Browsed by
Month: júní 2012

Kjósum með, ekki á móti.

Kjósum með, ekki á móti.

Nú er að kjósa. Ef þú vilt ekki Ólaf áfram, er bara ein leið. Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti Nýja Íslandi. Þá styður þú hið gamla, með allri sinni spillingu.

Þetta er einföldun sem oft er slegið fram þegar þarf að hópa fólki um viss málefni. Virkar líka oft. En þetta er meingölluð hugmyndafræði sem elur á ótta. Ef við viljum nýtt Ísland, ef við viljum breytingar, verðum við að hætta að vera hrædd. Það er nefninlega svo auðvelt að stjórna þeim sem hræðast.

Það eru sex frambjóðendur á kjörseðlinum. Ekki tveir. Sex valkostir, með sínum kostum og göllum. Við höfum heyrt þau og séð, vitum nokkurn veginn hvað þau vilja gera verði þau kosin. Það er okkar að móðga ekki lýðræðið og kjósa þann frambjóðanda sem við viljum sjá á Bessastöðum. Ekki kjósa á móti þeim sem við viljum ekki, heldur velja þann sem við viljum. Segja já, ekki nei.

Það tók mig töluverðan tíma að ákveða mig, en ég hef ákveðið að Andrea er minn frambjóðandi. Hún er ekki hrædd við að nýta embættið til að hjálpa heimilunum í landinu. Hún er ekki hrædd við að slá á puttana á ráðherrum sem eru ekki að standa sig. Hún er ekki hrædd við að vera í beinu sambandi við stjórnvöld og setja fram tillögur ef þjóðin fer fram á það. Hún yrði virkur forseti, og það er nákvæmlega það sem við þurfum á komandi árum. Forseti sem er með fingurinn á púlsinum og veitir Alþingi aðhald. Forseti sem lætur sig afkomu og hamingju þjóðarinnar varða. Forseti sem tekur fólkið í landinu fram yfir fjármagnsöflin.

Ég er ekki að kjósa Ólaf með því að velja Andreu. Ég er heldur ekki að kjósa Þóru með því að kjósa ekki Ólaf. Ég er að kjósa jákvæðar breytingar.

 

Athugasemdir

Einar Karl 30.6.2012 kl. 07:41
Þetta er „einmennings“-kosning, með einfaldri umferð, þar sem aðeins einn frambjóðandi er valinn. Það skiptir því ekki máli fyrir eiginlega niðurstöðu hver verður í öðru sæti eða þriðja sæti.

Auðvitað væri það að flestu leyti betra að hafa tvær umferðir.

Ég virði þína ákvörðun að sjálfsögðu. En hver og einn kjósandi ákveður einn og sjálfur hvaða forsendur HANN telur mikilvægastar, og hvernig hann beitir sínu atkvæði til að það hafi þau áhrif sem HANN telur mikilvægust.

Til hamingju með daginn!

http://blogg.smugan.is/einarkarl/2012/06/30/eg-raed-minu-atkvaedi/

Kolbrún Hilmars 29.6.2012 kl. 18:09

Nei, Villi – ekki tvær umferðir. Ég er búin að fá upp í kok af skítkastinu í þessari umferð og kýs ekkert frekar en að þessu fári ljúki á sunnudaginn kemur.

Reyndar var ég að hlusta á síðustu sólarhringskönnun fyrir kjördag á visir.is/bylgjan.is þar sem Ólafur mælist nú með 59% og aðeins 3% eru óákveðin. Ef sú spá stenst þarf hvort sem er ekki aðra umferð.

Það yrði kærkomið!

Villi Asgeirsson 29.6.2012 kl. 17:35

Takk fyrir það. Held að tvær umferðir myndu hjálpa til. Tveir síðustu forsetar voru kosnir með töluverðum minnihluta atkvæða. Vigdís 33% og Ólafur 41%, ef ég man rétt.

Svo held ég að fólk myndi þora að velja þann sem því þykir bestur í fyrri umferð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 29.6.2012 kl. 16:43

Flottur ertu, mikið er ég sammála þér um Andreu.  Að vísu hef ég ákveðið fyrir löngu síðan að veita Ólafi Ragnari mitt atkvæði, en ég var ein af þeim sem skrifaði undir áskorun til hans.  En ég verð að segja að Andrea hefur komið virkilega á óvart og ef hún verður í framboði 2016 mun hún að öllum líkindum fá mitt atkvæði.  Ég er líka sammál  þér í því að það er óhugnanlegt hvernig haldið hefur verið á málum í fjölmiðlum og tveimur.. aðallega einni hampað á kostnað annara frambjóðenda.  Auðvitað á fólk að kjósa þann aðila sem hann  treystir best, en ekki kjósa einhvern til að annar komist ekki að.  Það er bara fáránlegt og illa hugsað.

Með eða á Móti?

Með eða á Móti?

Ég var spenntur fyrir forsetakosningunum. Kominn tími á nýja manneskju og nýja tíma. Fékk þó fljótt leið á baráttunni. Valið stóð um núverandi forseta með sínum kostum og göllum og einhverskonar Vigdísi. Enginn minntist á alla hina frambjóðendurna. Enda áttu þeir aldrei séns. Eða hvað? Það munum við aldrei vita, því fjölmiðlar brugðust hlutverkinu.

Svo er þetta allt komið út í neikvæðni og us versus them. Við klúðruðum baráttunni.

Ég nota Apple tölvur. Hef gert síðan 2004. Ef einhver vill vita af hverju, get ég svarað já eða nei. Verið jákvæður eða neikvæður. Sagt að Makkinn sé frábær tölva, eða verið neikvæður og sagt að Windows sé drasl. Hvort virkar betur?

Reynum að láta þessa síðustu viku fyrir kosningar vara á jákvæðu nótunum. Það er svo miklu skemmtilegra og uppbyggilegra. Og kjósum þann sem okkur þykir bestur, ekki einhvern sem á séns á að koma höggi á þann sem okkur þykir verstur.

 

Athugasemdir

Villi Asgeirsson 29.6.2012 kl. 17:24

Spurning með tvær umferðir. Þá væri fólk óhræddara við að kjósa MEÐ í fyrri umferð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 26.6.2012 kl. 09:04

Þetta var með réttu synd. En það má segja að þau hafi líka verið of  sein að koma fram.  En ef fjórða valdið hefði sinnt skyldum sínum, væru hinir frambjóðendurnir meira í umræðunni. 

Helga Kristjánsdóttir 25.6.2012 kl. 17:31 Ég pikka á Makka. Það er enginn vandi að kjósa á svona voveilegum tímum,þótt mér hugnist allir nema Ari Trausti. Jákvæð, þótt höggin hafi dunið á þjóðinni undanfarin 3og 1/2 ár og núverandi forseti borið þau af okkur.

Svarthvítur Heimur

Svarthvítur Heimur

Hvaða svarthvíta bull er þetta. Einu atkvæðin sem sóað er, eru auð og þau sem gefin eru frambjóðendum sem fólk stendur ekki á bakvið. Ég mun hvorki kjósa Ólaf né Þóru, en er ekki að fatta þessa heift um allt þjóðfélagið. Takið þessu rólega og kjósið þann frambjóðanda sem þið viljið sjá á Bessastöðum. Ég er EKKI að kjósa Ólaf með því að kjósa einhvern annan en Þóru. Voðalega barnalegur, þessi Bush hugsanaháttur. You’re with us or you’re with the terrorists. Heimurinn er ekki svarthvítur.

Mjálm

Mjálm

Kæru íslendingar. Það er mér kært að sjá að þið hafið ákveðið að eyða tíma ykkar í að mjálma fram og til baka um meintar nauðganir símaskráarmódela. Það er gaman að sjá að þið hafið tíma til að velta fyrir ykkur hvort…

Ég er viss um að það var rosalega gott pistilsefni í þessu máli, en ég sé það ekki fyrir mér. Puttarnir pikka hægar en hausinn á mér hugsar. Þetta mál er horfið úr huga mínum.

Jæja, þá er bara að velja sér forsetaefni. Allavega myndi ég gera það ef ég mætti kjósa. En ég má það ekki, því ég hef búið erlendis of lengi. Má ekki kjósa heima, má ekki kjósa hér í Niðurlandi. Ég er ekkert.

En nú er þessi pistill, sem átti að vera um flöff og dægurmjálm, að breytast í pólitískt tuð. Það var ekki ætlunin.

Spurning með að…

Nei! Nú er öskrað allt í kringum mig. Ég geri ráð fyrir að Holland hafi skorað. Heimur batnandi fer.

Eða þannig.

Allavega, til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Er ekki að komast skriður á tíbetssyndróminn okkar? Er búið að redda Núpó fjármagni?

Rætur

Rætur

Það getur verið auðvelt að týna rótunum, sérstaklega þegar maður býr erlendis. Raddir forfeðranna eru eins og veikt bergmál á meðan fréttir af stríðsátökum og slæmum efnahag yfirgnæfa allt. Við höfum svo mikið að gera, við erum svo upptekin við að lifa mánuðinn af að allt annað gleymist.

Ég var að leita af skjali í tölvunni. Nú þegar fyrsta skáldsagan mín er svo gott sem tilbúin, vildi ég kíkja á gamla hugmynd sem ég var að leika mér með fyrir nokkrum árum. Ég veit að sú saga er ekki upp á marga fiska, en ef ég man rétt eru einhverjir punktar í henni sem hægt er að vinna úr og gera skemmtilega. Skjalið fann ég ekki. Hef sennilega sett það á einhvern af mínum fimm þúsund flökkurum, en ég rakst á eitthvað annað og enn áhugaverðara.

Afi skrifaði bréf til frænda síns fyrir tíu árum síðan. Þar talar hann um langafa sinn, Markús Jónsson frá Meðallandi. Samkvæmt Sigurbirni biskupi á sá aldrei að hafa blótað, en notaði frekar því litríkara mál. Hér er dæmi um það. Hann hafði farið í heimsókn til dóttur sinnar (langömmu minnar) og tengdasonar. Spurður um aðkomuna, hafði hann þetta að segja:

Konan: “Hvernig lýst þér nú á þennan flutning þeirra þarna úteftir?”
Markús: “Það er nú eins og þú , blessaður auminginn þinn (ath. gæluorð í Meðallandi) værir dregin á hárinu norður fyrir fjöll, já, norður fyrir öll Einhyrningsfjöll og sæir þar aungva kvika skepnu nema nokkra kjóa, og þá alla vælandi.”
Konan: “Já er það svo, varla er það gott. En hvernig eru nú húsin þarna í Neðridal?”
Markús: “Nú, það er nú eins og þú færir hérna austur í mýri og fynndir þar aumustu hundaþúfuna, holaðir hana innan og færir að búa þar, svo kæmi allt hundastóðið í sveitinni og migi á þúfuna og það læki allt inn.”

Bréfið hans afa er langt og hann hálfpartinn biðst afsökunar á því. Mín vegna hefði það þó mátt vera tíu sinnum lengra, því það gefur fólki sem lifir rúmum 100 árum seinna skemmtilega sýn inn í heim íslendinga í lok nítjándu aldar. Án heimilda eins og bréfsins, væri Markús og hans samferðarfólk sennilega mikið til gleymt.

Ég sé oft eftir að hafa ekki hlustað betur á langafa þegar hann sagði sögur af skipum sem strönduðu og mannlífinu í upphafi tuttugustu aldar. Ég hef oft sparkað í sjálfan mig fyrir að hafa ekki eytt meiri tíma með afa á meðan ég hafði tækifæri til. Ég hugsa stundum til nafna míns á Hnausum sem enn er á lífi, og sagnanna sem hann einn þekkir og getur enn sagt. Ég veit að við erum að falla á tíma. Veit að ég ætti að pakka saman og fara heim. Eyða nokkrum vikum með honum og skrá sögur sveitarinnar okkar.

En skyldan kallar. Ég þarf að fara að elda. Vinna snemma í fyrramálið. Á eiginlega að vera að klippa mynd. Ég hef ekki tíma til að bjarga því sem bjargað verður.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube