Browsed by
Tag: minningar

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

Prince

Prince

Skrítinn dagur. Byrjaði á að ég fór í heimsókn til kunningja míns því hann vildi endilega sjá Epiphone Les Paul gítarinn sem ég var að kaupa. Ég fékk að taka í gítarana hans. Fender Tele relic, Gilmour Strat, Gibson LP og ES-335. Allt tengt við Fender Twin.

My Babies
My Babies

Fór svo í vinnuna. Er að vinna á flugvelli og var að plana hvernig flugvél yrði hlaðin. Þetta var Airbus A319 og ég sagði við fallegu stelpuna í flugfreyjubúningnum að ég hugsaði alltaf til Prince þegar ég væri að vinna með A319, því hann samdi lagið 319 fyrir löngu síðan.

Stuttu seinna heyrði ég að hann væri dáinn.

Þegar ég keyrði heim, sá ég að það er fullt tungl.

Hér er lag eftir annan snilling, Geaorge Harrison. Prince stelur senunni með sólóinu í lokin.

Hvíl í friði, snillingur.

Það fallegasta sem ég hef séð…

Það fallegasta sem ég hef séð…

Á laugardaginn ráfaði ég inn í bókabúð í Amsterdam. Þetta var morguninn eftir árásirnar í París og heimurinn var aðeins dekkri en yfirleitt. Nema að í bókabúðinni var spiluð frönsk tónlist og það minnti mig á þennan mannlega styrk til að takast á við áföll og stara í glyrnurnar á dauðanum. Gefast ekki upp, heldur gefa honum fokkmerki og halda áfram brosandi.

Og ég fékk hugmynd. Hvernig væri að spyrja fólk einnar spurningar. Leyfa því að hafa svarið eins stutt eða langt og það vill. Setja svörin á bloggið og safna saman í bók.

Hvað er það fallegasta sem þú hefur séð?

Ég ætla að senda spurninguna á fólk, en þér er auðvitað velkomaið að svara hér í athugasemdum.

Sjáum hvað verður. Hvaða svör berast.

Rætur

Rætur

Það getur verið auðvelt að týna rótunum, sérstaklega þegar maður býr erlendis. Raddir forfeðranna eru eins og veikt bergmál á meðan fréttir af stríðsátökum og slæmum efnahag yfirgnæfa allt. Við höfum svo mikið að gera, við erum svo upptekin við að lifa mánuðinn af að allt annað gleymist.

Ég var að leita af skjali í tölvunni. Nú þegar fyrsta skáldsagan mín er svo gott sem tilbúin, vildi ég kíkja á gamla hugmynd sem ég var að leika mér með fyrir nokkrum árum. Ég veit að sú saga er ekki upp á marga fiska, en ef ég man rétt eru einhverjir punktar í henni sem hægt er að vinna úr og gera skemmtilega. Skjalið fann ég ekki. Hef sennilega sett það á einhvern af mínum fimm þúsund flökkurum, en ég rakst á eitthvað annað og enn áhugaverðara.

Afi skrifaði bréf til frænda síns fyrir tíu árum síðan. Þar talar hann um langafa sinn, Markús Jónsson frá Meðallandi. Samkvæmt Sigurbirni biskupi á sá aldrei að hafa blótað, en notaði frekar því litríkara mál. Hér er dæmi um það. Hann hafði farið í heimsókn til dóttur sinnar (langömmu minnar) og tengdasonar. Spurður um aðkomuna, hafði hann þetta að segja:

Konan: “Hvernig lýst þér nú á þennan flutning þeirra þarna úteftir?”
Markús: “Það er nú eins og þú , blessaður auminginn þinn (ath. gæluorð í Meðallandi) værir dregin á hárinu norður fyrir fjöll, já, norður fyrir öll Einhyrningsfjöll og sæir þar aungva kvika skepnu nema nokkra kjóa, og þá alla vælandi.”
Konan: “Já er það svo, varla er það gott. En hvernig eru nú húsin þarna í Neðridal?”
Markús: “Nú, það er nú eins og þú færir hérna austur í mýri og fynndir þar aumustu hundaþúfuna, holaðir hana innan og færir að búa þar, svo kæmi allt hundastóðið í sveitinni og migi á þúfuna og það læki allt inn.”

Bréfið hans afa er langt og hann hálfpartinn biðst afsökunar á því. Mín vegna hefði það þó mátt vera tíu sinnum lengra, því það gefur fólki sem lifir rúmum 100 árum seinna skemmtilega sýn inn í heim íslendinga í lok nítjándu aldar. Án heimilda eins og bréfsins, væri Markús og hans samferðarfólk sennilega mikið til gleymt.

Ég sé oft eftir að hafa ekki hlustað betur á langafa þegar hann sagði sögur af skipum sem strönduðu og mannlífinu í upphafi tuttugustu aldar. Ég hef oft sparkað í sjálfan mig fyrir að hafa ekki eytt meiri tíma með afa á meðan ég hafði tækifæri til. Ég hugsa stundum til nafna míns á Hnausum sem enn er á lífi, og sagnanna sem hann einn þekkir og getur enn sagt. Ég veit að við erum að falla á tíma. Veit að ég ætti að pakka saman og fara heim. Eyða nokkrum vikum með honum og skrá sögur sveitarinnar okkar.

En skyldan kallar. Ég þarf að fara að elda. Vinna snemma í fyrramálið. Á eiginlega að vera að klippa mynd. Ég hef ekki tíma til að bjarga því sem bjargað verður.

Af lífi og dauða…

Af lífi og dauða…

Ekki veit ég hvað varð til þess að ráðherrafrúin gafst upp. Hvers vegna fólk tekur eigið líf. Við höfum sennilega öll íhugað þetta á einhverjum tímapunkti, en hvað fær manneskju til að fara alla leið? Er þetta ekki eigingjarnasta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið? Lífið kann að vera erfitt og þetta getur virkað sem einföld lausn, en hvað um þá sem eftir lifa? Hvað um börnin manns sem fara að velta því fyrir sér, hvað gerði ég eða hvað hefði ég átt að gera? Foreldrar eiga að vera til staðar fyrir börnin sín, en það er erfitt ef þeir eru farnir. Börnin eiga að lifa foreldra sína, því það hlýtur að vera versta tilfinning sem til er að jarða barnið sitt. Dauða fylgir sorg, en sé um sjálfsmorð að ræða, fyldir reiðin með. Og hún fer ekki.

Líf og dauði voru ofarlega í huga mínum þegar ég vaknaði.

Við erum alltaf að flýta okkur. Troða morgunmatnum ofan í krakkann, henda honum út í nóttina því skólinn er að byrja og við að verða of sein í vinnuna. Við gefum svo næstu klukkutímana vinnu okkar. Seljum þá reyndar, misdýru verði. Við eigum það til að selja tíma okkar of ódýrt, því hvað sem við gerum, kemur hann ekki aftur.

Fyrrverandi vinnufélagi minn, Vanuza Ramos Semedo, var falleg stelpa. Ljúf og það var ómögulegt að líka ekki við hana. Rétt tæplega þrítug. Hún fór í barneignarfrí og ég sá hana aldrei aftur. Við heyrðum að hún hefði eignast heilbrigt barn. Hún var svo stolt af dótturinni. Hún hafði átt strák en hana langaði svo í stelpu, og hér var hún komin! Við fylgdumst með á Facebook, sáum myndir af mæðgunum. Lífið gat ekki orðið betra.

Dag einn fékk hún blóðtappa. Eitthvað sem hafði myndast kring um fæðinguna og enginn vissi af. Heilinn fékk ekkert blóð og hún vaknaði aldrei aftur. Tæpri viku síðar var hún farin. Tekin frá nýfæddu dótturinni.

Vanuza var yndisleg og Þeir sem þekktu hana sakna hennar. Tala enn um hana. Við syrgjum hana og segjum stundum að lífið sé óréttlátt. Við minnum okkur á að hver dagur sé sérstakur, að við eigum að nýta hann eins og hann væri sá síðasti. Því það kemur að því að dagurinn í dag er sá síðasti og morgundagurinn kemur ekki. Njótum lífsins, verum góð hvert við annað og gerum það sem við viljum gera. Ekki sóa lífinu í meðalmennsku, pirring og hluti sem skipta ekki máli.

Til hamingju með afmælið og hvíl í friði, mín kæra…

Upphaflega birt á Moggablogginu vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir – 23.1.2012 kl. 12:46
Falleg hugvekja Blessuð sé minning hennar.

Maria Csizmas – 23.1.2012 kl. 09:19
Fallega sagt elsku Villi..

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube