SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

Ölgerðin Egill Skallagrímsson, eitt ástsælasta fyrirtæki landsins hefur orðið uppvíst að svindli. Eða ótrúlegu klúðri. Ég get ekki dæmt um það, enda hef ég aldrei unnið fyrir fyrirtækið og veit ekki hvað fer fram þar innandyra.

BBC eða einhver annar erlendur miðill fær nasaþef af málinu og vill vita meira. Hvers vegna þeir höfðu ekki samband við  Matvælastofnun eða Ölgerðina sjálfa, veit ég ekki. Þetta eru slöpp vinnubrögð sem maður hefði búist við af sumum miðlum, en ekki BBC. Kannski voru þeir með símanúmer RÚV eða fréttakonunnar á skrá og ákváðu að afgreiða málið á fimm mínútum. Þeim fannst þetta kannski ekki nógu spennandi til að eyða einhverri orku í málið. Kannski skoluðust staðreyndir til þegar spjallað var við hana, kannski var þessu „road“ orði bætt við eftirá. En það skiptir ekki máli.

saltextract

Ölgerðin hefur orðið uppvís að því að selja iðnaðarsalt til matvælafyrirtækja í 13 ár. Það er ekki eins og þetta hafi verið ein sending sem slapp í gegn af því fólk var ekki að taka eftir því sem stóð á umbúðunum. 13 ár eru langur tími, og þetta hlýtur því að hafa verið ákvörðun sem tekin var vísvitandi. Hvort þetta salt var ætlað á götur eða ekki, er það alveg á hreinu að það var ekki ætlað í matvæli. Það er málið og allt annað er útúrdúr.

Svo spyrja þeir hvort íslendingar séu sáttir við að víðlesinn fjölmiðill segi þá hafa borðað götusalt. Ég spyr á móti, heldur Ölgerðin að íslendingar séu sáttir við að þeir séu látnir éta iðnaðarvörur? Telja þeir virkilega að það bæti ímynd sína að siga lögmönnum á fólk út í bæ sem tjáir sig um málið? Ég held að það besta sem Ölgerðin geti gert sé að hringja í þennan víðlesna fjölmiðil og biðja hann að leiðrétta fréttina, sé hún röng. Svo geta þeir beðið þjóðina afsökunar og boðist til að fjármagna rannsókn á hugsanlegum langtímaáhrifum iðnaðarsalts á mannslíkamann.

Ölgerðin var eitt ástsælasta fyrirtæki landsins. Malt og Appelsín er þjóðardrykkur. Gullið hefur unnið til verðlauna víða um heim, ef marka má umbúðirnar. Ímynd getur horfið á augabragði, eins og við höfum verið harkalega minnt á síðustu misserin.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube