Browsed by
Category: Kosningar

Með eða á Móti?

Með eða á Móti?

Ég var spenntur fyrir forsetakosningunum. Kominn tími á nýja manneskju og nýja tíma. Fékk þó fljótt leið á baráttunni. Valið stóð um núverandi forseta með sínum kostum og göllum og einhverskonar Vigdísi. Enginn minntist á alla hina frambjóðendurna. Enda áttu þeir aldrei séns. Eða hvað? Það munum við aldrei vita, því fjölmiðlar brugðust hlutverkinu.

Svo er þetta allt komið út í neikvæðni og us versus them. Við klúðruðum baráttunni.

Ég nota Apple tölvur. Hef gert síðan 2004. Ef einhver vill vita af hverju, get ég svarað já eða nei. Verið jákvæður eða neikvæður. Sagt að Makkinn sé frábær tölva, eða verið neikvæður og sagt að Windows sé drasl. Hvort virkar betur?

Reynum að láta þessa síðustu viku fyrir kosningar vara á jákvæðu nótunum. Það er svo miklu skemmtilegra og uppbyggilegra. Og kjósum þann sem okkur þykir bestur, ekki einhvern sem á séns á að koma höggi á þann sem okkur þykir verstur.

 

Athugasemdir

Villi Asgeirsson 29.6.2012 kl. 17:24

Spurning með tvær umferðir. Þá væri fólk óhræddara við að kjósa MEÐ í fyrri umferð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 26.6.2012 kl. 09:04

Þetta var með réttu synd. En það má segja að þau hafi líka verið of  sein að koma fram.  En ef fjórða valdið hefði sinnt skyldum sínum, væru hinir frambjóðendurnir meira í umræðunni. 

Helga Kristjánsdóttir 25.6.2012 kl. 17:31 Ég pikka á Makka. Það er enginn vandi að kjósa á svona voveilegum tímum,þótt mér hugnist allir nema Ari Trausti. Jákvæð, þótt höggin hafi dunið á þjóðinni undanfarin 3og 1/2 ár og núverandi forseti borið þau af okkur.

Með ósk um gott gengi…

Með ósk um gott gengi…

Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með þessa ríkisstjórn. Hún hefur hingað til ekki staðið við stóru orðin. Gengdarlausar persónuárásir á þau fara þó hrikalega í taugarnar á mér.

Kosningar nú yrðu stórslys. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að grafa sínar skotgrafir og ynni sennilega stórsigur, þrátt fyrir að hafa siglt skútunni í strand fyrir þremur árum. Vonum að Jóhanna nái að klára sín mál svo að þjóðin geti átt möguleika á einhverskonar upprisu. Hægri stjórn nú væri ekkert annað en að fara aftur fyrir byrjunarreit.

Þó ég sé ekki stuðningsmaður þessarar stjórnar, óska ég þeim góðs gengis og vona að þau nái að klára sín mál.

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Óskráður 28.1.2012 kl. 12:07

Það vita allir sem eru með meðal gáfur að hrun peningamarkaða er ekki einum manni né einum flokki að kenna.

Flest öll lönd í heiminum ganga í gegn um hrun peningakerfis.

Villi Asgeirsson 28.1.2012 kl. 12:42

Mikið rétt, Birgir. Hrun er byggt inn í kerfið og engum einum um að kenna. Ég vil þó gefa Jóhönnu og co færi á að klára sín mál. Gefa þeim þetta ár. Það sem gerðist 2008 verður ekki lagað á korteri, svo það er allt í lagi að gefa þeim út kjörtímabilið. Kjósa svo eftir því hvernig gengið hefur, frekar en nú þegar verkið er rétt rúmlega hálfnað. Klúðri þau þessu ári, fá þau eflaust þá útreið sem þau eiga skilið.

Svo finnst mér Sjálfstæðisflokkurinn verði að taka til heima hjá sér. Þeir geta ekki teflt Bjarna Ben fram sem forsætisráðherraefni fyrr en vafningsmálið er komið á hreint.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 28.1.2012 kl. 14:54

Villi ég segi nú bara hvar eru þessi verk ríkisstjórnarinnar, hvar er Skjaldborgin?  Hvar eru öll atvinnutækifærin sem búið er að lofa núna í marga mánuði, hverjum er verið að bjarga?  ekki fólkinu sem er verið að bera út á götu nei það eru fjármálafyrirtæki og bankar sem fá niðurfellingu skulda.  Heimilin eru ekki einu sinni í upptalningu hennar um stærstu málin sem á að klára, fiskveiðistjórnunarkerfið, stjórnarskrármálið, esb umsóknin og rammaáætlun um auðlindir, svo sem þörf mál.  En er ekki brýnasta verkefnið í dag að aðstoða allar þær þúsundir heimila sem sjá ekki fram á að ná endum saman.  Þau eru ekki einu sinni á blaði.  Fyrir utan hún ætlar að klára á rúmu ári allt sem hún hefur EKKI gert á tveimur og hálfu ári. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur velkst um í stjórnsýslunni síðan stjórnin tók við, klúður. Stjórnarskrár nefndin kosning ógild, klúður. Esb innlimunin… þar sem eini flokkurinn sem vill þar inn er Samfylkingin. þetta er klúður. Ég get ekki dæmt um hvar rammaáætlunin er en samfylkingin vildi óð og uppvæg selja kínverskum erindreka stóran part af landinu okkar. Og eru ennþá í makki við hann hvernig hægt er að troða honum bakdyrameginn inn, magmamálið, hs orka allt klúður. KLÚÐUR er millinafn þessarar ríkisstjórnar. Ekki þar fyrir ég vil ekki fá Sjálfstæðisflokkinn aftur að völdum, en er ekki hægt að treysta íslendingum til að virða ný framboð? Og sleppa þessu liðið bara alveg út?

Villi Asgeirsson 28.1.2012 kl. 21:21

Ásthildur, ég er algerlega sammála þér. Ég gapi stundum af undrun yfir sofandahætti og trúgirni stjórnarinnar. Hvernig á ESB að leysa öll okkar vandamál? Hvernig getur það hjálpað okkur að selja gullgæsina, sem orkan er? Og svo framvegis.

Ég lifi bara í voninni að þau séu að vinna í góðri trú og að síðasta ár ríkisstjórnarinnar sé árið þar sem allt smellur saman. Ég veit að komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda nú, getum við strokað út síðustu þrjú ár. Ekkert mun breytast og bestu vinir aðal munu halda áfram að maka krókinn á kostnað almennings.

Ég treysti þjóðinni til að velja sér nýtt og betra fólk næst, en er hræddur um að komi kosningar of snemma, verði enginn tilbúinn í slaginn nema Sjálfstæðisflokkurinn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 28.1.2012 kl. 21:54

Villi minn þar greinir okkur á ég hef nefnilega ekki neina trú á að eitthvað smelli skyndilega saman í góðri trú, mikli heldur finn ég örvæntingarlykt af þessu öllu og að framlenga í snörunni eins lengi og hægt er.  En við skulum bara bíða og sjá.  Vonandi rætist úr þessu öllu.

Villi Asgeirsson 29.1.2012 kl. 16:34

Veit ekki hvað okkur greinir mikið á. Þetta er kannski frekar von en trú hjá mér. Von um að þau vinni af heilindum og að það sé frekar getan en innrætið sem er vandamálið. En sjáum til…

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 29.1.2012 kl. 16:40

Já við skulum sjá til.

Dýr og Tré

Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert… á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 24.1.2012 kl. 16:13

Flottur pistill hjá þér Villi, algjörlega sammála, af hverju erum við dauðfrosin og allof margir sem kjósa sófan fram yfir batáttuna, eru ekki einu sinni að tjá sig þar sem það er þó hægt … ennþá,

Villi Asgeirsson 25.1.2012 kl. 09:41

Takk fyrir það!

Ég skil ekki af hverju fólk gerir ekkert. Þreyta og vonleysi, geri ég ráð fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 25.1.2012 kl. 14:11

Já eitthvað svoleiðis og svo skammdegisdoði.

5%

5%

Ekkert nema gott um það að segja að fólk stofni stjórmnálaflokka. Ekki eru þeir gömlu að virka. En það er hængur á. Því fleiri smáframboð sem koma fram, því tvístraðri verða atkvæðin. Allt sem nær ekki fimm prósentum er dæmt úr leik og það er gott fyrir fjórflokkinn.

Ég óska aðstandendum Öldu til hamingju og vona að þau nái allavega fimm prósenta fylgi.

Athugasemdir af Moggablogginu:

Guðni Karl Harðarson 21.1.2012 kl. 11:41

Ert þú ekki eitthvað að misskilja?

Lýðræðisfélagið Alda er ekki að fara að stjórna flokk til framboðs. Heldur aðeins að koma með vandlega unnar tillögur um hvernig lýðræðisflokkar geti starfað. Síðan er öllum nýjum stjórnmálaöflum frjálst að nota tillögur Öldu.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 11:42

Jú, misskildi það all hrapalega. Takk fyrir ábendinguna.

Rakel Sigurgeirsdóttir 22.1.2012 kl. 05:51

Vonin var sú að allir sem hygðu á framboð kæmu á þennan fund. Það virkaði e.t.v. að einhverju leyti en þingmennirnir sem eru byrjaðir að undirbúa minni framboð bæði ljóst og leynt létu ekki sjá sig. Það voru vonbrigði en hins vegar eru tillögur Öldu: Félags um sjálfbærni og lýðræði mjög góðar.

Þú getur lesið tillögur Öldu hér. Svo langar mig til að benda þér á það sem er að gerast í grasrótinni heima á Íslandi hér.  Það er rétt að taka það fram að heimasíða Grasrótarmiðstöðvarinnar er í smíðum.

Villi Asgeirsson 22.1.2012 kl. 07:57

Takk fyrir linkana, Rakel. Les þá í kvöld þegar hægist um.

Guðni Karl Harðarson 23.1.2012 kl. 09:18

Já flott að fá linkana! Ég hefði átt að láta þá fylgja með en satt best að segja gleymdi því.

Villi Asgeirsson 23.1.2012 kl. 09:36

Mér synist allt stefna í að sjálfstæðismenn muni reyna að knýja fram kosningar sem fyrst. Þeir þola ekki að vera í stjórnarandstöðu og vita að þeir einir eru tilbúnir með skotgrafirnar. Ef litlu framboðin ná að búa til sterkt mótvægi, getum við átt möguleika á að fá heiðarlegt fólk inn á þing.

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube