Vegurinn Heim (ég er pírati)

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Fyrir 23 árum steig ég upp í flugvél og hvarf á braut ævintýranna. Bláeygði íslendingurinn fór til London í nám. Ég lærði hratt. Ekki bara námsefnið, heldur um lífið. Ég skildi óttann við hin óþekkta eftir einhvers staðar á leiðinni. Heimsborgin, þar sem ég þekkti engan, var allt annar heimur en tiltölulega litla borgin við íshafið, þar sem fjölskyldan og vinirnir bjuggu. Ég steig inn í annan heim allt breyttist. Fjórum árum síðar var ég fluttur til Hollands, þar sem ég bý enn.

Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi spurt hvað þessi hálf-útlenski flóttamaður sé að tjá sig um málefni á Íslandi? Hvað kemur honum við hvar er virkjað, hver vaxtaprósenta á húsnæðislánum er, hver lágmarkslaun eru, hver er í ríkisstjórn og hver situr á Bessastöðum? Maðurinn hefur ekki búið á landinu í aldarfjórðung og honum kemur þetta ekkert við.

Það er gamall sannleikur að íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim. Sumir koma fyrir lokin, aðrir ekki. En allir eru þeir á leiðinni heim, með hugann heima eða með rætur á Íslandi. Landið okkar, móðurjörðin, föðurlandið, sleppir aldrei alveg takinu. Rétti tíminn til heimferðar hefur þó ekki komið enn. Mér líkaði aldrei byggingakranaæðið fyrir hrun, þótt ég hafi komið heim og gert alíslenska kvikmynd á þessum árum. Þegar ég skrifaði mína fyrstu skáldsögu, gerðist hún á Íslandi. Hrunið skapaði tækifæri til að hugsa smafélagið upp á nýtt og þó mig hafi langað að koma heim og taka þátt í því, var lífið ekki á því að leyfa mér það á þeim tímapunkti. Ég var með barn sem þjáðist af athyglisbresti, konan í góðri vinnu, ég í fastri vinnu. Tíminn var ekki kominn.

Það er samt pínulítið þannig að tíminn kemur aldrei. Tækifærin hoppa ekki í fangið á manni. Það er enginn leiðarvísir, ekkert kort.

Þegar ég skrifa þetta, á miðvikudagsmorgni, er ég að bíða eftir flugvél sem mun bera mig heim. Hún er sein, tafirnar um tvær klukkustundir. Hefur eitthvað með verkföll á Íslandi að gera. Því allt er enn ekki orðið gott þar. En hvað um það, ég bíð þolinmóður.

Píratahönd
Píratahönd

Ég er ekki að koma til að heimsækja fjölskylduna. Afarnir og ömmurnar eru flest farin. Það er tómlegt á Íslandi. Nei, ég er að fara í flug til að geta tekið þátt í aðalfundi Pírata um helgina. Þar sé ég von um betri framtíð, tækifærið til að koma heim.

Við vorum í sumarfríi á Íslandi fyrir þremur árum. Strákurinn var að leika sér með risastóra taflmenn í Fossatúni í Borgarfirði á sólríku sumarkvöldi þegar konan sagði það. „Eigum við að flytja til Íslands?“ Ef ekki hefði verið fyrir góða tannlæknaþjónustu í Hollandi, hefði ég verið kominn með falskar og ég er viss um að ég hefði misst þær út úr mér. Svo hissa var ég. Ég hef búið í þremur löndum og gæti flutt til Buthan ef þannig bæri undir, en hún er ekki fyrir að umturna öllu. Þetta kom því á óvart.

Við fórum að skoða möguleikana. Suðurlandið, Selfoss, heimaslóðir afa og ömmu, þótt þau séu farin. Við fundum lóðir, ég hannaði hús, en eitthvað hélt í okkur. Var það verðtryggingin? Augljós spillinginn sem vall út um öll göt í samfélaginu? Það var eitthvað, svo nú, þremur árum seinna, erum við enn í Hollandi. Okkur langar, en þorum við? Okkur líður ágætlega í Hollandi, hér eru vextir lágir, verðlag stöðugt, við erum bæði í vinnu, strákurinn í góðum skóla. Það er miklu að tapa, en hver er ávinningurinn við að flytja heim?

Fjölskyldan spilar stórt hlutverk. Þótt afarnir og ömmurnar séu flest farin, eigum við aðra ættingja, vini og allskonar fólk sem okkur er kært um. Landið er fallegt, loftið er hreint, maturinn er hollur, fólkið er skemmtilegt. Ísland er land mitt og mér kemur það við, langar að koma heim. En það er ennþá verðtrygging, spilling, möppudýrahelvíti.

En það þarf ekkert að vera þannig. Ég hef fylgst með Pírötum síðan þeir hófu sín störf, hef verið meðlimur lengst af og hef tekið þátt í málefnastarfi og umræðum, eins mikið og hægt er á netinu. Píratar vilja tryggja að allar auðlindir verði alltaf í almenningseigu, að rétt verð fáist fyrir nýtingu þeirra, að heilbrigðiskerfið verði endurbyggt, að gamla fólkið geti lifað af laununum sínum, að allir hafi sömu tækifæri, að verðtrygging og vaxtaokur hverfi, að náttúruperlur verði friðaðar. Píratar eru ljós í myrkrinu. Hrunið var eins og heimatilbúinn ísjaki sem fæstir sáu, hann gerði sitt með skarkala og látum. Skipið sökk næstum því, en það náðist að halda flakinu á floti og nú siglir það aftur með reisn. Ekki af því það var lagað, heldur vegna þess að nú er holskefla í ferðamannaiðnaðinum. Við eigum ennþá eftir að laga skipið svo að siglingin verði ánægjuleg fyrir alla og svo það standi af sér storma framtíðarinnar. Píratar hafa sýn og þeim er ekki sama um landið og fólkið sem í því býr.

Ísland getur verið fyrirmyndarsamfélag ef okkur langar til að gera það þannig. Framtíðin er óskrifað blað og það er undir okkur komið hvert við viljum fara. Óttinn er versti óvinurinn, hæsti þröskuldurinn. Hendum honum út í hafsauga og sköpum samfélagið sem við eigum skilið.

Þess vegna sit ég hér og bíð eftir flugvélinni. Það er von, það er komin sýn á betri framtíð og mig langar til að taka átt í að skapa hana.

Sjáumst um helgina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube