Atvinnuóöryggi

Atvinnuóöryggi

Ég var að vinna á flugvellinum í gær. Allt gekk vel. Farangurinn kominn í farangursrýmið, farþegarnir um borð. En þá fór allt í klúður.

Farþegi sem átti bókað í sama flugi daginn áður hafði komist í gegn og var um borð. Hann var vinsamlegast beðinn um að yfirgefa vélina og öryggisleit var gerð til að vera viss um að hann hefði ekkert skilið eftir. Við vorum vel á tíma, svo töfin varð ekki nema fimm mínútur. Ég bjóst við að vinnufélaginn fengi að koma á teppið, að hún fengi skriflega viðvörun. Hún var að þjálfa nýjan starfskraft, gerði ekki mistökin sjálf, en bar ábyrgð á lærlingnum. Auðvitað fengi hún að heyra það, en svo yrði allt í lagi. En ég var bjartsýnn.

Í dag komst ég að því að hún þyrfti ekki að mæta aftur. Hún var ekki rekin. Það sem þau gerðu er verra en brottrekstur.

Guy Standing er maður sem lengi hefur fjallað um borgaralaun. Hann hefur mikið talað um núll-tíma samninga (zero-hour contracts). Þeir virka þannig að viðkomandi er í vinnu hjá fyrirtæki, en enginn lágmarks vinnutími er tryggður. Ef lítið er að gera, er viðkomandi sendur heim. Launalaust. Núll tímar getur þýtt að engin vinna sé í boði.

Vinnufélaginn er með svona samning. Hefur ekki háð henni hingað til, því hún var á föstum vöktum og vann hátt í fulla vinnu. Það sem gerðist núna var að henni var bannað að vinna fyrir flugfélagið sem í hlut átti, en hún má vinna fyrir hin sem við höndlum. Vandinn er að hún hefur aldrei gert það. Hún hefur unnið hjá okkur í þrjú ár. Hún veit allt um hennar starfssvið, er örugg, gerir næstum aldrei mistök, er vingjarnleg við farþegana. Ég myndi hiklaust mæla með henni, ég myndi sjálfur ráða hana á stundinni ef ég ætti fyrirtæki.

En hún hefur sérhæft sig í þessu flugfélagi. Veit lítið sem ekkert um hin. Þyrfti að fara á námskeið til að læra innritunarkerfin og annað. Það getur orðið 2-3 mánaða bið. Hún var ekki rekin, en afleiðingin er sú sama. Nema að nú hefur hún engin laun og engan rétt á atvinnuleysisbótum. Hún er enn í vinnu, þannig séð. Staða hennar er verri en hefði henni verið sparkað.

feb_26_if_you_are_not_angry-d76Þetta er framtíðin. Fólk er ekki látið fara, því það kostar pening. Það er látið fljóta í einhverju limbó, þyngdarleysi. Hennar eina von er að finna aðra vinnu áður en reikningarnir og húsaleigan éta upp allan sparnaðinn sem ég vona (en efast þó) að hún eigi.

Og eitt enn um núll-tíma samninga. Þeir eru hugsaðir sem flex, þ.e. fyrir fólk sem vinnur óreglulega. Hjá okkur er vinnan plönuð þrjár vikur fram í tímann. Viðkomandi fengi því 70% laun í þrjár vikur. Eftir það, ekki krónu. Ekkert. Því ekki var búið að plana viðkomandi í vinnu og ekki förum við að plana veika manneskju. 70% af engum launum er núll. Það er ekki fyrr en að samningnum er rift af vinnuveitanda sem launþegi hefur rétt á bótum. Á meðan samningurinn er í gildi, er viðkomandi ekki atvinnulaus, og því réttlaus.

Þetta fyrirkomulag er stór ástæða fyrir því að ég vil alvarlega skoða borgaralaun. Það er orðið löngu augljóst að atvinnurekendur og stjórnvöld, sem oft eru í þeirra vasa, hafa lítinn áhuga á líðan þegnanna. Allt snýst um peninga og verkafólkið tapar. Við verðum að breyta samfélaginu þannig að ekki sé hægt að eyðileggja líf fólks, eins og gerðist í gær. Það er óþolandi að hægt sé að koma svona fram við manneskju sem hefur unnið samviskusamlega fyrir fyrirtækið í mörg ár. Það er óþolandi að sósíópatar geti ráðskast með líf fólks. Það er óþolandi að mannréttindi séu fótum troðin. Að þau réttindi sem kynslóðirnar á undan okkur börðust fyrir séu tekin af okkur.

Við verðum að sjá til þess að reikningsdæmið gangi upp og að borgaralaun virki, því núverandi kerfi er hrunið.

Meiri upplýsingar og umræður er að finna í Píratar: Borgaralaun. Endilega kíkið í heimsókn og takið þátt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube