Browsed by
Author: vgais

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Síðasta vika hefur verið viðburðarík. Þrír ráðherrar hafa verið staðnir að því að hafa átt fyrirtæki í skattaskjólum. Forsætisráðherra sagði af sér eftir misheppnaða tæklun og „ný“ stjórn tók við. Nema að þessi stjórn er ekki ný. Þetta er sama fólkið. Það hangir á völdum eins og hundur á roði.

Það þarf nefninlega að ljúka mikilvægum verkefnum. Einkavæðing Landsnets er kannski fyrsta stóra verkefnið sem þarf að klára. Miðað við það sem á undan er gengið, efast ég ekki um að nýir eigendur verði vel valdir.

Þjóðin vill ekki þessa stjórn. Hún treystir henni ekki og vill kosningar. Stjórnarandstaðan bar fram vantrauststillögu, en þar sem ríkisstjórnin er í meirihluta, var tillagan felld.

Hljómar furðulega, en það er stjórnarinnar að dæma um hvort henni sé treystandi.

Það er víst engin önnur leið nema að bera fram vantraust og vona að sitjandi ríkisstjórn treysti sjálfri sér ekki.

Jú, fólk getur staðið úti á grasi í öllum veðrum, barið á tunnur, veifað bönunum og öskrað, en það er stjórnarliða sjálfra hvort þeir láti það hafa áhrif á sig.

Núvernandi stjórnarskrá minnist ekki einu orði á vantraust. Hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að reka ríkisstjórn. Sú nýja, sem samin var 2011, samþykkt af þjóðinni 2012 og drepin af þingmönnum 2013, minnist á vantraust. Sérstaklega í 91. grein.

91. gr. Vantraust

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Stjórnarskrá afhent
Stjórnarskrá afhent

Hér er það aftur ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort henni sé treystandi.  Það er því ómögulegt að reka ríkisstjórn, og það mun ekki breytast nema það verði sérstaklega gefið tækifæri til þess í nýrri stjórnarskrá.

Við verðum að koma í veg fyrir farsa og hálfgert valdarán eins og við urðum vitni að nú í vikunni. Þetta má ekki gerast aftur. Ef þjóðin vill stjórnina burt, á hún að geta rekið stjórnina. 66. grein nýrrar stjórnarskrár hljómar svona.

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Svipaða grein mætti skrifa, þar sem þjóðinni er gefið tækifæri til að kalla til kosninga. Þetta má ekki verða tæki stjórnarandstöðunnar til að fella stjórnir trekk í trekk, svo það yrðu að vera varnaglar á. Til dæmis mætti setja lágmark undirskrifta við þriðjung kjósenda. Það er erfitt að safna svo mörgum undirskriftum og myndi sennilega ekki takast nema gríðarleg óánægja væri í samfélaginu. Eins og nú.

Ég er ekki lögfræðingur. Kannski er ég að missa af einhverju ákvæði, en ef svo er ekki, þá þarf að koma þessu inn í stjórnarskrána. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til að reka ríkisstjórn sem er fullkomlega rúin trausti.

Fokkmerki

Fokkmerki

Mikið hefur farið fyrir mynd af Birgittu Jónsdóttur þar sem hún stingur löngutöng út í loftið. Þetta er hið svokallaða fokkmerki. Myndin fer fyrir brjóstið á fólki. Sagt er að svona sé ekki hæfandi þingmanni, að fólk sem gerir svona sé ekki hæft í þingstörf.

JohnnyCashMér skilst að Hannes Hólmsteinn hafi fyrstur dreift myndinni. Í annarlegum tilgangi, eins og hans er vísa. Hann gerði það í óþökk ljósmyndarans, Geirax, í óþökk fólksins sem sat fyrir. Hann stal myndinni og nýtti sér hana til að koma höggi á Pírata. Myndin er nú um allt á netinu, í upphaflegri útgáfu, en líka þar sem nafn Geira er klippt út og Birgitta látin vera ein. Myndin og viðfangsefnið er klippt úr samhengi til að koma ódýru höggi á flokk sem er ógn við óbreytt ástand.

En hvað er verra? Að gefa fokkmerki í gríni á mynd sem er ekki ætluð í dreifingu, eða að svíkja milljarða úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar og ljúga um það?

Við eigum val. Þegar Bjarni Ben og co ákveða að leyfa okkur að kjósa, eða þegar þeir hrökklast frá, munu kjósendur fá tækifæri til að velja hvernig fólk þeir vilja á Alþingi. Ég veit hvað ég vil. Mér er skítsama um fokkmerki, tala ekki um þegar þeim er beint að ráðandi öflum sem fara rænandi um samfélagið og stinga okkar sameiginlegu fjármunum í vasann. Mér er ekki sama um þingmenn sem misnota aðstöðu sína til að selja fjölskyldumeðlimum ríkisfyrirtæki á spottprís í lokuðum útboðum. Mér er ekki sama um þingmenn sem færa milljónir (eða milljaðra) í skattaskjól á meðan almenningur má ekki eiga örfáar evrur vegna gjaldeyrishafta. Mér er ekki sama um þingmenn sem svelta heilbrigðiskerfið svo hægt sé að búa til afsökun til að einkavæða það. Mér er ekki sama um svikin loforð.

Ísland er ekki fátækt land. Við eigum nóg af peningum. Hér gæti allt verið í fína lagi ef við værum ekki með blóðsjúgandi afætur í ríkisstjórn.

Dæmi um fokkmerki
Dæmi um fokkmerki

Fokkmerki skipta ekki máli. Við erum ekki yfirstéttarbretar á Viktóríutímanum þar sem klósett á hótelum eru merkt 100 því það er svo dónalegt að nefna þann vanhelga stað. Við erum kúguð þjóð og það væri fáránlegt að láta ólöglega og ósamþykkta birtingu myndar sem tekin var í gríni eyðileggja möguleika okkar á umbótum.

Helvítis fokkíng fokk er komið aftur. Gefum núverandi ríkisstjórn eitt stórt fokkmerki og gerum eitthvað í málunum. Byggjum samfélag þar sem við getum öll lifað sómasamlegu lífi. Það er nefninlega ekkert erfitt. Við þurfum bara að vera heiðarleg við hvort annað og okkur sjálf og aldrei aftur líða spillinguna og sukkið sem hefur gegnsýrt íslenskt samfélag í 100 ár.

Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

Það fallegasta sem ég hef séð…

Það fallegasta sem ég hef séð…

Á laugardaginn ráfaði ég inn í bókabúð í Amsterdam. Þetta var morguninn eftir árásirnar í París og heimurinn var aðeins dekkri en yfirleitt. Nema að í bókabúðinni var spiluð frönsk tónlist og það minnti mig á þennan mannlega styrk til að takast á við áföll og stara í glyrnurnar á dauðanum. Gefast ekki upp, heldur gefa honum fokkmerki og halda áfram brosandi.

Og ég fékk hugmynd. Hvernig væri að spyrja fólk einnar spurningar. Leyfa því að hafa svarið eins stutt eða langt og það vill. Setja svörin á bloggið og safna saman í bók.

Hvað er það fallegasta sem þú hefur séð?

Ég ætla að senda spurninguna á fólk, en þér er auðvitað velkomaið að svara hér í athugasemdum.

Sjáum hvað verður. Hvaða svör berast.

PíS

PíS

Á morgun, laugardaginn 3 október verður stofnfundur PíS haldinn í Þingborg, austan við Selfoss. PíS eru Píratar í Suðurkjördæmi. Þetta verður eflaust spennandi fundur og ég myndi mæta ef ég væri ekki að rolast í útlandinu. En þarna verður gott fólk með góðar hugmyndir.

Hér er hægt að skrá mætingu og fá upplýsingar.
https://www.facebook.com/events/434905686710723/

Dagskrá fundar:

20:00 Fundur settur.
Kosning fundarstjóra, ritara, talninga- og umsjónarfólks kosninga á stofnfundi.
Umræða og kosning um lög.
Kosning í stjórn.
Kosning skoðunarfólks reikninga
21:00 Kaffihlé
21:20 Umræða um hvort bjóða eigi fram til Alþingiskosninga 2017.
Hafa framboðslista tilbúinn sem fyrst 2016.
Önnur mál.
22:00 Fundi slitið

Allir sem hafa áhuga á starfinu (og réttlátara þjóðfélagi) eru hvattir til að mæta. Ég meina, 36% fylgi? Ef það er að fara að gerast, munum við virkilega geta haft áhrif. Til þess þarf þó gott fólk með drifkraft.

FylgiOkt2015

Punktar fyrir flóttafólk

Punktar fyrir flóttafólk

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að flóttamannavandinn er gríðarlegur. Íslendingar hafa sýnt að þeir eru tilbúnir til að hjálpa eins og þeir geta.

Eitt það erfiðasta sem flóttafólk gerir er að komast til Íslands. Það er ekki hægt að ganga í einhverja daga. Ísland er eyja og einu leiðirnar til að koma eru með skipum og flugvélum. En flugmiðarnir eru dýrir.

Syrian ChildMörg okkar eigum vildarpunkta hjá Icelandair. Ég á nógu marga til að fljúga heim, en nokkur þúsund munu fyrnast um áramót. Hverfa og verða að engu.

Væri það ekki góð hugmynd ef Icelandair byggi til punktareikning sem við getum millifært hverfandi punktana á? Það yrði gjaldfrjálst. Kostar okkur ekkert. Kostar Ielandair ekkert, en ef þúsundir punktaeigenda millifæra á reikninginn, mætti hjálpa fólki að ferðast til landsins?

Þessi reikningur yrði að vera gagnsær, þjóðin þyrfti að geta séð hvað margir punktar safnast og hvernig þeim er varið. Rauði Krossinn gæti séð um reikninginn.

Þessir punktar skipta okkur engu máli. Þeir hverfa hvort eð er. En fyrir flóttafólk getur þetta skipt öllu máli. Þetta getur verið farmiði til betri framtíðar. Eða framtíðar, yfirleitt.

100 milljarðar?

100 milljarðar?

Mogginn er upptekinn við að gera lítið úr þjáningum flóttafólks og mikið úr kostnaði og veseni okkar íslendinga. Nýjasta grínið minnist á 100 milljarðana sem það myndi kosta að taka við 5000 flóttamönnum.

Skopskyn MoggansMaður skilur svo sem að það kostar helling að koma fólki inn í samfélagið, en 100 milljarðar eru út úr kú. Þurfa allir sem koma að verkefninu að vera háskólamenntaðir með 15.000 kall á tímann? Er ekki hægt að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til? Bara vera með fólkinu, tala við það, kenna því tungumálið og hvernig samfélagið virkar? Borga atvinnulausum og öryrkjum eitthverja þóknun fyrir að eyða tíma í þetta fólk?

Margir bótaþegar einangrast, og með sjálfboðastarfinu mætti koma í veg fyrir einangrun beggja hópanna.

Það má nýta húsnæði sem stendur autt. Atvinnuhúsnæði sem bankarnir hafa tekið til sín gætu orðið félagsmiðstöðvar sem fólk gæti nýtt til að komast inn í málið og menninguna, komast á netið, fá fréttir og leita að vinnu þegar þar að kemur. Tómt íbúðahúsnæði má svo nýta til að koma fólkinu fyrir á meðan það er ófært um að gera það sjálft.

Það er hægt að taka við flóttafólki án þess að það sé yfirdrifið dýrt. Auðvitað mun það alltaf kosta eitthvað, en ef maður á ekki pening, notar maður hugmyndaflugið. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Flóttamannavandinn kemur okkur við

Það var orðið dimmt, enda langt liðið sumars. Við vorum búin að borða. Þau borðuðu nautaborgara og svínapylsur eða eitthvað álíka, ég grænmetisborgara. En það er ekki það sem mér liggur á hjarta.

Wim, tengdapabbi minn til 18 ára, er ekki mikið fyrir að opna sig. Hann segir ekki meira en nauðsynlega þarf. Kannski eru það genin, uppeldið eða karakterinn. Hvað veit ég? En í kvöld, eftir mat, sátum við í garðinum og nutum þess að tala um ættingja, fólk sem er farið og fólk sem enn er meðal okkar. Talið barst að stríðinu því ég er að lesa bókina Savage Continent, um hildarleikinn í Evrópu á árunum 1945-47. Tímabil sem sjaldnast er talað um. Ég minntist á að Holland væri til umræðu í bókinni, því hér var hungusneyð veturinn 1944-45.

Við vissum að faðir tengdamömmu hafði misst fótinn eftir að hann steig á jarðsprengju. Hún sagði okkur frá því hvernig fóturinn hefði aldrei verið til friðs og vandamál sem slysið hafði í för með sér dró hann loks til dauða. En þá kom saga sem ég hafði aldrei heyrt.

Faðir tengdapabba var nær dauða en lífi af hungri, eins og fleiri þennan vetur. Bræðurnir fundu kálf, og vegna hungursins, drápu þeir dýrið. Nasistarnir komu að þeim og byrjuðu að skjóta. Faðir tengdapabba lifði þetta af, en bróðir hans var drepinn.

Sagan er oft nær en okkur grunar. Það munaði litlu að Þýskaland ynni stríðið. En þrátt fyrir tap Nasista var flóttamannavandinn eftir þann hildarleik gríðarlegur, meiri en við getum ímyndað okkur. Röskunin sem varð af stríðinu var svo fáránleg að þótt maður lesi bók og skilji að þúsundum kvenna hafi verið nauðgað (meðan þær héldu í höndina á börnunum til að týna þeim ekki), sumum oft á dag í margar vikur, eða nauðgað eftir að fjölskyldurnar voru drepnar fyrir augum þeirra… við skiljum þetta ekki. Sama hversu nákvæmar sögurnar eru, sama hversu vel við reynum að setja okkur í spor þessa fólks. Við getum ekki skilið hversu viðbjóðslegt mannlegt eðli getur verið.

Við getum ekki sett okkur í spor fólksins sem nú knýr að dyrum í Ungverjalandi eða hvar það er sem flóttafólk nútímans endar. Hvað sá þetta fólk í heimaborg sinni? Horfði þetta fólk upp á fjölskyldumeðlimi pyntaða og drepna? Dætrum þeirra nauðgað?Hvernig var ferðin sem það sá sig knúið til að leggja í? Af hverju yfirgaf þetta fólk sitt heimaland?

Við sem höfum lifað okkar lífi tiltölulega áfallalaust getum ekki skilið hvað fólk frá stríðshrjáðum löndum hefur gengið í gegn um. Ekki frekar en tengdapabbi gat skilið manninn sem hann vann fyrir sem ungur maður. Sá hafði lent í Nasistunum. Hann átti fyrirtæki sem gekk vel. Viðskiptin voru í blóma. En maðurinn var ekki í lagi. Hann eyddi öllum sínum peningum í hórurnar í Amsterdam og endaði eignalaus á kafi í vínflösku. Því hann gat aldrei sætt sig við það sem hann hafði lent í. Stríðið eyðilagði hann.

A street in Homs, Syria in 2011 and 2014Stríð eru ógeð. Stríð eru opinber og lögleg fjöldamorð. Fólk sem er meðfylgjandi stríði, eða er sama því það gerist einhverstaðar annars staðar, eða grefur hausinn í sandinn því það er svo erfitt að sjá myndir, er samsekt. Davíð og Halldór gerðu okkur samsek um Írak. Þeir settu Ísland á lista hinna viljugu, eða hvað það heitir. Össur lagði blessun sína yfir að Lýbía yrði sprengd í loft upp. Og í bæði skiptin gerðum við ekkert. Þjóðin lét eins og henni kæmi sér þetta ekki við. Stjórnmálamennirnir eru með blóðugar hendur, en við erum ekkert betri því við létum eins og okkur kæmi þetta ekki við. Því stríð gerast annars staðar. Ekki hjá okkur.

Afabróðir konunnar minnar var drepinn af Nasistum því hann reyndi að bjarga sér í hungusneyð sem kom til vegna þess að einhverjir fávitar ákváðu að Evrópa þyrfti á stríði að halda. Íslendingar voru sendir í útrýmingarbúðir. Ógeðið er ekkert voðalega langt í burtu.

Og nú tuðum við yfir því að flóttamenn nútímans trúi á annan guð en þann sem okkur þykir æskilegur. Svona eins og þegar við sendum gyðinga til Þýskalands í seinna stríði. Í alvöru, við íslendingar sendum gyðinga til Þýskalands Nasismans. Af því gyðingar eru ekki af norrænum kynstofni, eða eitthvað. Okkur virðist hafa verið skítsama um örlög þeirra því þau voru gyðingar.

Við lögðum blessun okkar yfir loftárásirnar og innrásirnar sem eru að búa til flóttamannastrauminn í dag. Okkur þótti ekkert athugavert við það að eitthvað ríki réðist á annað ríki og rústaði borgunum og dræpi fólkið sem þar bjó. Því það voru NATO lönd og við erum góðu kallarnir. Og svo, þegar þetta fólk bankar á dyrnar og biður um að komast inn því það er ofsótt í sínu eigin landi, látum við eins og okkur komi þetta ekki við? Af því öryrkjar eru á lágum launum. Af því við þurfum að hugsa um okkar fólk fyrst. Af því að annað fók er minna virði? Af því þetta fólk trúir ekki á þjóðkirkjuna eða eitthvað.

Mannkynið er allt tengt. Við erum öll fólk. Þó að konan í Damaskus tali annað tungumál og trúi á annan guð, er hún ekkert öðruvísi en meðal íslendingur. Hún á sér drauma, hún vill þokkalegt líf og hún vill vera í friði fyrir fólki sem drepur allt og alla fyrir einhvern málsstað sem hún skilur varla haus né sporð á. Allt sem hún vildi var að lifa, vinna, ala upp sín börn og deyja í friði þegar hennar verk var búið. Eins og við öll.

Flóttafólk er ekki að sækjast eftir að setjast að á vesturlöndum til að lifa á sósjalnum. Þetta fólk vill einfaldlega lifa. Það vill frið frá djöfulgangi styrjalda. Helst vildi þetta fólk vilja búa áfram í sínu heimalandi, en það er ekki hægt því það er allt í kássu því fávitar notfæra sér glundroðann sem við höfum skapað til að myrða og nauðga. Evrópa er blessunarlega laus við stríð (í bili), og því sækist þetta fólk hingað. Auðvitað er viðbúið að við þurfum að hjálpa þessu fólki að finna fótana eftir það sem á undan er gengið, en þetta fólk er ekkert öðruvísi en við. Það hefur bara gengið í gegn um helvíti sem við þurfum vonandi aldrei að skilja.

Rasistarnir

Rasistarnir

Í dag sá ég mynd á netinu. Þar var vitnað í samfylkingarkonu sem átti að vera að sleikja upp múslímana. Í athugasemdunum var hún kölluð kexrugluð sosíaldemókratakelling, vanhæfur vesalingur, og fáviti. Talað var um að við gætum alveg eins skikkað íslenskar konur til að ganga í búrkum.

Kristín SoffíaÉg skildi ekki textann á myndinni. Ég þekki konuna ekkert, en setningin hlaut að vera úr samhengi. Enda kom það í ljós þegar Kristín tjáði sig um málið.

Þetta er svo skemmtilegt svona algjörlega slitið úr samhengi. Á sama tíma og Moskuumræðan fór sem hæst þá var í gangi mikil umræða um slæma meðferð á grísum og margir lýstu því yfir að þeir ætluðu að hætta að borða svínakjöt. Þetta fannst Jóni Jónssyni og fleiri bitrum gömlum körlum svakalega merkilegt og gátu lesið allt í þetta. Svo var klesst mynd af Degi inn á þetta til að reyna að klekkja á honum. Flottir karlar.

Ég er alveg sammála því að Islam eru arfaslæm trúarbrögð. Þau eiga það sameiginlegt með flestum trúarbrögðum sem hafa verið mikið til óbreytt í aldaraðir. Heilu þorpin eru myrt í nafni Allah. Konur eru seldar í kynlífsánauð og krakkarnir drepnir. Mér er alveg sama hvort Islam séu friðsamleg trúarbrögð. Sumir áhangendurnir eru það ekki.

En sama má segja um kristni. Það þarf sennilega ekki að minnast á krossferðirnar og rannsóknarréttinn, nornabrennurnar og ofbeldið sem grasseraði í Evrópu miðaldanna, þegar kristni var sem sterkust. Allt var það í nafni Guðs og sonarins. Auðvitað sagði Jésú margt fallegt, en hvorki hann né faðirinn gátu stoppað geðveikissjúklinga sem drápu og nauðguðu í þeirra nafni.

Enn þann dag í dag eru kristnir öfgamenn að drepa í nafni frelsarans. Sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem framkvæmir fóstureyðingar er reglugela drepið af „pro life“ aktivistum.

En það þarf ekkert trú til að gera fólk morðótt og snarbilað. Flestir vita sennilega að „blessað stríðið“ var mesti hildarleikur mannkynsins til þessa. Heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu, óbreyttir borgarar strádrepnir. En það endaði ekki í maí 1945 (eða ágúst í Asíu). Hefndarmorð voru daglegt brauð í Evrópu fyrstu 2-3 árin eftir stríð. Það eru til sögur af konum sem var nauðgað 5-10 sinnum á dag í nokkrar vikur. Þeim var nauðgað meðan þær héldu í höndina á barninu til að týna því ekki. Fjölskyldan var myrt meðan þær horfðu á og svo var þeim hópnauðgað. Börn voru pyntuð og drepin. Skotin eða hengd. Þjóðverjar (líka konur og börn) voru þvingaðir til að opna fjöldagrafir og svo var andlitum þeirra troðið ofan í rotnandi líkin þar til þau drukknuðu í slíminu.

Það voru engir múllar þar. Það þurfti ekki trúabrögð til. Aðstæðurnar voru „réttar“. Þegar aðstæðurnar eru þannig, bilast fólk og gerir hluti sem það myndi annars ekki láta sér detta í hug.

Fólk gerir ógeðslega hluti þegar aðstæðurnar eru þannig. Að ala á útlendingahatri býr til þannig aðstæður. Það býr til bil milli okkar (íslendinganna) og þeirra (innflytjendanna). Bil sem breikkar, því lengur og oftar sem við tölum um þetta útlendingapakk. Bil sem verður erfiðara að brúa, því lengur sem við leyfum fordómunum að grassera.

Ef við missum okkur í rasisma, eru líkur á því að innflytjur geri eins. Það er okkar, íslendinganna, að búa til samfélag sem hafnar rasima og öllum fordómum.

Þess vegna nenni ég ekki að taka þátt í umræðunni um moskuna, múslíma, pólverja. Innflytjendur, yfir höfuð. Flestir eru þeir sennilega voðalega venjulegt fólk. Ef annað kemur í ljós, ef einhverjir einstaklingar fara að brjóta lögin, er tekið á þeim. Við erum með dómskerfi sem sér til þess að fólk er dæmt fyrir ofbeldisverk.

Hálfur sannleikur er sennilega versta lygin. Þessi mynd sem flögraði um Facebook í dag er gott dæmi um hálfan sannleik sem verður að lygi.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube