Hugleiðingar um Stríð

Hugleiðingar um Stríð

Ég er að lesa bókina Savage Continent eftir Keith Lowe. Þar útskýrir hann hvernig Evrópa var eftir seinni heimsstyrjöldina. Hefði ekki átt að byrja á þessu, því of mikil þekking á atburðum þýðir að maður sér í gegn um mistur tímans. Maður kemst nær atburðunum. Það er ekki alltaf gott fyrir geðheilsuna.

SavageContinentMér hefur lengi fundist mannkynssagan vera einhverskonar teiknimyndasaga. Einfölduð útgáfa á því sem virkilega gerðist. Rómaveldi var soldið svona Ástríks dæmi. Rómverjarnir voru auðvitað sterkastir. Það voru engir gaulverjar sem lömdu þá í hakk, en þetta var stórveldi sem fann upp helling af hlutum sem við notum enn þann dag í dag. Jú, Jésú var krossfestur af rómverjum, svo þeir voru soldið brútal, en samt. Þetta var allt í lagi, þannig lagað. Fjarlægðin hefur gert rómverjana meinlausa.

En þeir helltu líka olíu yfir svín og sendu þau, öskrandi af sársauka, yfir til fjandmannanna. Það er ekki næs, en þetta var fyrir svo löngu síðan. Kemur okkur ekki við.

Nútímastríð eru löng og illskiljanleg og virðast aldrei enda almennilega. Seinni heimsstyrjöldin var þó röð atburða sem við getum skilið. Hitler var skítseyði sem réðist á alla. Góðu bretarnir og bandaríkjamenn náðu að vinna stríðið. Góðu kallarnir unnu. Happy ending.

Þetta var bara ekki svona einfalt. Hitler komst tl valda því bretar og frakkar höfðu tekið risalán til að halda úti stríðsrekstrinum 1914-1918. Og það stríð var ekki heldur þjóðverjum að kenna. En það er önnur saga. Bandaríkin vildu byrja upp á nýtt eftir fyrri heimsstyrjöldina, byrja á núlli. En einhver þurfti að borga. Bretar og frakkar höfðu tekið gríðarleg lán til að fjármagna stríðsreksturinn og einhver þurfti að borga. Þjóðverjar töpuðu, og því var sjálfsagt að senda þeim reikninginn. Afleiðingarnar voru óðaverðbólga og ónýtt samfélag í Þýskalandi.

Þess vegna komst Hitler til valda. Hann sagði þýsku þjóðinni að nú væri komið nóg. Peningunum væri betur varið í þjóðvegi og uppbyggingu Þýskalands. Hann vann kosningarnar, sem skiljanlegt er. Án nauðarsamninganna í Versölum 1919, hefðu þjóðverjar ekki litið við furðufuglinum með Chaplin skeggið.

In The RuinsHitler stóð við kosningaloforðin. Hann má eiga það. Autobahnarnir voru lagðir, verksmiðjur byggðar, allir fengu vinnu og lífið var fínt. Nema ef þú varst gyðingur, hommi eða sígauni. Þá varstu handtekinn og þú jafnvel drepinn. En það var ekkert ljóst í upphafi. Þegar þýska þjóðin komst að því hvað var að gerast, var það of seint.

Hitler réðist inn í Pólland, og svo restina af Evrópu. Seinni heimsstyrjöldin var mesti hildarleikur sem mannkynið hefur orðið vitni að. Tugir milljóna voru drepnir, enn fleiri misstu heimili sín, þúsund ára menningu Evrópu var eytt og heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu.

Sem betur fer tókst bandamönnum að stoppa þessa geðveiki.

Eða hvað?

Málið er að bandamenn voru ekkert betri. Þeir sprengdu heilu borgirnar í loft upp. Flestar þýsku borgirnar máttu þola gengdarlausar loftárásir, löngu eftir að ljóst var orðið að stríðið var unnið. Veturinn 1944-5 var öllum ljóst að það var tímaspursmál hvenær þjóðverjar myndu gefast upp. Samt voru gerðar loftárásir á Dresden, sem hafði ekkert hernaðarlegt gildi, en var full af flóttafólki. Þennan vetur voru þýskar borgir lagðar í rúst í hefndarskini.

Bandaríkin trompuðu svo allt með því að varpa kjarnorkusprengjum á tvær japanskar borgir. Sagnfræðingar hafa komist það þeirri niðurstöðu að árásirnar hafi ekki haft nein áhrif, heldur hafi japanir gefist upp eftir að rússar lögðu undir sig Manchuriu í Kína og voru að undirbúa árás á Japan. Allar stærstu borgir Japans höfðu verið lagðar í rúst. Eyðilegging skipti þá ekki máli. Það var landhernaður rússa sem þeir hræddust, ekki loftárásir Bandaríkjanna. Hernám rússa myndi hugsanlega þýða aftöku keisarans, og það mátti alls ekki gerast.

Rússar voru ekkert betri en bandamenn. Stalin á að hafa tafið hernám Varsjár til að gefa þjóðverjum tíma til að eyða henni og hann gaf sovéskum hermönnum frjálsar hendur þegar kom að þýskum konum. Nauðganir voru umbun fyrir vel unnin störf.

Eftir stríð, er okkur sagt, brutust út mikil fagðarlæti um allan heim og uppbyggingin hófst. Stríðinu lauk 8. maí í Evrópu og um miðjan ágúst í Asíu. Og þá skall á friður og allt var í fína lagi.

En svona einfalt var það ekki. Mestu fólksflutningar allra tíma áttu sér stað mánuðina eftir stríð. Ekki af því fólk vildi búa annars staðar, heldur var það yfirleitt vegna þess að fólk var ofsótt. Þjóðverjar voru strádrepnir í hefndarskyni hvar sem í þá náðist. Konum var nauðgað í milljónatali, karlmenn barðir til bana, börn pyntuð og drepin. Sögur eru til af sex ára krökkum í fangabúðum í Prag. Þau voru lamin, pyntuð og myrt, því þau voru þýskumælandi. Fólk var látið grafa fjöldagrafir fyrir sjálft sig og svo drepið á grafarbakkanum. Fólk sem átti eitthvað vantalað við nágrannana drápu þá án þess að nokkuð væri gert í því. Í einhverjum löndum var fólki leyft að ráðast á, drepa og pynta annað fólk fram á haustið 1945, eða lengur. Ef þú drapst mann rétt eftir stríð, gastu verið viss um að komast upp með það, því hann hafði sennilega gert þér eitthvað í stríðinu. Sumt fólk var réttdræpt þótt stríðið væri búið.

Milljónir barna voru munaðarlaus. Þau grófu kartöflur og rætur upp úr jörðinni til að lifa af, borðuðu epli af trjám, stálu sér til matar eða seldu líkama sinn. Börn leiddust út í vændi til að lifa af, því foreldrarnir voru dauðir eða horfnir.

Þannig var Evrópa eftir stríð. Morð, hungusneyð, barnavændi. Sagan er ekki eins hrein og fín og við höldum.

Það er þægilegt að leyfa sér að skoða söguna sem röð atburða sem koma okkur ekki við. Þetta er liðin tíð, búið. Við erum ekkert að fara að ganga í gegn um svona tíma núna. Við myndum ekki kjósa Hitler. Við myndum ekki brenna nornir á báli. Við myndum ekki notfæra okkur níu ára krakka sem lætur allt yfir sig ganga fyrir brauðmola eða epli.

Syrian girl, not quite 3 years old.
Syrian girl, not quite 3 years old.

Málið er að við höfum ekkert lært. Það er enn verið að drepa krakka í mið-austurlöndum. Við erum enn að halda með könum eða rússum í Úkraínu eins og þetta sé einhver fótbolti. Við erum að verja Ísrael eða Hamas því okkur finnst þeir vera betri gæjarnir. Við leggjum enn blessun okkar yfir stríð ef við höldum að við séum að styðja við góðu gæjana. Ísland hefur formlega stutt tvö stríð á undanförnum árum. Okkar hendur eru blóði drifnar, þótt við höfum ekki sjálf tekið í gikkinn.

Málið er að það eru engir góðir gæjar í stríði. Öll stríð eru slæm. Það er viðbjóður að setja af stað skipulögð morð, þar sem börn eru pyntuð og myrt. Hugsaðu þér. Ef þú átt barn. Kannski sex ára, níu ára. Hugsaðu þér að þú sért dauð eða dauður, að barnið þurfi að sjá fyrir sér í heimi sem er skítsama um krakkann. Að barninu sé hent í fangabúðir því það tala rangt tungumál. Eða er ekki með réttan húðlit. Svo er það lamið, því nauðgað eða það drepið.

Þetta gerðist 1945, þetta er að gerast í dag. Þetta hefur verið að gerast í þúsundir ára og það er ekkert að breytast.

Stríð eru ógeðsleg og eiga aldrei rétt á sér. Aldrei.

Hættum á láta eins og þau séu fótboltaleikir. Eins og það séu einhverjir góðir kallar. Það virkar ekki þannig.

Hver sá sem styður stríð, styður morð. Svo einfalt er það.

One thought on “Hugleiðingar um Stríð

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube