Browsed by
Tag: fótbolti

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

Mjálm

Mjálm

Kæru íslendingar. Það er mér kært að sjá að þið hafið ákveðið að eyða tíma ykkar í að mjálma fram og til baka um meintar nauðganir símaskráarmódela. Það er gaman að sjá að þið hafið tíma til að velta fyrir ykkur hvort…

Ég er viss um að það var rosalega gott pistilsefni í þessu máli, en ég sé það ekki fyrir mér. Puttarnir pikka hægar en hausinn á mér hugsar. Þetta mál er horfið úr huga mínum.

Jæja, þá er bara að velja sér forsetaefni. Allavega myndi ég gera það ef ég mætti kjósa. En ég má það ekki, því ég hef búið erlendis of lengi. Má ekki kjósa heima, má ekki kjósa hér í Niðurlandi. Ég er ekkert.

En nú er þessi pistill, sem átti að vera um flöff og dægurmjálm, að breytast í pólitískt tuð. Það var ekki ætlunin.

Spurning með að…

Nei! Nú er öskrað allt í kringum mig. Ég geri ráð fyrir að Holland hafi skorað. Heimur batnandi fer.

Eða þannig.

Allavega, til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Er ekki að komast skriður á tíbetssyndróminn okkar? Er búið að redda Núpó fjármagni?

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube