Borgaralaun

Borgaralaun

Undanfarið hef ég mikið verið að velta borgaralaunum fyrir mér. Hugmyndin er að allir fái skilyrðislausa grunnframfærslu frá ríkinu. Hvað uphæðin þyrfti að vera há þarf að skoða, en sennilega ekki undir 200.000 krónum á mánuði. Borgaralaunin þurfa að duga fyrir helstu nauðsynjum, en ekki meira. Ef fólk þarf meiri pening, vill komast í utanlandsferðir, kaupa nýrri bíl eða stærra hús, vinnur það með.

Stærsta spurningin er auðvitað hvernig á að fjármagna borgaralaun. Þeir sem mest hafa velt þessu fyrir sér mæla með að tekjuskattur hverfi alveg, en virðisaukaskattur verið hækkaður í 100%. Þetta á ekki að hafa áhrif á verðlag, þar sem allur falinn skattur sem nú er innifalinn í vöruverði hverfur. Auðlindir verða þjóðnýttar, eða skattlagðar þannig að þjóðin njóti góðs af. Velferðarkerfið, og allur kostnaður sem því fylgir,  hverfur. Öll vinna við eftirlit með velferðarkerfinu, skattsvikum og fleira verður óþörf, og þar sparast milljarðar. Þar sem eftirlit verður minna, eða ekkert, má gera ráð fyrir að einkalíf fólks verði betur varið.

Töluverð vinna þarf að fara í að hugsa kerfið upp á nýtt, ef við höfum áhuga á að skoða þessa leið. Það er þó vel þess virði, því kostirnir eru margir. Hér fyrir neðan eru nokkrir.

  • Fólk er fólk, ekki öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir. Með því að útrýma stimplum, gefum við fólki tækifæri til að byggja upp sjálfstraustið sem það þarf til að skapa sér tækifæri. Enginn er „aumingi“ eða annars flokks þegn.
  • Við getum hætt að setja milljarða í misheppnaðar tilraunir til að halda fólki á landsbyggðinni. Fólk er ekki háð atvinnutækifærum og hefur því möguleika á að búa hvar sem það vill. Það getur notfært sér lægra fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins. Búseta mun jafnast sjálfkrafa.
  • Fátækt heyrir, að mestu leyti, sögunni til.
  • Fólk sem frekar vill skapa list og annað, hefur tækifæri til þess. Menning mun blómstra og almenn hamingja aukast.
  • Fólk sem velur að vinna fyrir vinnuveitanda gerir það af því það langar til þess og verður því ánægðara í vinnunni, sem þýðir betri afköst.
  • Þar sem atvinna er ekki nauðsyn, og fólk hefur efni á að neita vinnu, munu laun líklega hækka.
  • Flestir fátækratengdir glæpir munu hverfa, og þar með gera samfélagið öruggara.
  • Tilraunaverkefni með borgaralaun hafa sýnt að yfir 90% kjósa að vinna, annað hvort sjálfstætt eða í launaðri vinnu, og framleiðni eykst í samfélaginu.
  • Foreldrar hafa möguleika á að vinna minna og sinna börnunum betur, sem þýðir að framtíðarkynslóðir verða sennilega heilsteyptari og hamingjusamari.
  • Hamingjusamt fólk sem vinnur eins og því hentar er heilsuhraustara, og því sparast töluverðar fjáræðir í lyfjakostnaði og heilbrigðiskerfinu.

Það er erfitt að segja til um hvort borgaralaun séu raunhæf lausn eða ekki, en það er vel þess virði að skoða málið og reikna dæmið. Sérstaklega þegar haft er í huga að störfum mun fækka töluvert vegna tækniframfara á næstu árum. Fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í umræðunni er velkomið í hópinn á Facebook.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube