Vinstri, hægri, snú snú

Vinstri, hægri, snú snú

Katrín Jakobsdóttir var sögð tala fyrir því að Píratar þyrftu að ákveða hvar á vinstri-hægri rófinu þeir væru. Fyrirsögnin var villandi, en hafði tilætluð áhrif. Fréttinni var póstað á Pírataspjallinu og líflegar umræður hófust. Næstum allir sem tjáðu sig höfnuðu því að flokkurinn ætti að skilgreina sig, setja sig á rófið. Ég er sammála og hér eru mínar ástæður.

Vinstri og hægri á rætur að rekja til frönsku byltingarinnar þar sem konungssinnar settust hægra megin í þingið en byltingarsinnar vinstra megin. Þaðan er þessi skilgreining komin. Vinstri eru róttækir og hægri eru íhaldssamir. En þetta stenst ekki alveg skoðun.

2013-08-12 at 15-48-40Vinstri flokkar hafa átt það til að aðhyllast forræðishyggju. Þessu hafna Píratar og eru því hægra megin við miðju. Vinstri flokkar trúa á stórkt og sterkt ríki sem sér um þegnana. Píratar vilja einfalda ríkisrekstur og ekki flækjast fyrir fólkinu í landinu að óþörfu, og eru því hægra megin við miðju.

Hægri flokkar hafa skilgreint sig sem frjálshyggjuflokka, þar sem markaðurinn sér um sig sjálfur og ósýnilega höndin leiðréttir villur í kerfinu. Það hefur sýnt sig að þetta stenst ekki skoðun, þar sem fjársterkir aðilar eru í stöðu til að verða ríkari á kostnað verkafólks. Píratar vilja að allir hafi jöfn tækifæri, að heilbrigðis- og bótakerfin séu réttlát og að frumskógarlögmálið eigi ekki við. Þar eru Píratar vinstra megin.

Ef ég tek sjálfan mig sem dæmi, er ég bæði hægri og vinstra megin. Það fer eftir málefninu. Ég get ekki sett sjálfan mig á einhvern punkt á rófinu, því í sumum málum er ég argasti vinstri maður en í öðrum er ég hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Ég get þó sett málefni á rófið. Heilbrigðiskerfið á að vera frítt og jafn aðgengi allra tryggt. Ég myndi því setja heilbrigðismáli vinstra megin. Ekkert að því að einhver hluti þess sér einkarekinn, en þá undir eftirliti og í takt við stóra samhengið. Er það hægri eða vinstri? Eins með öryrkja og annað fólk sem getur lítið sem ekkert unnið. Það fólk á rétt á mannsæmandi lífi og ríki og sveitarfélög eiga að sjá til þess að öryrkjar, atvinnulausir og aldraðir geti átt í sig og á. Þetta yrði vinstra megin við miðju. Ríkið á líka að hætta að refsa fólki sem getur unnið takmarkað fyrir að gera það. Með því að þviinga öryrkja og ellilífeyrisþega til að sitja heima af ótta við að missa bæturnar erum við að búa til hóp fólks sem þorir ekki að taka þátt í samfélaginu. Er það hægri eða vinstri?

Fyrirtæki eiga að geta staðið undir eigin rekstri. Ríkið á ekki að styrkja fyrirtæki nema í algerum undantekningatilvikum, til dæmis þegar um rannsóknir og nýsköpun er að ræða. Þetta er hægra megin við miðju. Ég er mótfallinn vaxta- og húsaleigubótum því þær gera ekkert annað en hækka fasteignaverð og leigu. Við erum föst í því kerfi og getum ekki losað okkur við það sársaukalaust, en ég er á því að þessar bætur hafi verið mistök. Þetta er vel hægra megin við miðju. Að stórfyrirtæki eigi aldrei að fá afslátt eða styrki frá ríkinu er hægra megin við miðju, en þó hafa hægri stjórnir ríkisstyrkt ótal fyrirtæki sem hefðu átt að bera sig sjálf.

Auðlindirnar eiga nær undantekningalaust að vera í almannaeigu. Það er vinstri, en ég myndi vilja sjá nýtingarréttinn boðinn út og það er hægri.

Ég get því sett einstök mál á rófið, en ég get ekki sett sjálfan mig á einhvern einn stað. Ég reyni að styðjast við heilbrigða skynsemi og met hvert mál fyrir sig. Stjórnmál eru nefninlega ekki boltaleikur þar sem maður heldur með sínu liði. Þau eru mikilvægari en það, og það væri glapræði að taka ákvarðanir byggðar á hægri-vinstri rófinu. Ef ég get ekki staðsett sjálfan mig, hlýtur að vera vonlaust að staðsetja heilan stjórnmálaflokk sem mælist með 30% fylgi. Mér dytti ekki í hug að njörva þriðjung þjóðarinnar niður á mælistiku sem hefur lítið annað gildi en að skipta fólki í lið.

Píratar þurfa því ekkert að skilgreina sig á rófinu. Þeir þurfa að halda áfram að meta hvert mál fyrir sig og komast að niðurstöðum sem þjóðinni í vil. Íslensk stjórnmál hafa verið bjánalegur skotgrafarhernaður frá stofnun lýðveldisins og því þarf að breyta. Hleypum heilbrigðri skynsemi af og losum okkur við gamla stimpla sem ekkert gera nema sundra okkur.

2 thoughts on “Vinstri, hægri, snú snú

  1. fínn pistill, nema hvað þetta pirrar mig (meira en það ætti að gera): „Katrín Jakobsdóttir talaði um að Píratar þyrftu að ákveða hvar á vinstri-hægri rófinu þeir væru.“

    katrín gerði ekkert slíkt.
    fyrirsögnin á viðtalinu við hana sem þú ert (sennilega) að vísa í var þversnúningur á orðum hennar. hún sagði aldrei að píratar þyrftu að ákveða sig. hún sagði einmitt hið gagnstæða. hún var spurð hvort hún áliti pírata sem vinstri flokk eða hægri flokk. hún svarar hvorki með ‘hægri’ eða ‘vinstri’ heldur sagði að þar sem píratar vilji hvorki skilgreina sig sem vinstri né hægri þá sé ekkert svar til, skilgreining pírata sjálfra verði að ráða.
    hún bætir við að þegar kemur að mögulegu samstarfi þá eru það málefnin sem skipta máli. sér í lagi telur hún til sjálfbæra þróun, kynjajafnrétti, aukið gagnsæi, bætt lýðræði.

    ég las þetta þannig að hún væri að rétta pírötum út ólífugrein með þessum orðum og var í fyrstu mjög hissa á hvernig blaðamanni hringbrautar hefði tekist að misskilja konuna svona svakalega… þar til ég sá umræðustorminn sem honum tókst að skapa. sjálfsagt hafa síðuflettingarnar verið í takt við það.

    ég sé reyndar núna að fyrirsögnin er breytt (sú gamla sést enn á slóðinni):
    http://www.hringbraut.is/frettir/piratar-verdi-ad-skilgreina-sig-til-vinstri-eda-haegri

    1. Takk fyrir það, Jens. Ég hef lagfært pistilinn. Þetta var fljótfærni og sýnir þörfina fyrir að lesa fréttir vel. Þetta er hvorki fyrsta né síðasta dæmið um villandi fyrirsögn, og mun sennilega versna þegar kosningabaráttan hefst fyrir alvöru.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube