Browsed by
Tag: viðskipti

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu.

Verksmiðjan eða vöruskemman – ég er ekki viss hvað þessi bygging hafði verið í fyrra lífi – var björt og iðandi af fólki. Við gengum milli söluborða, smökkuðum heimagerða osta og smjör. Konan smakkaði kryddpylsu og var svo hrifin að hún keypti tvær. Ég er hrifnari af ostunum og smakkaði því allt of mikið. Bita hér og bita þar. Ótrúlega skemmilegt hvað úrvalið var mikið og framleiðsla bændanna ólík. Þurfti engan kvöldmat þennan daginn. Bóndinn sem ég ræddi hvað mest við sagði mér að hann hefði sjálfur mjólkað kýrnar og unnið ostinn. Hann hafði byggð skemmu bak við fjósið og þar fullynni hann mjólkina. Mjólkurbíllinn var löngu hættur að koma. En hvernig ferðu af því að lifa á þessu? Bændamarkaðurinn er skemmtilegur og allt það, en varla lifirðu á þessu oststykki sem ég var að kaupa? Nei, sagði bóndi, það er rétt. Ég sel líka í verslanir. Og það er rétt sem hann segir. Stórmarkaðir eru farnir að selja meira af lífrænum og hreinum íslenskum vörum. Þær eru eitthvað dýrari en verksmiðjuframleiðslan, en snýst lífið ekki um val? Að geta keypt bragðgóðan ost sem framleiddur var á búinu þaðan sem mjólkin kemur?

Þessir “beint frá búi” markaðir hafa verið að spretta upp um allt land. Íslendingar eru yfir sig hrifnir, ferðamenn sækjast í þetta og bændur brosa mest allra. Talandi um ferðamenn. Sveitavinnutúrisminn er farinn að blómstra, og sumir sem koma hingað til að njóta sveitasælunnar koma með hugmyndir og vinnsluaðferðir sem við höfum ekki þekkt.

Eða hvað? Sagan sem þú varst að lesa er uppspuni, skálduð hugarsmíð, því þetta má ekki. Það eru engir bændamarkaðir. Beint frá búi er hugtak sem hefur verið fleygt fram, en það einhverskonar þversögn. Bóndi má víst búa til ost, en aðeins með mjólk sem hann kaupir af MS. Þótt hann sé kúabóndi og framleiði eigin mjólk, þarf hann að selja hana og kaupa aftur á hærra verði.

Dýrin í sveitinni
Dýrin í sveitinni

Bændamarkaðir eru skemmtileg hugmynd. Þeir finnast víða í Evrópu og þar standa bændur með sínar vörur. Stundum sameinast nokkrir bændur um framleiðsluna, en þeir standa í þessu sjálfir. En þetta má ekki á Íslandi. Þar eru reglur sem sjá til þess að einhver smá hópur geti ráðið hver má kaupa mjólk, á hvaða verði. Það er frægt að Kjörís fór að framleiða jurtaís til að losna undan oki MS. Mjólka fékk mjólkina á hærra verði en KS, sem setti Mjólku næstum í þrot, KS keypti Mjólku, MS fór svo í tölfræðileik og útkoman var að Mjólka borgaði sjálfa sig og KS stóð eftir með fyrirtæki sem það borgaði ekkert fyrir. Fyrir einhverjum mánuðum fór heill Kastljósþáttur í að fletta ofan af mjólkurspillingunni. Og hvað gera stjórnvöld? Þau skella 10 ára búvörusamning á borðið sem styrkir hálstakið sem MS og KS hafa á markaðnum.

Ég skil að ríkið vilji halda utan um tóbaks- og áfengissölu. Annað efnið er krabbameinsvaldandi, bæði eru ávanabindandi og áfengi getur tvístrað fjölskyldum ef fólk ánetjast. En mjólk? Af hverju erum við með einokun á mjólk? Mjólkursala á að vera frjáls. Það eru engin rök sem ég get séð fyrir einokun á mjólkurmarkaðnum. Bændur eiga að geta selt afurðirnar hverjum sem er, hvort sem þær eru fullunnar eða ekki. Á meðan eftirlit er í lagi – þetta er jú matvælaframleiðsla – á það ekki að skipta máli hver framleiðir og selur landbúnaðarafurðir.

MS þarf ekkert að hverfa. Bændum er velkomið að selja mjólkina á sama hátt og verið hefur, enda eru heimaunnar og lífrænar vörur dýrari og ekki fyrir alla, en bændur verða að hafa val. Annað er einokun og einokun er eitthvað sem við áttum að vera löngu búin að losa okkur við.
Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata í suður-kjördæmi.

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu, 28. maí 2016.

Húsnæðismálin á Íslandi fá mig til að hlæja og gráta, allt í senn. Ég er ekki hrifinn af tilfinningalegum rússíbönum þegar kemur að fjármálum, svo ég ætla að segja ykkur hvað er svona fyndið og sorglegt. Með því, vona ég að einhver vakni og að kerfinu verði breytt til hins betra.

17. maí s.l. birtist pistill eftir mig á síðum Kvennablaðsins (og hér). Þar bar ég saman vexti á húsnæðislánum í Hollandi og á Íslandi. Lægstu vextir sem ég nefndi voru 7,25% á Íslandi og 1,59%í Hollandi. Ég var að reyna að vera sanngjarn. Þetta eru lægstu almennir vextir sem ég fann.

Viðskiptabankinn minn, ABN Amro, býður nú húsnæðislán með 0,94% vöxtum. Auðvitað hangir eitthvað á spýtunni. Maður þarf þá að vera í viðskiptum við bankann, færa allt sitt til þeirra, en vextirnir eru 0,94%. Innan við eitt prósent.

Á sama tíma eru vextir á Íslandi sjö prósent eða hærri. Það kostar jafn mikið að borga vexti af einni íbúð á Íslandi og af átta íbúðum á sama verði í Hollandi.

En hvað gerist þegar vextirnir eru orðnir svo lágir að þeir skipta ekki mái og það er ekki lengur hægt að lokka fólk með þeim?

Í gær heyrði ég auglýsingu í útvarpinu. Nýtt húsnæðislán (hjá ING minnir mig) er ekki bara á lágum vöxtum, það er með tryggingu. Ef þú missir vinnuna eða verður óvinnufær, borgar bankinn sjálfur af láninu í sex mánuði. Hann gefur þér tíma til að finna nýja vinnu, hann gefur þér tækifæri til að láta þér batna eða gera aðrar ráðstafanir svo að þú lendir ekki í vandræðum með afborganir. Fyrstu sex mánuðina þerftu ekki að hafa áhyggjur af húsnæðisláninu, því bankinn tryggir það. Við fjölskyldan erum með eins tryggingu, en borguðum eitthvað smávægilegt fyrir hana. Nú getur fólk fengið trygginguna frítt.

Blokk í Reykjavík (VGA 2015)
Blokk í Reykjavík (VGA 2015)

Svona virkar samkeppni.

Á meðan, á Íslandi…

Ég var að spá í hvað ég ætti að kalla þennan pistil, en þrælanýlenda er það eina sem mér dettur í hug.

Að lokum… eftir að fyrri pistillinn birtist hér fyrir tæpum tveimur vikum, fékk ég póst frá ÍLS. Þar var sagt að ég færi með rangt mál, og hvort ég vildi leiðrétta mitt mál. Ég sagði að það væri sjálfsagt og sendi sjö spurningar til baka. Sagði að það væri gott að fá svör við þeim svo ég gæti skrifað nýjan pistil þar sem staðreyndirnar væru leiðréttar. Það væri betra en að breyta texta í pistli sem flestir eru búnir að lesa, því þá sér enginn leiðréttinguna. Það er vika síðan ég sendi spurningarnar, en engin svör hafa borist. Þau hafa sína hentisemi á því og ég hef engar áhyggjur. ÍLS hefur þó selt 450 eignir í „opnu ferli“. Opnu, fyrir þá sem geta keypt 450 íbúðir í einu. Lokuðu fyrir okkur hin.

Mér sýnast lánastofnanir á Íslandi vera í einhverjum allt öðrum viðskiptum en þær erlendu. Hér er okrað á fólki, eignirnar miskunnarlaust teknar af því og seldar í einhver fyrirtæki sem virðast vera tengd stjórnmálamönnum.

Þrælanýlenda.

Ég læt spurningarnar sjö til ÍLS fljóta með. Í póstinum sagðist ég vera tilbúinn til að biðjast afsökunar ef um rangfærslur var að ræða. Sjáum til hvernig það fer, en hér eru spurningarnar. Sjáum hvort svör berist. Vonum svo að Ísland komist í hóp siðaðri þjóða í náinni framtíð.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Fyrir um viku skrifaði ég pistil í Kvennablaðið. Ég furðaði mig á að sjóðurinn hefði selt 153 íbúðir í ekkert rosalega opnu ferli. Eftir birtingu pistilsins, barst mér póstur frá starfsmanni sjóðsins. Ég var beðinn um að leiðrétta rangfærslu í pistlinum. Það var ekki alveg á hreinu hvar ég var að fara með rangt mál, svo ég svaraði póstinum og bað um frekari upplýsingar.

Hús í bænum (VGA 2015)
Hús í bænum (VGA 2015)

Svar hefur ekki borist, en ég hafði engar áhyggjur, þar sem ekkert liggur á. Nú sé ég að ÍLS hefur selt leigufélagið Klett og 450 íbúðir. Í einum pakka.

Það er kannski hægt að túlka það þannig að þetta hafi farið á opnum markaði, þar sem allir sem hafa efni á 450 íbúðum í einum bita gátu boðið í félagið, en þettta getur ekki átt að virka svona. Það getur ekki verið að sjóður sem er í eigu ríkisins, í okkar eigu, gefi okkur ekki tækifæri til að kaupa íbúðirnar sem voru (sennilega flestar) teknar upp í stökkbreyttar skuldir eftir hrun.

450 eignir. Og ég var að kvarta yfir 153 íbúðum.

Eins og ég sagði að ofan, hef ég ekki enn fengið svar frá ÍLS. Þau skulda mér svo sem ekkert, en það væri gott að vita hver rangfærslan var í pistlinum fyrir viku. Í ljósi þess að ÍLS virðist vera á fullu að losa sig við eignir til fjársterkra aðila, finnst mér það skipta máli fyrir almenning hvað mér og sjóðnum fór á milli. Hér fyrir neðan er hægt að lesa athugasemdina sem ég fékk í tölvupósti og minn svarpóst. Ég hef fjarlægt nafn starfsmanns sjóðsins.

19. maí 2016 í pósti til Steinunar Ólínu, ritstjóra Kvennablaðsins:

Í blaðinu ykkar í fyrradag birtist greint/frétt fá Vilhjálmi þar sem m.a. var vikið að sölu fasteigna hér hjá Íbúðalánasjóði. Í greininni eru atriði sem ég tel rétt að koma á framfæri athugasemdum við.
Ég hef ekki netfang hans eða aðrar tenglaupplýsingar og mér þætti vænt um ef þú kæmir þessu til hans. Ég óska eftir því við Vilhjálm að hann leiðrétti það sem ekki er rétt með farið í blaðinu ykkar og mér þætti vænt um ef þú sem ritstjóri myndir fylgja því eftir og að til skila komist þessar ábendingar mínar.
Það sem er aðalatriðið er að Íbúðalánasjóður leggur mjög ríka áherslu á að eignir sjóðsins séu seldar í opnum ferlum þannig að allir sem hafa áhuga á kaupum hafi kost á að kaupa þessar eignir. Á síðustu árum hefur sjóðurinn selt eignir fyrir um 50 m.a.kr, (50 þúsund milljónir króna). Við teljum að þetta markmið okkar að selja í opnum söluferlum hafi tekist nokkuð vel og vinnum með Félagi Fasteignasala á þann hátt að allar fasteignasölur í landinu geta unnið fyrir sjóðinn.

Hér er minn svarpóstur, sendur sama dag:

Sæl(l) xxx,

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið með rangt mál. Það er sjálfsagt að leiðrétta pistilinn ef ég hef sagt eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það sem ég skrifaði var byggt á frétt MBL (hlekkur í pistli) og upplifun á fréttum undanfarin ár. Auðvitað er það möguleiki að mín tilfinning sé ekki það sem virkilega gerðist.

Til að ég skilji hvar ég fór með rangt mál, langar mig að spyrja örfárra spurninga. Upplifun okkar á fréttum er ekki alltaf í takt við raunveruleikann, og því væri gott að geta skrifað grein sem byggð er á staðreyndum frá ykkur.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Afsakið allar spurningarnar. Það eru sennilega margar ranghugmyndir um ÍLS í þjóðfélaginu og það væri gott að geta skrifað grein sem bygð er á upplýsingum frá ykkur.

Bestu kveðjur,
Vilhjálmur Ásgeirsson

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.

Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.

Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.

Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.

Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í „nei“ hópnum fær mitt atkvæði.

já:

Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman

nei:

Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson

fjarvist:

Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson

fjarverandi:

Björgvin G. Sigurðsson 

Birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu:

Villi Asgeirsson 20.1.2012 kl. 23:25

Athyglisverð frétt. Listi yfir vitni.

http://www.visir.is/thungavigtarfolk-a-vitnalista-i-landsdomsmalinu/article/2011110519456

hilmar jónsson 20.1.2012 kl. 23:41

Vægast sagt athyglisvert Villi og skýrir margt.

Villi Asgeirsson 20.1.2012 kl. 23:45

Allir á vitnalistanum sögðu nei. Merkilegt.

hilmar jónsson 21.1.2012 kl. 00:16

Já mjööög merkilegt….

Óskráður (this is fake) 21.1.2012 kl. 00:17

Það er að koma betur og betur í ljós að ALLIR stjórnmálaflokkar hafa þegið styrki (MÚTUR) í gegnum tíðaina og eru allir jafn samsekir. Við horfum upp á toppinn á ísjakanum þegar Sjálfstæðismenn þurftu að skila sínum styrk (MÚTUM)  frá Fl-group. Nú er komið  að því að þeir félagar snúi bökum saman og passi upp á hvorn annan að ekkert ljótt falli a´þeirrra hvítflibba. Samsærið í hnotskurn í boði Alþingis gegn vægu verði.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir 21.1.2012 kl. 00:27

Góður pistill Villi !

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 08:24

Mér sýnist að Hreyfingin ein hafi greitt atkvæði á móti tillögunni. Eitthvað sem gott er að muna í næstu kosningum.

Agla 21.1.2012 kl. 12:10

Að þingsumræðu lokinni verður væntanlega naumur meirihluti þingmanna meðfylgjandi tillögu Bjarna Benediktssonar um  að ákæran á hendur fyrrverandi forsætisráðherra (Geir Haarde) verði afturkölluð.

Trúlega hefur meðferð Alþingis á þessu „vandræðamáli“ verið lögum samkvæm frá upphafi.  Hver skyldi þá verða staða fyrrverandi forsætisráðherra lögum samkvæmt?      Gæti hann  t.d. krafist bóta  fyrir mannorðstjón og kostnað sem fylgt hefur undirbúningi tengdum  fyrirhugaðri vörn sinni við ákærunni sem samþykkt var af Alþingi upprunalega?

Þorsteinn Siglaugsson 21.1.2012 kl. 12:13

Það hafa margir áhuga á uppgjöri á áratugnum fyrir fall bankanna. Málið gegni Geir verður aldrei slíkt uppgjör enda snýst það aðeins um hvað var gert eða ekki gert rétt áður en bankarnir féllu. Málið er í rauninni smjörklípa þar sem athyglinni er beint frá því sem máli skiptir að einhverju sem engu skiptir.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 12:21

Agla, þetta er sennilega allt fullkomlega löglegt, en jafn siðlaust fyrir því.

Þorsteinn, ég get ekki ímyndað mér að vitnisburður allra ráðherra fyrri stjórnar og fleiri áhrifamanna hafi engin áhrif á uppgjörið, komi það nokkurntíma. Þetta er að dreyfa athyglinni einöngu vegna þess að það er tekið upp aftur. Þingið var búið að afgriða þetta og hefði átt að gefa landsdómi vinnufrið.

Þessu máli var klúðrað af Samfó. Ef eitthvað vítavert gerðist þar, er ekkert því til fyrirstöðu að setja upp mini-rannsóknarnefnd og skoða það.

Óskráður (this is fake) 21.1.2012 kl. 12:43

Eftir að hafa hlustað á þáttinn Í vikulokin á Rás 1 í morgun kemst maður betur að þeirri niðurstöðu að þingmenn hafa engan áhuga á niðurstöðu og vilja einfaldlega drepa málið niður. Hin mæta þingkona Guðfríður Lilja talaði um að koma á Sannleiksnefnd, en einni nefndinni, til að fá einhverja niðurstöðu.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 12:49

Hvernig kom Margrét út? Skilst hún hafi verið þarna líka.

En nefndir. Nefndir. Fleiri nefndir. Mikið væri gaman ef þingmenn töluðu bara hreint út og kysu um málin í staðinn fyrir að þvæla öllum málum milli nefnda. Ég skil ekki að kerfið þurfi að vera svona þungt í þessu litla samfélagi.

Agla 21.1.2012 kl. 13:16

Ef þetta „ferli“ er allt lögum samkvæmt á þá ekki aumingja Geir Haarde rétt á upphefð æru sinnar og alls konar bótagreiðslum?

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 13:18

Jú, eflaust. Breytir engu. Við virðumst geta borgað allt sem einhverjum dettur í hug að láta okkur borga.

Agla 21.1.2012 kl. 13:25

Kannski hefði ég betur sagt „Ef þetta „ferli“ er allt lögum samkvæmt á þá aumingja Geir Haarde engan rétt á upphefð æru sinnar og alls konar bótagreiðslum???

Óskráður (thin) 21.1.2012 kl. 13:29

Sæll. Margrét stóð sig vel og kom sínum málum vel fram. Aftur á móti þá finnst mér Guðfríður Lilja dottin ofan í sama pyttinn og þorri þingmanna að vilja gera ekki neitt.  Nákvæmlega eins og þú segir setja allt í nenfdir.

Í þættinum var komið inn á Saltmálið vinsæla og vildu bæði Guðfríður Lilja og Guðlaugur Þór að rýna í hvað gerst hafi áður en gert er eitthvað meira. En það á ekki að draga neinn til ábyrgðar frekar en venjulega. Af hverju? Jú skv. því sem Margrét Tryggvadóttir sagði þá eru um helmingur yfirmanna stofnana pólitískt ráðnir í gegnum sína flokka. Og að sjálfsögðu þarf að hlífa þeim greyjum

 

Götusalt?

Götusalt?

Er Ölgerðin orðin snarklikkuð? Þeir flytja inn iðnaðarsalt og selja sem matarsalt. Þegar einhver vogar sér að segja að iðnaðarsalt sé mestmegnis notað á götur þegar frystir, hóta þeir að senda lögræðinga á viðkomandi.

Þess má geta að hér í Hollandi var ein fyrirsögnin, Íslendingar strá götusalti yfir eggin sín. Ætlar Ölgerðin að eltast við alla þá sem réttilega sýna að þetta salt er ekki ætlað til matargerðar?

Kunna þeir ekkert að skammast sín? Er einhver í stjórnsýslunni sem ætlar að taka á þessu máli?

Ef ekki, þá er það þjóðarinnar að sneiða hjá vörum fyrirtækisins.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Þórður Ingi 19.1.2012 kl. 14:18

Þeir fréttamenn sem segja að það iðnaðarsalt sem notað var hér í matvæli sé það sama og er notað á götur gerast sekir um annað tveggja. Fávisku eða lygar.

Villi Asgeirsson 19.1.2012 kl. 14:26

Það má vel vera að þetta sé ekki sama salt og notað er á götur, en þetta er heldur ekki salt sem ætlað er í matvöru. Spurningin er því, er Ölgerðin sek um fávisku eða lygar?

 

Heiður…

Heiður…

…fyrir Michael Moore að vera í sama þætti og Birgitta. Þau eiga það sameiginlegt að ná eyrum fólks um allan heim og eru nógu skynsöm til að láta spillingaröflin ekki þagga niður í sér eða snúa.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem fær fólk til að skipta um skoðanir, persónu jafnvel, þegar komið er inn á þing. Eru nýjir þingmenn færðir inn í bakherbergi og þeim lagðar reglurnar eða er þerra hræðsla við að missa vinnuna og þá bitlinga sem hún hugsanlega mun gefa? Eru það kannski vissir karakterar sem sækjast í þingmennsku? Fólk sem þráir völd, hvað sem það kostar?

Komist fólk í ríkisstjórn, svo ekki sé minnst á ráðherrastól, ígerist þessi persónuleikabreyting. Það er eins og slökkt sé á persónuleika viðkomandi og nýtt forrit sett inn.

Það verður fróðlegt að sjá hvað þeim Birghittu og Michael fer á milli. Chris Hedges er líka merkilegur maður. Hefur starfað sem blaðamaður í áraraðir og skrifað margar bækur. Hann er duglegur við að standa upp í hárinu á yfirvöldum vestanhafs. Hér fyrir neðan má sjá ýtarlegt viðtal við hann.

(Upphaflega myndbandið sem ég póstaði í janúar 2012 er horfið. Mig minnir að það myndband hafi verið hluti þáttarins. Þetta er allur þátturinn. VGA – 11.05.16)

 

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Gunnar Th. Gunnarsson 18.1.2012 kl. 14:41

Michel Morre er ómerkilegur pappír… og hreint hlægilegt að hann skuli vera viðurkenndur sem heimildamyndagerðarmaður. Allar hans myndir eru meira og minna falsaðar.

En þessi vinstrimaður græðir á tá og fingri fyrir verk sín, sem er ömurlegt, vegna þess að hann siglir undir fölsku flaggi. Hann er draumóramaður af svipuðum toga og rithöfundarbjálfinn, Andri Snær Magnason.

Villi Asgeirsson 18.1.2012 kl. 15:43

Myndirnar hans vekja fólk til umhugsunar. Flest sem hann segir er rökstutt.

Ég veit ekki betur en að draumórar rithöfundarbjálfians, hafi breyst í alvöru martraðir. Ekki komu Kárhnjúkar í veg fyri kreppu. Held að flest það sem hann hélt fram hafi komið fram.

Ef ég er að bulla, komdu þá endilega með dæmi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 18.1.2012 kl. 16:12

Sammála þér með Moore og Birgittu, og ég hef verið að hlusta á viðtalið sem þú linkar á á Hedges, er ánægð með hans sýn á hlutina.  Takk fyrir að setja það hér inn.

Arngrímur Stefánsson 18.1.2012 kl. 16:43

það eitt að vekja fólk til umhugsunar getur verið slæmt ef fólkið fær vitlausar staðreyndir til að melta.  Áróður vekur fólk oft til umhugsunar og sé fólk með rangar upplýsingar getur það komist að rangri niðurstöðu.

Villi Asgeirsson 18.1.2012 kl. 18:27

Ekkert að þakka, Ásthildur. Mín er ánægjan. Hin tvö eru vel þekkt á Íslandi en ég efast um að margir þekki Hedges.

Arngrímur. Michael Moore myndirnar eru skemmtilegar og hárbeitt ádeila á bandarískt samfélag. Ég get au’vita’ ekki vottað fyrir það að allt í öllum myndunum sé hreinn sannleikur, en myndirnar og athafnir hans ýfa fjaðrir þeirra sem hefta vilja frelsi einstaklingsing og gera heilsu fólks að söluvöru. Ekkert nema gott um það að segja.

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube