Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Síðasta vika hefur verið viðburðarík. Þrír ráðherrar hafa verið staðnir að því að hafa átt fyrirtæki í skattaskjólum. Forsætisráðherra sagði af sér eftir misheppnaða tæklun og „ný“ stjórn tók við. Nema að þessi stjórn er ekki ný. Þetta er sama fólkið. Það hangir á völdum eins og hundur á roði.

Það þarf nefninlega að ljúka mikilvægum verkefnum. Einkavæðing Landsnets er kannski fyrsta stóra verkefnið sem þarf að klára. Miðað við það sem á undan er gengið, efast ég ekki um að nýir eigendur verði vel valdir.

Þjóðin vill ekki þessa stjórn. Hún treystir henni ekki og vill kosningar. Stjórnarandstaðan bar fram vantrauststillögu, en þar sem ríkisstjórnin er í meirihluta, var tillagan felld.

Hljómar furðulega, en það er stjórnarinnar að dæma um hvort henni sé treystandi.

Það er víst engin önnur leið nema að bera fram vantraust og vona að sitjandi ríkisstjórn treysti sjálfri sér ekki.

Jú, fólk getur staðið úti á grasi í öllum veðrum, barið á tunnur, veifað bönunum og öskrað, en það er stjórnarliða sjálfra hvort þeir láti það hafa áhrif á sig.

Núvernandi stjórnarskrá minnist ekki einu orði á vantraust. Hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að reka ríkisstjórn. Sú nýja, sem samin var 2011, samþykkt af þjóðinni 2012 og drepin af þingmönnum 2013, minnist á vantraust. Sérstaklega í 91. grein.

91. gr. Vantraust

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Stjórnarskrá afhent
Stjórnarskrá afhent

Hér er það aftur ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort henni sé treystandi.  Það er því ómögulegt að reka ríkisstjórn, og það mun ekki breytast nema það verði sérstaklega gefið tækifæri til þess í nýrri stjórnarskrá.

Við verðum að koma í veg fyrir farsa og hálfgert valdarán eins og við urðum vitni að nú í vikunni. Þetta má ekki gerast aftur. Ef þjóðin vill stjórnina burt, á hún að geta rekið stjórnina. 66. grein nýrrar stjórnarskrár hljómar svona.

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Svipaða grein mætti skrifa, þar sem þjóðinni er gefið tækifæri til að kalla til kosninga. Þetta má ekki verða tæki stjórnarandstöðunnar til að fella stjórnir trekk í trekk, svo það yrðu að vera varnaglar á. Til dæmis mætti setja lágmark undirskrifta við þriðjung kjósenda. Það er erfitt að safna svo mörgum undirskriftum og myndi sennilega ekki takast nema gríðarleg óánægja væri í samfélaginu. Eins og nú.

Ég er ekki lögfræðingur. Kannski er ég að missa af einhverju ákvæði, en ef svo er ekki, þá þarf að koma þessu inn í stjórnarskrána. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til að reka ríkisstjórn sem er fullkomlega rúin trausti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube