Mikilmenni

Mikilmenni

Eftirfarandi er saga af heimsókn sem skildi mikið eftir sig.

Allir menn eru jafnir. Sú grundvallarhugsun er svarið við öllum vandamálum heimsins. Allir menn, konur þar með taldar. Á meðan sum dýrin eru jafnari öðrum, munum við búa við misskiptingu auðs og valds. Ef maður spáir í það, er hugsunin eins fjarstæðukennd og hugsast getur. Hvernig getur einn maður átt meira tilkall til lífsins og jarðarinnar en einhver annar?

Við getum þó ekki stillt okkur um að setja sumt fólk á stall. Ég heimsótti mann í Antwerpen fyrir einhverju síðan. Ég var fenginn til að kvikmynda viðtal við hann. Maðurinn bauð okkur inn, hellti upp á kaffi og kveikti sér í blárri Gauloises. Við spjölluðum saman meðan sameiginlegi vinurinn gerði sig tilbúinn fyrir viðtalið. Hann var afslappaður og yndæll. Það var eins og við hefðum þekkst alla okkar tíð.

Þegar ég kom heim, leitaði ég að honum á netinu. Kom í ljós að þetta er virtasta núlifandi leikskáld belga. Hann hefur skrifað um 20 leikrit og leikið í um 40 kvikmyndum. Eitthvað svoleiðis.

Ég velti fyrir mér hvort samtalið okkar hefði farið öðruvísi, hefði ég vitað hvað hann hefði afrekað um ævina. Hefði samtalið orðið þvingaðra? Hefði ég verið minna afslappaður í návist hans? Ég er ekki viss.

Það er óhætt að segja að hann sé mikilmenni. Hann þarf ekki að blása sig út, þykjast vera eitthvað merkilegri en hver annar. Eftir á var það augljóst að hann hefur séð að ég hafði ekki hugmynd um hver hann var, en hann minntist aldrei á fólkið sem hann hefur sennilega hitt á ævinni, rauðu dreglana og hvað annað. Engar fékk ég hetjusögurnar. Hann var bara manneskja, talandi við aðra manneskju. Á sama plani. Hann var ekkert merkilegri en ég, ekkert betri.

Það kalla ég mikilmenni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube