Browsed by
Month: apríl 2016

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Síðasta vika hefur verið viðburðarík. Þrír ráðherrar hafa verið staðnir að því að hafa átt fyrirtæki í skattaskjólum. Forsætisráðherra sagði af sér eftir misheppnaða tæklun og „ný“ stjórn tók við. Nema að þessi stjórn er ekki ný. Þetta er sama fólkið. Það hangir á völdum eins og hundur á roði.

Það þarf nefninlega að ljúka mikilvægum verkefnum. Einkavæðing Landsnets er kannski fyrsta stóra verkefnið sem þarf að klára. Miðað við það sem á undan er gengið, efast ég ekki um að nýir eigendur verði vel valdir.

Þjóðin vill ekki þessa stjórn. Hún treystir henni ekki og vill kosningar. Stjórnarandstaðan bar fram vantrauststillögu, en þar sem ríkisstjórnin er í meirihluta, var tillagan felld.

Hljómar furðulega, en það er stjórnarinnar að dæma um hvort henni sé treystandi.

Það er víst engin önnur leið nema að bera fram vantraust og vona að sitjandi ríkisstjórn treysti sjálfri sér ekki.

Jú, fólk getur staðið úti á grasi í öllum veðrum, barið á tunnur, veifað bönunum og öskrað, en það er stjórnarliða sjálfra hvort þeir láti það hafa áhrif á sig.

Núvernandi stjórnarskrá minnist ekki einu orði á vantraust. Hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að reka ríkisstjórn. Sú nýja, sem samin var 2011, samþykkt af þjóðinni 2012 og drepin af þingmönnum 2013, minnist á vantraust. Sérstaklega í 91. grein.

91. gr. Vantraust

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Stjórnarskrá afhent
Stjórnarskrá afhent

Hér er það aftur ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort henni sé treystandi.  Það er því ómögulegt að reka ríkisstjórn, og það mun ekki breytast nema það verði sérstaklega gefið tækifæri til þess í nýrri stjórnarskrá.

Við verðum að koma í veg fyrir farsa og hálfgert valdarán eins og við urðum vitni að nú í vikunni. Þetta má ekki gerast aftur. Ef þjóðin vill stjórnina burt, á hún að geta rekið stjórnina. 66. grein nýrrar stjórnarskrár hljómar svona.

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Svipaða grein mætti skrifa, þar sem þjóðinni er gefið tækifæri til að kalla til kosninga. Þetta má ekki verða tæki stjórnarandstöðunnar til að fella stjórnir trekk í trekk, svo það yrðu að vera varnaglar á. Til dæmis mætti setja lágmark undirskrifta við þriðjung kjósenda. Það er erfitt að safna svo mörgum undirskriftum og myndi sennilega ekki takast nema gríðarleg óánægja væri í samfélaginu. Eins og nú.

Ég er ekki lögfræðingur. Kannski er ég að missa af einhverju ákvæði, en ef svo er ekki, þá þarf að koma þessu inn í stjórnarskrána. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til að reka ríkisstjórn sem er fullkomlega rúin trausti.

Fokkmerki

Fokkmerki

Mikið hefur farið fyrir mynd af Birgittu Jónsdóttur þar sem hún stingur löngutöng út í loftið. Þetta er hið svokallaða fokkmerki. Myndin fer fyrir brjóstið á fólki. Sagt er að svona sé ekki hæfandi þingmanni, að fólk sem gerir svona sé ekki hæft í þingstörf.

JohnnyCashMér skilst að Hannes Hólmsteinn hafi fyrstur dreift myndinni. Í annarlegum tilgangi, eins og hans er vísa. Hann gerði það í óþökk ljósmyndarans, Geirax, í óþökk fólksins sem sat fyrir. Hann stal myndinni og nýtti sér hana til að koma höggi á Pírata. Myndin er nú um allt á netinu, í upphaflegri útgáfu, en líka þar sem nafn Geira er klippt út og Birgitta látin vera ein. Myndin og viðfangsefnið er klippt úr samhengi til að koma ódýru höggi á flokk sem er ógn við óbreytt ástand.

En hvað er verra? Að gefa fokkmerki í gríni á mynd sem er ekki ætluð í dreifingu, eða að svíkja milljarða úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar og ljúga um það?

Við eigum val. Þegar Bjarni Ben og co ákveða að leyfa okkur að kjósa, eða þegar þeir hrökklast frá, munu kjósendur fá tækifæri til að velja hvernig fólk þeir vilja á Alþingi. Ég veit hvað ég vil. Mér er skítsama um fokkmerki, tala ekki um þegar þeim er beint að ráðandi öflum sem fara rænandi um samfélagið og stinga okkar sameiginlegu fjármunum í vasann. Mér er ekki sama um þingmenn sem misnota aðstöðu sína til að selja fjölskyldumeðlimum ríkisfyrirtæki á spottprís í lokuðum útboðum. Mér er ekki sama um þingmenn sem færa milljónir (eða milljaðra) í skattaskjól á meðan almenningur má ekki eiga örfáar evrur vegna gjaldeyrishafta. Mér er ekki sama um þingmenn sem svelta heilbrigðiskerfið svo hægt sé að búa til afsökun til að einkavæða það. Mér er ekki sama um svikin loforð.

Ísland er ekki fátækt land. Við eigum nóg af peningum. Hér gæti allt verið í fína lagi ef við værum ekki með blóðsjúgandi afætur í ríkisstjórn.

Dæmi um fokkmerki
Dæmi um fokkmerki

Fokkmerki skipta ekki máli. Við erum ekki yfirstéttarbretar á Viktóríutímanum þar sem klósett á hótelum eru merkt 100 því það er svo dónalegt að nefna þann vanhelga stað. Við erum kúguð þjóð og það væri fáránlegt að láta ólöglega og ósamþykkta birtingu myndar sem tekin var í gríni eyðileggja möguleika okkar á umbótum.

Helvítis fokkíng fokk er komið aftur. Gefum núverandi ríkisstjórn eitt stórt fokkmerki og gerum eitthvað í málunum. Byggjum samfélag þar sem við getum öll lifað sómasamlegu lífi. Það er nefninlega ekkert erfitt. Við þurfum bara að vera heiðarleg við hvort annað og okkur sjálf og aldrei aftur líða spillinguna og sukkið sem hefur gegnsýrt íslenskt samfélag í 100 ár.

Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube