Browsed by
Tag: fjölmiðlar

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Fyrir um viku skrifaði ég pistil í Kvennablaðið. Ég furðaði mig á að sjóðurinn hefði selt 153 íbúðir í ekkert rosalega opnu ferli. Eftir birtingu pistilsins, barst mér póstur frá starfsmanni sjóðsins. Ég var beðinn um að leiðrétta rangfærslu í pistlinum. Það var ekki alveg á hreinu hvar ég var að fara með rangt mál, svo ég svaraði póstinum og bað um frekari upplýsingar.

Hús í bænum (VGA 2015)
Hús í bænum (VGA 2015)

Svar hefur ekki borist, en ég hafði engar áhyggjur, þar sem ekkert liggur á. Nú sé ég að ÍLS hefur selt leigufélagið Klett og 450 íbúðir. Í einum pakka.

Það er kannski hægt að túlka það þannig að þetta hafi farið á opnum markaði, þar sem allir sem hafa efni á 450 íbúðum í einum bita gátu boðið í félagið, en þettta getur ekki átt að virka svona. Það getur ekki verið að sjóður sem er í eigu ríkisins, í okkar eigu, gefi okkur ekki tækifæri til að kaupa íbúðirnar sem voru (sennilega flestar) teknar upp í stökkbreyttar skuldir eftir hrun.

450 eignir. Og ég var að kvarta yfir 153 íbúðum.

Eins og ég sagði að ofan, hef ég ekki enn fengið svar frá ÍLS. Þau skulda mér svo sem ekkert, en það væri gott að vita hver rangfærslan var í pistlinum fyrir viku. Í ljósi þess að ÍLS virðist vera á fullu að losa sig við eignir til fjársterkra aðila, finnst mér það skipta máli fyrir almenning hvað mér og sjóðnum fór á milli. Hér fyrir neðan er hægt að lesa athugasemdina sem ég fékk í tölvupósti og minn svarpóst. Ég hef fjarlægt nafn starfsmanns sjóðsins.

19. maí 2016 í pósti til Steinunar Ólínu, ritstjóra Kvennablaðsins:

Í blaðinu ykkar í fyrradag birtist greint/frétt fá Vilhjálmi þar sem m.a. var vikið að sölu fasteigna hér hjá Íbúðalánasjóði. Í greininni eru atriði sem ég tel rétt að koma á framfæri athugasemdum við.
Ég hef ekki netfang hans eða aðrar tenglaupplýsingar og mér þætti vænt um ef þú kæmir þessu til hans. Ég óska eftir því við Vilhjálm að hann leiðrétti það sem ekki er rétt með farið í blaðinu ykkar og mér þætti vænt um ef þú sem ritstjóri myndir fylgja því eftir og að til skila komist þessar ábendingar mínar.
Það sem er aðalatriðið er að Íbúðalánasjóður leggur mjög ríka áherslu á að eignir sjóðsins séu seldar í opnum ferlum þannig að allir sem hafa áhuga á kaupum hafi kost á að kaupa þessar eignir. Á síðustu árum hefur sjóðurinn selt eignir fyrir um 50 m.a.kr, (50 þúsund milljónir króna). Við teljum að þetta markmið okkar að selja í opnum söluferlum hafi tekist nokkuð vel og vinnum með Félagi Fasteignasala á þann hátt að allar fasteignasölur í landinu geta unnið fyrir sjóðinn.

Hér er minn svarpóstur, sendur sama dag:

Sæl(l) xxx,

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið með rangt mál. Það er sjálfsagt að leiðrétta pistilinn ef ég hef sagt eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það sem ég skrifaði var byggt á frétt MBL (hlekkur í pistli) og upplifun á fréttum undanfarin ár. Auðvitað er það möguleiki að mín tilfinning sé ekki það sem virkilega gerðist.

Til að ég skilji hvar ég fór með rangt mál, langar mig að spyrja örfárra spurninga. Upplifun okkar á fréttum er ekki alltaf í takt við raunveruleikann, og því væri gott að geta skrifað grein sem byggð er á staðreyndum frá ykkur.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Afsakið allar spurningarnar. Það eru sennilega margar ranghugmyndir um ÍLS í þjóðfélaginu og það væri gott að geta skrifað grein sem bygð er á upplýsingum frá ykkur.

Bestu kveðjur,
Vilhjálmur Ásgeirsson

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

Ölgerðin Egill Skallagrímsson, eitt ástsælasta fyrirtæki landsins hefur orðið uppvíst að svindli. Eða ótrúlegu klúðri. Ég get ekki dæmt um það, enda hef ég aldrei unnið fyrir fyrirtækið og veit ekki hvað fer fram þar innandyra.

BBC eða einhver annar erlendur miðill fær nasaþef af málinu og vill vita meira. Hvers vegna þeir höfðu ekki samband við  Matvælastofnun eða Ölgerðina sjálfa, veit ég ekki. Þetta eru slöpp vinnubrögð sem maður hefði búist við af sumum miðlum, en ekki BBC. Kannski voru þeir með símanúmer RÚV eða fréttakonunnar á skrá og ákváðu að afgreiða málið á fimm mínútum. Þeim fannst þetta kannski ekki nógu spennandi til að eyða einhverri orku í málið. Kannski skoluðust staðreyndir til þegar spjallað var við hana, kannski var þessu „road“ orði bætt við eftirá. En það skiptir ekki máli.

saltextract

Ölgerðin hefur orðið uppvís að því að selja iðnaðarsalt til matvælafyrirtækja í 13 ár. Það er ekki eins og þetta hafi verið ein sending sem slapp í gegn af því fólk var ekki að taka eftir því sem stóð á umbúðunum. 13 ár eru langur tími, og þetta hlýtur því að hafa verið ákvörðun sem tekin var vísvitandi. Hvort þetta salt var ætlað á götur eða ekki, er það alveg á hreinu að það var ekki ætlað í matvæli. Það er málið og allt annað er útúrdúr.

Svo spyrja þeir hvort íslendingar séu sáttir við að víðlesinn fjölmiðill segi þá hafa borðað götusalt. Ég spyr á móti, heldur Ölgerðin að íslendingar séu sáttir við að þeir séu látnir éta iðnaðarvörur? Telja þeir virkilega að það bæti ímynd sína að siga lögmönnum á fólk út í bæ sem tjáir sig um málið? Ég held að það besta sem Ölgerðin geti gert sé að hringja í þennan víðlesna fjölmiðil og biðja hann að leiðrétta fréttina, sé hún röng. Svo geta þeir beðið þjóðina afsökunar og boðist til að fjármagna rannsókn á hugsanlegum langtímaáhrifum iðnaðarsalts á mannslíkamann.

Ölgerðin var eitt ástsælasta fyrirtæki landsins. Malt og Appelsín er þjóðardrykkur. Gullið hefur unnið til verðlauna víða um heim, ef marka má umbúðirnar. Ímynd getur horfið á augabragði, eins og við höfum verið harkalega minnt á síðustu misserin.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube