Um ómöguleika haustkosninga

Um ómöguleika haustkosninga

„Löglegt en siðlaust.“ Þetta er setning sem Vilmundur Gylfason gerði fræga fyrir um það bil 35 árum. Ekkert hefur breyst síðan þá.

Þingmenn og ráðherrar hafa verið staðnir að því að fela peninga í skattaskjólum. Ég segi fela, því þeir tóku ekki fram að þeir ættu peninga í skattaskjólunum, þrátt fyrir skýrar reglur um að slíkt eigi að gera. Þeir virðast ekki hafa brotið nein lög, en flestum ber saman um að meiriháttar siðrof hafi orðið.

Í stað þess að axla ábyrgð og segja af sér, að minnsta kosti tímabundið, þráuðust ráðherrarnir við og sögðust engin lög hafa brotið. Þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi setið beggja vegna borðsins í umræðum um afnám hafta, sá hann ekki ástæðu til að hugsa sinn gang fyrr en staða hans var orðin vonlaus. Fjármálaráðherra hefur enn ekki viðurkennt að hafa gert neitt rangt.

Þjóðin öskrar á kosningar núna, en stjórnarliðið lætur eins og það heyri ekkert. Gulrót er slengt í andlit kjósenda og gefið í skyn að kosningar verði í haust. En bara ef stjórnarandstaðan er ekki með stæla.

Hvers vegna er þeim svona mikið um að ríghalda í völdin? Kenningar eru um að það eigi eftir að einkavæða ríkisfyrirtæki og að þau verði að komast í rétta vasa. Það vakti athygli að strax eftir að „nýja“ stjórnin var komin á koppinn, sögðu fjölmiðlar frá því að nauðsynlegt þætti að breyta eignarhaldi á Landsneti. Hver fær Landsnet? Hvað er næst?

Ómöguleikinn við að halda kosningar í haust eru fjárlögin. Þetta veit Bjarni Ben og hann virðist ætla að notfæra sér þau í einhverri pólitískri refskák. Því hann sér stjórnmál sem leik þar sem takmarkið er að hnekkja á andstæðingnum og koma sjálfum sér í betri stöðu. Hann virðist ekki skilja að stjórnmál snúast um að búa til og viðhalda sómasamlegu samfélagi fyrir alla þegna landsins.

KlækirEn hvenær er hægt að halda kosningar? Fjárlög ber að leggja fram annan þriðjudag í september. Þá eru þau rædd og kosið um þau fyrir áramót. Hvenær sér hann fyrir sér að kosningar eigi að vera? Í miðjum umræðunum um fjárlögin? Rétt áður en þau eru lögð fram, svo að hann geti ákveðið stefnu nýrrar ríkisstjórnar? Er honum treystandi til að ganga þannig frá þeim að ný stjórn lendi ekki í stórkostlegum vandræðum? Maðurinn stundar klækjastjórnmál, svo honum er alls ekki treystandi til að leggja fram fjárlög sem pólitískir andstæðingar þurfa svo að bera ábyrgð á.

Verði fjárlögin til þess að ekki verði hægt að kjósa í haust, þá erum við að tala um kosningar í vor. Bjarna mun þá takast að ríghalda í völdin. Það er nefninlega viss ómöguleiki ef kjósa á í haust og þetta veit Bjarni.

Þess vegna þarf að kjósa sem fyrst. Starx í sumar, svo ný ríkisstjórn geti samið fjárlögin sem hún þarf svo að bera ábyrgð á.

Takist það ekki, verður stjórnarandstaðan, og þá sérstaklega Píratar, að nýta sumarið í að semja sín eigin fjárlög sem yrðu tilbúin í september. Þannig þarf ný stjórn ekki að taka ábyrgð á fjárlögum sem hugsanlega innihalda gildrur til þess fallnar að skemma ímynd nýrrar stjórnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube