Browsed by
Tag: morð

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

Sprakk

Sprakk

Hrunið skall á og þjóðin tvístraðist.

Allt er gegnsýrt af fylkingum. Us and them. Bankar gegn húseigendum. Stjórn gegn stjórnarandstöðu. Femínistar gegn karlrembusvínum. 101 lattépakk gegn sveitavarginum. Náttúruverndarsinnar gegn stóriðjusinnum. Kvótaeigendur gegn smábátaeigendum. Króna gegn evru. ESB gegn þjóernissinnum. Íslendingar gegn innflytjendum. Trúaðir gegn trúlausum. Hægri gegn vinstri, kommar og kapítalistar.

Það er alveg sama hvar tekið er niður, við finnum okkur alltaf eitthvað til að þrasa um, eitthvað til að vera ósammála um, eitthvað til að tvístra okkur. Ef við höldum svona áfram, munum við aldrei getað sameinast sem þjóð. Aldrei getað virkjað það sem sterkast er, okkur sjálf. Kerfið sem við búum við er hannað til að dreyfa athygli okkar, því án samstöðu getum við ekki tekist á við þau mál sem mestu skipta. Að búa til það samfélag sem við eigum skilið og getum átt. Tæknin og tíðarandinn hefur gert hverjum sem er kleyft að skapa list og tjá sig við umheiminn. Möguleikarnir eru endalausir og ef við nýtum þá á jákvæðan hátt getum við byggt upp frjálst samfélag, laust við drauga fortíðar þar sem aðeins hinir útvöldu höfðu tillögurétt.

Ef stjórnmálamenn þurfa líffverði á Íslandi, er okkur að mistakast. Er þetta þjóðfélagið sem við viljum? Er þetta framtíðin sem við þráum? Viljum við morð á ráðherra og valdarán á forsíður blaðanna í nánustu framtíð?

Þetta er ekki Íslandið sem ég ólt upp á og þetta er sannarlega ekki landið sem ég vil kalla mitt.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube