Leitin að betra samfélagi.

Leitin að betra samfélagi.

Frá örófi alda hefur mannskepnan reynt að búa til betra samfélag. Við höfum velt fyrir okkur hugmyndum um heiminn, stjórnarfar og tækniframfarir. Við höfum gert okkar besta til að skilja og bæta heiminn. Stundum mistekst okkur og við förum afturabak, stundum heppnast vel til og við lifum í heimi framfara.

Í dag mun enn eitt framboðið líta dagsins ljós. Hvernig eigum við að geta valið í næstu kosningum, ef listinn er lengri en lagarfljótsormurinn? Svarið er tiltölulega einfalt. Það er ekki nóg af framboðum. Ef vel hefði verið á málum haldið, hefði persónukjör verið komið í lög og listinn því verið enn lengri. Eins og málin standa, erum við enn föst með flokka. Við veljum ekki blandið sem fer í pokann. Við veljum þann forpakkaða poka sem okkur lýst best á. Með nýrri stjórnarskrá breytist þetta vonandi.

Með þessu nýja framboði bæstist ekki við fjöldann. Þetta framboð inniheldur Hreyfinguna, sem er með menn á þingi. Það inniheldur Borgarahreyfinguna sem sennilega hefði boðið fram, sem og Frjálslynda Flokkinn. Það hefur því í raun fækkað um tvo lista á næsta kjörseðli. Þetta framboð er líka skemmtilegt að því leyti að það reyðir sig ekki á sterkan foringja. Hver manneskja hefur jafnan tilveru- og tillögurétt. Sé einn meðlimur ósammála öðrum, er það í fínu lagi. Verði þeir báðir á þingi og kjósi þeir ekki eins, er það þeirra réttur. Þeir mega og eiga að fylgja eigin samvisku.

Komandi kosningar munu snúast um ESB, banka,nýja stjórnarskrá og frelsi.
– Eigum við að ganga í ESB? Ég sé enga ástæðu til þess. Mér líkar vel við ESB, bý í því, en sé ekki hvað íslendingar væru að fá út úr aðild. Við þurfum fyrst að taka til heima hja okkur og sjá hvert ESB er að fara. Ég held að allir flokkar verði að hafa skýra stefnu í ESB málum, vilji þeir fá einhver atkvæði.
– Bankarnir fóru á hausinn og drógu okkur með sér. Þeir voru þjóðnýttir og seldir aftur. Nú skila þeir gríðarlegum hagnaði, sem fer nær óskiptur úr landi. Við klúðruðum góðærinu og við klúðruðum hruninu. Ef við tökum okkur ekki á, lærum af mistökunum og förum að lifa á því sem landið gefur, fáum við annað hrun yfir okkur. Við getum talað um festu, ábyrgð eða hvað það var sem Sjálfstæðisflokkurinn sagði korteri fyrir hrun. Við sáum hverju tóm loforð skiluðu okkur. Það sem við þurfum er fólk sem hefur vit á málunum og samvisku sem lætur sig þjóðina varða.
–  Auðlindirnar eru okkar og þær verða að halda áfram að vera okkar. Án fisksins, hreina vatnsins og jarðvarmans, erum við ekkert. Eigum við ekkert. Við megum ekki selja gullgæsina því hún gefur aðeins meira af sér en gulleggin. Við höfum búið í þessu landi í 1100 ár. Við erum ekkert á förum, er það? Við getum nefninlega haft það fínt, en þá verðum við að nýta auðlindirnar sem landið býður upp á. Nýta þær skynsamlega, í þágu þjóðarinnar. Við verðum að hætta að vera skammsýn. Horfum fram á veginn.
– Ef við klúðrum hruninu, ef við náum okkur ekki á strik núna, þá fáum við IMF aftur inn á rúmstokk. Handrukkarinn kemur aftur og bankar uppá. Við megum ekki leyfa því að gerast.

Mannskepnan hefur reynt að byggja upp betra samfélag allt frá því hún fór að kúra í hellum og nota einföld verkfæri. Við höfum reynt að skilja umheiminn, útskyra hvernig hann varð til, hvað hann er. Við erum enn ekki viss, en við höldum leitinni áfram. Í upphafi var frelsið. Fólk vafraði um slétturnar, leitandi að berjum, hnetum og dýrum sem hægt væri að éta. Án frelsis til að nýta hugvitið hefðum við aldrei komist eins langt og við höfum gert. Sé einstaklingnum leyft að vera hann sjálfur, blómstrar hann. Við fundum upp verkfæri, beisluðum eldinn, bjuggum til samfélög, fórum til tunglsins. En við brenndum líka heilu bókasöfnin, jöfnuðum borgir við jörðu, bönnuðum hugmyndir því þær pössuðu ekki við okkar heimsmynd.

Komandi ár verða ár átaka. Annars vegar eru öfl sem vilja hneppa fólk í skuldafangelsi, koma fjármagni á fáar hendur. Öfl sem vilja hefta frelsi á netinu, kynfrelsi, trúfrelsi. Það vill byggja samfélag sem er njörvað niður, fer eftir ströngum reglum. Reglum sem í mörgum tilfellum hefta hugvit og þoka okkur afturábak.

Hins vegar getum við lagt niður verðtrygginguna, eitthvað sem hæglega hefði mátt gera af hverjum sem sat í ríkisstjórn síðustu tuttugu árin. Án skulda erum við frjáls, hneppt í fjötra verðtryggingarinnar erum við fangar. Vandamál heimsins er ekki offjölgun, heldur misjöfn skipti gæðanna. Það er nóg fyrir alla. Netið hefur verið tiltölulega frjálst. Hver sem er getur sett efni á netið og eina ritskoðunin er gleymskan og að hverfa í fjöldann.

Of margar og strangar reglur hefta einstaklinginn. Ég sé ekki hvernig einn hópur fólks getur tekið sér leyfi til að segja öðrum hópi fyrir verkum. Við erum öll viti bornar verur og okkur líður best þegar við getum verið við sjálf.

Öll dýrin eru jöfn. Ekkert dýr er jafnara en annað.

Ég óska hinu nýja framboði til hamingju og óska þeim velfarnaðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube