Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Hrefna Ólafsdóttir – Minningarorð

Að gera ömmu skil í stuttri grein er ómögulegt. Á langri ævi tók hún sér svo margt fyrir hendur, að bók myndi rétt ná að klóra í yfirborðið.

Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013
Hrefna Ólafsdóttir í garðinum heima á Bjarnhólastíg í júlí 2013

Hún saumaði flíkur, húfur og búninga, sá um stórt heimili, skrifaði sögur, gaf út bækur, málaði og fleira. Hún var líka fantagóður ljósmyndari. Hún notaði Konica vélina sína og linsusafnið til að taka myndir af fjölskyldunni, gerði listrænar tilraunir á okkur krökkunum, fangaði landslagið og dýrin í sveitinni. Það sem var kannski merkilegast fyrir barnið, var að sjá myndirnar hennar í Mogganum, á forsíðu Lesbókarinnar. Amma var frægur ljósmyndari. Þannig virkaði það allavega í heimi barnsins. En hún varð aldrei frægur ljósmyndari, listamaður eða rithöfundur. Hún var svo hæfileikarík á svo mörgum sviðum að hún festist aldrei í einhverju einu. Þegar hún hafði sannað fyrir sjálfri sér að hún væri nógu góð fyrir Lesbókina, fór hún að gera eitthvað annað.

En allt sem hún gerði, gerði hún vel.

Fyrir nokkru síðan, lét hún mig hafa gömlu myndavélina og töskuna með linsunum. Hún var farin að sjá illa og enginn notaði myndavélar sem notuðu filmur. Safnið hennar var verðlaust, ónýtt. En með nýrri tækni, gat ég sett gömlu linsurnar á nýju myndavélina mína og tekið myndir gegnum glerið sem fangaði okkur krakkana fyrir 40 árum. Amma hafði brennandi áhuga á þessu, skoðaði og var með á nótunum. Eins og alltaf. Því þótt líkaminn væri farinn að eldast, var hugurinn enn í fullkomnu lagi. Hún varð aldrei gömul í anda. Hún varð himinlifandi þegar hún fékk nýja tölvu í afmælisgjöf fyrir þremur árum. Hún setti saman bækur um fjölskylduna. Hún fór líka að setja sögurnar sínar á bók. Hún var í sambandi við fjölskylduna í fjarlægum löndum. Tölvan var notuð til hins ýtrasta.

Þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið, var amma mikið veik. Hún gat varla setið upprétt, gat illa tjáð sig. En hversu veikburða sem manneskjan í rúminu var, skein persónuleikinn í gegn. Amma var ennþá jafn sterk og hún hafði alltaf verið, reisnin var sú sama. Daginn áður en hún fór, sat hún í eldhúsinu og fékk sér kaffi með kringlu. Ég man ekki eftir henni öðruvísi en með kaffi og kringlu og það var ómetanleg gjöf að geta hjálpað henni að njóta síðasta dagsins eins og hægt var, eins og hún helst vildi.

Það er auðvelt að búa til mynd af stórkostlegri manneskju með því að telja upp það sem hún hefur afrekað á ævinni. En það sem mestu máli skiptir eru minningarnar sem hún skilur eftir sig, hvernig hún mótaði afkomendurna og gerði okkur að heilstæðum einstaklingum. Hún tók sér margt fyrir hendur, en hennar meistaraverk var fjölskyldan. Hún ól upp fimm börn og var svo mikið meira en bara móðir. Hún var líka mikið meira en amma fyrir okkur, barnabörnin. Hún var akkerið, kletturinn, grunnurinn. Nú þurfum við að fara að sjá um okkur sjálf. Nýta það sem hún gaf okkur.

Villi, Miriam og Mats

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube