, en þessi var spes. Lærði seinna að þetta var S-týpan frá því um 1965-70, eða þar um bil. Ég á svo margar minningar tengdar Kötlu og Ásta, allar góðar. Ég vildi óska þess að ég gæti kvatt hana í hinsta sinn á næstu dögum, en ég á augnablikið í janúar.

Katla mín, hvíl í friði. Þú varst mér meira en ég nokkurn tíma náði að sýna þér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube