Framboðið er staðreynd

Framboðið er staðreynd

Nú verður ekki aftur snúið. Var að senda inn persónuupplýsingar og hagsmunaskráningu (ég á ekkert nema húsnæðislán (og húsið sem fylgir (með konunni, sko)) og gamlan bíl). Kjörstjórn í suður-kjördæmi hefur fengið allt og ferlið er farið af stað. Hér fyrir neðan eru mínar helstu áherslur og upplýsingar sem ég sendi með.

Þar sem margir minna Facebook vina eru ekki íslendingar og munu ekkert skilja í þessari endalausu íslensku pólitík, bjó ég til sér síðu utan um framboðið. Endilega farið þangað. lækið hana og fylgist með.

En textinn sem ég sendi á kjördæmaráð…

Píratar
Píratar

Ég er giftur hollenskri konu og við eigum einn níu ára son. Ég er fæddur í Reykjavík og ólst þar upp þegar ég var ekki hjá ömmu og afa á Bitru. Öll sumur og margar helgar var ég í sveitinni. Þar lærði ég sveitastörfin, mjólkaði kýr, keyrði traktora, tók þátt í heyskapnum og hverju sem ætlast var til af krakkanum. Átti minn eigin hest, kött og naut. Í sveitinni lærði ég að bera virðingu fyrir landinu og dýrunum. Tengslin við suðurlandið eru þó ekki bara þar. Ég fór í Héraðsskólann á Skógum og Menntaskólann að Laugarvatni og ólst upp við sögur úr Meðallandinu, þar sem afi fæddist í torfkofa og skip strönduðu allt of oft.

Rætur mínar eru því kyrfilega festar á suðurlandinu, þótt ég hafi búið í Reykjavík, London og á mörkum Amsterdam.

Ég er menntaður í fjölmiðlun, hljóðupptökum og kvikmydagerð. Vinn núna fyrir Menzies Aviation á Schiphol flugvelli þar sem ég sé um easyJet, Norwegian og Jet2 flugvélar. Ég leik mér líka við skriftir og gaf út skáldsöguna Under the Black Sand fyrir þremur árum. Ný er bók er í vinnslu.

Við fjölskyldan höfum gælt við að flytja til Íslands á undanförnum árum. Það sem komið hefur í veg fyrir það eru gríðarlega óhagstæð húsnæðislán og ótryggt atvinnuumhverfi. Sveiflur í íslensku efnahagslífi eru allt of miklar og okkur langar ekki að lenda í fjárhagsvandræðum vegna forsendubrests sem við áttum engan þátt í að skapa. En okkur langar að búa á Íslandi, þar sem fjölskyldan er, þar sem sonur okkar getur lifað í heilbrigðu samfélagi, andað að sér hreina loftinu og kynnst fjölskyldu sinni almennilega.

Eftir að hafa kynnst mörgum pírötum á undanförnum árum, sé ég að það eru alvöru tækifæri til að breyta stjórnsýslunni og búa til samfélagið sem Ísland getur orðið, og hefði kannski alltaf átt að vera.

Það eru svo mörg mál sem ég vil vinna í. Að allar ákvarðanir séu teknar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og að ákvarðanaferlið sé opnið og gagnsætt; beint frá búi þar sem bændur geta selt sínar fullunnu afurðir milliliðalaust; afnám verðtryggingar og vexti á við það sem gerist í nágrannalöndunum og margt fleira. Þrennt vil ég þó nefna sérstaklega.

– Ég vil gera allt til að auka þáttöku yngri kynslóðarinnar í lýðræðinu. Á undanförnum áratugum hefur unga fólkið tekið tiltölulega lítinn þátt í kosningum og innra starfi stjórnmálaflokkanna. Afleiðingarnar eru að lífið kemur fyrir fólk án þess að það hafi haft teljandi áhrif. Spillingin grasserar, milljörðum er stungið undan og ungt fólk er hneppt í skuldafangelsi. Af því það er bara þannig. Hefur alltaf verið þannig. Og mun alltaf verða þannig, nema þjóðin grípi inn í. Það þarf ekkert meira en að unga fólkið fari að sýna stjórnmálum áhuga og fari á kjörstað. Þá er hálfur sigurinn unninn. Þetta verður mitt aðal baráttumál, því við eigum öll að skipta máli.

– Ég vil koma í veg fyrir áframhaldandi atgervisflótta (brain drain) og létta íslendingum erlendis að snúa heim. Það er nefninlega óþarflega flókið. Ísland gæti verið mikið sterkara ef við nýttum krafta fólksins sem býr erlendis en vill koma heim. Mikið af því er vel menntað, með reynslu sem ekki er hægt að öðlast heima og hefur nýja sýn á vandamálin sem við er að etja. Með netvæðingu heimsins er þetta fólk vel inni í málunum og gæti haft góð áhrif á samfélagið.

– Ég vil jafna kjör þjóðarinnar. Það gerist að einhverju leyti með því að innheimta rentu fyrir auðlindanotkun og nýta peningana til að styrkja innviði samfélagsins. Þar á ég auðvitað við heilbrigðis- og menntakerfin sérstaklega. En það er ekki nóg. Við þurfum að losa okkur við stimplana sem festa fólk í hlutverki fórnarlambsins. Neikvæður tekjuskattur gæti komið í staðinn fyrir örorkubætur og eftirlaun. Hann virkar þannig að sett er viðmið um hver sé eðlileg lágmarksframfærsla. Sé viðkomandi með laun yfir þeirri tölu, borgar hann tekjuskatt. Sé viðkomandi með lægri tekjur, fær hann endurgreiðslu. Þar sem endurgreiðsla skatta eru ekki bætur, mun hún ekki hafa neikvæð áhrif á tekjur og sjálfsmynd viðkonandi. Fólki verður ekki lengur refsað fyrir að vinna, þótt vinnugetan sé takmörkuð.

Ástæðan fyrir framboði í Suður-kjördæmi er að við munum flytja á Selfoss í lok sumars. Ég ólst upp að hluta í Hraungerðishrepp og þar eru mínar rætur. Þangað vil ég fara, þar vil ég nýta mína krafta.

Yarr…
Villi Asgeirsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube