Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Gatan okkar í Halfweg, mitt á milli Amsterdam og Haarlem í Hollandi er týpískt skipulagsslys. Öðru megin eru fallegu húsin, byggð fyrir stríð. Okkar hús var byggt 1939 og hin um svipað leyti. Hinumegin eru skrípi byggð kringum 1985. Þau eru ekki ljót, þannig lagað, en þau passa ekki við gömlu húsin.

Hvað um það, gatan er stutt og tiltölulega róleg. Hér er lítil umferð, ef flugvélarnar eru undanskildar. Eitt það fallegasta við götumyndina eru trén sem blómstra á hverju vori.  En blómin eru ekki óumdeild.

Húsið okkar í HalfwegFyrir nokkrum árum datt bréf inn um lúguna. Bæjarstjórnin hafði látið gera úttekt á trjánum og komið hafði í ljós að þau væru sýkt og þyrftu að fara. Búið var að plana dæmið frá upphafi til enda. Einhvað fyrirtæki hafði verið ráðið til að planta nýjum trjám.

Við könnuðumst ekkert við að trén væru veikluleg og fórum fram á að sjá skýrsluna. Þá kom í ljós að sama fyrirtæki og átti að planta nýju trjánum hafði gert úttektina. Þetta fyrirtæki var tengt einhverjum á bæjarskrifstofunum. Þetta líkaði okkur ekki, og fórum því fram á að hlutlaus aðili gerði úttektina. Því var upphaflega neitað.

Þegar deilumál koma upp, er utanaðkomandi aðili fenginn til að skerast í leikinn. Þetta var dómari frá Amsterdam með engin tengsl í Halfweg. Hann var sammála okkur og fór fram á að ný úttekt yrði gerð. Þegar hún lá fyrir, kom í ljós að 2-3 tré voru sýkt, en restin heilbrigð.

Við settumst niður á bæjarskrifstofunum, ég, konan og  yndislegu,  gömlu dýralæknishjónin sem búa í sömu götu. Dómarinn frá Amsterdam var þarna, bæjarstjórinn okkar og einhver á vegum bæjarins. Við settum fram okkar rök, töluðum um hagsmunaárekstra og heilbrigð tré, götumynd sem yrði fátæklegri með hríslum í stað gamalla trjáa.

Bæjarstjórnin kom svo með sín rök. Man ekki nákvæmlega hver þau voru, en það var greinilegt að dómaranum fannst þau ekki merkileg. Hann virtist pirraður og fannst þetta mál greinilega vera tímasóun. Þegar bæjarfulltrúinn var búinn, spurði dómarinn, er þetta allt sem þú hefur að segja?
– Ha, já.
– Þetta eru rökin?
– Já.
– Þú hefur engu við þetta að bæta? Hver var ástæðan fyrir því að trén áttu að fara?
– Ja, sko, þau blómstra á vorin og það er svo mikill úrgangur, göturnar fyllast af blöðum og þegar rignir verður þetta svo ljótt.
– Ég skil. En hvað með að halda því fram að þau væru sýkt?
– Þau eru það.
– Flest eru heilbrigð.
– En ekki öll. Þau geta smitast.
– Af hverju var úttektin gerð af verktakanum og af hverju var þetta ekki boðið út?

Þá var lítið um svör.

Við og dýralæknishjónin litum á hvort annað. Við vorum búin að vinna. Dómarinn sagði bæjarstjóranum að endilega fjarlægja þessi 2-3 tré og planta svo sömu tegund í staðinn, en láta restina í friði.

Tré í HalfwegTrén standa því enn. Á hverju vori blómstra þau og hressa upp á götumyndina. Heimurinn verður fölbleikur og yndislegur.

Ég lærði tvennt á þessu máli.

1. Opinberir aðilar geta verið alveg jafn vitlausir og við og geta farið með sömu rökleysu og hver annar. Að vera yfirveld þýður ekki sjálfkrafa að þú getir gert hvað sem þér sýnist.

2. Með samstöðu og borgaralegri óhlýðni, getur maður haft áhrif á heiminn og samfélagið.

Gleðilegt sumar og megi framtíðin vera fölbleik og hlý!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube