Refsingar og hrós

Refsingar og hrós

Ég var á fundi í skólanum í gær. Umræðuefnið var hvernig best er að taka á óhlýðni, hroka í garð kennara, einelti og stríðni.

Í gamla daga var krökkum refsað fyrir að gera eitthvað af sér. Þau voru flengd, send í skammakrókinn og send heim. Þeim var refsað fyrir að fylgja ekki reglunum.

Svipað og gert er í heimi fullorðinna. Ef við brjótum af okkur, erum við sektuð eða sett í fangelsi. Ef við borgum ekki skattinn, keyrum of hratt, stelum, er okkur refsað. Ef við högum okkur vel, virðist öllum vera sama.

DSCF6917Skólayfirvöld hér í Hollandi trúa ekki á refsingar, nema allt annað sé fullreynt. Í stað þess að segja ekkert við þá sem haga sér vel en refsa fyrir brot, er krökkum hrósað fyrir það sem vel fer. Ef þau ganga rólega um gangana, er þeim hrósað. Ef þau sitja í sætinu þegar þau eru að vinna, er þeim hrósað. Ef þau ganga frá eftir sig, er þeim hrósað. Þeim er hrósað allan daginn fyrir hluti sem okkur þykja sjálfsagðir. Niðurstöðurnar eru þó að þau hafa gaman af að gera hlutina rétt, því það er gott að fá hrós. Brot eru sjaldgæf.

Brjóti þau af sér, eru þau minnt á það. „Mannstu hvað þú átt að vera að gera?“ Ó, já.“ Svo setjast þau aftur, fara að taka til eða hvað það var sem þau áttu að vera að gera. Það er ekki fyrr en eftir ítrekuð brot, að refsingum er beitt. Það byrjar á því að þau eru látin sitja inni í frímínútum, síðan er beitt gulum spöldum þar sem hringt er í foreldra, án þess að frekari aðgerða sé þörf. Ef vandamálið er óviðráðanlegt, fá krakkarnir rautt spjald og foreldrar boðaðir á fund. Það gerist þó aðeins ef um ofbeldi, barsmíðar, hráka og annað er að ræða. Það hefur aldrei gerst í skólanum okkar, en reglurnar eru fyrir hendi ef með þarf.

Væri ekki hugmynd að skoða þetta í stærra samhengi? Að ríkið, sveitarfélög og samfélagið hrósaði fólki sem er að gera góða hluti? Ekki bara listamönnum og viðskiptajöfrum, heldur fólki almennt? Hvort sem það er í formi neikvæðna sekta eða annars. Skiptir ekki öllu. Það sem mikilvægast er, hlýtur að vera að yfirvöld séu ekki bara refsari. Því í núverandi kerfi er alið á ótta. Ótta við sektir og refsingu.

Auðvitað byrjar þetta hjá okkur, þjóðinni. Höldum hurðinni opinni fyrir öðrum, þökkum pent ef það er gert fyrir okkur, brosum til hvors annars, hjálpum foreldrinu með innkaupapokana og börnin að hlaða bílinn eða sjá til þess að krakkarnir hlaupi ekki út á götu, spyrjum gamla manninn á neðri hæðinni hvort hann vanti eitthvað þegar við förum útí búð. Verum góð við hvort annað.

En skilaboðin þurfa að koma að ofan. Á meðan yfirvöld eru föst í refsisamfélaginu, endurspeglum við það.

Læt mottó skólans og þessa hrós verkefnis fylgja með. Þýddi það á ensku, því það virkaði ekki á íslensku.

Catching children behaving well.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube