Fokkmerki

Fokkmerki

Mikið hefur farið fyrir mynd af Birgittu Jónsdóttur þar sem hún stingur löngutöng út í loftið. Þetta er hið svokallaða fokkmerki. Myndin fer fyrir brjóstið á fólki. Sagt er að svona sé ekki hæfandi þingmanni, að fólk sem gerir svona sé ekki hæft í þingstörf.

JohnnyCashMér skilst að Hannes Hólmsteinn hafi fyrstur dreift myndinni. Í annarlegum tilgangi, eins og hans er vísa. Hann gerði það í óþökk ljósmyndarans, Geirax, í óþökk fólksins sem sat fyrir. Hann stal myndinni og nýtti sér hana til að koma höggi á Pírata. Myndin er nú um allt á netinu, í upphaflegri útgáfu, en líka þar sem nafn Geira er klippt út og Birgitta látin vera ein. Myndin og viðfangsefnið er klippt úr samhengi til að koma ódýru höggi á flokk sem er ógn við óbreytt ástand.

En hvað er verra? Að gefa fokkmerki í gríni á mynd sem er ekki ætluð í dreifingu, eða að svíkja milljarða úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar og ljúga um það?

Við eigum val. Þegar Bjarni Ben og co ákveða að leyfa okkur að kjósa, eða þegar þeir hrökklast frá, munu kjósendur fá tækifæri til að velja hvernig fólk þeir vilja á Alþingi. Ég veit hvað ég vil. Mér er skítsama um fokkmerki, tala ekki um þegar þeim er beint að ráðandi öflum sem fara rænandi um samfélagið og stinga okkar sameiginlegu fjármunum í vasann. Mér er ekki sama um þingmenn sem misnota aðstöðu sína til að selja fjölskyldumeðlimum ríkisfyrirtæki á spottprís í lokuðum útboðum. Mér er ekki sama um þingmenn sem færa milljónir (eða milljaðra) í skattaskjól á meðan almenningur má ekki eiga örfáar evrur vegna gjaldeyrishafta. Mér er ekki sama um þingmenn sem svelta heilbrigðiskerfið svo hægt sé að búa til afsökun til að einkavæða það. Mér er ekki sama um svikin loforð.

Ísland er ekki fátækt land. Við eigum nóg af peningum. Hér gæti allt verið í fína lagi ef við værum ekki með blóðsjúgandi afætur í ríkisstjórn.

Dæmi um fokkmerki
Dæmi um fokkmerki

Fokkmerki skipta ekki máli. Við erum ekki yfirstéttarbretar á Viktóríutímanum þar sem klósett á hótelum eru merkt 100 því það er svo dónalegt að nefna þann vanhelga stað. Við erum kúguð þjóð og það væri fáránlegt að láta ólöglega og ósamþykkta birtingu myndar sem tekin var í gríni eyðileggja möguleika okkar á umbótum.

Helvítis fokkíng fokk er komið aftur. Gefum núverandi ríkisstjórn eitt stórt fokkmerki og gerum eitthvað í málunum. Byggjum samfélag þar sem við getum öll lifað sómasamlegu lífi. Það er nefninlega ekkert erfitt. Við þurfum bara að vera heiðarleg við hvort annað og okkur sjálf og aldrei aftur líða spillinguna og sukkið sem hefur gegnsýrt íslenskt samfélag í 100 ár.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube